Fangar sem eru á skrá yfir liðsmenn skipulagðra glæpasamtaka fá hvorki reynslulausn né dagsleyfi og ekki heldur að afplána í samfélagsþjónustu eða opnum fangelsum, nema að uppfylltum skilyrðum. Fangelsismálayfirvöld settu sérstakar reglur þar að lútandi í vor.
„Það er rétt, við höfum sett reglur sem tengjast meðlimum slíkra samtaka," segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. „Ástæðan er sú að það þarf að sýna sérstaka gát þegar á að flytja í opin fangelsi, senda út í dagsleyfi eða á reynslulausn og svo framvegis menn sem lýsa því yfir, með aðild sinni að svona félagsskap, að þeir beinlínis segi sig úr lögum við samfélagið."
Þetta hafi verið gert til að bregðast við vanda sem fylgdi fjöldun gengjameðlima í fangelsi. „Það eru tvö til þrjú ár frá því að fyrsti meðlimurinn kom þar til það varð algjör sprengja fyrir tæpu ári. Ástandið var orðið þannig að það var nauðsynlegt að taka á þessu."
Páll segir að fangelsin byggi skrár sínar á upplýsingum frá lögreglu. „En þessir menn eru nú sjaldnast að fela þetta – eru klæddir í þessa búninga, tattúveraðir og svo framvegis. Við ákváðum hins vegar strax og þetta vandamál varð til að banna allar merkingar skipulagðra glæpasamtaka innan fangelsanna," bætir hann við.
Aðspurður segir hann rétt að þetta hafi hingað til aðeins átt við félaga í svokölluðum vélhjólagengjum, einkum Hells Angels og Outlaws. „En við erum líka pottþétt með menn sem tilheyra mafíum frá Litháen og Póllandi. Við vitum bara ekki nógu mikið um það," segir hann.
Fangelsismálastjóri segist ekki viss um hversu margir fangar teljist núna í þessum hópi – það sé síbreytilegt og fyrir skömmu hafi þeir verið á annan tug.
Hann segist ekki heldur hafa tölu yfir það hversu oft hafi reynt á reglurnar. „Það hefur gerst alloft. Hins vegar má ekki gleyma því að ef menn lýsa því yfir, og það er trúverðugt, að þeir ætli að hætta í þessum samtökum eða láta af samskiptum við þau þá líta málin öðruvísi út."
Og reglurnar eiga ekki aðeins við um fangana sjálfa. „Það þarf nú varla að taka fram að meðlimir svona samtaka eru ekki velkomnir í heimsóknir í fangelsi," segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Hann ítrekar þó að meta þurfi hvert tilvik fyrir sig. „Okkur ber að halda uppi reglu og aga í fangelsunum og þetta er einfaldlega hluti af því.