„Við erum alltaf að tala þennan hóp niður“

„Það er al­veg ótrú­lega niðrandi og illa hugs­andi að nota slíkt orð gagn­vart fólki sem er fár­veikt,“ seg­ir Þrá­inn Farest­veit, af­brota­fræðing­ur og fram­kvæmda­stjóri Vernd­ar, í sam­tali við mbl.is um áhrif orðanotk­un­ar í fang­elsis­kerf­inu. Hann ger­ir meðal ann­ars at­huga­semd við notk­un á orðinu betr­un.

„Þetta seg­ir sig sjálft. Við erum alltaf að tala þenn­an hóp niður. Þetta er okk­ar veik­asta fólk. Fólkið sem fer í gegn­um þetta kerfi, fólkið sem fer í gegn­um Hlaðgerðarkot, SÁÁ og Krýsu­vík upp til hópa.“

Frétt af mbl.is

„Allt í einu ertu versta mann­eskja í heimi“

 

Upp­lifa að kerfið sé að refsa þeim

„Menn eru alltaf að tala um að breyta, gera bet­ur og þeir hafi aðrar hug­mynd­ir um hvernig kerfið virk­ar – við erum búin að tala um þetta fram og til baka í ára­tugi og það ligg­ur fyr­ir að það er vilji fyr­ir því að breyta inn­taki refs­inga, þannig að maður veiti þeim sem í fang­els­um eru meðferð og end­ur­hæf­ingu,“ seg­ir Þrá­inn.

Þegar spít­ali er sett­ur upp eru til­tekn­ir sér­fræðing­ar fengn­ir í vinnu fyr­ir allt sem þarf til að bæta þá sem inn á spít­al­ann koma, „þannig er það ekki í fang­els­un­um“. Þar starfa nokkr­ir fé­lags­ráðgjaf­ar sem þó vinna fyr­ir utan fang­els­in og koma þangað inn á milli og svo fanga­verðir.

„Þeir sem eru í fang­els­un­um upp­lifa alltaf að kerfið sé að refsa þeim, al­veg sama hver starfsmaður­inn er. Þannig að auðvitað hafa þeir ekki fullt traust til sál­fræðinga eða ráðgjafa á veg­um kerf­is­ins – ef þeir t.a.m. segja eitt­hvað sem gæti kannski virkað á móti þeim í fulln­ust­unni,“ seg­ir Þrá­inn.

Þess vegna hafi starfs­fólk Vernd­ar lagt ríka áherslu á að hætt sé að nota ákveðið orðalag um fang­elsis­kerfið, og sér­stak­lega ein­stak­ling­ana inn­an fang­els­anna.

Frétt af mbl.is

„Í grunn­inn erum við bara litl­ir hrædd­ir strák­ar í fang­elsi“

 

Betr­un er gild­is­hlaðið orð

Að sögn Þrá­ins er orðið betr­un gild­is­hlaðið orð. Það seg­ir okk­ur að ein­stak­ling­ur­inn sem verið er að þjón­usta sé á ein­hvern hátt gallaður.

„Við not­um ekki svona niður­lægj­andi orð vegna þess að það hef­ur áhrif á fólkið sem við erum að tala um,“ seg­ir hann. Þegar talað sé um að aðstoða eða veita meðferð og end­ur­hæf­ingu hafi orðin merk­ingu en orðið betr­un þýði ekki neitt, „það er ekk­ert inni­hald í því“.

„Ef skoðað er orðið meðferð, þá erum við með sér­fræðinga sem geta veitt til­tekna meðferð í til­tekn­um mál­um. Svo ertu með end­ur­hæf­ingu og það eru líka sér­fræðing­ar sem veita fólki end­ur­hæf­ingu. Ég hef ekki hitt neinn betr­un­ar­fræðing, ekki hingað til alla­vega.“

Seg­ir hann eðli­legt að fólk átti sig ekki á því að það grípi til þess­ar­ar orðanotk­un­ar af því að það hef­ur ekk­ert annað og flest­ir tali í þessa átt.

