Upplifun og reynsla dómþola sem afplánað hafa undir rafrænu eftirliti

 

Íris Ósk Ólafsdóttir, félagsráðgjafi MA, geðsvið Landspítala-háskólasjúkrahúss. Steinunn Hrafnsdóttir, félagsráðgjafi MA, Ph.d., prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands sendu inn í tímarit félagsráðgjafa 1. TBL. 18 árgangur 2024 ritrýnda grein sem fjallar um rafrænt eftirlit. Rafrænt eftirlit þýðir að dómþoli afplánar síðasta hluta dómsins á heimili sínu eða öðrum dvalarstað sem Fangelsismálastofnun samþykkir og þarf að vera með ökklaband á sér þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum hans. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun og reynslu einstaklinga sem afplánað hafa undir rafrænu eftirliti og hvernig úrræðið nýttist í aðlögun þeirra að samfélaginu. Tilgangurinn var að skoða hvaða stuðningur þeim stóð til boða og varpa fram hugmyndum um úrbætur sem viðmælendur telja þörf á. Við rannsóknina var beitt eigindlegri rannsóknaraðferð þar sem tekin voru viðtöl við níu einstaklinga sem afplánað hafa undir rafrænu eftirliti. Niðurstöður benda til þess að rafrænt eftirlit sé mikilvægt úrræði í aðlögun dómþola að samfélaginu. Upplifun viðmælenda af úrræðinu var jákvæð, þeir upplifðu umbun og ákveðið frelsi þegar rafrænt eftirlit hófst og aðlögunin að samfélaginu varð auðveldari fyrir vikið. Viðmælendur telja þó þörf á úrbótum, svo sem auknum stuðningi við dómþola af hálfu félagsráðgjafa og sálfræðinga Fangelsismálastofnunar og samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga og aðra aðila sem koma að þjónustu og stuðningi við dómþola

Upplifun dómþola af afplánun undir rafrænu eftirliti Meirihluti viðmælendanna var á þeirri skoðun að stuðningur væri mikilvægur þáttur í afplánun undir raf rænu eftirliti. Einungis tveir af sjö viðmælendum rann sóknarinnar voru háðir því skilyrði að mæta í viðtöl hjá sálfræðingi og félagsráðgjafa Fangelsismálastofnunar en þeir voru báðir að afplána dóm fyrir alvarlegt brot, kyn ferðisbrot gegn barni og manndráp. Báðir nýttu þeir vel stuðninginn sem þeir fengu og sögðu að hann hefði verið mikilvægur í aðlögun þeirra að samfélaginu. Viðmælendunum sem ekki voru bundnir því skilyrði að mæta í viðtöl hjá sálfræðingi eða félagsráðgjafa Fangelsismálastofnunar bar saman um að hafa ekki haft vitneskju um að þeim stæði slíkur stuðningur til boða. Aðspurðir hvort þeir teldu sig hafa hlotið nægilegan stuðning þegar þeir afplánuðu undir rafrænu eftirliti töldu þeir flestir að svo væri ekki. Nokkrir töldu sig þó ekki hafa þurft á stuðningi að halda en vert er að taka fram að þeir voru með gott stuðningsnet fjölskyldu. Aðrir töldu að þeir hefðu nýtt sér stuðninginn og töldu mikilvægt að dómþolar væru upplýstir um þann stuðning sem þeim stæði til boða.

Af niðurstöðum rannsóknarinnar má draga þá ályktun að rafrænt eftirlit er mikilvægt úrræði í aðlögun dómþola að samfélaginu eftir fangelsisvist. Upplifun viðmælenda af úrræðinu var jákvæð, þeir upplifðu umbun og ákveðið frelsi þegar rafrænt eftirlit hófst og aðlögunin að samfélaginu varð auðveldari fyrir vikið. Viðmælendur telja þó þörf á úrbótum svo úrræðið geti nýst dómþolum enn betur. Helstu tillögur að úrbótum eru aukinn stuðningur við dómþola af hálfu Fangelsismálastofnunar og samstarf við félagsþjónustu sveitarfélaga og aðra aðila sem koma að þjónustu og stuðningi við dómþola með tilliti til möguleika á launaðri atvinnu, menntun og endurhæfingu. Viðmælendurnir tveir sem afplánuðu undir rafrænu eftirliti eftir að Vernd tók við umsjón úrræðisins voru ánægðir með það fyrirkomulag og voru sammála um að það væri mjög jákvæð þróun. Áhugavert væri að gera rannsókn á upplifun dómþola sem afplána með nýja fyrirkomulaginu þegar meiri reynsla er komin á það. Vonast er til að þessi rannsókn auki skilning almennings, sveitarfélaga og annarra stofnana á mikilvægi þess að dómþolum verði veittur sá stuðningur sem þeir þurfa á að halda. Samfélagslegur ávinningur er fólginn í því að dómþolar njóti endurhæfingar og aðlögunar út í samfélagið eftir fangelsisvist.

