Staða kvenna í fangelsum

 

 

Færri vistunarúrræði fyrir kvenkyns fanga er ein helsta ástæða þess að staða kvenna í fangelsum á Íslandi er almennt lakari en staða karla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá umboðsmanni Alþingis þar sem aðstæður kvenna í fangelsum voru bornar saman við aðstæður karla í sömu sporum.

Skýrslan sem ber titilinn Konur í fangelsi: Athugun á aðbúnaði og aðstæðum kvenna í afplánun er fyrsta þemaskýrsla umboðsmanns Alþingis á grundvelli svokallaðs OPCAT-eftirlits með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja.

Tekið er fram í skýrslunni að í eldri skýrslum Fangelsismálastofnunnar hafi verið settar fram tillögur um hvernig bæta megi aðstöðu kvenna til vistunar í fangelsi.

Staðan sýni að heildarsýn í málafokknum skorti

Tillögurnar sneru meðal annars að því að fjölga vistunarmöguleikum til að koma þannig betur til móts við þarfir kvenkyns fanga, auk þess sem vikið var að mikilvægi þess að móta heildstæða stefnu um vistun kvenna í fangelsum. „Tillögurnar, eins og þær voru kynntar í skýrslunum tveimur, komu ekki til framkvæmda. Ekki varð heldur úr að móta heildræna stefnu um vistun kvenna í fangelsum og ber núverandi staða með sér skort á heildarsýn í málaflokknum,“ segir í skýrslunni.

Kvenkynsfangar eru í miklum minnihluta af heildarfjölda fanga, hlutfallið hefur verið í kringum sex prósent á undanförnum árum. Þessi minnihlutastaða er „almennt til þess fallin að koma niður á möguleikum þeirra til að afplána í ólíkum úrræðum,“ segir í skýrslunni en kvenfangar eru einungis vistaðir í tveimur af fjórum fangelsum sem Fangelsismálastofnun rekur, á Hólmsheiði og Sogni.

„Aðalvistunarstaður kvenfanga er Fangelsið Hólmsheiði sem er að öðru leyti fyrst og fremst hugsað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Þar af leiðandi vistast kvenfangar að meginstefnu til í lokuðu fangelsi þar sem öryggisstig er hátt,“ segir í tilkynningu frá umboðsmanni Alþingis sem send var út samhliða útgáfu skýrslunnar. Þrátt fyrir að ýmislegt sé gert til að koma til móts við þær konur sem þar dvelja, þá „ber skortur á virknistarfi og þjónustu í fangelsinu vitni um að það hentar illa sem langtímaúrræði.“

Atvinnutækifæri bundin við þrif og handverk

Skortur á virknistarfi og þjónustu birtist meðal annars í því að minna framboð er af vinnu fyrir kvenfanga og þeirra tækifæri eru að mestu bundin við hefðbundin kvennastörf, svo sem þrif og handverk. Því hefur umboðsmaður Alþingis komið því á framfæri að leita skuli leiða til að auka framboð af atvinnu fyrir kvenfanga. Umboðsmaður hefur einnig sent ábendingu til mennta- og barnamálaráðherra þess efnis að skoða þurfi, í samráði við fangelsismálayfirvöld, hvort hægt sé að bæta menntamál kvenkyns fanga.

Hitt fangelsið sem hýsir konur er á Sogni en þar vistast bæði karlar og konur. Konurnar eru þar í miklum minnihluta, mest þrjár miðað við átján karlfanga á hverjum tíma. Það geti skýrt hvers vegna konur vilji heldur taka út sína afplánun á Hólmsheiði. Líkt og fram kemur í skýrslunni þá stendur konum ekki lengur til boða að afplána á Kvíabryggju, „sem af ýmsum ástæðum þykir eftirsóknarvert.“

Gera þurfi kvenföngum kleift að afplána í opnum fangelsum

„Möguleikar kvenna til að afplána í opnu fangelsi eru þannig lakari en karla í sömu stöðu án þess að sá munur verði útskýrður með öðru en skorti á viðeigandi úrræðum,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Hann bendir á að staðan sé ósamrýmanleg almennum jafnræðisreglum og beinir því þar af leiðandi til bæði ráðuneytis og Fangelsismálastofnunar „að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að kvenfangar hafi í raun sömu möguleika á að afplána í opnu fangelsi og karlar í sömu stöðu.“  

 

Fjórir starfsmenn embættisins komu að gerð skýrslunnar ásamt Skúla Magnússyni.