Þá seg­ir hann orðið betr­un standa í lög­um um fulln­ustu en að í ádeilu­skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar segi að: „Í lög­um um fulln­ustu refs­inga er talað um betr­un fanga. Að mati Rík­is­end­ur­skoðunar er það hug­tak gild­is­hlaðið og ekki nægj­an­lega lýs­andi fyr­ir þá vinnu sem á sér stað inn­an fang­elsis­kerf­is­ins. Embættið tel­ur bet­ur fara á því að ræða um end­ur­hæf­ingu fanga þegar fjallað er um heil­brigðisþjón­ustu, nám og störf fanga“.

Bæt­ir Þrá­inn við að orðið „taki niður þá sem um er talað“ og það eigi sér ekki grunn í því sem verið er að tala um.

Frétt af mbl.is

„Mér fannst ég bara vera sett­ur í geymslu“

 

Ekk­ert sem heiti fyrr­ver­andi fangi

Að sögn Þrá­ins er ekk­ert til sem heit­ir fyrr­ver­andi fangi.

„Ef betr­un er gild­is­hlaðin, hvað er þá að vera fyrr­ver­andi fangi, eða vistheim­il­is­barn, eða fyrr­ver­andi krabba­meins­sjúk­ling­ur?“ seg­ir hann og held­ur áfram:

„Þetta seg­ir sig sjálft. Við erum alltaf að tala þenn­an hóp niður. Þetta er okk­ar veik­asta fólk. Fólkið sem fer í gegn­um þetta kerfi, fólkið sem fer í gegn­um Hlaðgerðarkot, SÁÁ og Krýsu­vík upp til hópa.

Við erum með þetta fólk meira og minna í hönd­un­um en svo erum við alltaf að spyrja okk­ur að því af hverju það sem við erum að gera virk­ar ekki, við sem erum alltaf að tala niður til þeirra.“

Þá seg­ir hann orðið fík­ill ekki eiga að vera notað í dag, „frek­ar mynd­irðu segja að viðkom­andi væri með fíkni­vanda eða fíkni­sjúk­dóm, alls ekki að hann sé fík­ill“.

„Það er al­veg ótrú­lega niðrandi og illa hugs­andi að nota slíkt orð gagn­vart fólki sem er fár­veikt,“ seg­ir Þrá­inn.

 

 

Þráinn Farestveit

Afstaða í 20 ár

AFSTAÐA

Afstaða – Rödd manneskjunnar innan múranna.

Í 20 ár hefur Afstaða Félag fanga verið órjúfanlegur þátttakandi í baráttu fyrir mannréttindum fanga og virðingu fyrir reisn þeirra sem hafa gengið í gegnum fangelsiskerfið. Félagið stendur fyrir stöðugri, hugrakkri og mannúðlegri nálgun – þar sem lausnin felst í að hlusta, skilja og styðja. Vernd fangahjálp og Afstaða félag fanga hafa í tvo áratugi átt farsælt samstarf, byggt á gagnkvæmu trausti, virðingu og sameiginlegri sýn. Vernd veitir úrræði, stuðning og skjól þegar einstaklingar stíga sín fyrstu skref út úr afplánun. Félag fanga leggur rödd og reynslu til málanna, byggða á raunverulegri nálægð við veruleika fanga. Saman hafa þessi tvö öfl mótað vettvang þar sem bæði mannúð og framkvæmd fara saman – þar sem einstaklingar fá ekki bara þjónustu, heldur líka trú á sjálfan sig. Þetta samstarf hefur borið ávöxt í fjölmörgum myndum: einstaklingsbundnum sigrum, þroskandi samræðu við opinbera aðila, opinberum umsögnum og baráttu fyrir réttarbótum – og í ekki síst sýnileika og virðingu fyrir röddum og reynslu innan fangelsiskerfisins. Áherslur Afstöðu – Von, virðing og endurreisn. Að meðferð og endurhæfing sé og verði hið trygga afl þeirra sem svo sannanleg þurfa á að halda. Á þessum 20 árum hefur Félag fanga staðið fast við grunngildi sín: Allir einstaklingar geta lært, vaxið og snúið við blaðinu. Refsing felur ekki í sér afsögn frá samfélaginu – heldur kall á tengingu við það. Fangelsi eiga ekki að vera endastöð – heldur upphaf að nýrri leið.  Félagið hefur verið vettvangur þar sem þeir sem hafa setið inni finna hlustun, samstöðu og styrk