Niðurstöður Við greiningu gagnanna kom í ljós að viðmælendurnir áttu margt sameiginlegt og var því hægt að draga fram nokkur þemu sem skiptast í þrjú yfirþemu og átta undir þemu. Fyrsta þemað fjallar um neyslu og afplánunar sögu ásamt því að varpa ljósi á upplifun viðmælenda af þrepaskiptri afplánun. Annað þemað kallast afplánun undir rafrænu eftirliti og fjallar um skilyrði rafræns eftir lits og rof á skilyrðum. Þriðja þemað er upplifun við mælenda af afplánun undir rafrænu eftirliti og fjallar um stuðning við dómþola, kosti og galla úrræðisins og tillögur að úrbótum. Í þessari grein er fjallað um þrjú þeirra: Afplánun undir rafrænu eftirliti, upplifun dóm þola af afplánun undir rafrænu eftirliti og úrbætur.

Lesa má helstu niðurstöður hér

Timarit_Felagsradgjafa_2024

 

 

 

 

Nýtt fangelsi og stórtækar umbætur í fangelsismálum

Dómsmálaráðherra og forstjóri Fangelsismálastofnunar héldu nýverið blaðamannafund á Litla Hrauni þar sem kynntar voru stórtækar umbætur í fangelsismálum, með uppbyggingu nýs fangelsis, fjölgun rýma á Sogni og endurskoðun fullnustulaga.

Eftirfarandi kom fram á blaðamannafundinum í máli Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Páls Winkel forstjóra fangelsismálastofnunar.

Nýtt fangelsi verður byggt á Litla-Hrauni

Ítarleg skoðun og greining á aðstöðu á Litla-Hrauni er að baki og er niðurstaðan sú að nauðsynlegt er að ráðast í byggingu nýs fangelsis, sem koma á í staðinn fyrir þá aðstöðu sem nú er á Litla-Hrauni. Hafinn verður undirbúningur að þeirri framkvæmd strax.  Við uppbyggingu nýs fangelsis verður byggt á nútímaþekkingu á sviði betrunar og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga. Mikil áhersla verður lögð á bætt öryggi, ekki síst fanga og starfsfólks fangelsa en jafnframt á bættan aðbúnað heimsóknargesta, þar sem gætt verður sérstaklega að þörfum barna.

Opnum rýmum verður fjölgað á Sogni

Fjölgað verður opnum rýmum í fangelsinu á Sogni, þar sem 14 ný rými verða tekin í notkun á næstu mánuðum en fyrir eru 21 rými. Nemur kostnaður við þá uppbyggingu um 350 m.kr.

Með þessu er meðal annars verið að bregðast við ábendingum frá Umboðsmanni Alþingis en nýlegri skýrslu kom fram að staða kvenna í íslenskum fangelsum væri lakari en staða karla. Með breytingum á Sogni er verið að bæta stöðu kvenna í fangelsum og auka möguleika þeirra á að taka út vistun sína í viðeigandi aðstæðum.

Endurskoðun fullnustulaga og stefnumótun með áherslu á betrun og nútímalega nálgun í refsistefnu

Samhliða umbótum á innviðum fangelsiskerfisins verður farið í endurskoðun  fullnustulaga með áherslu á betrun og nútímalega nálgun. Þá er umrædd endurskoðun tímabær í ljósi reynslu síðustu ára og aðfinnslna eftirlitsstofnana þingsins og alþjóðlegra eftirlitsstofnana.

Í máli Páls kom auk þess fram að þessar umbætur væru þær stærstu í sögu íslenskrar fullnustu. Fangelsið á Litla Hraun hefði upphaflega átt að vera sjúkrahús og uppbygging þar hefði einkennst af bútasaumi sem svaraði ekki kalli um nútímalega fullnustu og betrun fanga.

