Köllunin er mjög sterk

Fanga­prest­ur Þjóðkirkj­unn­ar, fór í guðfræði vegna þess að hún taldi það vera gott al­hliða nám en fann sterka köll­un og lít­ur á starf sitt sem al­gjör for­rétt­indi. Hún hef­ur kynnst starfi Sam­hjálp­ar frá nokkr­um hliðum og tók meðal ann­ars þátt í kvenn­a­starf­inu Dorkas, sem hafði mik­il áhrif á hana. Stein­gerður Stein­ars­dótt­ir ræddi við hana í Sam­hjálp­ar­blaðinu. 

Hvernig stóð á því að ung­ur guðfræðinemi fór á sam­kom­ur hjá Fíla­delfíu­kirkj­unni og hóf að vinna með kvenna­hópi inn­an Hvíta­sunnusafnaðar­ins?

„Sam­hjálp á alltaf stórt pláss í hjarta mínu,“ seg­ir hún. „Ég kem sveita­stelpa ofan af Lauga­vatni árið 1985 til að hefja nám í guðfræði í Há­skól­an­um. Ég vissi ekki hvað ég vildi og fannst námið fjöl­breytt og spenn­andi. Þá var ekki al­veg eins mikið í boði að fara í heims­reisu meðan maður hugsaði sig um, svo að mín heims­reisa varð guðfræðin. Þar kynnt­ist ég Gunn­björgu Óla­dótt­ur, en hún og fjöl­skylda henn­ar störfuðu hjá Sam­hjálp. Þegar við höfðum kynnst bet­ur bauð hún mér á sam­kom­ur og mér fannst þetta ótrú­lega spenn­andi, fram­andi og ger­ólíkt því sem ég hafði al­ist upp við. Stund­um hef ég sagt að ég hafi farið í guðfræði því það vantaði svo mikið í þenn­an þátt. Á Laug­ar­vatni var eng­in kirkja í minni æsku, mess­ur voru haldn­ar í barna­skól­an­um á stór­hátíðum og svo fermd­ist ég í Skál­holti. En allt trú­ar­líf var mjög hefðbundið og gam­aldags. Í sveit­inni var kirkju­kór og bóndi úr sveit­inni, hann Andrés á Hjálms­stöðum, var org­an­isti. Þetta hafði vissu­lega sinn sjarma og var held ég nokkuð hefðbund­in ís­lensk trú­ar­upp­lif­un. Á sam­kom­un­um var hins veg­ar mikið fjör, tromm­ur, bassi og gít­ar og fólk söng af hjart­ans lyst.

Í fram­haldi af því að ég fór á sam­kom­ur buðu Gunn­björg og Ásta Jóns­dótt­ir mamma henn­ar mér að koma á Dorkas-fund. Þeir voru haldn­ir einu sinni í mánuði og það sem ég upp­lifði þar hafði djúp áhrif á mig. Þetta var svo hlýtt, nota­legt og fal­legt sam­fé­lag. Í hópn­um voru alls kon­ar kon­ur. Kon­ur sem störfuðu hjá Sam­hjálp, kon­ur sem sóttu sam­komurn­ar, kon­ur úr Hvíta­sunnu­söfnuðinum og kon­ur sem höfðu farið í gegn­um ótalmargt og glímt við fíkn. Ásta var líka eins og mamma okk­ar allra sem tók­um þátt í þessu starfi, ráðagóð og hlý. Þarna voru kon­ur sem höfðu verið í fang­elsi, verið heim­il­is­laus­ar og lent í mikl­um hremm­ing­um. Þær gáfu svo mikið af sér. Það eru þess­ar sig­ur­sög­ur sem hvetja mig áfram í starfi. Það er svo mik­il­vægt að missa aldrei sjón­ar á því að við meg­um aldrei gef­ast upp á nokk­urri mann­eskju.

