Jól í fangelsi

Nokkrir hópar í samfélaginu geta ekki notið hefðbundinnar prestsþjónustu með því að fara til kirkju þegar þeir hafa löngun til. Hér er að sjálfsögðu átt við fólk sem dvelst á sjúkrahúsum og stofnunum eins og fangelsum. Þessum hópi tilheyra þó með öðrum hætti sé þau sem búa við fötlun og þroskahömlun. Innflytjendur og flóttafólk geta líka verið í þessari stöðu. En öllum þeim stendur til boða að njóta sértækrar prestsþjónustu þjóðkirkjunnar sem sérþjónustuprestar inna af hendi. Þjóðkirkjan hefur semsé á að skipa vaskri sveit sem sinnir fólki í þessum sérstöku og viðkvæmu aðstæðum af virðingu og trúmennsku. Þá ber þess að geta að prestar sem stofnanir ráða til sín, eins og sjúkrahúsin, eru þjónandi prestar þjóðkirkjunnar. Þar er og öflugur hópur sem sinnir sérþjónustu. Helgihald hjá þessum hópum ber auðvitað merki aðstæðna þeirra og ólíkra þarfa. Mestur tími þjónustunnar fer þó í margs konar persónulega sálusorgun; sálusorgun fjölskyldna, maka og barna svo dæmi séu tekin. Þá er og hluti af starfinu einsleg prédikunarþjónusta. Sumir staldra við um skamma hríð í þessum sérþjónustusöfnuðum meðan aðrir eru bundnir þeim alllengi og enn aðrir svo að segja ævina út. Jólin alls staðar En jólin knýja dyra hjá sérþjónustunni eins og öðrum. Þó jólahaldið fari fram með öðrum hætti en venjulega þá er kjarninn sá hinn sami: gleði og fögnuður. Kirkjan.is spurði fangaprest þjóðkirkjunnar, sr. Sigrúnu Margrétar Óskarsdóttur, hvernig jólahaldið yrði í fangelsunum. „Þetta eru önnur jólin sem ég þjóna í fangelsunum,“ segir hún, „það var sérstakt að taka við starfinu um svipað leyti og heimsfaraldur stakk sér niður. Þjónustan er fjölbreytt og það eru engir tveir dagar eins.“ Sr. Sigrún segir að í fyrra hafi eingöngu verið boðið upp á rafrænt helgihald vegna kórónuveirufaraldursins; helgistund var tekin upp í Grensáskirkju og send til fanganna á jóladag. „Það segir sig sjálft að það er ekki leið sem er valin nema annað sé ekki í boði eins og raunin var þá.“ Hún segir að það sé tilhlökkunarefni að geta mætt á staðinn í ár. Jólamessur verða á jóladag á Sogni, Litla-Hrauni og Hólmsheiði. „Með mér fara söngelsku systkinin Anna Sigga og Jón Helgabörn ásamt Aðalheiði Þorsteinsdóttur undirleikara,“ segir sr. Sigrún. „Á Kvíabryggju mun sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, sóknarprestur Setbergsprestakalls, sjá um jólamessuna.“ Sr. Sigrún segir að helgihald í fangelsi sé sérstaklega ánægjulegt og gott sé að verða vitni að því hvernig við verðum kirkja þegar komið sé saman í nafni Jesú Krists. „Við komum saman í matsalnum á Sogni, í íþróttahúsinu Litla-Hrauni og á bókasafninu á Hólmsheiði, þessir staðir eru sannarlega kirkjur þegar við heyrum Guðsorð, syngjum og biðjum saman,“ segir hún. Krefjandi og gefandi að þjóna þessum hópi  „Það er ljóst að ástæður eru margvíslegar fyrir fangavistun,“ segir hún, „mér finnst erfitt að verða vitni að því að sem samfélag skortir okkur úrræði fyrir hóp fólks sem á við flókinn vanda að stríða. Fólk sem glímir við fíknisjúkdóma eða flóknar geðraskanir og þarf á viðeigandi meðferð að halda sem fangelsi hafa ekki upp á að bjóða. Við verðum að gera gangskör í að dómskerfi, heilbrigðiskerfi og félagsleg þjónusta taki samtal af fullri einurð um að leysa betur úr vanda þessa hóps. Það gleðilega við þessa þjónustu er að eiga þessi fjölbreyttu samskipti.“ Í dag eru 141 einstaklingar að afplána í fangelsi og þar af eru átta konur. Á áfangaheimilinu Vernd eru 24 og 9 eru á ökklabandi. Afplánunarfangelsi ríkisins eru: Litla-Hraun, Sogn (opið fangelsi), Hólmsheiði (þar er og  gæsluvarðhaldsfangelsi) og Kvíabryggja sem er opið fangelsi.  Sr. Sigrún segir að hún og söngkonan, Anna Sigga, hafi brugðið undir sig betri fætinum 10. desember s.l. og farið á Kvíabryggju. „Jólaguðspjallið var flutt og sungin jólalög,“ segir hún. „Þarna sátum við sannarlega öll við sama borð, þau sem þarna starfa og dvelja lögðu sig fram um að kalla fram hátíðleikann sem tilheyrir þessum árstíma.“ Í jólahlaðborðið hafði verið lagður mikill metnaður sem var eins og á fínasta veitingastað og svo hafi salurinn verið fallega skreyttur. „Það var einstaklega ánægjuleg ferð,“ segir sr. Sigrún.

