Mikilvægi skaðaminnkunnar

Umræða um skaðaminnkun í fangelsum hefur nýverið fengið verðskuldaða athygli, meðal annars með því framtaki Matthildarsamtakanna og Afstöðu að gera Naloxone nefúða aðgengilegan föngum. Mig langar að halda þeirri umræðu á lofti.

Naloxone er lyf sem verkar sem mótefni á ópíóíðaviðtaka og getur snúið við öndunarbælingu sem orsakast af ofskömmtun ópíóíða. Ofskömmtun ópíóíða hefur á undanförnum árum þróast í eitt alvarlegasta lýðheilsuvandamál samtímans. Ísland hefur ekki farið varhluta af þeirri þróun og stendur frammi fyrir vaxandi hættu á lyfjatengdum dauðsföllum, einkum þeim sem tengjast ópíóíðanotkun. Samkvæmt nýjustu tölum frá Embætti Landlæknis voru 56 lyfjatengd andlát skráð árið 2023, þar af mátti rekja 34, eða 61%, til ópíóíðanotkunar. Í norrænni rannsókn frá 2017, sem tók til allra Norðurlandanna, reyndist dánartíðni á Íslandi vera sú hæsta, 6,58 lyfjatengd andlát á hverja 100.000 íbúa, hærri en í öllum hinum löndunum, þar sem tíðnin var á bilinu 2,0–6,1.

Á síðustu áratugum hefur skaðaminnkandi nálgun fest rætur og öðlast viðurkenningu í íslensku samfélagi. Þannig hefur samfélagið náð ákveðinni samstöðu um að nauðsynlegt sé að þjónusta einstaklinga á meðan þeir nota vímuefni til að draga úr áhættu, skaða og bæta lífsgæði. Í ljósi þess má spyrja hvort ekki sé tímabært fyrir fangelsiskerfið að sinna einstaklingum í takt við samfélagið. Skaðaminnkandi úrræði eru aðgengileg víða í samfélaginu en aðgengi að sambærilegri þjónustu innan fangelsa er lítið sem ekkert. Hægt er að færa rök fyrir því að skortur á slíkri þjónustu í fangelsiskerfinu sé í andstöðu við alþjóðleg mannréttindalög, þar sem kveðið er á um að fangar eigi að hafa aðgang að sömu heilbrigðisþjónustu og almenningur.

Í fangelsum dvelja einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn, en rannsóknir og reynsla sýna að samanborið við almenning glímir hópurinn oft við hærra hlutfall vímuefnavanda, smitsjúkdóma, geðrænna áskorana og dauðsfalla vegna ofskammta. Því miður hverfur vímuefnavandi ekki við það eitt og sér að vista einstaklinga í fangelsi. Málið er mun stærra og mun flóknara en það, vandinn hverfur ekki með læstum hurðum. Stigsmunur er á því hvort einstaklingur sæki sér sjálfur aðstoðar í vímuefnameðferð eða vistist í fangelsi gegn sínum vilja. Við getum alveg litið á það sem svo að fangelsi eigi að vera vímuefnalaus en ef við viljum nálgast raunveruleikann af raunsæi, verðum við að horfast í augu við að þar sem eftirspurn er, þar skapast framboð.

Fangelsiskerfið er flókið umhverfi þar sem lög, reglur og refsistefna ráða för, sem hefur gert innleiðingu og jafnvel aðeins samtalið sjálft um skaðaminnkandi nálgun krefjandi. Þótt slík þjónusta stangist ekki á við löggjöf, tengist henni oft hegðun sem er ólögleg, svo sem meðhöndlun og varsla ólöglegra vímuefna. Skaðaminnkandi nálgun byggir á að skapa rými fyrir opið samtal um vímuefnanotkun, samtal sem fer fram án feluleiks, skammar, forræðishyggju eða refsinga. Þetta samtal er ekki aukaatriði heldur hornsteinn að árangri. Ef samfélagið gerir þá kröfu að fangelsi séu uppbyggjandi úrræði, hlýtur spurningin að vakna: Verður kerfið ekki að tryggja að einstaklingar geti tjáð sig um eigin vanda, þar sem þeir eru staddir, án ótta? Við meðhöndlum ekki það sem við neitum að tala um. Í þessu ljósi er afar jákvætt að með greiðu aðgengi að Naloxone hafi fyrstu skref verið stigin í átt að markvissari skaðaminnkun innan fangelsa. Þótt enn sé langt í land er með því litið raunsætt á þá staðreynd að vímuefnanotkun tíðkist í fangelsum og felur einnig í sér hugarfarsbreytingu í átt að því að brjóta upp þann feluleik sem ríkir í fangelsiskerfinu.