Við lás­um sam­an upp úr Biblí­unni og svo voru vitn­is­b­urðir og fyr­ir­bæn­ir. Ég segi al­veg full­um fet­um að þarna lærði ég fyrst að biðja upp­hátt með öðrum. Margt gott og gagn­legt lærði ég í guðfræðinni sem mér þykir ákaf­lega vænt um en að biðja upp­hátt fyr­ir öðrum lærði ég í Sam­hjálp. Það hef­ur reynst mér ákaf­lega vel í öllu mínu starfi. Ég fann að þetta var ekki neitt yf­ir­nátt­úru­legt eða skrýtið held­ur bara opið sam­tal við Guð, að biðja fyr­ir öðrum og fá fyr­ir­bæn­ir. Það hef­ur borið mig í gegn­um starfið alla tíð.“

 

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði.“ Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

Köll­un­in er mjög sterk

En svo varðst þú sókn­ar­prest­ur og hvað tók þá við?

„Ja, ég varð eig­in­lega alls kon­ar prest­ur,“ seg­ir Sigrún og bros­ir. „Ég vígðist tutt­ugu og sex ára til Laug­ar­nes­kirkju sem aðstoðarprest­ur, eins og það hét þá. Í dag heit­ir það bara prest­ur. Mjög fljótt fann ég köll­un til að starfa utan safnaðar­ins í sérþjón­ustu og fékk tæki­færi til að leysa af á Land­spít­al­an­um um tíma. Það sann­færði mig um að þetta vildi ég gera, svo ég fór út til Nor­egs og lærði sál­gæslu.

Við vor­um mun leng­ur en við ætluðum okk­ur í Nor­egi, sex ár. Þegar við kom­um heim varð ég prest­ur í Árbæj­ar­kirkju og var þar í fimmtán ár. Eft­ir það ætlaði ég að hætta að vera prest­ur og sagði starfi mínu lausu. Fór að reka versl­un og vann á út­far­ar­stofu en svo er það þessi köll­un, hún er mjög sterk og ég fann að mig langaði aft­ur til baka í prests­starfið. Mig langaði hins veg­ar ekki í hefðbundið safnaðarstarf, þannig að þegar starf fanga­prests var aug­lýst fann ég að þetta var það sem ég vildi.“

Þú byrjaðir hálfó­viss í guðfræðinni en fannst svo þessa sterku köll­un. Var ein­hver tíma­punkt­ur þar sem þú sann­færðist eða viss­ir að þetta væri það sem þú vild­ir?

„Ég var mikið á báðum átt­um,“ seg­ir hún. „Ég fann strax að mig langaði að halda áfram í nám­inu, bæði vegna þess að þetta var áhuga­vert og út af fé­lags­skapn­um, það var svo skemmti­legt fólk þarna. Það var eig­in­lega ekki fyrr en á síðasta ár­inu að ég fann sterkt að þetta væri það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið sann­færð um að lífið hef­ur upp á ótal mögu­leika að bjóða og ég vissi strax að þetta nám er það fjöl­breytt að það nýt­ist í margt. Ég sá fyr­ir mér að ég gæti farið að kenna, farið í ráðgjöf eða eitt­hvað slíkt. Tíðarand­inn var raun­ar ann­ar þá og ekki marg­ar kon­ur sem voru fyr­ir­mynd­ir í prests­starf­inu. Það er svo­lítið sú deigl­an líka og gerði starfið spenn­andi fyr­ir mér.“

Er þetta enn mikið karlastarf eða hef­ur það breyst?

„Þær ræt­ur eru mjög sterk­ar. Til að mynda áttaði ég mig ekki á því sjálf að gagn­vart mínu starfi sem fanga­prest­ur var til staðar ákveðið glerþak og marg­ir urðu mjög hissa og sum­ir jafn­vel reiðir þegar ég var ráðin. Ef eitt­hvert starf í kirkj­unni er frá­tekið fyr­ir karla er það þetta, var sagt, og það kom mér mjög á óvart þegar ég heyrði það. Hélt að það væri ekki leng­ur svo árið 2020. En það var ekki eins og ég væri fyrsta kon­an til að starfa í fang­elsi.“

Hrein og tær ein­lægni

„Sér­stak­ur fanga­prest­ur hef­ur verið starf­andi frá ár­inu 1970. Starfs­vett­vang­ur fanga­prests eru fang­els­in og þjón­usta við fanga, aðstand­end­ur þeirra og aðra er láta sig eitt­hvað varða um hag þeirra,“ seg­ir í starfs­lýs­ingu á vefn­um kirkj­an.is. Hvað finnst þér helst fel­ast í starf­inu?

