Fangafjöldi í heiminum

Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í World Prison Population List sem gefinn er út af King´s College í London eru yfir 9 milljónir manna vistaðir í fangelsum í heiminum. Nærri helmingur af þessum fjölda er í eftirtöldum löndum: Bandaríkjunum (2,09 milljónir), Kína (1,55 milljónir fyrir utan gæsluvarðhaldsfanga og "administrative detention") og Rússlandi (760 þúsund).

Bandaríkin eru með hæsta fangafjölda miðað við íbúafjölda eða 714 per 100.000 íbúa, næstir í röðinni eru Hvíta Rússland, Bermúda og Rússland sem öll eru með 532 fanga per 100.000 íbúa, Palau með 523, Jómfrúreyjar með 490, Turkmenistan með 489, Kúba með 487, Surinam með 437, Cayman eyjar með 429, Belize með 420, Úkraína með 417, St Kitts og Nevis með 415, Maldavíu eyjar, S-Afríka með 413 og Bahama með 410.

Fram kemur að 58% þeirra landa eða svæða sem eru á listanum hafa fangafjölda sem er undir 150 per 100.000 íbúa. Þar á meðal er Ísland sem var með 39 fanga per 100.000 íbúa 1. september 2004 sem var viðmiðunardagur Íslands á listanum. Þess er getið að ekki voru fáanlegar tölur frá 11 löndum og að þær væru ekki frá sama tíma. Með vísan til þess og fleiri þátta sem eru mismunandi eftir löndum ber að fara gætilega varðandi samanburð. Þrátt fyrir þessar takmarkanir gefa tölurnar ákveðnar vísbendingar um fangafjölda.

Fangafjöldi fer hækkandi í mörgum heimshlutum og ef miðað er við fyrri lista hefur fangafjöldinn hækkað í 73% þeirra landa sem eru á listunum (í 64% landa í Afríku, 79% í Ameríku, 88% í Asíu, 69% í Evrópu og 69% í Eyjaálfu). Sjá nánar:

World Prison Population List (sixth edition)

World Prison Population List (seventh edition)

1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007

Meðaltalsfj.allra

fanga í fangelsum

á Íslandi á dag

pr. 100.000 íbúa 46,2 41,1 39,9 33,8 32,6 37,4 36,0 39,8 40,9 38,7 38,3 38,43


Formleg opnun Fangelsisins Akureyri

Fangelsið Akureyri var formlega opnað í dag 7. ágúst eftir gagngerar endurbætur. Þar með lauk öðrum áfanga í áætlun um endurnýjun og uppbyggingu fangelsa í landinu, sem mótuð hefur verið af dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fangelsismálastofnun.
Allur aðbúnaður í fangelsinu er góður og í samræmi við nútímakröfur. Sex fangaverðir starfa í fangelsinu og hefur stöðugildum verið fjölgað um tvo. Eftir endurbætur er unnt að vista 10 fanga í fangelsinu, þar af eru tvö rými sem geta hýst kvenfanga. Í fangelsinu eru vistaðir fyrirmyndarfangar, enda stundi þeir vinnu eða nám í fangelsinu auk þess skulu fangar taka þátt í endurhæfingaráætlun. Fangar sjá að mestu um sig sjálfa, þ.e. elda, þrífa, þvo þvott og þjálfast í öðru sem tengist almennri lífsleikni. Þar með koma þeir betur undirbúnir út í samfélagið að lokinni fangavistinni og jafnframt er dregið úr líkum á frekari afbrotum síðar.
 
Frétt: þráinn Bj. Farestveit


Fundur á Litla-Hrauni

Fundur um samvinnu Almannavarna og fangelsisyfirvalda vegna jarðskjálftans 29. maí 2008 var haldinn á Litla-Hrauni sl. miðvikudag. Jafnframt var í gær haldinn fundur með aðstoðarmönnum dóms- og menntamála um ýmis málefni m.a. afleiðingar jarðskjálftans, menntunarmál fanga, stöðu geðsjúkra sakhæfra fanga o.fl.
 
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi fundaði á Litla-Hrauni sl. miðvikudag ásamt fulltrúum fangelsisyfirvalda. Fundurinn var haldinn að beiðni forstjóra Fangelsismálastofnunar en fundarefnið var samvinna Almannavarna og fangelsisyfirvalda vegna jarðskjálftans 29. maí sl. Fundinn sátu forstjóri Fangelsismálastofnunar, Páll E. Winkel, Halldór Valur Pálsson, fulltrúi Fangelsismálastofnunnar, Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður, Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, auk Margrétar Frímannsdóttur, forstöðumanns Litla-Hrauns og Jóns Sigurðssonar, deildarstjóra.

