Rekstur fangelsiskerfisins er nú kominn í fullan gang eftir áskoranir og vandræði vegna Covid-19 faraldursins. Fangelsin eru komin í nánast fulla nýtingu og hafa aldrei fleiri afplánað fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu en í dag eða 210 einstaklingar. Þegar höft voru hvað mest var nauðsynlegt að skipta stærri fangelsum upp í sóttvarnarhólf sem dró verulega úr nýtingarmöguleikum auk þess sem nánast allir vinnustaðir í samfélagsþjónustu lokuðu eða drógu verulega úr starfsemi. Allt hefur þetta gengið vel og er ástæða til að hrósa starfsfólki, skjólstæðingum og öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg við að reka fullnustukerfið á erfiðum tímum, allt án þess að smit bærist í einstakar einingar kerfisins.
Framundan er að létta enn frekar á höftum sem enn eru til staðar en miðað við litla útbreiðslu veirunnar á landinu er líklegt að á næstunni geti allt fullnustukerfið starfað nánast eins og í venjulegu árferði. Þó er nauðsynlegt að allir haldi vöku sinni og sinni persónubundnum sóttvörnum eins og gert hefur verið með góðum árangri til þessa.
Elsa Bára Traustadóttir, Sigurður Örn Hektorsson, Arndís Vilhjálmsdóttir, Helena Bragadóttir, Þráinn Farestveit
Geðheilbrygðisteymi fangelsana heimsækir Vernd
Geðheilbrigðisteymi fangelsanna heimsótti Vernd í dag. Þráinn Bj. Farestveit framkvæmdastjóri og Bjarni Einarsson forstöðumaður tóku á móti gestum og fóru yfir hlutverk og tilgang þessa fullnustuúrræðis, sem er mikilvægur liður í aðlögun dómþola að samfélaginu á ný. Tilgangur heimsóknarinnar var upplýsa og miðla fræðslu um úrræði Verndar einnig að gera frekara samstarf mögulegt. Þá var rætt um samfellu fullnustunnar og hvernig koma megi í veg fyrir að tappar myndist í færslum á milli úrræða sem í boði eru. Þá voru starfsmenn Verndar upplýstir um meginn tilgang geðheilbrigðisteymis og markmið. Þá voru fulltrúar Fangelsismálastofninnar einnig á fundinum Brynja Rós Bjarnadóttir, Dögg Hilmarsdóttir og Henríetta Ósk Gunnarsdóttir. Þá var heimili Verndar skoðað.
Geðheilsuteymi fangelsa hefur starfað í eitt ár sem stendur og er verkefni sem mun standa í eitt ár til viðbótar reynslu og er á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem býður föngum upp á meðferð við geðheilbrigðisvanda svo sem ADHD. Meðferðin sem boðið er upp á er fjölþætt, boðið upp á samtalsmeðferðir og lyf ef þarf. ADHD-lyf hafa í langan tíma verið bönnuð í fangelsum en talið er að draga megi úr endurkomum í fangelsi með notkun þeirra.
Eftir að Alþjóðapyntinganefndin gerði úttekt á geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum á Íslandi var ljóst að geðheilbrigðisþjónustu var verulega ábótavant. Í framhaldinu var farið í hugmyndavinnu og geðheilsuteymi fangelsanna sett á stofn á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem veita þjónustu í öllum fjórum fangelsunum; Hólmsheiði, Litla-Hrauni, Sogni og Kvíabryggju.
Fangelsismálastofnun ríkisins
Í ljósi þess að Almannavarnir hafa lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19 veirunnar þá virkjast einnig neyðarstig viðbragðsáætlunar fangelsanna
Á neyðarstigi er gripið til róttækra aðgerða í fangelsunum sem eru afar íþyngjandi fyrir alla hlutaðeigandi, en aðgerðirnar eru nauðsynlegar og farið í þær til að tryggja öruggan rekstur fangelsanna.
Þær aðgerðir sem snúa að föngum og aðstandendum þeirra eru eftirfarandi:
Allar heimsóknir til fanga eru felldar niður að svo stöddu. Daglega er það endurskoðað hvort það ástand varir áfram.
Allar aðrar gestakomur hvort sem það eru AA menn, sponsorar, námskeiðshaldarar, skemmtikraftar eða annað sambærilegt er stopp þar til annað er ákveðið.
Fyrirhuguðum dagsleyfum og skammtímaleyfum fanga er nú þegar frestað.
Fangar eru ekki fluttir á milli fangelsa nema í ítrustu neyð.
Daglega endurskoðar yfirstjórn Fangelsismálastofnunar þessar aðgerðir og metur það hvort tilefni sé til að grípa til frekari aðgerða eða hvort unnt sé að aflétta einhverjum þeirra.
Mikilvæg Afstaða til fimmtán ára
Fimmtán ár eru í dag síðan hópur fanga á Litla-Hrauni tók sig saman og stofnaði félagið Afstöðu á grundvelli heimildar í lögum þess efnis að fangar geti kosið sér talsmenn til að vinna að málefnum fanga og koma fram fyrir þeirra hönd. Afstaða hefur frá upphafi sinnt því grunnhlutverki afalúð en á liðnum árum hefur orðið mikil útvíkkun á umfangi starfseminnar og verkefnum samhliða fjölgað gríðarlega.