„Lang­stærsti hlut­inn er sál­gæsla og sam­töl. Að fá að vera prest­ur með þetta er­indi í þessu starfi er al­gjör for­rétt­indi og líka að fá að koma þarna inn og fá að vera sam­ferða fólk­inu ein­hvern smá­spöl. Sum­ir vinna við að dæma og aðrir að greina en ég kem þarna og er bara sam­ferða stutt­an veg­spotta. Trú­in er auðvitað mitt leiðarljós en það er ekki þar með sagt að við séum alltaf að tala um trúna. Við töl­um al­veg eins um veðrið og lífið í allri sinni mynd.“

Hef­ur þú ein­hvern tíma haldið at­hafn­ir í fang­els­inu?

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði. Þær eru mjög vel sótt­ar og fólk er ekk­ert að velta fyr­ir sér trú­ar­deild­um eða öðru, það bara mæt­ir til að eiga sam­an góða stund. Er­indið er alltaf það sama en þetta er að sumu leyti ólíkt. Oft er þar meiri hreyf­ing á fólki út og inn en líka þessi djúpa ein­lægni sem ég tengi við Dorkas-hóp­inn, þessi hreina tæra ein­lægni í trúnni sem er svo fal­leg. En varðandi gift­ing­ar eða aðrar at­hafn­ir mæli ég með að fólk bíði nema um al­var­leg veik­indi eða eitt­hvað slíkt sé að ræða. Að eiga þann dag og þá stund í frels­inu skipt­ir svo miklu máli.“

Þakka Sam­hjálp lífs­björg­ina

Sérðu fyr­ir þér að halda áfram lengi í þessu starfi?

„Nei, ekki endi­lega. Það eru heil­mikl­ar fram­kvæmd­ir að fara í gang á Litla-Hrauni. Meðal ann­ars er verið að koma upp betri aðstöðu til að tala við fólk í ein­rúmi og mig lang­ar að vera með í þeim breyt­ing­um. Hvað sjálfa mig varðar held ég að ekki sé heppi­legt að vera allt of lengi í þessu starfi, en það eru ákveðnir þætt­ir sem mig lang­ar að sjá verða að raun­veru­leika áður en ég hætti.“

Sam­hjálp gef­ur öll­um föng­um á land­inu jóla­gjaf­ir. Hef­ur þú í starfi þínu orðið vör við viðbrögð við því?

„Sam­hjálp vinn­ur ein­fald­lega svo merki­legt starf. Í því sem að mér snýr er teng­ing­in við Kaffi­stof­una sterk. Starfið þar er lífs­björg fyr­ir svo marga. Við höf­um öll þess­ar grunnþarf­ir og ég heyri talað af svo mik­illi hlýju og virðingu um mót­tök­urn­ar þar. Svo eru auðvitað þau sem fá að ljúka afplán­un í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Fólk sem fer í meðferð þar fær að upp­lifa eitt­hvað al­veg sér­stakt. Það eru ýmis tengsl við fang­els­in og sum­ir fang­ar tala um Sam­hjálp sem al­gjöra lífs­björg. Ég finn líka að fólk sem vill fá fyr­ir­bæn kem­ur oft úr þessu um­hverfi og það er svo fal­legt,“ seg­ir Sigrún að lok­um.