Manneskjan í forgrunni

Í öllu starfi félagsins skín í gegn trúin á manneskjuna. Hún birtist í viðtölum, umsögnum, samfélagsmiðlum og baráttunni fyrir bættri stöðu þeirra – en einnig í kyrrlátum samtölum, stuðning í erfiðum aðstæðum og hugrekki til að tala þar sem þögn hefur ríkt.

 

Horft til framtíðar – áfram saman

Við hjá Vernd lýsum djúpu þakklæti og virðingu fyrir seiglu og því óþrjótandi starfi sem Afstaða hefur unnið. Það er sjaldgæft, dýrmætt og ástæða til að fagna því – ekki aðeins fyrir árangurinn, heldur fyrir þá sýn sem félagið hefur haldið á lofti.

,,Að hver manneskja – sama hvar hún hefur verið – eigi rétt á reisn, virðingu og raunhæfu tækifæri“. Þráinn Farestveit

 

Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025

Mannr

Afstaða, félag um bætt fangelsismál hlaut í dag 600 þúsund krónur að gjöf fyrir að hljóta mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri afhenti Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni félagsins, verðlaunin í Höfða fyrr í dag fyrir starf Afstöðu í þágu fanga og aðstandenda þeirra. Verðlaunin eru afhent í dag, 16. maí, á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar en markmiðið með deginum er að „vekja athygli á mannréttindum borgarbúa og mannréttindastefnu borgarinnar,“ að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Það var mannréttindaráð borgarinnar sem samþykkti á fundi sínum að Afstaða hlyti verðlaunin í ár en þau eru veitt árlega til einstaklinga, hópa, félagasamtaka eða stofnana sem þykja hafa á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um mannréttindi.

„Afstaða heimsækir reglulega öll fangelsi landsins og veitir stjórnvöldum aðhald sem öflugur málsvari bættra fangelsismála á Íslandi. Afstaða, sem í ár fagnar 20 árum, samanstendur af sjálfboðaliðum, jafningjum og fagfólki og leggur félagið áherslu á jafningjastuðning, endurhæfingu og endurkomu einstaklinga í samfélagið eftir afplánun,“ segir meðal annars í rökstuðningi valnefndar, en nánar er fjallað um verðlaunin á vef borgarinnar.

Upplýsingatorg fékk viðurkenningu

Við sama tækifæri var einnig afhent svokölluð Aðgengisviðurkenning Reykjavíkurborgar. Það er Katarzyna Beata Kubis sem hlýtur viðurkenninguna í ár fyrir upplýsingatorg sem ætlað er forráðafólki og aðstandendum fatlaðra barna. Upplýsingatorgið miðlar upplýsingum um þjónustu á einum stað þar sem efnið er aðgengilegt á íslensku og ensku.

Fram kemur í tilkynningunni að viðurkenningunni sé ætlað að gera aðgengismálum hærra undir höfði og varpa ljósi á það sem vel er gert í málaflokknum. Verkefnið var unnið af Þroskahjálp í samvinnu við Mennta- og barnamálaráðuneytið sem veitti styrk til þess árið 2023.

 

Inn: Þráinn Farestveit

Afstaða heimsækir fangelsin

Afstaða
Afstaða, RETS frá Finnlandi, WayBack frá Noregi, IPS, Compassion Prison Project í Bandaríkjunum og LL Yale School of Medicine heimsóttu í dag íslensk fangelsi í boði Afstöðu, Traustan Kjarna og Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Markmiðið með vettvangsferðinni er að efla samstarf og samtal um jafningjastuðning og kanna leiðir til að bæta hann innan fangelsiskerfisins.
Á döfinni er stofnun norrænna samtaka um jafningjastuðning, sem einnig munu vinna að auknum þrýstingi fyrir bættri endurhæfingu fanga.
Ferðin gekk afar vel og ríkti mikil ánægja í hópnum, ferðin lofar góðu um framhaldið og skapar jarðveg fyrir öflugt samstarf til framtíðar.
 