 

Heimsóknir ráðherra í fangelsin

Í aðdraganda þessa blaðamannnafundar heimsótti Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra fangelsin á Hólmsheiði, Sogni og Litla Hrauni. Ráðherra og fylgdarlið hennar fékk kynningu á umfangi og eðli starfseminnar á hverjum stað og farið var í kynnisferð um svæðið. 

Pabbi hans er í fangelsi og við bara tölum um það

 

„Við tölum mjög opið um þetta enda ætla ég ekki að láta barnið mitt upplifa þetta sem skömm á nokkurn hátt. Pabbi er bara í fangelsi og svona er það og það er bara allt í lagi, ekkert leyndarmál eða feluleikur,“ segir María Dís Knudsen.

María er móðir tíu ára drengs en barnsfaðir hennar hlaut á síðasta ári afar þungan fangelsisdóm fyrir stórfellt fíkniefnabrot. María tók meðvitaða ákvörðun strax í byrjun um að tala opinskátt og hreinskilið um fangelsisvistina við son sinn.

Skoðuðu saman myndir af Litla-Hrauni

„Það er ekkert sem grípur þig í þessum aðstæðum. Það eru milljón spurningar sem hvíla á manni sem maður þarf að fá svör við, en það er enginn sem segir þér hvað þú átt að gera, hvernig þú átt að tækla þetta gagnvart barninu. Það eru engar leiðbeiningar til um hvernig maður fer í gegnum þetta ferli,“ segir María í samtali við Vísi.

Eftir að dómur féll á seinasta ári, og ljóst var barnsfaðir hennar myndi vera í fangelsi næstu árin lagðist María í heilmikla rannsóknarvinnu og aflaði gagna héðan og þaðan, til að undirbúa son sinn fyrir það sem í vændum var.

„Ég þurfti að lesa mér heilmikið til. En ég þurfti virkilega að teygja mig eftir hjálpinni og ég endaði á því að samband við barnavernd í Kópavogi vegna þess að ég þurfti virkilega á aðstoð að halda, ég varð að fá hjálp fyrir barnið mitt.“

Maríu var í kjölfarið vísað á Bjargráð, úrræði á vegum Fangelsismálastofnunar þar sem fjölskyldufræðingar aðstoða fjölskyldur þeirra sem bíða eftir að afplána refsingu, eru í afplánun eða hafa lokið afplánun. Hún fékk einnig góða aðstoð hjá sálfræðingi á vegum Sól sálfræði - og læknisþjónustu sem ráðlagði henni að fara vel yfir aðstæðurnar í fangelsinu með syninum.

Frá Litla-Hrauni.VÍSIR/ANTON

„Við fórum vel yfir þetta allt og skoðuðum til dæmis saman myndir af Litla- Hrauni. Við ræddum lengi saman og ég reyndi að útskýra fyrir honum hvað hann myndi sjá þegar hann kæmi á staðinn, til dæmis að það væri stórt hlið þarna fyrir utan og fangaverðir sem myndu taka á móti honum.“

Gleymdir þolendur

Börn sem eiga foreldra í fangelsi hafa verið kölluð hin leyndu fórnarlömb fangelsunar, líkt og kemur fram í skýrslu umboðsmanns barna sem kom út á seinasta ári. Þar segir meðal annars:

 Um er að ræða afar jaðarsettan og falinn hóp. Þegar kringumstæður þessa barna eru skoðaðar út frá sjónarhorni barnaréttinda blasir ákveðið óréttlæti við manni, þ.e. að foreldri er refsað þegar það er svipt frelsi sínu og þar af leiðandi er barni þess refsað þar sem barnið er svipt foreldri sínu. 

María segist hafa tekið þá ákvörðun að fangelsisvist barnsföður hennar ætti ekki að vera neitt launungamál, heldur yrði það partur af lífinu sem talað væri um á opinskáan og eðlilegan hátt.

„Vinir hans hafa til dæmis spurt mig, og hann, hvort pabbi hans sé í fangelsi og hvort hann sé í röndóttum eða appelsínugulum fötum í fangelsinu. Og við höfum þurft að svara því. En það er bara alls ekki gott að vera í feluleik með þetta. Þá er miklu líklegra að börn fari að skammast sín."