Í september 2024 hóf Geðheilsuteymi fangelsa að afhenda Naloxone nefúða við lok afplánunar til einstaklinga sem eru í meðferð vegna ópíóíðavanda. Þetta er viðkvæmt tímabil þar sem áhættan á ofskömmtun er sérstaklega mikil. Viðkomandi hefur þá misst þol sitt fyrir efninu en getur átt það til, með lífshættulegum afleiðingum, að taka sambærilegan skammt og áður. Staðan er sú að einstaklingar eru oft á tíðum fastir í ákveðnum vítahring vímuefnanotkunar, heimilisleysis, afbrota og fangelsisvista. Of lítið er um að viðeigandi úrræði, þjónusta eða húsnæði taki við að afplánun lokinni. Afhending Naloxone við lok afplánunar er því ekki aðeins lífsbjargandi inngrip heldur skref í átt að mannúðlegri og raunhæfri nálgun sem skapar grundvöll fyrir opnu samtali um vímuefnanotkun með umhyggju að leiðarljósi. Þrátt fyrir að verkefnið sé nýlega hafið hafa þegar borist upplýsingar um að úðinn hafi verið notaður fljótlega eftir afplánun — sem undirstrikar ekki aðeins mikilvægi úrræðisins, heldur staðfestir einnig að nálgunin bjargi mannslífum.

Tilgangur þessa pistils er að vekja athygli á þeirri þörf sem ríkir fyrir aukna skaðaminnkandi nálgun, bæði innan fangelsiskerfisins og í samfélaginu almennt. Frjáls félagasamtök á borð við Rauða krossinn, Matthildarsamtökin og Afstöðu hafa verið í fararbroddi skaðaminnkunar á Íslandi. Nú þarf opinbera kerfið, ekki síst heilbrigðis-, velferðar- og fangelsiskerfið að fylgja eftir og axla sína ábyrgð. Þróunin er möguleg, ef vilji er til staðar. Það ætti að vera ábyrgð kerfisins að ná til þeirra hópa sem samfélagið hefur jaðarsett með alvarlegum afleiðingum og stuðla að breytingum. Það er því kominn tími til að opinberar stofnanir spyrji ekki lengur hvort innleiða eigi skaðaminnkandi úrræði, heldur hvernig. Það ætti til dæmis fátt að standa í vegi fyrir frekari útbreiðslu Naloxone. Breyting Heilbrigðisráðuneytis á reglugerð um aðgengi að Naloxone nefúða frá 2022 gerir viðeigandi stofnunum og úrræðum kleift að nálgast lyfið og dreifa því til almennings að kostnaðarlausu gegn fræðslu. Skaðaminnkunarúrræðin ná til ákveðinna hópa í samfélaginu en ekki allra og Naloxone dreifing þarf að vera sett í forgang og ná víðar, meðal annars á heilsugæslur. Skaðaminnkandi inngrip eru lífsbjargandi og þau þurfa að vera aðgengileg. Oft sjáum við kerfið aðeins bregðast við í kjölfar fyrirsjáanlegra neyðartilvika. Þegar kemur að umræddum vanda vitum við að ungmennin okkar eru að deyja en því miður virðist sú staðreynd samt ekki nægja til þess að kerfið bregðist eins skjótt við og eðlilegt væri. Eftir sitja einstaklingar sem eru styttra komnir í áhættusamri vímuefnanotkun, aðstandendur og ástvinir sem eiga að geta leitað til kerfisins og fengið viðeigandi fræðslu og stuðning.

