Um helmingur fanga á Íslandi lýkur nú afplánun sinni á áfangaheimili Verndar í Reykjavík. Þar eru um tuttugu pláss sem oftast eru fullnýtt. Fangar geta verið þar í allt að tólf mánuði. Dæmi eru um að þeir biðji um að vera lengur. Engin önnur sambærileg úrræði eru nú í boði hér á landi.
Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar, segir að úrræðið nægi þessum fjölda í dag, en bendir á að boðunarlistar séu langir, m.a. í kjölfar þess að tveimur fangelsum var lokað. Þegar nýja fangelsið á Hólmsheiði verði komið að fullu í notkun sé ljóst að ásóknin muni aukast. Við því þurfi að bregðast með einhverjum hætti.
Í meistararitgerð Nínu Jacqueline Becker sem sagt var frá á mbl.is í vikunni og byggð var á viðtölum við fyrrverandi fanga, kom fram að skortur væri á eftirfylgni og félagslegum stuðningi fyrir fanga sem lokið hafa afplánun. Þeir sem sem hún ræddi við nefndu sumir hverjir að fátt hefði beðið þeirra utan veggja fangelsisins.
Frétt mbl.is: „Hellingur af ofbeldi“ á Litla-Hrauni
„Þær eru nokkrar kraftaverkasögurnar,“ segir Þráinn Farestveit um fanga sem lokið hafa afplánun á Vernd. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Á Vernd er föngunum veittur margvíslegur stuðningur og sú staðreynd að helmingur fanga lýkur nú afplánun sinni þar vekur upp spurningar um örlög jafnmargra sem gera það ekki?
Þráinn segir að einhver hluti fanga velji að ljúka frekar afplánun inni í lokuðum fangelsum. Reglur á Vernd eru strangar, þeir sem þar dvelja þurfa að vera í starfsendurhæfingu, vinnu eða námi, fara að reglum um útivistartíma og vera edrú. „Þetta hentar ekki öllum,“ segir hann.
Um 8% send aftur í fangelsi
Þeir fangar sem eru í neyslu inni í lokuðum fangelsum eiga þess því ekki kost að ljúka afplánun á Vernd. Þeir sem eru í neyslu og vilja fara í meðferð geta farið í meðferð á vegum SÁÁ eða í Hlaðgerðarkoti, svo lengi sem þeir eiga ekki önnur ólokin mál í dómskerfinu. Í kjölfarið geta þeir svo lokið afplánun á Vernd. Verði fangar uppvísir að því að vera í neyslu á meðan þeir eru þar eru þeir sendir aftur í fangelsi. Slíkt gerist í um 8% tilvika. „Það verður að teljast eðlilegt, sérstaklega miðað við það að í kringum 90% þeirra sem eru í fangelsum eru fíklar,“ segir Þráinn.
Dæmi eru um að fangar hafi í engin hús að venda þegar þeir koma úr fangelsi og séu auk þess stórskuldugir, m.a. vegna fíkniefnaneyslu. Þar með eru þeir fastir í vítahring sem erfitt getur reynst að rjúfa.
„Þetta er nokkuð algengt,“ segir Þráinn. „Það er hópur manna í fangelsum sem er fastur í viðjum fíknar. Þessum mönnum tekst ekki að ljúka meðferðum við fíkn sinni eða hefja hana yfirhöfuð.“
Leitað lausna í undirheimunum
En Þráinn ítrekar að vilji fangar leita sér hjálpar sé sá möguleiki alltaf fyrir hendi. „Ef menn eru tilbúnir að taka U-beygju í lífi sínu, taka ábyrgð á eigin lífi og hætta að kenna öðrum um, þá hefur undantekningarlaust verið hægt að koma þeim til aðstoðar, þó að þeir hafi átt umtalsverðar skuldir í undirheimunum.“