„Myndin var tekin á leiðinni vestur, jökullinn logaði í allri sinni dýrð,“ segir sr. Sigrún í lokin. Hún er vinstra megin á myndinni og Anna Sigga, söngkona, hægra megin hsh


Uppreist æra

 

Mikil óvissa eftir afnám uppreistrar æru

Samkvæmt rannsókn laganema við HA skapaði afnám lagaákvæða um uppreista æru óvissu, bæði fyrir þá sem ljúka afplánun í dag og þá sem höfðu áður fengið borgaraleg réttindi sín til baka.

Óvissa ríkir um borgaraleg réttindi brotamanna eftir afplánun og embætti túlka lögin á mismunandi hátt. Þetta kemur fram í lokaritgerð Jóhönnu Óskar Jónasdóttur við lagadeild Háskólans á Akureyri, um áhrif afnáms lagaákvæða um uppreista æru. Málþing verður haldið um málefnið þann 17. september í skólanum og streymt á netinu.

Uppreist æra var afnumin úr hegningarlögum árið 2017 eftir að mál kynferðisafbrotamannanna Roberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar komust í hámæli og felldu að lokum ríkisstjórnina. Löggjöfin var aðlöguð að þessu en með misjöfnum árangri, að mati Jóhönnu.

„Í sumum lögum segir að menn geti fengið réttindi sín aftur að fimm árum liðnum, en ekki í öðrum, sem þýðir að skerðingin er ævilöng,“ segir hún og nefnir dæmi úr lögreglunni. Lögreglumaður sem fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir breytinguna hélt sínu starfi, á meðan annar sem framdi brot með sömu refsingu eftir breytinguna missti það.

Áður fengu einstaklingar sjálfkrafa óflekkað mannorð fimm árum eftir afplánun og öll borgaraleg réttindi ef dómur var óskilorðs-bundinn í 4 til 12 mánuði. Ef dómur fór fram úr því þurfti að sækja um uppreista æru.

„Það er óvissa um hvernig eigi að túlka lögin. Fyrst það er orðið matskennt hjá hverjum og einum hvort skýra eigi refsidóm sem einungis óskilorðsbundinn dóm eða einnig skilorðsbundinn, er verið að skerða réttindi einstaklinga án þess að það sé lagagrundvöllur fyrir því,“ segir Jóhanna.

 Hvert tilfelli sé metið

Áhrifin af því að missa sín borgaralegu réttindi, jafnvel fyrir lífstíð, eru margvísleg, samkvæmt ritgerðinni. Hið augljósasta er líklegast skerðing á atvinnufrelsi sem sé varið í stjórnarskránni. Þá geti það verið vandkvæðum háð að bjóða sig fram í kosningum, eins og Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, komst að í vetur. Ekki megi heldur vanmeta það að fólk upplifi beiskju og að það sé útilokað frá samfélaginu.

„Mér finnst eðlilegt að hvert tilfelli sé metið, í stað þess að fólk sé útskúfað það sem eftir er,“ segir Jóhanna. Til dæmis að horft sé til þess hversu langt sé um liðið og hvort viðkomandi hafi snúið lífi sínu við. „Það er eins og ákvæðinu um uppreista æru hafi verið sópað undir borðið og ekkert spáð í framhaldinu, því þessi heildarendurskoðun laganna í kjölfarið skilur eftir sig bæði skerðingu á réttindum og óvissu.“

Þó að Jóhanna telji ákvæðið hafa verið afnumið í flýti og hugsunarleysi, telur hún ekki líklegt, í ljósi þess sem á undan er gengið, að það rati aftur inn í löggjöfina. Mikilvægt sé þó að leysa úr óvissunni, meðal annars gagnvart þeim sem áður hafa fengið uppreista æru.

„Hópur einstaklinga sem áður hafði öðlast óflekkað mannorð sjálfkrafa eða hlotið uppreista æru er nú í óvissu,“ segir hún. „Þegar lagaákvæði eru túlkuð sem svo að viðkomandi má ekki hafa hlotið refsidóm, er horft á feril viðkomandi frá því hann varð 18 ára, óháð því hvort hann hafi öðlast óflekkað mannorð í eldri tíð laga, því má ætla að verið sé að beita afturvirkni laga.“

 Fólk sé frekar stutt aftur út í samfélagið

F13061017 guðnijohan 02 (2).jpg

 

„Spurningin er hvort við viljum taka aftur við fólki inn í samfélagið eða hvort búið sé að taka upp þá stefnu að þeir sem hafa brotið af sér eigi aldrei afturkvæmt inn í mannlegt samfélag,“ segir Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, sem flytur erindi á málþinginu. „Ég er talsmaður þess að við styðjum fólk frekar til að koma aftur.“

Áður fyrr hafi brotamenn verið brennimerktir án möguleika á að verða fullgildir meðlimir samfélagsins, með tilheyrandi eymd og félagslegum vandamálum.

„Ég tel ekki rétt að útiloka fólk alfarið út frá afbrotunum sjálfum, heldur ætti að horfa á hvar einstaklingurinn er staddur í sinni betrun,“ segir Arnar.

Prófessor segir afnám réttinda refsiauka

F07120118 Erla Bolla  02.jpg

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði, sem meðal annars mun fjalla um ítrekunartíðni, segir hlutverk viðurlagakerfisins tvenns konar. Annars vegar að refsa til að fæla fólk frá afbrotum og hins vegar að endurhæfa og betra fólk. „Þetta er að sumu leyti mótsagnakennt og getur grafið hvort undan öðru,“ segir hann.