Svona er bara lífið hans í dag, pabbi hans er í fangelsi og við bara tölum um það. Hann fékk fullt leyfi til að segja vinum sínum frá þessu- ef hann vildi. Það er hans val. Honum finnst gott að það sé talað um þetta. Þetta er bara partur af hans lífi í dag.

María segir að heilt yfir hafi þetta allt saman gengið mjög vel, en það sé þó margt sem sonur hennar eigi erfitt með að skilja. Til dæmis hvers vegna pabbi hans megi ekki koma í afmælið hans eða sjá hann keppa í fótbolta.

Hún bendir á að aðstandendur fanga eru að vissu leyti gleymdir þolendur.AÐSEND

„Það getur verið mjög erfitt að svara svona spurningum og stundum veit ég ekki alveg hvernig ég á að svara en reyni bara að gera mitt besta.“

Mikilvægt að sýna nærgætni

María ræddi einnig við kennara og starfsfólk í skóla sonar síns á sínum tíma og upplýsti þau um aðstæðurnar.

„Ég vildi nefnilega alls ekki að hann myndi þurfa að heyra þetta frá krökkunum í skólanum. Ég vissi að hann þyrfti að vera viðbúinn ef að einhverjir myndu fara að spyrja hann um þetta .Ég reyndi því að undirbúa hann vel og segja honum hvernig hann ætti að bregðast við.“

Hún bendir einnig á að það sé nauðsynlegt að foreldrar passi sig á því hvað þeir ræði um fyrir framan börnin sín, enda eigi börn auðvelt með að fá hugmyndir út frá umræðum fullorðinna á heimilinu.

„Strákurinn minn er til dæmis búinn að fá að heyra það frá bekkjarfélögum sínum að hann eigi eftir að enda í fangelsi af því að pabbi hans er í fangelsi. Það er erfitt að ímynda sér að barn geti fengið þessa hugmynd nema út frá einhverju sem það hefur heyrt heima hjá sér.“

Þegar náinn fjölskyldumeðlimur fer í fangelsi verður eðlilega mikil röskun á heimilislífinu, líkt og tilfelli sonar Maríu.

„Hann á tvo bræður, einn hjá pabba sínum og einn sem býr annars staðar, og áður en pabbi hans fór í fangelsi þá hittust þeir þrír bræður alltaf þegar það voru pabbahelgar, og hann hitti stjúpsystkini sín líka. Það var eitt af því sem var hvað erfiðast fyrir hann í þessu öllu, að fá ekki lengur þessar helgar og geta ekki hitt systkini sín eins oft."

María bendir á að þegar kemur að aðstandendum fanga þá séu það ekki einungis börnin sem upplifa miklar tilfinningasveiflur; aðrir fjölskyldumeðlimir þurfa líka að takast á við breyttan veruleika.

„Þegar þetta gerðist allt saman þá hugsaði ég auðvitað fyrst og fremst um barnið mitt og hvernig það væri hægt að gera þetta sem auðveldast fyrir hann. Allur fókusinn fór á það. Ég var ekki beinlínis að hlúa að sjálfri mér, ég var að hlúa að öllum öðrum. En þetta var líka svakalegt áfall fyrir mig, þó að við séum ekki lengur saman þá er þetta samt pabbi stráksins míns. En ég upplifði mig oft mjög eina. Ég þurfti svolítið að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég ætti rétt á því að líða svona, mér mátti líða illa.“

Hún bendir á að aðstandendur fanga eru að vissu leyti gleymdir þolendur. Þess vegna hafi það verið erfið ákvörðun að ræða opinskátt um fangelsisvistina. 

„Því miður er það oft þannig að aðstandendur eru dæmdir af samfélaginu, þrátt fyrir að þeir hafi ekkert gert neitt.“

 

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar 

 

 

 

Staða kvenna í fangelsum

 

 

Færri vistunarúrræði fyrir kvenkyns fanga er ein helsta ástæða þess að staða kvenna í fangelsum á Íslandi er almennt lakari en staða karla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá umboðsmanni Alþingis þar sem aðstæður kvenna í fangelsum voru bornar saman við aðstæður karla í sömu sporum.

Skýrslan sem ber titilinn Konur í fangelsi: Athugun á aðbúnaði og aðstæðum kvenna í afplánun er fyrsta þemaskýrsla umboðsmanns Alþingis á grundvelli svokallaðs OPCAT-eftirlits með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja.