Ég minni einnig á vefnámskeiðið Rauða krossins: Naloxone og skyndihjálp sem er aðgengilegt öllum sem vilja kynna sér notkun úðans á öruggan og árangursríkan hátt.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur í Geðheilsuteymi fangelsa og meistaranemi í geðhjúkrun

Margrét Dís Yeoman skrifar

 

 

Þráinn Farestveit

Dómsmálaráðherra heimsækir Vernd

Dómsmálaráðherra heimsækir Vernd – Réttarvitund, endurhæfing og rafrænt eftirlit.

Þann 17. júní heimsótti Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra Vernd fangahjálp ásamt fulltrúum dómsmálaráðuneytisins. Tilefni heimsóknarinnar var að kynna sér starfsemi samtakanna og ræða framtíðarsýn í málefnum fanga og dómþola.

Vernd kynnti þá stefnu sína sem hefur mótast í rúm 63 ára starfsemi, þar sem megináhersla er lögð á mannúð, samfélagslega aðlögun og raunhæfar leiðir til að draga úr ítrekun brota. Samtökin hafa verið leiðandi í að bjóða úrræði utan hefðbundinna fangelsa og fagna auknum skilningi stjórnvalda á mikilvægi endurhæfingar.

Á fundinum lagði dómsmálaráðherra áherslu á að fangelsismál væru bæði viðkvæmur og flókinn málaflokkur, sem kallaði á skýra stefnu og samræmdar aðgerðir. Sérstaklega var rætt um notkun rafræns eftirlits sem mikilvægs úrræðis til að stytta vist í lokuðu rými og styðja við aðlögun einstaklinga að samfélaginu. Vernd styður slíka þróun og telur nauðsynlegt að styrkja notkun rafræns eftirlits sem hluta af mannúðlegri og árangursríkri fullnustu.

Einnig var fjallað um meðferð og endurhæfingu innan refsivistar og mikilvægi þess að stefnan taki mið af bættum lífsgæðum fanga, stuðningi við endurkomu þeirra til samfélagsins og virðingu fyrir réttindum þeirra. Vernd benti jafnframt á að bygging nýrra fangelsa ein og sér dugi ekki til árangurs – nauðsynlegt sé að skýrar línur liggi fyrir og að stefnan sé aðgengileg öllum sem koma að fangelsismálum.

Vernd fagnar því samtali sem átt hefur sér stað við ráðherra og ráðuneytið, og lýsir von um áframhaldandi samráð við mótun stefnu sem byggir á mannúð, skýrleika og virkri samfélagsþátttöku fanga.

 

 

Þráinn Farestveit

 