Ábendingar umboðsmanns snúa líka að heilbrigðisþjónustu. Taka þurfi til skoðunar hvort hægt sé að koma til móts við fanga sem óska eftir að vera sinnt af heilbrigðisstarfsfólki af sama kyni, auk þess sem bent er á mikilvægi þess að kvenkyns fangar hafi greiðan aðgang að krabbameinsskimunum. 

Stór hluti kvenkyns fanga glímir við fíknivanda en nauðsynleg aðstoð virðist ekki vera í boði. Meðferðarfulltrúi hefur ekki fasta viðveru og föngum býðst ekki að dvelja á vímuefnalausum gangi. „Í ljósi aðstæðna verður vart annað séð en að konur séu sá hópur innan refsivörslukerfisins sem fær hvað minnsta aðstoð við að ná tökum á vímuefnavanda sínum.“ 

Erlendir fangar reiða sig á upplýsingagjöf frá samföngum

Sérstaklega er vikið að kvenkyns föngum af erlendum uppruna en í viðtölum á Hólmsheiði kom í ljós að konur í þeim hópi höfðu þurft að reiða sig að miklu leyti á samfanga fyrir upplýsingar.

„Í skýrslunni er bent á að það fyrirkomulag geti reynst óheppilegt og því beint að fangelsinu og Fangelsismálastofnun bæta upplýsingagjöf til erlendra fanga, s.s. með því að þýða mikilvægar upplýsingar og notast við túlkaþjónustu þegar komið er á framfæri upplýsingum sem ljóst er að hafi mikla þýðingu fyrir þá,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Þar að auki þurfi að gæta að því að fangar túlki ekki hver fyrir annan þegar um er að ræða viðkvæm einkamálefni.

Óskar eftir viðbrögðum 

Í síðasta kafla skýrslunnar segir að umboðsmaður muni halda áfram að fylgjast með þróun mála sem og viðbrögðum viðeigandi yfirvalda sem geta orðið til þess að tiltekin atriði verði tekin til frekari skoðunar.

Óskað er eftir því að Fangelsið á Hólmsheiði, Fangelsið Sogni, Fangelsismálastofnun og geðheilsuteymi fangelsanna upplýsi umboðsmann um viðbrögð við tilmælum og ábendingum sem settar eru fram í skýrslunni eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi. Þá er einnig óskað eftir því að fyrir þann tíma verði bæði dómsmálaráðuneyti og barna- og menntamálaráðuneyti búin að gera grein fyrir viðbrögðum sínum við þeim tilmælum og ábendingum sem beint er til þeirra í skýrslunni.

 

RAUNFÆRNIMATI BEITT Í NÁMI FANGA

Kennsla í fangelsunum gengur vel og alltaf mikill áhugi í verklegum greinum. Á Litla-Hrauni hefur verið kennd trésmíði í tvö ár og alltaf fullskipað í greinina. Aðstæður eru prýðilegar þar sem kennslan fer fram á trésmíðaverkstæðinu undir stjórn Jóns Inga Jónssonar verkstjóra. Jón Sigursteinn Gunnarsson trésmíðakennari í FSu kemur einu sinni í viku og kennir nemendum.

 

 

Á Litla-Hrauni eru einstaklingar á öllum aldri og jafnvel með margra ára reynslu í starfsgrein en ekki formlega menntun. Undir handleiðslu Klöru Guðbrandsdóttur náms- og starfsráðgjafa FSu í fangelsum geta einstaklingar farið í raunfærnimat uppfylli þeir skilyrði. Með raunfærnimati er metin sú þekking og færni sem einstaklingur hefur öðlast á vinnumarkaði sem mögulega getur stytt nám og verið jákvæð hvatning til að ljúka námi. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru 23 ára aldur og þriggja ára staðfest starfsreynsla í grein. Því getur raunfærnimat verið vænlegur kostur fyrir fanga með starfsreynslu sem langar að ljúka námi.

