Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn að Laugateigi 19 fimmtudaginn 13 júní.

klukkan 19.15

Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

Stjórnin

 

 

 

LITLA-HRAUN – SÖGUSÝNING

Í tilefni 90 ára afmælis Fangelsisins á Litla-Hrauni efndi fangelsið og Byggðasafn Árnesinga til sögusýningar í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Sýningin opnaði á afmælisdeginum föstudaginn 8. mars kl. 17. Á sýningunni er sögð saga fangelsisins. Þróun á starfsemi Litla Hrauns sem stofnunnar er þar í forgrunni en auk þess er litið inní veröld fangavarða, fanga og samfélagsins í kring. Sýningin er byggð á ýmsum munum frá fangelsinu, ljósmyndum sem til eru og gagnorðum sýningartextum. Myndir frá opnun sýningarinnar fylgja hér með. Það eru rúmlega 90 ár síðan lagt var fram lagafrumvarp á Alþingi með orðalagi þess tíma, þar sem "Landsstjórninni var heimilað að verja af ríkisfje alt að 100 þús. kr. til að kaupa land og láta reisa betrunarhús og letigarð, þar sem skilyrði þykja góð, til að fangar og slæpingar, sem ekki vilja vinna fyrir sjer eða sínum, geti stundað holla og gagnlega vinnu. Úr varð að setja upp letigarðinn í því húsi sem fyrr átti að verða sjúkrahús Sunnlendinga". Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi texti var ritaður og samfélagið tekið miklum breytingum, bæði innan og utan veggja "letigarðsins" sem við köllum nú Fangelsið. Í upphafi voru starfsmenn á Litla-Hrauni þrír, Sigurður Heiðdal forstöðumaður, Zóphanías Jónsson, matráður og Jónas Jónsteinsson fangavörður. Fyrstu fangarnir voru þrír og alls komu 20 fangar fyrsta árið. Nú 90 árum síðar starfa 57 starfsmenn á Litla – Hrauni, auk allra þeirra kennara, heilbrigðisstarfsfólks og annarra sérfræðinga sem sinna margskonar þjónustu við vistmenn sem geta orðið allt að 87 í senn þegar mest er. Í upphafi var áherslan á vinnu og betrun. Í dag er áherslan á virkni til betrunar. Við hvetjum fanga til að mennta sig og stunda vinnu. Við viljum að þeir taki þátt í meðferðarstarfi og leggjum áherslu á sjálfsumsjón daglegra hluta eins og að fangar sinni eigin matseld sjálfir. Brot þeirra fanga sem sátu inni þá og nú voru gjörólík. Helmingur þeirra fanga sem voru á Litla Hrauni fyrstu 10 árin sátu inni vegna bruggs og áfengislagabrota. Rúmlega þriðjungur fyrir auðgunarbrot, tæp 10 prósent fyrir "leti og óhlýðni". Í dag sitja flestir inni vegna fíkniefna eða fjórðungur, um 20% vegna auðgunarbrota, 15% vegna kynferðisbrota og jafn margir vegna ofbeldisbrota og vegna annarra brota. Enginn situr inni vegna "leti og óhlýðni" þó einhverjir hafi mögulega gerst sekir um hana. Það er áhugavert að skoða sambúð fangelsins við nágranna sína, Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Fyrstu áratugina voru fangarnir hluti af daglegu lífi í þorpunum, skautuðu með börnunum á Hópinu, unnu ýmis störf í þorpunum, mjólkupósturinn Gústi Greyskinn ók handvagni sínum gegnum þorpið og færði viðskiptavinum ríkisins sína daglegu mjólk hvernig sem viðraði og aðrir fangar gengu inn og út úr fangelsinu ýmist með leyfi eða án heimildar. Afstaða íbúanna hefur samt heilt yfir verið sú að þeir vilja geta sagt með stolti að það ríki sátt um að þessi starfsemi sé hér og það er mikilvægt. Þessi sátt birtist meðal annars í því að Byggðarsafns Árnesinga og Fangelsið geta unnið saman að uppsetningu sögusýningar. Þrátt fyrir að margir sem búa í nágrenni fangelsisins starfi þar eru einnig fjölmargir sem hafa búið skammt frá alla sína tíð en aldrei komið þangað inn. Með þessari sýningu má segja að reynt sé að ná til þeirra og veita þeim innsýn inn í starfsemina. Þessi langa saga hefur skilið eftir sig ýmsar minjar og minningar. Sumt hefur tekist að varðveita og er nú til sýnis í Byggðasafni Árnesinga í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. þökk sé fyrirhyggju þeirra sem gera sér grein fyrir varðveislugildi hlutanna. Þar koma margir til sögunnar en að öllum öðrum ólöstuðum er ekki hjá því komist að nefna á nafn þann mann sem hefur lagt mest af mörkum við að varðveita og halda á lofti sögu fangelsanna og þá Litla-Hrauns sérstaklega. Sr. Hreinn Hákonarson fangaprestur hefur unnið þrekvirki í því að safna saman munum og gögnum um fangelsið og honumber að þakka sérstaklega fyrir hans framlag. Þessi sýning hefði ekki verið möguleg án hans aðkomu. Fangelsissaga á Íslandi byrjar um svipað leyti og þetta hús sem við erum í var byggt fyrir 250 árum, en Múrinn í Reykjavík, nú stjórnarráðshúsið var byggt um svipað leyti og þar var fyrsta fangelsi íslendinga. Síðar var Hegningarhúsið byggt hundrað árum síðar, árið 1872. Árið 1928 var strax farið að skrifa um aðstæður þar og þær taldar óhentugar. Það þótti því mikil bylting þegar Litla Hraun var tekið í notkun.