Andlát - Pétur Sigurðsson

Pétur Sigurðsson

Við kveðjum nú með djúpri virðingu og þakklæti mann sem skilur eftir sig djúp spor í hjörtum þeirra sem hann þekktu. Pétur starfaði lengst af við sjómennsku, bæði sem stýrimaður og skipstjóri, og var þar traustur leiðtogi sem naut virðingar. Hann hafði ávallt skýra sýn á gildi agans – en aldrei án hlýju. Það var örugglega sú sýn sem var áhrifavaldur þess að hann hóf störf hjá Vernd árið 2002 þar sem hann starfaði sem matráður. Þar vann hann óeigingjarnt starf sem ráðgjafi, stuðningsaðili og hlustandi fyrir einstaklinga sem voru að reyna að byggja upp líf sitt að nýju eftir erfiða dvöl í fangelsum. Eldhúsið á Vernd varð hans óformlega skrifstofa – staður trúnaðar, hreinskilni, stuðnings og trausts. Þar komu margir til hans í leit að orðum, hlustun eða huggun. „Ég hef alltaf haft góðar tilfinningar til fólks sem hefur ratað á rangan veg,“ sagði hann eitt sinn. Hann sá manneskjuna, ekki bara fortíð hennar. Þessi mannúð og heilindi gerðu það að verkum að ótal einstaklingar treystu honum – og héldu margir sambandi við hann allar götur síðan. Slíkt traust fæst ekki nema það sé áunnið. Hann trúði á umbun, hann trúði á möguleika fólks – og lifði þá trú í verki. Á Vernd var Pétur enginn venjulegur starfsmaður – hann var hjarta hússins. Hann eldaði mat fyrir „strákana-stelpurnar sínar“, tók á móti þeim í eldhúsinu, með kærleik og stundum alvöru þar sem rætt var um um lífið, tilveruna, sorgina og svartholið. Þar var hlustað, gripið inn í og oft gripið til aðgerða. Hann fór stundum sjálfur með inn á opinberar stofnanir, leitaði leiða, veitti skjól og sýndi að það er alltaf hægt að rétta fólk við – ef einhver stendur með því. Ef þú dettur skiptir máli að standa upp ef þú getur ekki staðið upp réttu þá fram höndina, það var hans aðalsmerki. Það fór þó enginn í gegnum Pétur, hann var traustur en einnig mjög ákveðinn, það var mikil þörf á slíkum manni í þá stöðu sem Pétur leysti af hendi. Á haustin tók hann skrefið enn lengra, jólin að nálgast. Þá setti hann upp kennsluskrá, fékk til liðs við sig bakara, kökuskreytingameistara, matreiðslufólk og aðra handverksmenn – allt með það að markmiði að veita skjólstæðingum Verndar verkfæri, sjálfstraust og virðingu. Þar lærðu menn að baka, elda og skreyta – en fyrst og fremst lærðu þeir að þeir gátu skapað eitthvað sjálfir. Þeir lærðu að þeir skiptu máli. Líf Péturs einkenndist ekki alltaf af hægum skrefum – heldur stökkum. Hann hafði þá einstöku blöndu af atorkusemi, húmor og hlýju sem fékk hluti til að gerast – hratt og með tilþrifum og dró aðra með sér í kraftinn. Hann var svo ótrúlega stoltur af fólkinu sínu, sonum, tengdadætrum og þá sérstaklega af barnabörnum sínum. Fólkinu að vestan, arfleið sinni og tengslum fjölskyldunnar við starf KFUM og KFUK. Sögurnar af veiðiferðunum á sumrin sem sagðar voru þá eru í dag orðnar partur af fjölskylduarfleið Péturs– ferðalög þar sem börn og barnabörn og allir hinir voru drifin vestur, út í náttúruna í ævintýri, væntingar um góða veiði og enn betra nesti. Pétur lagði dag og nótt í undirbúning jafnvel dögum saman: smurði samlokur af alúð og natni, pakkaði með tryggri skipstjórn og hugsaði fyrir öllum. Það var aldrei nein hætta á að barnabörnin yrðu svöng í þessum ferðum. Sagan segir að í einni ferðinni var nestið orðið það umfangsmikið að það þurfti að velja á milli: skilja eitt barn eftir eða veiðibúnaðinn en nestið færi örugglega með. Það varð enginn svangur þegar Pétur sá um nestið eða matseldina. Pétur reyndi ekki að bjarga heiminum með stórum orðum – hann bætti líf fólks með því að gefa af sér, vera til staðar og trúa því að allir ættu annað tækifæri skilið.

Þráinn Farestveit

Konum í af­plánun fjölgar: Með flókin á­föll á bakinu

Konum í af­plánun fjölgar: Með flókin á­föll á bakinu

Tinna Eyberg Örlygsdóttir og Sigríður Ella Jónsdóttir skrifa 22. maí 2025 09:40

Á síðustu árum hefur orðið marktæk aukning á fjölda kvenna sem afplána fangelsisdóma á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun má fyrst og fremst rekja aukninguna til þess að fleiri konur eru handteknar fyrir að smygla vímuefnum til landsins og eru í kjölfarið úrskurðaðar í gæsluvarðhald.

