Páll Winkel nýr fangelsismálastjóri

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði í dag Pál E. Winkel aðstoðarríkislögreglustjóra í embætti forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Páll tekur við embættinu af Valtý Sigurðssyni sem skipaður var í embætti ríkissaksóknara á dögunum. Þrír sóttu um embætti fangelsismálastjóra, Páll, Erla Kristín Árnadóttir, lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, og Halldór Frímannsson, lögmaður á fjármálasviði Reykjavíkurborgar.

kvíabryggja í fréttum

Grunur vaknaði á dögunum um að kynferðisbrotamaður sem situr inni á Kvíabryggju hefði hringt í fórnarlamb sitt úr fangelsinu og ógnað því. Þolandi gerði lögreglu viðvart og Fangelsismálastofnun rannsakaði málið í kjölfarið. Ekki þótti sannað að símtalið hefði komið úr síma geranda og því var málið látið niður falla.

Föngum á Kvíabryggju er heimilt að hafa farsíma frá kl. 8 til 23, en þeir eru skráðir. Notkun þeirra er þó ekki háð eftirliti en misnotkun þeirra getur varðað brottflutningi yfir í annað fangelsi. Samkvæmt heimildum 24 stunda er afar auðvelt að smygla óskráðum farsímum, sem og öðrum hlutum, inn í fangelsið.

Kvíabryggja er skilgreind sem opið fangelsi. Þar er öryggisgæsla í lágmarki og fangar njóta ákveðins frelsis umfram þá sem vistast í lokuðu fangelsi. „Þeir sem fá að afplána á Kvíabryggju eru þeir sem við teljum best treystandi til að fara eftir þeim reglum sem þar eru í gildi," segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun. „Það er til lítils að vista þar menn sem við teljum að muni flýja við fyrsta tækifæri, enda er auðvelt að flýja þaðan." mbl frétt

Menntun leið til betrunar

Rúmur helmingur íslenskra fanga er með grunnskólapróf eða minni menntun. Þetta kemur fram í samnorrænni rannsókn um menntun, menntunaraðstæður og námsáhuga á meðal fanga á Norðurlöndum sem Helgi Gunnlaugsson og Bogi Ragnarsson kynntu á Þjóðarspeglinum, félagsvísindaráðstefnu Háskóla Íslands, í gær.
Þeir fangar sem leggja stund á nám eru ólíklegri en aðrir fangar til að lenda aftur í fangelsi, samkvæmt erlendum rannsóknum. Þar með er menntun þeirra mikilvægur liður í því að draga úr ítrekunartíðni afbrota.
Magnús Einarsson, fangi og nemi á Litla-Hrauni, telur að of mikil áhersla sé lögð á bóknám í kerfinu. Hann segir marga samfanga sína vera mikla verkmenn og því aðstöðuleysi til fulls verknáms í fangelsum slæmt. „Ef fangelsisvistin á að vera til betrunar þá þarf að vinna með mönnum. Það er margt sem hér þarf að bæta bæði varðandi menntun og sálfræðiþjónustu til að svo geti orðið," segir Magnús.
Þegar rannsóknin var gerð lagði þriðjungur fanga stund á nám, þar af flestir á framhaldsskólastigi. Þó yfirleitt sé þar um fjarnám að ræða eru dæmi þess að vistmenn á Litla-Hrauni hafi fengið að stunda staðbundið nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands, að sögn Inga S. Ingasonar, kennslustjóra á Litla-Hrauni.
24Stundir

Rimlar hugans

Skáldsagan “Rimlar hugans” er lýsandi fyrir þær spurningar sem stór hópur manna reynir að svara um upphaf og endi á ógæfu og þrengingum í lífi sínu. Hér er á ferðinni þrungin frásögn úr kolsvörtu djúpi mannlegs breyskleika, þar sem ást og veikleikar spila á strengi. Þar sem fíknisjúkdómur sverfur til stáls, en gerir ekki upp á milli manna, stöðu þeirra né menntunar. Þegar mennirnir hittast fyrir tilviljun ( eða var það tilviljun ) þá hafa tveir ólíkir menn farið sömu leið til að finna frelsið og það eftir þrúgandi uppgjör við sjálfan sig. Einar Már Guðmundsson tjáir með snilldarlegum hætti gagnrýni á sjálfan sig,  á samtíðarmenn sína og blindu þeirra á eigin ágæti. Hér fer saman skáldskapur sem er í raun sannleikur,  þar sem persónur bókarinnar reyna að byggja framtíð sína á reynslu úr fortíð sinni, í von um frelsi. Bókin er  í senn kómísk og grafalvarleg, fléttar atburðarásir sem í fyrstu virðast ekkert eiga sameiginlegt.
 
Þráinn Bj. Farestveit

http://www.forlagid.is/Forsida/Article.aspx?id=3541

Veistu hvað er í húfi ?

Vernd fangahjálp hefur verið hluti af samstarfsráði sem vinnur að forvarnastarfi gegn áfengis- og vímuefnaneyslu sem er liður í að skapa börnum þroskavænleg skilyrði. Með því að styðja börn og ungmenni í að hafna neyslu áfengis og annarra vímuefna stuðla foreldrar að velferð þeirra og lífshamingju.

Í forvarnastarfi er lögð höfuðáhersla á að ná til barna og unglinga í ljósi þess að í æsku er lagður grunnur að framtíð hvers einstaklings. Þá mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á ævinni. Ungt fólk er veikara fyrir gagnvart neyslu vímuefna en fullorðnir og rannsóknir sýna að því seinna sem ungt fólk byrjar neyslu áfengis og tóbaks því minni líkur eru á að það leiðist í neyslu vímuefna, hætti í skóla eða lendi í öðrum erfiðleikum. Þá verður að hafa í huga að börn og ungmenni eru berskjölduð fyrir áróðri og hvatningu til neyslu áfengis og annarra vímuefna.
Með fræðslu, upplýsingastarfi og hvatningu til foreldra um mikilvægi og markmið forvarnastarfs er leitast við að sporna gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.