 

Klara Guðbrandsdóttir nefnir í þessu sambandi dæmi af nemanda sem hún er afar stolt af og  lauk nýlega raunfærnimati í trésmíði hjá Iðunni fræðslusetri. „Við undirbúning fékk nemandinn góða handleiðslu hjá Jóni verkstjóra en mikil og góð samvinna er á milli skólans og starfsfólks fangelsisins. Nemandinn fékk metnar 80 af 124 einingum faggreina húsasmíðinnar og öllum nema tveimur verkþáttum af 90 eininga verknámi. Ekki er hægt að segja annað en að þetta sé afburðarárangur og nú á nemandinn lítið eftir til að geta farið í sveinspróf í húsasmíði og getur vonandi klárað það að mestu hjá okkur í FSu.”

 

kg / jöz

Köllunin er mjög sterk

Fanga­prest­ur Þjóðkirkj­unn­ar, fór í guðfræði vegna þess að hún taldi það vera gott al­hliða nám en fann sterka köll­un og lít­ur á starf sitt sem al­gjör for­rétt­indi. Hún hef­ur kynnst starfi Sam­hjálp­ar frá nokkr­um hliðum og tók meðal ann­ars þátt í kvenn­a­starf­inu Dorkas, sem hafði mik­il áhrif á hana. Stein­gerður Stein­ars­dótt­ir ræddi við hana í Sam­hjálp­ar­blaðinu. 

Hvernig stóð á því að ung­ur guðfræðinemi fór á sam­kom­ur hjá Fíla­delfíu­kirkj­unni og hóf að vinna með kvenna­hópi inn­an Hvíta­sunnusafnaðar­ins?

„Sam­hjálp á alltaf stórt pláss í hjarta mínu,“ seg­ir hún. „Ég kem sveita­stelpa ofan af Lauga­vatni árið 1985 til að hefja nám í guðfræði í Há­skól­an­um. Ég vissi ekki hvað ég vildi og fannst námið fjöl­breytt og spenn­andi. Þá var ekki al­veg eins mikið í boði að fara í heims­reisu meðan maður hugsaði sig um, svo að mín heims­reisa varð guðfræðin. Þar kynnt­ist ég Gunn­björgu Óla­dótt­ur, en hún og fjöl­skylda henn­ar störfuðu hjá Sam­hjálp. Þegar við höfðum kynnst bet­ur bauð hún mér á sam­kom­ur og mér fannst þetta ótrú­lega spenn­andi, fram­andi og ger­ólíkt því sem ég hafði al­ist upp við. Stund­um hef ég sagt að ég hafi farið í guðfræði því það vantaði svo mikið í þenn­an þátt. Á Laug­ar­vatni var eng­in kirkja í minni æsku, mess­ur voru haldn­ar í barna­skól­an­um á stór­hátíðum og svo fermd­ist ég í Skál­holti. En allt trú­ar­líf var mjög hefðbundið og gam­aldags. Í sveit­inni var kirkju­kór og bóndi úr sveit­inni, hann Andrés á Hjálms­stöðum, var org­an­isti. Þetta hafði vissu­lega sinn sjarma og var held ég nokkuð hefðbund­in ís­lensk trú­ar­upp­lif­un. Á sam­kom­un­um var hins veg­ar mikið fjör, tromm­ur, bassi og gít­ar og fólk söng af hjart­ans lyst.