Þessi þróun kallar á aukna meðvitund og skilning um sérstakar aðstæður og þarfir kvenna í afplánun. Konur þessar búa oft við margþættan félags- og heilsufarslegan vanda, eins og geðrænar áskoranir og áfengis- og/eða vímuefnanotkun og eiga að baki langa og flókna áfallasögu.

Það sem einkennir sömuleiðis þennan hóp er að margar kvennanna eru mæður sem hafa tímabundið, eða jafnvel varanlega, misst forræði yfir börnum sínum. Slíkt hefur djúpstæð áhrif á líðan þeirra og fylgir því oft mikil skömm, sorg og einangrun.

Konur dvelja almennt lengur í lokuðum úrræðum heldur en karlmenn því þeim býðst einungis að afplána dóma sína á Hólmsheiði eða á Sogni. Hólmsheiði er lokað úrræði og var hannað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi og þykir ekki viðeigandi sem langtímaúrræði. Hins vegar er Sogn opið úrræði en þar geta aðeins þrjár konur dvalið samtímis en átján karlmenn. Bæði Hólmsheiði og Sogn eru úrræði fyrir öll kyn. Það hefur margoft verið gagnrýnt þar sem þarfir eru ólíkar. Mikilvægt er að taka mið af kynbundnum aðstæðum og tryggja öryggi og jafnræði einstaklinga í afplánun.

Mikilvægi stuðnings í og eftir afplánun

Biðlistar til að afplána dóm hafa verið að lengjast en samt eru sértæk úrræði og stuðningur fyrir þennan hóp mjög takmörkuð. Aðgengi að félags- og heilbrigðisþjónustu er brotakennt og skortur er á fjölbreyttari úrræðum. Þrátt fyrir þessa flóknu stöðu er stuðningskerfi innan fangelsa takmarkað og þegar opinber kerfi glíma við fjárskort verða aðrir aðilar oft lykilþáttur í því að brúa bilið.

Rauði krossinn á Íslandi hefur um skeið lagt sitt af mörkum í þessum efnum og stutt við einstaklinga sem eru í eða að ljúka afplánun. Verkefnið er að norskri fyrirmynd og byggir á þeirri trú að öll eigi rétt á tækifæri til betra lífs, með mannúð og fordómaleysi að leiðarljósi. Líkt og hjá norska Rauða krossinum hefur verkefnið sýnt fram á jákvæð áhrif, t.d. betri líðan og aukin tengsl og sjálfstæði. Með stuðning sem þessum er vonin ávallt lægri endurkomutíðni en með því er hægt að koma í veg fyrir fleiri brotaþola.

Frá því í lok árs 2024 hafa sjálfboðaliðar í verkefninu Aðstoð eftir afplánun veitt konum sem eru í fangelsinu á Hólmsheiði stuðning. Er verkefnið unnið í samstarfi við Fangelsismálastofnun. Sjálfboðaliðarnir fara í fangelsið alla þriðjudaga á svokölluð konukvöld, þar sem áhersla er lögð á sjálfsrækt, samveru og félagsleg tengsl. Fyrir konur í afplánun getur þessi aðstoð skipt sköpum. Hún getur verið fyrsta trausta tengingin sem þær upplifa í langan tíma. Lögð er áhersla á að stuðningurinn byggi ekki á valdaójafnvægi eða refsingum, heldur virðingu og samhygð. Að upplifa og meðtaka slíkt getur gert endurkomu í samfélagið raunhæfa en ekki óyfirstíganlega.

Sjálfboðaliðar sem líflína

Sjálfboðaliðar Rauða krossins gegna mikilvægu hlutverki við að brúa bilið milli opinberra kerfa og raunverulegra þarfa einstaklinga. Þeir veita samfellu, hlustun og nærveru þar sem kerfin ná oft ekki til, sérstaklega þegar skortur er á fjármagni og úrræðum. Fyrir konur í viðkvæmri stöðu – og þá ekki síst þær sem glíma við fjölþættan vanda, getur þessi stuðningur verið líflína. Það sem skiptir mestu máli er að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir, með fjölbreyttar þarfir og bakgrunn. Það er ekki aukaatriði – það er forsenda árangurs.