Fundur félags- og vinnumarkaðsráðherra

Þráinn Farestveit framkvæmdastjóri Verndar fór á fund félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Á fundinum var farið yfir ýmis málefni Verndar og ráðherra kynnt stefna félagasamtakanna, saga og framtíðarsýn. Einnig var rædd sú breyting sem gerð var árið 2013 þar sem félagasamtökum var gert að leita eftir stuðningi til ráðuneyta í stað fjárlaganefndar eins og hafði verið í langan tíma. Einnig var farið yfir rekstrarfyrirkomulag Verndar og framtíðarhorfur.  Þá voru réttindi dómþola rædd og þar á meðal réttindi þeirra til atvinnuleysisbóta og greiðslur þeirra í atvinnutryggingarsjóð. Vernd hefur nú starfað í rúmlega 60 ár þar sem vegalausum og húsnæðislausum hefur verið veittur stuðningur. Allar götur frá stofnun samtakanna hefur hugmyndafræði Verndar verið sú að samtökin skyldu aðstoða hvern þann, sem tæki út refsingu eftir dómi. Honum skyldi hjálpað yfir fyrstu hindranir svo hann gæti aftur áunnið traust samfélagsins. Þá skyldi reynt að útvega honum húsnæði og vinnu og hvetja til sjálfshjálpar. Farið var yfir mikilvægi starfseminnar, forvarnagildi og mikilvægi þess að einstaklingar sem hljóta óskilorðsbundna dóma njóti samfellu í úttekt dóma. Það hljóti alltaf að vera vilji samfélagsins að árangur sé sýnilegur af starfsemi sem þessari og einstaklingurinn komi endurhæfður út í samfélagið eftir slíka vistun. Þá hafa samtökin verið fljót til að tileinka sér ný viðmið og stuðlað að nýjum hugtökum sem koma skjólstæðingum samtakanna vel. Við þökkum ráðherra fyrir að gefa sér tíma til að fara yfir málin með samtökunum og gagnlegt samtal um starfsemi Verndar og mikilvægi fullnustunnar utan fangelsa. Það er mikilvægt fyrir samtökin að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi á meðan heimsókninni stóð.

Vistmenn Verndar komnir í sóttvarnarhús

Smit kom upp á áfanga­heim­il­inu Vernd á laug­ar­dag­inn. Í kjöl­farið greind­ist annað smit og all­ir starfs­menn og vist­menn þurftu að fara í sótt­kví. „Þá var bara tek­in ákvörðun í sam­ráði við sótt­varna­yf­ir­völd að tæma Vernd og all­ir vist­menn­irn­ir fengu inni í far­sótt­ar­húsi á meðan starf­sem­in ligg­ur niðri,“ seg­ir Þrá­inn Bj. Farest­veit, fram­kvæmda­stjóri Vernd­ar. Er þetta und­an­tekn­ing frá reglu­gerð sem var breytt ný­lega af heil­brigðisráðherra á þann veg að ein­ung­is ein­angr­un­ar­gest­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­um, ekki þeir sem sæta sótt­kví. Vegna smit­anna var aft­ur á móti ekki hægt að halda starf­sem­inni gang­andi og því það eina í stöðunni að vist­menn­irn­ir fengju að dvelja í far­sótt­ar­hús­inu þangað til hún get­ur haf­ist að nýju en Þrá­inn býst við því að það verði eft­ir um það bil viku. Í fyrstu skimun komu ekki fram nein fleiri smit en þessi tvö. Aft­ur verður skimað síðar í vik­unni. Vernd átti að taka á móti nýj­um vist­mönn­um í vik­unni en ljóst er að það frest­ast líka.

„Þetta er sér­stakt en miðað við þá stöðu sem er í sam­fé­lag­inu var viðbúið að þetta gæti gerst.“

 

Frétt mbl

VOR-teymi í heimsókn

 

Arna Arinbjarnadóttir, Þorbjörg Valgeirsdóttir og Sara Ósk

Starfsfólk VOR-teymis Reykjavíkurborgar heimsóttu Vernd mánudaginn 14. júní í þeim tilgangi að styrkja samband og samvinnu við úrræði Verndar. Vernd hefur verið í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg í 60 ár. Farið var yfir hlutverk og tilgang Verndar og mikilvægi samtakanna. Samstarf Verndar og Reykjavíkurborgar hefur verið einstakt og farsælt í áratugi. VOR-teymið er vetfangs- og ráðgjafateymi sem er skilgreint sem færanlegt teymi skipað þverfaglegum hópi sérfræðinga sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefna og geðvanda. Veitir teymið einstaklingsmiðaða ráðgjöf og stuðning á meðan afplánun stendur, inni í fangelsum sem og utan fangelsa.