Segir hann umræðuna um uppreista æru mest megnis snúast um kynferðisbrotamenn. Afnám borgaralegra réttinda væri í raun refsiauki, líkt og löggjöf í Bandaríkjunum og fleiri löndum um skráningar kynferðisbrotamanna. „Sumir hafa talað fyrir þessari leið hérna, en rannsóknir erlendis frá sýna að skráningin veitir falskt öryggi og geri viðkomandi aðeins útskúfaðri og hættulegri,“ segir Helgi.

Nefnir hann að til dæmis í Bretlandi hafi verið komið á sérstökum stuðningsúrræðum fyrir slíka brotamenn er kallast Circles.


Fyrsta covid-smitið í fangelsum landsins

Fyrsta smitið meðal fangavarða í fangelsum hér á landi er komið upp, samkvæmt heimildum fréttastofu. Smitið mun hafa komið upp á Litla-Hrauni.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu RUV. Smitið er á Litla-Hrauni og um er að ræða fyrsta tilfellið þar sem smit greinist innan fangelsa landsins síðan kórónuveirufaraldurinn hófst.

Páll segir að þegar hafi verið gripið til viðeigandi aðgerða. Einn fangavörður er í einangrun og tveir í sóttkví. Ekki hefur smit greinst á meðal fanga enda segir Páll að vel gætt að skjólstæðingum fangelsisins.

Páll segir að fylgst verði grannt með framvindu mála og staðan skýrist á næstu dögum.


Vistmenn Verndar komnir í sóttvarnarhús

Smit kom upp á áfanga­heim­il­inu Vernd á laug­ar­dag­inn. Í kjöl­farið greind­ist annað smit og all­ir starfs­menn og vist­menn þurftu að fara í sótt­kví. „Þá var bara tek­in ákvörðun í sam­ráði við sótt­varna­yf­ir­völd að tæma Vernd og all­ir vist­menn­irn­ir fengu inni í far­sótt­ar­húsi á meðan starf­sem­in ligg­ur niðri,“ seg­ir Þrá­inn Bj. Farest­veit, fram­kvæmda­stjóri Vernd­ar. Er þetta und­an­tekn­ing frá reglu­gerð sem var breytt ný­lega af heil­brigðisráðherra á þann veg að ein­ung­is ein­angr­un­ar­gest­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­um, ekki þeir sem sæta sótt­kví. Vegna smit­anna var aft­ur á móti ekki hægt að halda starf­sem­inni gang­andi og því það eina í stöðunni að vist­menn­irn­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­inu þangað til hún get­ur haf­ist að nýju en Þrá­inn býst við því að það verði eft­ir um það bil viku. Í fyrstu skimun komu ekki fram nein fleiri smit en þessi tvö. Aft­ur verður skimað síðar í vik­unni. Vernd átti að taka á móti nýj­um vist­mönn­um í vik­unni en ljóst er að það frest­ast líka.

„Þetta er sér­stakt en miðað við þá stöðu sem er í sam­fé­lag­inu var viðbúið að þetta gæti gerst.“

 

Frétt mbl


VOR-teymi í heimsókn

 

Arna Arinbjarnadóttir, Þorbjörg Valgeirsdóttir og Sara Ósk

 

Starfsfólk VOR-teymis Reykjavíkurborgar heimsóttu Vernd mánudaginn 14. júní í þeim tilgangi að styrkja samband og samvinnu við úrræði Verndar. Vernd hefur verið í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg í 60 ár. Farið var yfir hlutverk og tilgang Verndar og mikilvægi samtakanna. Samstarf Verndar og Reykjavíkurborgar hefur verið einstakt og farsælt í áratugi. VOR-teymið er vetfangs- og ráðgjafateymi sem er skilgreint sem færanlegt teymi skipað þverfaglegum hópi sérfræðinga sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefna og geðvanda. Veitir teymið einstaklingsmiðaða ráðgjöf og stuðning á meðan afplánun stendur, inni í fangelsum sem og utan fangelsa. 

 

Það er ljóst að samvinna Verndar og VOR-teymis er mikilvægt og í raun hefur margt breyst til batnaðar eftir að teymið hóf störf. Rúmlega 60 % af skjólstæðingum Verndar eru með lögheimili í Reykjavík og hluti þeirra eru í mikilli þörf fyrir stuðning. Með tilkomu VOR-teymis hafa skjólstæðingar Verndar sem þegar eru í fangelsi betri aðgang að upplýsingum um framvindu sinna mála og hvaða möguleikar eru til staðar þegar þeir losna úr fangelsi.

 

Eftir hlé í nokkur ár fengu samtökin fulltrúa Reykjavíkurborgar skipaðan að nýju í húsnefnd Verndar sem voru mikil gleði tíðindi fyrir samtökin . En þær Íris Ósk Ólafsdóttir og Dóra Guðlaug Árnadóttir félagsráðgjafar Reykjavíkurborgar sitja nú húsfundi Verndar vikulega þar sem farið er yfir málefni og stöðu þeirra sem dvelja á Vernd og þá sem sækja um dvöl. Þær hafa yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum sem nýtist húsnefndinni vel.

 


Þú ert víst fangi

 

Vernd fangahjálp vekur hér með athygli á meinbug á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um málefni fanga og þeirra sem afplána refsingu á Íslandi sem kemur niður á mannréttindum þeirra og er þeim fjötur um fót. Réttindamál fanga og þeirra sem afplána refsingu virðast oft vera afgangsstærð og mikil þörf á að taka til endurskoðunar. Í þessu máli bendi ég á að hér er eingöngu verið að ræða hugtök og orðanotkun tengdum þessum málaflokki. Engin er fangi nema í fangelsi sé.