Stuðningur eftir afplánun er sérstaklega mikilvægur til að mæta þeim fjölmörgu áskorunum sem einstaklingar standa frammi fyrir við endurkomu út í samfélagið. En þar má helst nefna þátttöku í atvinnulífi, tengsl við fjölskyldu, húsnæðismál og sjálfsvinnu.

Þegar opinber kerfi ná ekki utan um þarfir einstaklinga, verða mannréttindasjónarmið og samfélagsleg samstaða enn mikilvægari. Verkefni Rauða krossins og annarra félagasamtaka er því ekki viðbót, heldur nauðsyn. Félög eins og Bjargráð sem styður fjölskyldur einstaklinga á öllum stigum afplánunar; fyrir, á meðan og eftir. Bati sem rekur tvö húsnæði - batahús þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða í lok afplánunar og Afstaða félag fanga eru meðal þeirra sem styðja við einstaklinga í afplánun og byggja þannig undir farsæla endurkomu út í samfélagið. Afstaða fagnar tuttugu ára afmæli sínu í dag, 22.maí. Félagið hefur frá stofnun gegnt lykilhlutverki í að gæta hagsmuna dómþola og aðstandenda þeirra, meðal annars með því að stuðla að því að rödd fanga fái aukið vægi í stefnumótun og á opinberum vettvangi.

Oft eru þessi félög og úrræði ekki bara stoð – heldur vonarljós fyrir raunverulegar breytingar.

Höfundar eru Tinna Eyberg Örlygsdóttir, verkefnastjóri í Aðstoð eftir afplánun og Sigríður Ella Jónsdóttir, teymisstjóri skaðaminnkunar og félagslegra verkefna hjá Rauða krossinum.

 

 

Þráinn Farestveit

„Við erum alltaf að tala þennan hóp niður“

„Það er al­veg ótrú­lega niðrandi og illa hugs­andi að nota slíkt orð gagn­vart fólki sem er fár­veikt,“ seg­ir Þrá­inn Farest­veit, af­brota­fræðing­ur og fram­kvæmda­stjóri Vernd­ar, í sam­tali við mbl.is um áhrif orðanotk­un­ar í fang­elsis­kerf­inu. Hann ger­ir meðal ann­ars at­huga­semd við notk­un á orðinu betr­un.

„Þetta seg­ir sig sjálft. Við erum alltaf að tala þenn­an hóp niður. Þetta er okk­ar veik­asta fólk. Fólkið sem fer í gegn­um þetta kerfi, fólkið sem fer í gegn­um Hlaðgerðarkot, SÁÁ og Krýsu­vík upp til hópa.“

Frétt af mbl.is

„Allt í einu ertu versta mann­eskja í heimi“

 

Upp­lifa að kerfið sé að refsa þeim

„Menn eru alltaf að tala um að breyta, gera bet­ur og þeir hafi aðrar hug­mynd­ir um hvernig kerfið virk­ar – við erum búin að tala um þetta fram og til baka í ára­tugi og það ligg­ur fyr­ir að það er vilji fyr­ir því að breyta inn­taki refs­inga, þannig að maður veiti þeim sem í fang­els­um eru meðferð og end­ur­hæf­ingu,“ seg­ir Þrá­inn.

Þegar spít­ali er sett­ur upp eru til­tekn­ir sér­fræðing­ar fengn­ir í vinnu fyr­ir allt sem þarf til að bæta þá sem inn á spít­al­ann koma, „þannig er það ekki í fang­els­un­um“. Þar starfa nokkr­ir fé­lags­ráðgjaf­ar sem þó vinna fyr­ir utan fang­els­in og koma þangað inn á milli og svo fanga­verðir.

„Þeir sem eru í fang­els­un­um upp­lifa alltaf að kerfið sé að refsa þeim, al­veg sama hver starfsmaður­inn er. Þannig að auðvitað hafa þeir ekki fullt traust til sál­fræðinga eða ráðgjafa á veg­um kerf­is­ins – ef þeir t.a.m. segja eitt­hvað sem gæti kannski virkað á móti þeim í fulln­ust­unni,“ seg­ir Þrá­inn.