Guðmundur Ingi Þóroddson formaður Afstöðu
Árangurinn af starfinu er ótvíræður og sýnir sig kannski best í auknu og nánu samstarfi með fangelsismálayfirvöldum, sveitarfélögum og ráðuneytum. Pyntinganefnd Evrópuráðsins fundaði með Afstöðu í fyrravor og sögðu nefndarmenn að félagið væri einstakt, allavega í Evrópu ef ekki á heimsvísu. Það að fangar hafi myndað félag sem hafi raunverulegt vægi í stjórnkerfinu sætir því tíðindum og komust ábendingar Afstöðu inn í skýrslu pyntinganefndarinnar sem skilað var til stjórnvalda.
Umræddur fundur er aðeins lítið dæmi af þeim fjölmörgu verkefnum sem Afstaða tókst á hendur í fyrra en sjálfboðaliðar félagsins standa í ströngu alla daga. Laust á litið leituðu nærri 800 einstaklingar til félagsins á árinu 2019 og úrlausnarefnin voru margvísleg. Í seinni tíð eru það nefnilega ekki eingöngu fangar sem leita til Afstöðu heldur ekki síður aðstandendur, tilvonandi og fyrrverandi fangar. Velferðarmálin eru ofarlega á baugi og sýnir sig kannski helst í því að bæði velferðarnefnd Reykjavíkurborgar og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hafa nýverið ákveðið að styrkja Afstöðu til áframhaldandi góðra verka í málaflokknum.
Því skal haldið til haga að á fimmtán ára starfstíma Afstöðu er þetta fyrsti styrkurinn sem ráðuneyti veitir félaginu, þrátt fyrir fögur fyrirheit frá þeim fleirum. Jafnframt hafa önnur sveitarfélög en Reykjavíkurborg hafnað styrkbeiðnum, þrátt fyrir að félagið veiti íbúum þess nauðsynlega aðstoð. Afstaða horfir björtum augum á framtíðina og markmiðið er að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum. Enn óskar félagið þess að komast á fjárlög enda væri þá hægt að renna styrkari stoðum undir reksturinn og koma sérfræðingum, félagsfræðingum og sálfræðingum í hlutastörf en sem stendur kaupir Afstaða slíka þjónustu dýrum dómum.
Á meðal þeirra mála sem eru í forgrunni á afmælisárinu má nefna atvinnuþátttöku fyrrverandi fanga og húsnæðismál. Afstaða hefur átt fundi með yfirvöldum og einkaaðilum vegna þessara mála og horfir vonandi til betri tíðar í málaflokkunum. Þá stefnir félagið á að auka enn samskipti við félagsþjónustur sveitarfélaganna og efla tengsl við sérfræðinga á sviði fangelsismála og heilbrigðis- og velferðarmála. Afstaða hefur á undanförnum árum fest sig í sessi og sinnir mikilvægu starfi. Þess vegna vonumst við til þess að mæta meiri velvilja hjá hinu opinbera þegar kemur að fjárveitingum til starfseminnar.
Vernd tekur undir það að Afstaða hafi á undanförnum árum látið til sín taka og oft á tíðum hefur Afstaða hreyft við viðhorfum hins opinbera og almennings til málefna fanga að eftir því hefur verið tekið. Vernd fangahjálp hefur átt náið og farsælt samstarf við Afstöðu og óskar samtökunum til hamingju með 15 ára starfsafmælið
Þráinn Farestveit
Framkvæmdarstjóri
Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur skipað sr. Sigrúnu Óskarsdóttur sem fangaprest þjóðkirkjunnar. Hún er fyrsta konan sem gegnir því starfi en áður hafa þrír karlmenn sinnt því að því er segir á vef kirkjunnar. Sérstakt fangaprestsembætti var sett á laggirnar um áramótin 1970. Átta hafi sótt um starfið en skipað er í það til fimm ára.
sr. Sigrúnu Óskarsdóttur
Sigrún er fædd í Reykjavík árið 1965. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1985, guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1991 og síðar sálgæslunámi frá Loviseninstituttet í Ósló. Sigrún var vígð árið 1991 til Laugarnessprestakalls sem aðstoðarprestur og leysti af sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum um hríð.
Þá var Sigrún framkvæmdastjóri Æskulýðssambands kirkjunnar i Reykjavíkurprófastsdæmum frá 1994-1995, prestur í norsku kirkjunni 1996-1997 og ráðin síðan sem prestur íslenska safnaðarins í Ósló frá 1997 til 2001. Hún var skipuð prestur í Árbæjarsókn í Reykjavík árið 2001 og lét af þeim störfum árið 2015. Undanfarin ár hefur hún verið starfsmaður Útfararstofu kirkjugarðanna.
Vernd fangahjálp óskar Sigrúnu innilega til hamingju með stafið og að samstarf fangahjálparinnar og fangaprests verði innilegt og farsælt eins og verið hefur.