 

Hugtök

 

Vernd hefur barist fyrir því í langan tíma að notkun hugtaka um fullnustu refsinga taki breytingum í samræmi við breyttar útfærslur fullnustu. Ekki gangi að kalla einstaklinga sem eru að fullnusta dóma utan fangelsa fanga. Mjög víða í stjórnsýslunni eru settir varnaglar eða stofnanir neita að fylgja stjórnsýslulögum þar sem einstaklingar sem til þeirra leita eru samkvæmt þeirra túlkun enn fangar og séu þess vegna á ábyrgð Fangelsismálastofnunnar. Sveitafélög og stofnanir hafa þannig reynt að komast hjá þeim skyldum sem þau/þær bera gagnvart þessum einstaklingum. Til þess að hægt sé að átta sig á þessum mikla mun á því að geta yfir höfuð verið fangi eða einstaklingur sem er að ljúka fullnustu refsingar utan fangelsa set ég eftir farandi fram. Það er nauðsynlegt að orðið fangi sé tekið út úr textum stjórnsýslu/reglugerðum og lögum þar sem það á ekki við þannig að ekki sé hægt að brjóta á réttindum þeirra sem fullnusta dóma utan fangelsa eins og gert er með geðþóttaákvörðunum. Þetta á við einstaklinga sem að dvelja á Vernd, fara í meðferð, fullnusta á rafrænu eftirliti eða í samfélagsþjónustu. Oftar en ekki heyri ég í samtölum mínum við stofnanir, ráðuneyti, fagaðila sveitafélaganna þegar leitað er eftir þjónustu er spurt, er hann/hún ekki fangi eða fyrrverandi fangi þegar það á ekki við. Þessu verður að breyta þannig að réttur þeirra sé tryggður til jafns við aðra.

 

Vernd er ekki fangelsi

 

Vernd rekur áfangaheimili og hefur gert í 60 ár og er með samning við Fangelsismálastofnun á grundvelli 31. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Í umræðu um fangelsismál hefur því stundum verið haldið fram að Vernd sé fangelsi. Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga er ljóst að Vernd er ekki fangelsi í merkingu laganna. Lengi var deilt um réttindi dómþola á Vernd varðandi endurhæfingalífeyri og örorkustyrki. Samkvæmt úrskurði úrskurðanefndar velferðarmála mál 152/2009 gegn Tryggingastofnun ríkisins og niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga mál 146/2009 var niðurstaðan sú að einstaklingur sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða þegar afplánun lýkur fær örorkustyrk sinn í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti einstaklingur reglur og verði vistaður í fangelsi að nýju falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar. Vandamálið virðist því vera ruglingur með hugtök laganna, einkum tegund refsingar, afplánun og fangelsi, því samkvæmt lögunum er unnt að afplána fangelsisrefsingu á annan hátt en með vistun í fangelsi. Þá er hugtakanotkun laganna á skjön við daglegt mál og veldur það oft ruglingi. 

 

Tímarammi

 

Ef málið er skoðað út frá tíma þá getur dómþoli verið í 30 mánuði utan fangelsa sé horft til þeirra sem lengstan tímann hafa. Á Vernd getur einstaklingur nú dvalið lengst í 18 mánuði og fer svo þaðan á rafrænt eftirlit í 12 mánuði. Það gefur auga leið að úrræðið sem er íboði er ætlað að gefa einstaklingum möguleika á að aðlagast samfélaginu að nýju í umhverfi þar sem boðið er upp á meðferð og endurhæfingu. En víða er pottur brotinn í lögum og reglugerðum. Ef skoðaðar eru reglur Vinnumálastofnunnar má sjá að í IX. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um tilvik sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 53. gr. segir:  "Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu." Þessi lög eru einnig látin gilda um fullnustu rafræns eftirlits og dvalar á Vernd þó þeirra sé ekki getið í lögunum. Hér er eitthvað sem ekki gengur upp. Einstaklingur sem hefur verið á Vernd og verið í vinnu í allt að 18 mánuði en missir vinnuna er algerlega réttindalaus samkvæmt þessu. Honum er gert að greiða skatta og skyldur á meðan á dvöl stendur en öðlast ekkert nema uppsöfnuð réttindi. Í þessu dæmi hljótum við að vera sammála um að breytinga er þörf og að samfélagsþjónusta og vistun á Vernd eða fullnusta undir rafrænu eftirliti er ekki sambærilegt því að vera vistaður í fangelsi. Ég er nokkuð viss um, að við gerð þessara laga hafi löggjafinn ekki ætlað lögunum að hafa þessi áhrif. Samfélagsþjónustu sem getið er í lögunum hefur í flestum tilvikum mjög takmörkuð áhrifa á atvinnuþátttöku þeirra sem henni gegna enda um örfáa klukkutíma á viku að ræða. Það eitt og sér er gerir texta um samfélagsþjónustu 53. gr. nánast óskiljanlegan í því ljósi. Vernd bendir á að þegar dómþolar taka út refsingu utan fangelsa t.d. hjá Vernd, þurfa þeir að stunda vinnu, vera í starfsendurhæfingu og greiða fyrir húsnæði, fæði, heilbrigðisþjónustu o.s.frv., greiða skatta og útsvar af tekjum sínum og ber að framfæra sig sjálfa og fjölskyldur sínar nákvæmlega eins og aðrir íbúar sveitarfélaga. Einnig eru margir í virkri atvinnuleit á þeim tíma sem úttekt fer fram með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða dvöl á Vernd. En flestir eru þó í fullri vinnu.