Heimsókn adstodarmanna dóms- og menntamalaradherra á Litla-Hraun 26. juni 2008. Þá var jafnframt haldinn fundur á Litla-Hrauni í gær þar sem mættu Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Erlendur S. Baldursson aðstoðarmaður forstjóra Fangelsismálastofnunar, Þórir Hrafnsson aðstoðarmaður dómsmála-ráðherra, Skúli Gunnsteinsson lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Arna Hauksdóttir, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Örlygur Karlsson, skólastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands og Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns. Gestir skoðuðu fangelsið og að því loknu var fundað um öryggismál, menntunarmál, stöðu geðsjúkra sakhæfra fanga, afleiðingar jarðskjálftans og önnur málefni fangelsiskerfisins


Fjárlaganefnd Alþingis

Fjárlaganefnd Alþingis heimsótti Fangelsið Litla-Hraun í dag. Forstjóri Fangelsismála-stofnunar, Páll E. Winkel og forstöðumaður Fangelsisins Litla-Hrauni, Margrét Frímanns-dóttir, funduðu með nefndarmönnum og sýndu þeim fangelsið.
 

Á fundinum var farið yfir þau mál sem efst eru á baugi á Litla-Hraun svo sem uppbyggingu fangelsisins. Fjárlaganefnd óskaði eftir að fá að heimsækja fangelsið.


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 5. júní kl.18:00

( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 

Dagskrá:


1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.


Samvinna dóms- og kirkjumálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um starfrækslu meðferðargangs á Litla-Hrauni

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, staðfestu í dag að ráðuneytin munu hafa með sér samstarf um að fjármagna rekstur svokallaðs meðferðargangs í Fangelsinu Litla-Hrauni.

Ráðuneytin munu ganga frá sérstöku samkomulagi sín á milli um fjármögnunina sem nemur 7,5 milljónum króna fyrir hvort ráðuneyti, samtals 15 milljónir króna það sem eftir er ársins 2008. Með þessari fjármögnun er rekstrargrundvöllur meðferðargangsins tryggður.

Samhliða þessum samningi mun Fangelsismálastofnun skilgreina markmið og árangursmælingu verkefnisins.

Þá verður sett á laggirnar samráðsnefnd ráðuneytanna sem mun vinna að heildarstefnumótun í þessum málum.


Sameiginleg æfing sérsveitar fangavarða á Litla-Hrauni og lögreglumanna frá embætti lögreglustjórans á Selfossi

Fangelsismálastofnun vinnur að því að gera sérsveit fangavarða enn betur í stakk búna fyrir þau krefjandi verkefni sem upp geta komið í fangelsum. Þann 12.4.2008 var haldin sameiginleg æfing sérsveitar fangavarða á Litla-Hrauni og lögreglumanna hjá embætti lögreglustjórans á Selfossi.

Á æfingunni sem tókst mjög vel voru sett á svið atvik sem upp geta komið í fangelsum og grípa verður inn í bæði til að tryggja öryggi starfsmanna og fanga. Gott samstarf er við lögregluna á Selfossi og var æfingin m.a. liður í eflingu þess samstarfs.


Samband afbrota og umhverfis

Vernd vekur athygli á ráðstefnum eða fundi sem snerta málefni fanga og fangelsa með vissum hætti. Um að ræða morgunverðarfund fimmtudaginn 10. apríl, á Grand Hótel sem ber yfirskriftina: ,,Afbrot í auðugu samfélagi, samband afbrota og umhverfis". Félagsfræðingafélag Íslands stendur fyrir fundi þessum.

Fundurinn hefst kl. 8.00 f.h. Þátttökugjald er kr. 1.500. Best er að skrá sig með því að senda tilkynningu á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Þráinn Farestveit


Endurhæfing

Ekkki eru fyrirliggjandi upplýsingar um það hvort að brotamenn hér á landi komi frekar út sem betri einstaklingar eftir að hafa setið í tilteknum fangelsum. Málið er heldur ekki svo einfalt að hægt sé að fullyrða að einn staður sé betri eða verri en annar. Í þessu sambandi þarf að hafa nokkur atriði í huga.

Í fyrsta lagi kemur fram í upplýsingum um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna (Fangelsismálastofnun ríkisins, 2004) að tilgangur með rekstri fangelsa sé fullnusta refsidóma en ekki endilega að gera menn betri. Fangelsismálastofnun hefur þó einnig sett sér það markmið að draga úr líkum á endurkomum í fangelsi með því að leitast við að skapa föngum umhverfi og aðstæður sem hvetji þá til að takast á við vandamál sín.

Sama markmið á við um öll þau fimm fangelsi sem Fangelsismálastofnun ríkisins rekur og því ættu áhrif fangelsa að vera eins, sama hvar afplánað er. Svo þarf þó ekki að vera raunin enda eru fangelsin mjög ólík, til að mynda með tilliti til stærðar og þeirrar þjónustu sem í boði er. Einnig skiptir verulegu máli hvort munur er á því hversu lengi menn sitja inni að jafnaði og hversu langan brotaferil samfangar eiga að baki.