Það er ljóst að samvinna Verndar og VOR-teymis er mikilvægt og í raun hefur margt breyst til batnaðar eftir að teymið hóf störf. Rúmlega 60 % af skjólstæðingum Verndar eru með lögheimili í Reykjavík og hluti þeirra eru í mikilli þörf fyrir stuðning. Með tilkomu VOR-teymis hafa skjólstæðingar Verndar sem þegar eru í fangelsi betri aðgang að upplýsingum um framvindu sinna mála og hvaða möguleikar eru til staðar þegar þeir losna úr fangelsi.

Eftir hlé í nokkur ár fengu samtökin fulltrúa Reykjavíkurborgar skipaðan að nýju í húsnefnd Verndar sem voru mikil gleði tíðindi fyrir samtökin . En þær Íris Ósk Ólafsdóttir og Dóra Guðlaug Árnadóttir félagsráðgjafar Reykjavíkurborgar sitja nú húsfundi Verndar vikulega þar sem farið er yfir málefni og stöðu þeirra sem dvelja á Vernd og þá sem sækja um dvöl. Þær hafa yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum sem nýtist húsnefndinni vel.

Þú ert víst fangi

 

Vernd fangahjálp vekur hér með athygli á meinbug á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um málefni fanga og þeirra sem afplána refsingu á Íslandi sem kemur niður á mannréttindum þeirra og er þeim fjötur um fót. Réttindamál fanga og þeirra sem afplána refsingu virðast oft vera afgangsstærð og mikil þörf á að taka til endurskoðunar. Í þessu máli bendi ég á að hér er eingöngu verið að ræða hugtök og orðanotkun tengdum þessum málaflokki. Engin er fangi nema í fangelsi sé.

 

Hugtök

 

Vernd hefur barist fyrir því í langan tíma að notkun hugtaka um fullnustu refsinga taki breytingum í samræmi við breyttar útfærslur fullnustu. Ekki gangi að kalla einstaklinga sem eru að fullnusta dóma utan fangelsa fanga. Mjög víða í stjórnsýslunni eru settir varnaglar eða stofnanir neita að fylgja stjórnsýslulögum þar sem einstaklingar sem til þeirra leita eru samkvæmt þeirra túlkun enn fangar og séu þess vegna á ábyrgð Fangelsismálastofnunnar. Sveitafélög og stofnanir hafa þannig reynt að komast hjá þeim skyldum sem þau/þær bera gagnvart þessum einstaklingum. Til þess að hægt sé að átta sig á þessum mikla mun á því að geta yfir höfuð verið fangi eða einstaklingur sem er að ljúka fullnustu refsingar utan fangelsa set ég eftir farandi fram. Það er nauðsynlegt að orðið fangi sé tekið út úr textum stjórnsýslu/reglugerðum og lögum þar sem það á ekki við þannig að ekki sé hægt að brjóta á réttindum þeirra sem fullnusta dóma utan fangelsa eins og gert er með geðþóttaákvörðunum. Þetta á við einstaklinga sem að dvelja á Vernd, fara í meðferð, fullnusta á rafrænu eftirliti eða í samfélagsþjónustu. Oftar en ekki heyri ég í samtölum mínum við stofnanir, ráðuneyti, fagaðila sveitafélaganna þegar leitað er eftir þjónustu er spurt, er hann/hún ekki fangi eða fyrrverandi fangi þegar það á ekki við. Þessu verður að breyta þannig að réttur þeirra sé tryggður til jafns við aðra.