 

Aðlögun

 

Mikilvægt er skera úr um það hvort einstaklingur sem velur þessa leið geti talist sviptur frelsi sínu í skilningi laganna eins og hann væri í fangelsi (fangi) og hvort opinberir aðilar geti og hafi það í sinni hendi að túlka réttindi þeirra sem til þeirra leita eftir geðþótta. Stimplun setur mark sitt á einstaklinga um aldur og ævi, það er ekkert sem réttlætir það að kalla einstaklinga sem ekki eru fangelsi í textum eða orðum, fanga. Það er algerlega óásættanlegt.

 

 

 

 Þráinn Bj Farestveit

 

 


Bólusetning hafin

Bólusetningar ganga vel í fangelsum landsins. Starfsmenn fangelsa hafa allir fengið a.m.k. fyrri bólusetningu og framundan eru bólusetningar fanga. Fangar á Litla-Hrauni og Sogni fá bólusetningu á morgun en áætlað er að fangar í móttökufangelsinu á Hólmsheiði fái bólusetningu síðari hluta næstu viku. Þetta er ákaflega ánægjulegt en engin smit hafa komið upp meðal starfsmanna eða vistmanna í faraldrinum hingað til en einn fangi var færður smitaður í gæsluvarðhald. Hlaut hann viðeigandi heilbrigðisþjónustu og breiddist smit ekki út meðal annarra í fangelsinu. Ástæða er til þess að þakka öllum fyrir samhent átak í sóttvörnum. Fangaverðir, heilbrigðisstarfsmenn, aðrir starfsmenn, fangar og Afstaða, félag fanga, hafa allir sem einn staðið vaktina vel í þessum faraldri.

 


Henríetta Ósk Gunnars­dóttir

Henríetta Ósk Gunnars­dóttir, sál­fræðingur hjá Fangelsis­mála­stofnun, segir sár­lega vanta fleiri úr­ræði fyrir fanga sem hafa setið inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum. „Þetta er eini hópurinn sem fær ekki að fara inn á á­fanga­heimili,“ segir Henríetta í hlað­­varpinu Frelsið er yndis­­legt með Guð­­mundi Inga Þór­odds­­syni, for­­maður Af­­stöðu.

Á­fanga­heimilið Vernd tekur ekki á móti föngum sem hafa brotið gegn börnum og hingað til hafa með­ferðar­stofnanir heldur ekki viljað taka á móti föngum í þessum brota­flokki. Henríetta bendir einnig á að engin eftir­fylgni sé eftir að ein­staklingarnir hafi lokið fangelsis­vist.

Frelsið er yndislegt - Henríetta Ósk Gunnarsdóttir - YouTube

„Við fylgjum þeim eftir á reynslu­lausnar tíma og svo líkur þeirra tíma hjá okkur og þá eru þeir úr okkar höndum. Það vantar eitt­hvað sem tekur við þegar fólk hefur lokið af­plánun.“ Þá sé erfiðara fyrir þennan hóp að fóta sig í sam­fé­laginu og finna vinnu og heimili að lokinni af­plánun.

Sér­gangur fyrir barna­níðinga

„Fangar sem sitja inni fyrir brot gegn börnum eru mjög jaðar­settur hópur,“ segir Henríetta. Þeir eru til að mynda vistaðir á sér­gangi á Litla Hrauni og um­gangast aðra fanga lítið.

„Þessi hópur virðist vera neðst í virðingar­stiganum þannig hann ein­angrast svo­lítið,“ út­skýrir Henríetta. Þá sé hópurinn oft út­settur fyrir á­reiti og á­rásum af hálfu annarra fanga sé þess vegna haldið að hluta til frá öðrum vist­mönnum Litla Hrauns.

Verri með­ferð

Guð­mundur telur að fangar í þessum brota­flokk fái verri með­ferð en aðrir fangar með því að vera að­skildir. Hann telur þennan hóp ekki hafa lent í fleiri á­rásum en aðra innan fangelsis­veggjanna. Henríetta segir það geta staðist en bendir á að að­skilnaðurinn hafi verið settur á með öryggi brota­mannanna í huga.

„Þeirra vegna er það já­kvætt upp á það að gera. Við sjáum það er­lendis að þar eru sér­úr­ræði fyrir þennan hóp.“ Á­hyggjur hafi einnig komið upp um að það gæti verið skað­legt að hafa menn með sömu kenndir í sama hóp. Henríetta segir þó ekkert benda til þess.

Guð­mundur veltir fyrir sér hvort það sé ekki hætta á að þessir menn myndi tengsl og hittist með slæman á­setning þegar komið er úr fangelsinu. „Það á við um alla sem eru í fangelsi. Kannski eignast þú fé­laga sem að þú heldur sam­skiptum við á­fram þar sem það eru skert tæki­færi til sam­skipta,“ mót­mælir Henríetta.

Mann­eskjur eins og aðrir

Henríetta hefur sinnt þeim föngum sem þjást af barnagirnd um ára­bil. Um það bil þrjú til fimm prósent mann­kynnisins glímir við barnagirnd að sögn Henríettu. Það er að hennar mati ekki hægt að skil­greina sem sjúk­dóm þar sem hægt er að vinna með fólki sem glímir við þessi ein­kenni.