 

Börn sem ættu að vera á sjúkrahúsi

„Við þurf­um að vita hvað við erum að gera vel til að vita hvað við þurf­um að gera bet­ur,“ sagði Hall­dór Hauks­son, sviðsstjóri meðferðar- og fóst­ur­sviðs Barna­vernd­ar­stofu, á opn­um fundi SÁÁ-klúbbs­ins um vímu­efna­vanda unga fólks­ins sem fram fór í gær­kvöldi.

Fjöldi manns sótti fund­inn, en auk Hall­dórs fór þar með fram­sögu Val­gerður Rún­ars­dótt­ir, for­stjóri sjúkra­húss­ins Vogs, áður en þau tóku svo bæði þátt í pall­borðsum­ræðum.

Í fram­sögu sinni sagði Hall­dór mik­il­vægt að horfa á styrk­leika þeirr­ar þjón­ustu og úrræða sem Barna­vernd­ar­stofa hef­ur yfir að ráða, og byggja ofan á, í stað þess að segja að allt sé ónýtt og að byggja þurfi þjón­ust­una upp að nýju. Einn af helstu styrk­leik­um þjón­ust­unn­ar sagði hann vera fjöl­kerfameðferðina, eða MST, sem fram fer á heim­ili þess sem á þarf að halda til þess að yf­ir­færsla fari fram sam­hliða. 600 fjöl­skyld­ur hafa nýtt sér meðferðina á síðastliðnum tíu árum og af henni hlýst góður ár­ang­ur, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í dag.