Í fram­haldi af því að ég fór á sam­kom­ur buðu Gunn­björg og Ásta Jóns­dótt­ir mamma henn­ar mér að koma á Dorkas-fund. Þeir voru haldn­ir einu sinni í mánuði og það sem ég upp­lifði þar hafði djúp áhrif á mig. Þetta var svo hlýtt, nota­legt og fal­legt sam­fé­lag. Í hópn­um voru alls kon­ar kon­ur. Kon­ur sem störfuðu hjá Sam­hjálp, kon­ur sem sóttu sam­komurn­ar, kon­ur úr Hvíta­sunnu­söfnuðinum og kon­ur sem höfðu farið í gegn­um ótalmargt og glímt við fíkn. Ásta var líka eins og mamma okk­ar allra sem tók­um þátt í þessu starfi, ráðagóð og hlý. Þarna voru kon­ur sem höfðu verið í fang­elsi, verið heim­il­is­laus­ar og lent í mikl­um hremm­ing­um. Þær gáfu svo mikið af sér. Það eru þess­ar sig­ur­sög­ur sem hvetja mig áfram í starfi. Það er svo mik­il­vægt að missa aldrei sjón­ar á því að við meg­um aldrei gef­ast upp á nokk­urri mann­eskju.

Við lás­um sam­an upp úr Biblí­unni og svo voru vitn­is­b­urðir og fyr­ir­bæn­ir. Ég segi al­veg full­um fet­um að þarna lærði ég fyrst að biðja upp­hátt með öðrum. Margt gott og gagn­legt lærði ég í guðfræðinni sem mér þykir ákaf­lega vænt um en að biðja upp­hátt fyr­ir öðrum lærði ég í Sam­hjálp. Það hef­ur reynst mér ákaf­lega vel í öllu mínu starfi. Ég fann að þetta var ekki neitt yf­ir­nátt­úru­legt eða skrýtið held­ur bara opið sam­tal við Guð, að biðja fyr­ir öðrum og fá fyr­ir­bæn­ir. Það hef­ur borið mig í gegn­um starfið alla tíð.“

 

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði.“ Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

Köll­un­in er mjög sterk

En svo varðst þú sókn­ar­prest­ur og hvað tók þá við?

„Ja, ég varð eig­in­lega alls kon­ar prest­ur,“ seg­ir Sigrún og bros­ir. „Ég vígðist tutt­ugu og sex ára til Laug­ar­nes­kirkju sem aðstoðarprest­ur, eins og það hét þá. Í dag heit­ir það bara prest­ur. Mjög fljótt fann ég köll­un til að starfa utan safnaðar­ins í sérþjón­ustu og fékk tæki­færi til að leysa af á Land­spít­al­an­um um tíma. Það sann­færði mig um að þetta vildi ég gera, svo ég fór út til Nor­egs og lærði sál­gæslu.

Við vor­um mun leng­ur en við ætluðum okk­ur í Nor­egi, sex ár. Þegar við kom­um heim varð ég prest­ur í Árbæj­ar­kirkju og var þar í fimmtán ár. Eft­ir það ætlaði ég að hætta að vera prest­ur og sagði starfi mínu lausu. Fór að reka versl­un og vann á út­far­ar­stofu en svo er það þessi köll­un, hún er mjög sterk og ég fann að mig langaði aft­ur til baka í prests­starfið. Mig langaði hins veg­ar ekki í hefðbundið safnaðarstarf, þannig að þegar starf fanga­prests var aug­lýst fann ég að þetta var það sem ég vildi.“

Þú byrjaðir hálfó­viss í guðfræðinni en fannst svo þessa sterku köll­un. Var ein­hver tíma­punkt­ur þar sem þú sann­færðist eða viss­ir að þetta væri það sem þú vild­ir?

„Ég var mikið á báðum átt­um,“ seg­ir hún. „Ég fann strax að mig langaði að halda áfram í nám­inu, bæði vegna þess að þetta var áhuga­vert og út af fé­lags­skapn­um, það var svo skemmti­legt fólk þarna. Það var eig­in­lega ekki fyrr en á síðasta ár­inu að ég fann sterkt að þetta væri það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið sann­færð um að lífið hef­ur upp á ótal mögu­leika að bjóða og ég vissi strax að þetta nám er það fjöl­breytt að það nýt­ist í margt. Ég sá fyr­ir mér að ég gæti farið að kenna, farið í ráðgjöf eða eitt­hvað slíkt. Tíðarand­inn var raun­ar ann­ar þá og ekki marg­ar kon­ur sem voru fyr­ir­mynd­ir í prests­starf­inu. Það er svo­lítið sú deigl­an líka og gerði starfið spenn­andi fyr­ir mér.“

Er þetta enn mikið karlastarf eða hef­ur það breyst?