Þess vegna hafi starfs­fólk Vernd­ar lagt ríka áherslu á að hætt sé að nota ákveðið orðalag um fang­elsis­kerfið, og sér­stak­lega ein­stak­ling­ana inn­an fang­els­anna.

Frétt af mbl.is

„Í grunn­inn erum við bara litl­ir hrædd­ir strák­ar í fang­elsi“

 

Betr­un er gild­is­hlaðið orð

Að sögn Þrá­ins er orðið betr­un gild­is­hlaðið orð. Það seg­ir okk­ur að ein­stak­ling­ur­inn sem verið er að þjón­usta sé á ein­hvern hátt gallaður.

„Við not­um ekki svona niður­lægj­andi orð vegna þess að það hef­ur áhrif á fólkið sem við erum að tala um,“ seg­ir hann. Þegar talað sé um að aðstoða eða veita meðferð og end­ur­hæf­ingu hafi orðin merk­ingu en orðið betr­un þýði ekki neitt, „það er ekk­ert inni­hald í því“.

„Ef skoðað er orðið meðferð, þá erum við með sér­fræðinga sem geta veitt til­tekna meðferð í til­tekn­um mál­um. Svo ertu með end­ur­hæf­ingu og það eru líka sér­fræðing­ar sem veita fólki end­ur­hæf­ingu. Ég hef ekki hitt neinn betr­un­ar­fræðing, ekki hingað til alla­vega.“

Seg­ir hann eðli­legt að fólk átti sig ekki á því að það grípi til þess­ar­ar orðanotk­un­ar af því að það hef­ur ekk­ert annað og flest­ir tali í þessa átt.

Þá seg­ir hann orðið betr­un standa í lög­um um fulln­ustu en að í ádeilu­skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar segi að: „Í lög­um um fulln­ustu refs­inga er talað um betr­un fanga. Að mati Rík­is­end­ur­skoðunar er það hug­tak gild­is­hlaðið og ekki nægj­an­lega lýs­andi fyr­ir þá vinnu sem á sér stað inn­an fang­elsis­kerf­is­ins. Embættið tel­ur bet­ur fara á því að ræða um end­ur­hæf­ingu fanga þegar fjallað er um heil­brigðisþjón­ustu, nám og störf fanga“.

Bæt­ir Þrá­inn við að orðið „taki niður þá sem um er talað“ og það eigi sér ekki grunn í því sem verið er að tala um.

Frétt af mbl.is

„Mér fannst ég bara vera sett­ur í geymslu“

 

Ekk­ert sem heiti fyrr­ver­andi fangi

Að sögn Þrá­ins er ekk­ert til sem heit­ir fyrr­ver­andi fangi.

„Ef betr­un er gild­is­hlaðin, hvað er þá að vera fyrr­ver­andi fangi, eða vistheim­il­is­barn, eða fyrr­ver­andi krabba­meins­sjúk­ling­ur?“ seg­ir hann og held­ur áfram:

„Þetta seg­ir sig sjálft. Við erum alltaf að tala þenn­an hóp niður. Þetta er okk­ar veik­asta fólk. Fólkið sem fer í gegn­um þetta kerfi, fólkið sem fer í gegn­um Hlaðgerðarkot, SÁÁ og Krýsu­vík upp til hópa.

Við erum með þetta fólk meira og minna í hönd­un­um en svo erum við alltaf að spyrja okk­ur að því af hverju það sem við erum að gera virk­ar ekki, við sem erum alltaf að tala niður til þeirra.“

Þá seg­ir hann orðið fík­ill ekki eiga að vera notað í dag, „frek­ar mynd­irðu segja að viðkom­andi væri með fíkni­vanda eða fíkni­sjúk­dóm, alls ekki að hann sé fík­ill“.

„Það er al­veg ótrú­lega niðrandi og illa hugs­andi að nota slíkt orð gagn­vart fólki sem er fár­veikt,“ seg­ir Þrá­inn.

 

 

Þráinn Farestveit