 
Þráinn Farestveit

Raddir fanga

Helgi Gunnlaugsson skrifar athyglisverða grein á Vísi 12. maí þar sem hann bendir á hversu mikilvæg frjáls félagasamtök er í mismunandi kerfum. Að félagsamtök breyti stefnum og straumum með starfsemi sinni.

Helgi bendir á að í kennslubók í refsirétti við Lagadeild Háskóla Íslands kom fram á níunda áratugnum að ekki heyrðist frá föngum hér á landi, engin rödd bærist þaðan. Höfundi bókarinnar þótti það miður, velti fyrir sér ástæðum og kallaði eftir málstað þeirra. Öðru máli gegnir í dag. Afstaða félag fanga hefur barist fyrir málefnum dómþola og aðstandenda þeirra í bráðum tuttugu ár og fagnar áfanganum með afmælisráðstefnu fimmtudaginn 22. maí næstkomandi.

Af hverju styðja við fanga? Væri ekki nær að styðja við þolendur brota og ástæður þess að byggð eru fangelsi. Jú það skiptir sannarlega máli. Fram hafa komið öflug samtök sem styðja þolendur brota eins og Stígamót og Kvennaathvarfið og ekki vanþörf á að bæta um betur. En um leið og við sýnum stuðning við þolendur brota verðum við jafnframt að huga að gerendum þeirra. Hvort sem fangar eru tvö ár eða tíu í fangelsi snúa þeir aftur út í samfélagið hvort sem okkur líkar betur eða verr. Miklu skiptir að endurkoma þeirra verði farsæl og án brota. Rannsóknir sýna ótvírætt að stuðningur við dómþola og aðstandendur þeirra ekki síst börn auðveldar endurkomu þeirra í samfélagið og dregur úr ítrekun brota. Nægir að nefna mikilvægt framlag fangahjálpar Verndar hér á landi því til staðfestingar. Jafnframt er brýnt að samfélagið allt sé tilbúið að taka aftur við þeim sem vilja snúa til betri vegar og taka þátt í samfélaginu sem virkir borgarar.

Á undanförnum árum hef ég tekið þátt í rannsóknum á afstöðu Íslendinga til afbrota og refsinga. Fram hefur komið að Íslendingar telja refsingar of vægar og eru það einkum ofbeldisbrot sem nefnd eru í því samhengi. Við meiri upplýsingar sem þátttakendum eru gefnar um einstök brot og gerendur þeirra virðist draga úr refsihörku svarenda. Sjónarmið endurhæfingar gerenda og stuðningur við þolendur brota verða meira áberandi. Langflestir vilja að meðferð brotamanna eigi að vera meginmarkmið refsinga en ekki bara refsing til þess eins að refsa. Réttaröryggi borgaranna er þáttakendum ofarlega í huga, stuðningur við þolendur og ábyrgð gerenda á brotum sínum. Svarendur fordæma brotin en ekki endilega manneskjurnar bak við þau. Oft liggur þjáning að baki, persónulegar og félagslegar áskoranir sem taka þarf á, svo ekki lendi allt í sama farinu og áður. Stuðningur við dómþola er lykilatriði í því samhengi.

Afstaða hefur átt ríkan þátt í því að raddir dómþola eru nú viðurkenndar og orðnar meira áberandi í samfélaginu en áður. Skilningur hefur aukist á að stuðningur við fanga er jafnframt stuðningur við samfélagið allt og réttaröryggi borgaranna. Jafnframt er ljóst að mikið verk er enn óunnið.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við HÍ.

 

 

 

Inn: Þráinn Farestveit