 

Vernd er ekki fangelsi

 

Vernd rekur áfangaheimili og hefur gert í 60 ár og er með samning við Fangelsismálastofnun á grundvelli 31. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Í umræðu um fangelsismál hefur því stundum verið haldið fram að Vernd sé fangelsi. Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga er ljóst að Vernd er ekki fangelsi í merkingu laganna. Lengi var deilt um réttindi dómþola á Vernd varðandi endurhæfingalífeyri og örorkustyrki. Samkvæmt úrskurði úrskurðanefndar velferðarmála mál 152/2009 gegn Tryggingastofnun ríkisins og niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga mál 146/2009 var niðurstaðan sú að einstaklingur sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða þegar afplánun lýkur fær örorkustyrk sinn í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti einstaklingur reglur og verði vistaður í fangelsi að nýju falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar. Vandamálið virðist því vera ruglingur með hugtök laganna, einkum tegund refsingar, afplánun og fangelsi, því samkvæmt lögunum er unnt að afplána fangelsisrefsingu á annan hátt en með vistun í fangelsi. Þá er hugtakanotkun laganna á skjön við daglegt mál og veldur það oft ruglingi.

 

Tímarammi

 

Ef málið er skoðað út frá tíma þá getur dómþoli verið í 30 mánuði utan fangelsa sé horft til þeirra sem lengstan tímann hafa. Á Vernd getur einstaklingur nú dvalið lengst í 18 mánuði og fer svo þaðan á rafrænt eftirlit í 12 mánuði. Það gefur auga leið að úrræðið sem er íboði er ætlað að gefa einstaklingum möguleika á að aðlagast samfélaginu að nýju í umhverfi þar sem boðið er upp á meðferð og endurhæfingu. En víða er pottur brotinn í lögum og reglugerðum. Ef skoðaðar eru reglur Vinnumálastofnunnar má sjá að í IX. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um tilvik sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 53. gr. segir: "Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu." Þessi lög eru einnig látin gilda um fullnustu rafræns eftirlits og dvalar á Vernd þó þeirra sé ekki getið í lögunum. Hér er eitthvað sem ekki gengur upp. Einstaklingur sem hefur verið á Vernd og verið í vinnu í allt að 18 mánuði en missir vinnuna er algerlega réttindalaus samkvæmt þessu. Honum er gert að greiða skatta og skyldur á meðan á dvöl stendur en öðlast ekkert nema uppsöfnuð réttindi. Í þessu dæmi hljótum við að vera sammála um að breytinga er þörf og að samfélagsþjónusta og vistun á Vernd eða fullnusta undir rafrænu eftirliti er ekki sambærilegt því að vera vistaður í fangelsi. Ég er nokkuð viss um, að við gerð þessara laga hafi löggjafinn ekki ætlað lögunum að hafa þessi áhrif. Samfélagsþjónustu sem getið er í lögunum hefur í flestum tilvikum mjög takmörkuð áhrifa á atvinnuþátttöku þeirra sem henni gegna enda um örfáa klukkutíma á viku að ræða. Það eitt og sér er gerir texta um samfélagsþjónustu 53. gr. nánast óskiljanlegan í því ljósi. Vernd bendir á að þegar dómþolar taka út refsingu utan fangelsa t.d. hjá Vernd, þurfa þeir að stunda vinnu, vera í starfsendurhæfingu og greiða fyrir húsnæði, fæði, heilbrigðisþjónustu o.s.frv., greiða skatta og útsvar af tekjum sínum og ber að framfæra sig sjálfa og fjölskyldur sínar nákvæmlega eins og aðrir íbúar sveitarfélaga. Einnig eru margir í virkri atvinnuleit á þeim tíma sem úttekt fer fram með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða dvöl á Vernd. En flestir eru þó í fullri vinnu.

 

Aðlögun

 

Mikilvægt er skera úr um það hvort einstaklingur sem velur þessa leið geti talist sviptur frelsi sínu í skilningi laganna eins og hann væri í fangelsi (fangi) og hvort opinberir aðilar geti og hafi það í sinni hendi að túlka réttindi þeirra sem til þeirra leita eftir geðþótta. Stimplun setur mark sitt á einstaklinga um aldur og ævi, það er ekkert sem réttlætir það að kalla einstaklinga sem ekki eru fangelsi í textum eða orðum, fanga. Það er algerlega óásættanlegt.

 

 

 

Þráinn Bj Farestveit