Í með­ferðum sé mikil­vægt að mæta ein­stak­lingunum af virðingu að mati Henríettu. „Það getur verið erfitt að heyra en þetta eru mann­eskjur eins og aðrir.“ Þessu fylgi gríðar­leg skömm og því geti verið erfitt að opna sig um slíkar kenndir.

„Við viljum meina að fangelsis­vist hafi ein­hvern fælingar­mátt og við viljum ætla að þetta sé betrun og tæki­færi til að vinna með ein­stak­lingnum og grípa hann.“ Barnagirnd sé mikið tabú og því leiti fólk sér ekki að­stoðar fyrr en það er orðið of seint. „Með því að vinna með þeim í fangelsinu er hægt að reyna að koma í veg fyrir að það verði fleiri brota­þolar.“

 

Barnagirnd faldari hjá konum

Horft er til þriggja við­miða þegar ein­stak­lingur er greindur með barnagirnd. Hvort ein­stak­lingurinn upp­lifi kyn­ferðis­lega hugar­óra eða hvatir til barna, hvort hann hafi fram­fylgt þeim órum og hvort hann hafi átt við mikla streitu eða á­reiti í tengslum við þessa hugar­óra sem hafi aftrað eðli­legu fé­lags­lífi. „Svo er enginn yngri en 16 ára sem myndi fá þessa greiningu og brota­þolinn þyrfti að vera minnst fimm árum yngri.“

Mun al­gengara er að karlar sitji inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum en konur. Henríetta bendir á að telja mætti þær konur sem hafa setið inni á Ís­landi fyrir slík brot á annarri hendi.

Hún telur að á­stæða þess sé að hluta til fólgin í því að barnagirnd sé meira falin hjá konum. Það geti þó breyst á komandi árum þá gæti kven­kyns föngum í þessum mála­flokk því fjölgað.

 

 

 


Umboðsmaður

 

Um­boðs­maður Al­þingis hefur beint því til Fangelsis­mála­stofnunar að taka til skoðunar hvort nægi­legt til­lit sé tekið til að­stæðna og öryggis kvenna í fangelsinu á Sogni í Ölfusi með því að vista þar bæði konur og karla. Fangelsið er eina opna fangelsið á landinu sem vistar kvenkyns fanga en flestir fangarnir eru þó karlkyns.

Þetta kemur fram í skýrslu um­boðs­manns Al­þingis eftir heim­sókn hans í fangelsið en honum hefur verið falið að annast eftir­lit með stöðum þar sem frelsis­sviptir dvelja á Ís­landi. Hann hefur nú heim­sótt fangelsi landsins og birti í dag skýrsluna um Sogn en skýrslur um önnur fangelsi eru væntan­legar á næstunni.

Konur í viðkvæmri stöðu í blönduðum fangelsum

Í skýrslunni segir að í opnum fangelsum þar sem fangar af báðum kynjum eru vistaðir og að­stæður bjóða ekki upp á full­kominn að­skilnað milli kynjanna er talið lík­legra en ella að kyn­ferðis­leg á­reitni og kyn­ferðis­legt of­beldi eigi sér stað. Þar séu konur í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu, einkum ef hlut­fall þeirra er mun lægra en hlut­fall karl­kyns fanga en sú er raunin al­mennt á Sogni.

Þegar um­boðs­maður fór í heim­sóknina voru tvær konur vistaðar í fangelsinu og voru þær báðar vistaðar á öðrum ganginum í aðal­byggingunni. Þar var þá einnig einn karlmaður. Umboðsmanni var þá tjáð að sú hug­mynd hefði komið upp að vista einungis konur á ganginum, því þá hefðu þær að­gengi að sér­stöku bað­her­bergi og al­mennt yrði ekki um­gangur inn á ganginn af karl­kyns föngum.

 

Fangelsið Sogni er eina opna fangelsið á landinu þar sem kvenkyns fangar eru vistaðir. Að fangelsi sé opið þýðir að þar eru engar girðingar eða múrar sem afmarka það. 

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá fangelsinu 29. septem­ber síðast­liðinn, eftir heim­sóknina, hafði þessari hug­mynd síðan verið hrint í fram­kvæmd. Gangurinn er nú einungis ætlaður konum og þó sú staða komi upp í fangelsinu að engin kona af­pláni þar verða her­bergi gangsins ekki nýtt fyrir karl­kyns fanga.

Um­boðs­maður Al­þingis segir í sam­tali við Frétta­blaðið að á­stæða hafi þótt til að beina því til Fangelsis­mála­stofnunar að taka þessi mál til frekari skoðunar. „Þessar að­stæður geta jafn­vel valdið því að konur sem upp­fylla skil­yrði til af­plánunar í opnu fangelsi sæki síður um flutning þangað,“ segir Kjartan Bjarni Björg­vins­son.

Í skýrslunni er bent á að í fjöl­þjóð­legum reglum sé lögð rík á­hersla á fullan að­skilnað kynjanna í fangelsum. Ríkjum sé einnig skylt að veita frelsis­sviptum ein­stak­lingum vernd gagn­vart öðrum ein­stak­lingum sem kunna að skaða þá.