„Þær ræt­ur eru mjög sterk­ar. Til að mynda áttaði ég mig ekki á því sjálf að gagn­vart mínu starfi sem fanga­prest­ur var til staðar ákveðið glerþak og marg­ir urðu mjög hissa og sum­ir jafn­vel reiðir þegar ég var ráðin. Ef eitt­hvert starf í kirkj­unni er frá­tekið fyr­ir karla er það þetta, var sagt, og það kom mér mjög á óvart þegar ég heyrði það. Hélt að það væri ekki leng­ur svo árið 2020. En það var ekki eins og ég væri fyrsta kon­an til að starfa í fang­elsi.“

Hrein og tær ein­lægni

„Sér­stak­ur fanga­prest­ur hef­ur verið starf­andi frá ár­inu 1970. Starfs­vett­vang­ur fanga­prests eru fang­els­in og þjón­usta við fanga, aðstand­end­ur þeirra og aðra er láta sig eitt­hvað varða um hag þeirra,“ seg­ir í starfs­lýs­ingu á vefn­um kirkj­an.is. Hvað finnst þér helst fel­ast í starf­inu?

„Lang­stærsti hlut­inn er sál­gæsla og sam­töl. Að fá að vera prest­ur með þetta er­indi í þessu starfi er al­gjör for­rétt­indi og líka að fá að koma þarna inn og fá að vera sam­ferða fólk­inu ein­hvern smá­spöl. Sum­ir vinna við að dæma og aðrir að greina en ég kem þarna og er bara sam­ferða stutt­an veg­spotta. Trú­in er auðvitað mitt leiðarljós en það er ekki þar með sagt að við séum alltaf að tala um trúna. Við töl­um al­veg eins um veðrið og lífið í allri sinni mynd.“

Hef­ur þú ein­hvern tíma haldið at­hafn­ir í fang­els­inu?

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði. Þær eru mjög vel sótt­ar og fólk er ekk­ert að velta fyr­ir sér trú­ar­deild­um eða öðru, það bara mæt­ir til að eiga sam­an góða stund. Er­indið er alltaf það sama en þetta er að sumu leyti ólíkt. Oft er þar meiri hreyf­ing á fólki út og inn en líka þessi djúpa ein­lægni sem ég tengi við Dorkas-hóp­inn, þessi hreina tæra ein­lægni í trúnni sem er svo fal­leg. En varðandi gift­ing­ar eða aðrar at­hafn­ir mæli ég með að fólk bíði nema um al­var­leg veik­indi eða eitt­hvað slíkt sé að ræða. Að eiga þann dag og þá stund í frels­inu skipt­ir svo miklu máli.“

Þakka Sam­hjálp lífs­björg­ina

Sérðu fyr­ir þér að halda áfram lengi í þessu starfi?

„Nei, ekki endi­lega. Það eru heil­mikl­ar fram­kvæmd­ir að fara í gang á Litla-Hrauni. Meðal ann­ars er verið að koma upp betri aðstöðu til að tala við fólk í ein­rúmi og mig lang­ar að vera með í þeim breyt­ing­um. Hvað sjálfa mig varðar held ég að ekki sé heppi­legt að vera allt of lengi í þessu starfi, en það eru ákveðnir þætt­ir sem mig lang­ar að sjá verða að raun­veru­leika áður en ég hætti.“

Sam­hjálp gef­ur öll­um föng­um á land­inu jóla­gjaf­ir. Hef­ur þú í starfi þínu orðið vör við viðbrögð við því?

„Sam­hjálp vinn­ur ein­fald­lega svo merki­legt starf. Í því sem að mér snýr er teng­ing­in við Kaffi­stof­una sterk. Starfið þar er lífs­björg fyr­ir svo marga. Við höf­um öll þess­ar grunnþarf­ir og ég heyri talað af svo mik­illi hlýju og virðingu um mót­tök­urn­ar þar. Svo eru auðvitað þau sem fá að ljúka afplán­un í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Fólk sem fer í meðferð þar fær að upp­lifa eitt­hvað al­veg sér­stakt. Það eru ýmis tengsl við fang­els­in og sum­ir fang­ar tala um Sam­hjálp sem al­gjöra lífs­björg. Ég finn líka að fólk sem vill fá fyr­ir­bæn kem­ur oft úr þessu um­hverfi og það er svo fal­legt,“ seg­ir Sigrún að lok­um.