Tekið er fram í skýrslunni að í eldri skýrslum Fangelsismálastofnunnar hafi verið settar fram tillögur um hvernig bæta megi aðstöðu kvenna til vistunar í fangelsi.

Staðan sýni að heildarsýn í málafokknum skorti

Tillögurnar sneru meðal annars að því að fjölga vistunarmöguleikum til að koma þannig betur til móts við þarfir kvenkyns fanga, auk þess sem vikið var að mikilvægi þess að móta heildstæða stefnu um vistun kvenna í fangelsum. „Tillögurnar, eins og þær voru kynntar í skýrslunum tveimur, komu ekki til framkvæmda. Ekki varð heldur úr að móta heildræna stefnu um vistun kvenna í fangelsum og ber núverandi staða með sér skort á heildarsýn í málaflokknum,“ segir í skýrslunni.

Kvenkynsfangar eru í miklum minnihluta af heildarfjölda fanga, hlutfallið hefur verið í kringum sex prósent á undanförnum árum. Þessi minnihlutastaða er „almennt til þess fallin að koma niður á möguleikum þeirra til að afplána í ólíkum úrræðum,“ segir í skýrslunni en kvenfangar eru einungis vistaðir í tveimur af fjórum fangelsum sem Fangelsismálastofnun rekur, á Hólmsheiði og Sogni.

„Aðalvistunarstaður kvenfanga er Fangelsið Hólmsheiði sem er að öðru leyti fyrst og fremst hugsað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Þar af leiðandi vistast kvenfangar að meginstefnu til í lokuðu fangelsi þar sem öryggisstig er hátt,“ segir í tilkynningu frá umboðsmanni Alþingis sem send var út samhliða útgáfu skýrslunnar. Þrátt fyrir að ýmislegt sé gert til að koma til móts við þær konur sem þar dvelja, þá „ber skortur á virknistarfi og þjónustu í fangelsinu vitni um að það hentar illa sem langtímaúrræði.“

Atvinnutækifæri bundin við þrif og handverk

Skortur á virknistarfi og þjónustu birtist meðal annars í því að minna framboð er af vinnu fyrir kvenfanga og þeirra tækifæri eru að mestu bundin við hefðbundin kvennastörf, svo sem þrif og handverk. Því hefur umboðsmaður Alþingis komið því á framfæri að leita skuli leiða til að auka framboð af atvinnu fyrir kvenfanga. Umboðsmaður hefur einnig sent ábendingu til mennta- og barnamálaráðherra þess efnis að skoða þurfi, í samráði við fangelsismálayfirvöld, hvort hægt sé að bæta menntamál kvenkyns fanga.

Hitt fangelsið sem hýsir konur er á Sogni en þar vistast bæði karlar og konur. Konurnar eru þar í miklum minnihluta, mest þrjár miðað við átján karlfanga á hverjum tíma. Það geti skýrt hvers vegna konur vilji heldur taka út sína afplánun á Hólmsheiði. Líkt og fram kemur í skýrslunni þá stendur konum ekki lengur til boða að afplána á Kvíabryggju, „sem af ýmsum ástæðum þykir eftirsóknarvert.“

Gera þurfi kvenföngum kleift að afplána í opnum fangelsum

„Möguleikar kvenna til að afplána í opnu fangelsi eru þannig lakari en karla í sömu stöðu án þess að sá munur verði útskýrður með öðru en skorti á viðeigandi úrræðum,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Hann bendir á að staðan sé ósamrýmanleg almennum jafnræðisreglum og beinir því þar af leiðandi til bæði ráðuneytis og Fangelsismálastofnunar „að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að kvenfangar hafi í raun sömu möguleika á að afplána í opnu fangelsi og karlar í sömu stöðu.“  

 

Fjórir starfsmenn embættisins komu að gerð skýrslunnar ásamt Skúla Magnússyni.

Ábendingar umboðsmanns snúa líka að heilbrigðisþjónustu. Taka þurfi til skoðunar hvort hægt sé að koma til móts við fanga sem óska eftir að vera sinnt af heilbrigðisstarfsfólki af sama kyni, auk þess sem bent er á mikilvægi þess að kvenkyns fangar hafi greiðan aðgang að krabbameinsskimunum. 