Líkamsrannsóknir verði að rökstyðja

Þá telur um­boðs­maður að endur­skoða þurfi verk­lag í tengslum við svo­kallaðar líkams­rann­sóknir á föngum. Líkams­rann­sókn er það kallað þegar leitað er að munum eða efnum sem ein­hver kann að hafa falið í líkama sínum. Fangelsi hafa heimild til að fremja líkams­rann­sókn og taka öndunar-, blóð- eða þvag­sýni og annars konar líf­sýni úr föngum við komu þeirra í fangelsi og við al­mennt eftir­lit ef grunur leikur á að við­komandi hafi falið efni í líkama sínum eða neytt á­fengis- eða fíkni­efna. Líkams­rann­sóknir eru til dæmis oft fram­kvæmdar þegar fangar koma til baka í fangelsið úr leyfi.

Í skýrslunni segir að Fangelsið Sogni verði að endur­skoða verk­lag sitt í tengslum við á­kvarðanir um líkams­rann­sókn á fögnum og gera við­eig­andi breytingar til að gæta þess að ein­stak­lings­bundið og heild­stætt mat fari fram hverju sinni um hvort nauð­syn­legt sé að beita henni.

„Við erum að benda á það að þegar þetta er gert verður að meta það sér­stak­lega í hvert skipti,“ segir Kjartan Bjarni. „Við erum auð­vitað í þessu for­varnar­starfi og þess vegna brýnum við fyrir fangelsis­yfir­völdum þessar kröfur, sem við teljum leiða af lögunum.“

 


Samhjálp heimsækir Vernd

 

Á mynd. Þráinn Farestveit, Valdimar Þór Svavarsson, Rósa Gunnlaugsdóttir – Gjaldkeri, Anna María McCrann - Verkefnastjóri fjáröflunar, Rósý Sigþórsdóttir - Verkefnastjóri Kaffistofu, Helga Lind Pálsdóttir - Forstöðumaður Hlaðgerðarkots

 

Starfsfólk Samhjálpar heimsótti Vernd í dag. Þráinn Bj. Farestveit framkvæmdastjóri tók á móti gestum og fór yfir hlutverk og tilgang Verndar og mikilvægi samtakanna. Samstarf Verndar og Samhjálpar hefur verið einstakt og farsælt í áratugi. Starfsendurhæfing er lykill að farsælli endurkomu skjólstæðinga Verndar.

 

Samhjálp hefur verið stór þáttur í þessari aðlögun og aðstoð við skjólstæðinga Verndar í formi starfsendurhæfingar sem hefur reynst einstaklega vel en þar leikur kaffistofa Samhjálpar lykil hlutverki. Kaffistofa Samhjálpar sem er í Borgartúni 1a hefur tekið á móti skjólstæðingum Verndar með opnum örmum til starfsendurhæfingar en þar starfa skjólstæðingar Verndar frá 09.00 til 14.00 alla virka daga. Þar er boðið upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu. Þangað leita einstaklingar sem eru vegalausir, fátækt fólk, ýmist vegna andlegra eða líkamlegra veikinda eða félagslegrar einangrunar. Flestir sem þangað koma búa við mjög erfiðar félagslegar aðstæður. 

 

Þá er mjög gott samstarf á milli Hlaðgerðakots og Verndar sem rekið er af Samhjálp. Oft fara einstaklingar í meðferð áður en þeir koma á Vernd en einnig hafa einstaklingar farið í meðferð á meðan á dvöl stendur á Vernd. Hlaðgerðarkot sem er í Mosfellsdal er elsta starfandi meðferðarstofnun landsins. Í Hlaðgerðarkoti er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða. Í Hlaðgerðarkoti starfar þverfaglegt teymi, lækna, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og áfengis- og fíkniráðgjafa. Tilgangur heimsóknarinnar var upplýsa og miðla fræðslu um úrræði Verndar einnig að bæta og gera frekara samstarf mögulegt. 

 

 


Starfsemi Verndar

Sú þjónusta sem Vernd veitir er nauðsynleg og er mjög sérhæfð, þjónustan sem Vernd veitir er ekki veitt annars staðar. Gott samstarf er við aðrar stofnanir í velferðarþjónustu eins og Landspítala, heilsugæslu, barnaverndarnefndir, Barnaverndarstofu, SÁÁ, Tryggingastofnun, vinnumálastofnun, Hlaðgerðarkot, Geðheilsuteymi fangelsanna og fangelsismálastofnun. Þá eru samskipti Verndar við sveitafélög, nefndir og velferðarsvið þeirra í flestum tilfellum mjög góð en sveitafélögin eru nú 69.

Verndar hef nú starfað að málefnum dómþola í 60 ár og hefur Vernd það í stefnu sinni að bæta félagslega hæfni þeirra og bæta viðhorf almennings og yfirvalda til þeirra sem dæmdir eru. Ætla má að fjöldi þeirra sem búið hafi á Vernd séu hátt í fimm þúsund á þessum tíma.

Vernd hefur á skipa meðferðar og endurhæfingastefnu þar sem dómþolum stendur til boða að taka út hluta óskilorðsbundinna dóma í fullnustu utan fangelsa í allt að 16 mánuði. Vernd hefur verið brautryðjandi hvað þetta varðar og hefur samstarf Verndar og fangelsismálastofnunnar verið farsælt. Vernd er alltaf að leita nýrra leiða til að styrkja félagslega og samfélagslega hæfni þeirra sem þar dvelja á hverjum tíma.