 

 

 

Sigríður Á. Andersen, Dómsmálaráðherra, heimsótti Vernd

Sigríður Á. Andersen, Dómsmálaráðherra, heimsótti í dag Vernd fangahjálp að Laugateig 19 ásamt starfsfólki ráðuneytis Dómsmála. Í upphafi heimsóknarinnar var farið yfir hlutverk og sögu Verndar en á þessum tímamótum eru 60 ár frá því að Þóra Einarsdótti viðraði fyrst þá hugmynd að stofnun íslenskrar fangahjálpar. Þóra hafði þá fengið að kynnast sambærilegum samtökum þegar hún hafði stundað nám í Kofoed-skólanum í Kaupmannahöfn en hann var líknarstofnun sem lagði sig fram um að hjálpa útigangsfólki og þeim er minna máttu sín. Þóra hafði líka kynnst dönskum samtökum sem aðstoðu fanga og fjölskyldur þeirra. Þessi danska fangahjálp bar nafnið Det danske forsorgsselskab. Fanghjálpin danska vann í nánum tengslum við yfirvöld og einstaklinga en voru frjáls félagasamtök. Allar götur síðan hefur hugmyndafræði Verndar verið sú að samtökin skyldu aðstoða hvern þann, sem tekið hefði út refsingu eftir dómi. Honum skyldi hjálpað yfir byrjunarörðugleikana svo hann gæti aftur unnið traust samfélagsins. Þá skyldi reynt að útvega honum húsnæði og vinnu og hvetja til sjálfshjálpar. Farið var yfir mikilvægi starfseminnar, forvarnagildi og mikilvægi þess að einstaklingar sem hljóta óskilorðsbundna dóma njóti samfellu í úttekt dóma. Það hljóti alltaf að vera vilji samfélagsins að árangur sé sýnilegur af starfsemi sem þessari og einstaklingurinn komi betri út í samfélagið eftir slíka vistun.

Að þessu tilefni var nýr samningur undirritaður á milli Verndar og Fangelsismálastofnunar en samningurinn hefur verið í vinnslu í nokkurn tíma og mættu starfsfólk Fangelsismálastofnunnar, stjórnarmenn Verndar og starfsfólk. Þess bera að geta að Sigríður Á. Andersen Dómsmálaráðherra lét það verða eitt af sýnum fyrstu embættisverkum að koma á samkomulagi á milli Verndar og Fangelsismálastofnunnar varðandi þann samning sem nú hefur verið undirritaður. Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunnar ræddi um mikilvægi Verndar og benti á að Vernd skipti sköpum í öllu ferli afplánunnar og að samstarf Verndar og Fangelsimalastofnunnar hefði alltaf verið mjög gott. Ráðherran benti á mikilvægi samtaka á borð við Vernd þau væru afar mikilvæg í öllum stoðum samfélagsins og það bæri að hlúa að slíkum samtökum því án þeirra væri ekki hægt ná sama árangri.

Fyrir hönd okkar á Vernd þökkum við ráðherra og öðrum gestum kærlega fyrir heimsóknina og gagnlegt samtal um fangelsismál og mikilvægi afplánunar utan fangelsa. Það er mikilvægt fyrir samtökin að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi okkur með heimsókn sinni á Vernd og aðkomu að nýjum samningi. Samtökin óska Sigríður Á. Andersen velfarnaðar í embætti og hlökkum til nánara samstarfs á komandi árum.

Á mynd: Ragna Bjarnadóttir, Haukur Guðmundsson, Páll Winkel, Sigríður Á. Andersen, Elsa Dóra Grétarsdóttir, Þráinn Farestveit.

 

Guðþjónustu á páskadag

 

Sr. Hreinn Hákonarson prestur fanga var með guðþjónustu að vanda á páskadag í fangelsum sem liggja næst höfuðborgarsvæðinu. Dagurinn var tekinn snemma og var fyrsta guðþjónustan í fangelsinu á Hólmsheiði en eftir það var haldið í opna fangelsið að Sogni í Ölfusi.

Þá var haldið að Litla-Hrauni þar sem flestir fangar voru og var þátttakan þar sérstaklega góð en um þrjátíu fangar komu til guðþjónustunnar þar.

 

 

 

Í för með Sr. Hreini var Hjalti Jón Sverrisson tónlistarmaður og guðfræðingur.

 

 

 

 

Þráinn Farestveit