Fundur félags- og vinnumarkaðsráðherra

Þráinn Farestveit framkvæmdastjóri Verndar fór á fund félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Á fundinum var farið yfir ýmis málefni Verndar og ráðherra kynnt stefna félagasamtakanna, saga og framtíðarsýn. Einnig var rædd sú breyting sem gerð var árið 2013 þar sem félagasamtökum var gert að leita eftir stuðningi til ráðuneyta í stað fjárlaganefndar eins og hafði verið í langan tíma. Einnig var farið yfir rekstrarfyrirkomulag Verndar og framtíðarhorfur.  Þá voru réttindi dómþola rædd og þar á meðal réttindi þeirra til atvinnuleysisbóta og greiðslur þeirra í atvinnutryggingarsjóð. Vernd hefur nú starfað í rúmlega 60 ár þar sem vegalausum og húsnæðislausum hefur verið veittur stuðningur. Allar götur frá stofnun samtakanna hefur hugmyndafræði Verndar verið sú að samtökin skyldu aðstoða hvern þann, sem tæki út refsingu eftir dómi. Honum skyldi hjálpað yfir fyrstu hindranir svo hann gæti aftur áunnið traust samfélagsins. Þá skyldi reynt að útvega honum húsnæði og vinnu og hvetja til sjálfshjálpar. Farið var yfir mikilvægi starfseminnar, forvarnagildi og mikilvægi þess að einstaklingar sem hljóta óskilorðsbundna dóma njóti samfellu í úttekt dóma. Það hljóti alltaf að vera vilji samfélagsins að árangur sé sýnilegur af starfsemi sem þessari og einstaklingurinn komi endurhæfður út í samfélagið eftir slíka vistun. Þá hafa samtökin verið fljót til að tileinka sér ný viðmið og stuðlað að nýjum hugtökum sem koma skjólstæðingum samtakanna vel. Við þökkum ráðherra fyrir að gefa sér tíma til að fara yfir málin með samtökunum og gagnlegt samtal um starfsemi Verndar og mikilvægi fullnustunnar utan fangelsa. Það er mikilvægt fyrir samtökin að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi á meðan heimsókninni stóð.

Vistmenn Verndar komnir í sóttvarnarhús

Smit kom upp á áfanga­heim­il­inu Vernd á laug­ar­dag­inn. Í kjöl­farið greind­ist annað smit og all­ir starfs­menn og vist­menn þurftu að fara í sótt­kví. „Þá var bara tek­in ákvörðun í sam­ráði við sótt­varna­yf­ir­völd að tæma Vernd og all­ir vist­menn­irn­ir fengu inni í far­sótt­ar­húsi á meðan starf­sem­in ligg­ur niðri,“ seg­ir Þrá­inn Bj. Farest­veit, fram­kvæmda­stjóri Vernd­ar. Er þetta und­an­tekn­ing frá reglu­gerð sem var breytt ný­lega af heil­brigðisráðherra á þann veg að ein­ung­is ein­angr­un­ar­gest­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­um, ekki þeir sem sæta sótt­kví. Vegna smit­anna var aft­ur á móti ekki hægt að halda starf­sem­inni gang­andi og því það eina í stöðunni að vist­menn­irn­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­inu þangað til hún get­ur haf­ist að nýju en Þrá­inn býst við því að það verði eft­ir um það bil viku. Í fyrstu skimun komu ekki fram nein fleiri smit en þessi tvö. Aft­ur verður skimað síðar í vik­unni. Vernd átti að taka á móti nýj­um vist­mönn­um í vik­unni en ljóst er að það frest­ast líka.

„Þetta er sér­stakt en miðað við þá stöðu sem er í sam­fé­lag­inu var viðbúið að þetta gæti gerst.“

 

Frétt mbl