Vernd hefur staðið vörð um velferð fólks í þessari stöðu í rúm 60 ár og reynt að milda viðhorf almennings til málaflokksins. Vernd hefur staðið vörð um nauðsyn þess að dómþolar sem ekki sitja í fangelsum fái eðlilegan og óhindraðan aðgang að réttindum svo sem heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu sveitafélaganna, Tryggingastofnunnar og lögfræðiaðstoð. Vernd hefur stutt við bakið þessum hóp, sem stendur mjög höllum fæti og er á viðkvæmum stað í lífi sínu þegar hann sækist eftir þjónustu Verndar. Vernd telur að þjónustuna þurfi að verja þar sem það liggur fyrir að mikil þörf verður fyrir þessa þjónustu í kjölfar ríkjandi heimsfaraldurs.

  • Stuðningur við aðstandendur áður en til fullnustu kemur.

Skrifstofa Verndar tekur á móti fjölda símtala á viku þar sem makar, börn og fjölskyldur þeirra leita upplýsinga um væntanlega afplánun skyldmenna og ræða áhyggjur sýnar. Ræða þar um ýmis mál tengdum dómþola og leita leiða til að hjálp þeim dæmda þegar og ef að afplánun kemur. Áhyggjur er margskonar, kostnaður og fordæming samfélagsins. Spurningar um þau áhrif sem dómur mun hafa á börn þeirra og með hvaða hætti er hægt að milda slík áhrif. Vernd reynir eftir bestu getu að leiðbeina þeim sem til Verndar leita eins og kostur er. Oft tengist þó samtalið því að fjölskyldur vita af starfsemi Verndar og því góða orðspori sem af starfseminni fer og vilja vita hversu langur tími líður frá því að afplánun hefst þangað til viðkomandi kemst á Vernd. Einnig er leitað eftir upplýsingum er varða stuðning fyrir fjölskyldurnar og í hvaða formi þær gætu verið. Vernd býr yfir yfirgripsmikilli reynslu á þessu sviði og getur í flestum tilfellum leiðbeint einstaklingum í réttan farveg. Stundum eru samtölin aðeins spjall og leit eftir stuðningi, áhyggjur af börnum sínum og veitir Vernd öllum sem til þeirra leita eins góðan stuðning og mögulegt er. Stuðningur við þennan hóp er ekki síður mikilvægur og sá stuðningur sem Vernd veitir dómþolum í þessu ferli.

  • Félagslegur stuðningur við dómþola fyrir afplánun

Dómþolar leita mikið til Verndar áður en til afplánunnar kemur. Ætla má að 30 símtöl á mánuði berist Vernd þar sem dómþolar leita ráða vegna dóma sem þeir hafa hlotið og hvaða leiðir séu færar. Dómþolar leita oft eftir svörum sambærilegum þeim sem aðstandendur leita eftir sem snúa að réttindum þeirra og mögulegum leiðum til að milda áhrif refsinga. Það er þó áberandi hversu þungt dómar leggast á þessa einstaklinga og eru mjög margir þeirra með miklar áhyggjur af fjölskyldu og þá sérstaklega ef börn eru annars vegar. Fullnusta dóma í fangelsi hefur gríðaleg áhrif á andlega hlið þeirra og sýna tölur sem Vernd hefur að hátt í 22 % þeirra sem eru á leið í fangelsi íhuga sjálfsvíg í tengslum við upphaf fangelsisvistunnar.

Vernd er þó í þeirri stöðu að geta veitt þeim smá ljós við endann á þessum átakanlega ferli að upplýsa þá um þá samfellu sem fer í gang við inntöku í fangelsi þar sem háttsemi á afplánunartíma getur haft jákvæð áhrif á fullnustu þar sem góð hegðun hefur áhrif færslur frá lokuðu fangelsi yfir opið fangelsi, Vernd og rafrænt eftirlit fari menn eftir reglum. Félagslegleg og fjölskyldu staða getur verið æði misjöfn og getur stundum verið mjög flókið að aðstoða einstaklinga og finna leiðir sem eru færar til þess að menn geti skilið við fjölskyldur og vini í langa tíma. Rúmlega helmingur þeirra sem dvelja á Vernd eru foreldrar 54,5%.


Fangaverk í krafti Auðar

 

 

Vef­versl­un Fanga­verks opnaði í dag en þar get­ur fólk verslað ým­is­kon­ar vör­ur sem hand­gerðar eru af þeim sem sitja inni í fang­els­um lands­ins. „Þetta er nátt­úr­lega bara stór sig­ur, loks­ins,“ sagði Auður Mar­grét Guðmunds­dótt­ir, verk­efn­is­stjóri í fang­els­inu á Hólms­heiði, í sam­tali við mbl.is í dag.

Blóma­pott­ar, penn­astand­ar, kerta­stjak­ar og skál­ar eru meðal þess sem hægt er að versla í vef­versl­un Fanga­verks en áður fór sal­an fram á sam­fé­lags­miðlum. Auður seg­ir að það hafi verið mik­il­vægt að koma vef­versl­un­inni í loftið til að ein­falda sölu­ferlið, bæði fyr­ir kaup­end­ur og Fanga­verk. 

Fanga­verk var komið á kopp­inn fyr­ir rúm­lega ári síðan en Auður átti hug­mynd­ina að verk­efn­inu. Í viðtali við mbl.is á síðasta ári sagði hún að áður en verk­efnið fór af stað hafi verk­efni fyr­ir fanga verið ansi stop­ul.

Nú hef­ur hins veg­ar orðið breyt­ing á og næg verk­efni til að sinna á Hólms­heiði, Litla-Hrauni og í Kvía­bryggju. Hægt er að kynna sér vöru­úr­valið í nýrri vef­versl­un Fanga­verks á Fanga­verk.is.