Sigríður Á. Andersen, Dómsmálaráðherra, heimsótti í dag Vernd fangahjálp að Laugateig 19 ásamt starfsfólki ráðuneytis Dómsmála. Í upphafi heimsóknarinnar var farið yfir hlutverk og sögu Verndar en á þessum tímamótum eru 60 ár frá því að Þóra Einarsdótti viðraði fyrst þá hugmynd að stofnun íslenskrar fangahjálpar. Þóra hafði þá fengið að kynnast sambærilegum samtökum þegar hún hafði stundað nám í Kofoed-skólanum í Kaupmannahöfn en hann var líknarstofnun sem lagði sig fram um að hjálpa útigangsfólki og þeim er minna máttu sín. Þóra hafði líka kynnst dönskum samtökum sem aðstoðu fanga og fjölskyldur þeirra. Þessi danska fangahjálp bar nafnið Det danske forsorgsselskab. Fanghjálpin danska vann í nánum tengslum við yfirvöld og einstaklinga en voru frjáls félagasamtök. Allar götur síðan hefur hugmyndafræði Verndar verið sú að samtökin skyldu aðstoða hvern þann, sem tekið hefði út refsingu eftir dómi. Honum skyldi hjálpað yfir byrjunarörðugleikana svo hann gæti aftur unnið traust samfélagsins. Þá skyldi reynt að útvega honum húsnæði og vinnu og hvetja til sjálfshjálpar. Farið var yfir mikilvægi starfseminnar, forvarnagildi og mikilvægi þess að einstaklingar sem hljóta óskilorðsbundna dóma njóti samfellu í úttekt dóma. Það hljóti alltaf að vera vilji samfélagsins að árangur sé sýnilegur af starfsemi sem þessari og einstaklingurinn komi betri út í samfélagið eftir slíka vistun.
Að þessu tilefni var nýr samningur undirritaður á milli Verndar og Fangelsismálastofnunar en samningurinn hefur verið í vinnslu í nokkurn tíma og mættu starfsfólk Fangelsismálastofnunnar, stjórnarmenn Verndar og starfsfólk. Þess bera að geta að Sigríður Á. Andersen Dómsmálaráðherra lét það verða eitt af sýnum fyrstu embættisverkum að koma á samkomulagi á milli Verndar og Fangelsismálastofnunnar varðandi þann samning sem nú hefur verið undirritaður. Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunnar ræddi um mikilvægi Verndar og benti á að Vernd skipti sköpum í öllu ferli afplánunnar og að samstarf Verndar og Fangelsimalastofnunnar hefði alltaf verið mjög gott. Ráðherran benti á mikilvægi samtaka á borð við Vernd þau væru afar mikilvæg í öllum stoðum samfélagsins og það bæri að hlúa að slíkum samtökum því án þeirra væri ekki hægt ná sama árangri.
Fyrir hönd okkar á Vernd þökkum við ráðherra og öðrum gestum kærlega fyrir heimsóknina og gagnlegt samtal um fangelsismál og mikilvægi afplánunar utan fangelsa. Það er mikilvægt fyrir samtökin að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi okkur með heimsókn sinni á Vernd og aðkomu að nýjum samningi. Samtökin óska Sigríður Á. Andersen velfarnaðar í embætti og hlökkum til nánara samstarfs á komandi árum.
Á mynd: Ragna Bjarnadóttir, Haukur Guðmundsson, Páll Winkel, Sigríður Á. Andersen, Elsa Dóra Grétarsdóttir, Þráinn Farestveit.