Stór hluti kvenkyns fanga glímir við fíknivanda en nauðsynleg aðstoð virðist ekki vera í boði. Meðferðarfulltrúi hefur ekki fasta viðveru og föngum býðst ekki að dvelja á vímuefnalausum gangi. „Í ljósi aðstæðna verður vart annað séð en að konur séu sá hópur innan refsivörslukerfisins sem fær hvað minnsta aðstoð við að ná tökum á vímuefnavanda sínum.“ 

Erlendir fangar reiða sig á upplýsingagjöf frá samföngum

Sérstaklega er vikið að kvenkyns föngum af erlendum uppruna en í viðtölum á Hólmsheiði kom í ljós að konur í þeim hópi höfðu þurft að reiða sig að miklu leyti á samfanga fyrir upplýsingar.

„Í skýrslunni er bent á að það fyrirkomulag geti reynst óheppilegt og því beint að fangelsinu og Fangelsismálastofnun bæta upplýsingagjöf til erlendra fanga, s.s. með því að þýða mikilvægar upplýsingar og notast við túlkaþjónustu þegar komið er á framfæri upplýsingum sem ljóst er að hafi mikla þýðingu fyrir þá,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Þar að auki þurfi að gæta að því að fangar túlki ekki hver fyrir annan þegar um er að ræða viðkvæm einkamálefni.

Óskar eftir viðbrögðum 

Í síðasta kafla skýrslunnar segir að umboðsmaður muni halda áfram að fylgjast með þróun mála sem og viðbrögðum viðeigandi yfirvalda sem geta orðið til þess að tiltekin atriði verði tekin til frekari skoðunar.

Óskað er eftir því að Fangelsið á Hólmsheiði, Fangelsið Sogni, Fangelsismálastofnun og geðheilsuteymi fangelsanna upplýsi umboðsmann um viðbrögð við tilmælum og ábendingum sem settar eru fram í skýrslunni eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi. Þá er einnig óskað eftir því að fyrir þann tíma verði bæði dómsmálaráðuneyti og barna- og menntamálaráðuneyti búin að gera grein fyrir viðbrögðum sínum við þeim tilmælum og ábendingum sem beint er til þeirra í skýrslunni.

 

RAUNFÆRNIMATI BEITT Í NÁMI FANGA

Kennsla í fangelsunum gengur vel og alltaf mikill áhugi í verklegum greinum. Á Litla-Hrauni hefur verið kennd trésmíði í tvö ár og alltaf fullskipað í greinina. Aðstæður eru prýðilegar þar sem kennslan fer fram á trésmíðaverkstæðinu undir stjórn Jóns Inga Jónssonar verkstjóra. Jón Sigursteinn Gunnarsson trésmíðakennari í FSu kemur einu sinni í viku og kennir nemendum.

 

 

Á Litla-Hrauni eru einstaklingar á öllum aldri og jafnvel með margra ára reynslu í starfsgrein en ekki formlega menntun. Undir handleiðslu Klöru Guðbrandsdóttur náms- og starfsráðgjafa FSu í fangelsum geta einstaklingar farið í raunfærnimat uppfylli þeir skilyrði. Með raunfærnimati er metin sú þekking og færni sem einstaklingur hefur öðlast á vinnumarkaði sem mögulega getur stytt nám og verið jákvæð hvatning til að ljúka námi. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru 23 ára aldur og þriggja ára staðfest starfsreynsla í grein. Því getur raunfærnimat verið vænlegur kostur fyrir fanga með starfsreynslu sem langar að ljúka námi.

 

Klara Guðbrandsdóttir nefnir í þessu sambandi dæmi af nemanda sem hún er afar stolt af og  lauk nýlega raunfærnimati í trésmíði hjá Iðunni fræðslusetri. „Við undirbúning fékk nemandinn góða handleiðslu hjá Jóni verkstjóra en mikil og góð samvinna er á milli skólans og starfsfólks fangelsisins. Nemandinn fékk metnar 80 af 124 einingum faggreina húsasmíðinnar og öllum nema tveimur verkþáttum af 90 eininga verknámi. Ekki er hægt að segja annað en að þetta sé afburðarárangur og nú á nemandinn lítið eftir til að geta farið í sveinspróf í húsasmíði og getur vonandi klárað það að mestu hjá okkur í FSu.”

 

kg / jöz