Sextán ára í Hegningarhúsinu

Hinn sextán ára gamli Stefán Blackburn, sem á fimmtudag var dæmdur í fjögurra ára óskilorðsbundið fangelsi, er sem stendur vistaður í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Dómurinn yfir honum er þyngsti óskilorðsbundni dómur sem svo ungur einstaklingur hefur hlotið hérlendis.

Samningur um vistun fanga undir átján ára aldri hefur verið í gildi milli Barnaverndarstofu og fangelsismálayfirvalda frá árinu 1998, en hann miðar að því að börn séu að jafnaði vistuð á meðferðarheimilum frekar en í fangelsum. Samkvæmt heimildum 24 stunda hafði Stefán þó áður verið vistaður á slíkum heimilum en þau treystu sér ekki til að taka við honum að nýju. Hann hefur því dvalið í fangelsi frá því að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í apríl í fyrra, þá fimmtán ára gamall.

Var líka á Kvíabryggju

Samkvæmt heimildum 24 stunda var reynt að vista Stefán um tíma í opnu fangelsi á Kvíabryggju en það þótti ekki gefa góða raun. Þá þykir heldur ekki hentugt að vista hann á Litla-Hrauni þar sem stór hluti þess hóps sem Stefán framdi sín afbrot í slagtogi við dvelur þar um þessar mundir.

Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segist ekki telja að skortur sé á úrræðum til vistunar fanga undir átján ára aldri og telur engar forsendur fyrir hendi til að setja upp sérstakt unglingafangelsi. Hann telur þó almennt að fangelsi séu ekki staður fyrir börn. „Oftast er enginn á þessum aldri í kerfinu hjá okkur þannig að þá yrðum við líklega að vista aðra afbrotamenn þar líka."

Í hnotskurn

Brotin sem Stefán var dæmdur fyrir framdi hann þegar hann var 14 og 15 ára gamall. Alvarlegast þeirra var árás á leigubílstjóra, en Stefán sló hann tvívegis í höfuðið með klaufhamri og reyndi í kjölfarið að ræna hann. Í dómi segir að árásin hefði hæglega getað leitt til bana bílstjórans. Stefán er í dag eini vistmaður íslenskra fangelsa sem er undir átján ára aldri.

frétt 24 stundir


Afplánun í fangelsum

Fangelsi er tiltölulega nýtt úrræði til lausnar á vanda vegna afbrota í samfélaginu. Franski þjóðfélagshugsuðurinn Michel Foucault hélt því fram að refsingar hafi áður fyrr beinst að líkamanum en síðan hafi sálin tekið við sem viðfang refsingarinnar. Þetta birtist okkur í margvíslegum líkamlegum refsingum fyrri tíma eins og húðstrýkingum, brennimerkingum og aflimunum en varðhald eða vistun til lengri tíma var fátíðara úrræði. Skógganga eða útlegð brotamanna tíðkaðist þó sums staðar, meðal annars hér á landi á þjóðveldisöld. Í dag er hins vegar algengara að dómþolar þurfi að verja fyrirfram skilgreindum tíma í vist eða gæslu bak við lás og slá og dýrmætur tími tapast því frá hringiðu samfélagsins á meðan.

Skipta má markmiðum fangelsa í fernt. Afplánun í fangelsi tekur brotamanninn úr umferð og hann getur þar af leiðandi ekki valdið öðrum borgurum tjóni á meðan. Fangelsisvist felur að auki í sér tilhlýðilega refsingu um leið og vistin er víti til varnaðar fyrir aðra í samfélaginu. Að síðustu felur fangavist í sér möguleika á endurhæfingu eða meðferð brotamannsins sem síðan getur snúið að nýju út í samfélagið sem breyttur og bættur þegn að aflokinni afplánun.


Tímabundin ráðstöfun að vista fanga saman í klefa


Sú ráðstöfun sem gripið hefur verið til á Litla-Hrauni, að vista fanga saman í klefa, er tímabundin að sögn Páls Winkel fangelsismálastjóra. Hann segir að það sé aðeins í fáum klefum sem þetta sé gert. Páll segir að þetta sé gert þar sem fangelsið á Akureyri sé lokað tímabundið vegna framkvæmda. Þeim framkvæmdum lýkur fljótlega og þá verða tiltæk að nýju tíu rými fyrir fanga í afplánun á Akureyri. Páll segir að þá verði ekki lengur þörf fyrir að vista fanga saman í klefa."Ástæðan fyrir því að gripum til þessarar ráðstöfunar var að tryggja að þeir sem eigi að afplána dóma geti hafið afplánun á réttum tíma," segir PállÍ yfirlýsingu á vef Afstöðu, félags fanga, segir að þetta fyrirkomulag bjóði heim kynferðisofbeldi. Yfirlýsinguna má lesa hér.Páll segir hins vegar að þeir fangar sem þurfi að deila klefa með öðrum séu vandlega paraðir saman til þess að sem minnstar líkur séu á árekstrum. Þá taki fangelsisyfirvöld einnig tillit til athugasemda frá föngum, finnist þeim öryggi sínu ógnað með þessari ráðstöfun.