Fangar þurfa að deila klefa með öðrum föngum Skrifað

Skrifað af Afstaða - félag fanga

Í fangelsinu á Litla – Hrauni hefur verið gripið til þess ráðs að vista fanga saman í klefa þar sem fangelsið er nú yfirfullt. Sömu sögu er að segja frá öðrum fangelsum landsins. Þó hefur ekki verið gripið til þess ráðs að vista menn saman í klefa fyrir utan Hegningarhúsið í Reykjavík sem þjónar hlutverið móttökufangelsis. Þar eru menn vistaðir við þessar aðstæður í stuttan tíma. Sú starfssemi hefur verið á undanþágu í nokkurn tíma.
     Á meðan fangelsismálastofnun ríkisins virðist standa ráðþrota frammi fyrir aukningu refsivista fanga er það mat stjórnar AFSTÖÐU – félags fanga að þetta bjóði hættunni heim. Hætta á ofbeldi og þá kannski kynferðisleguofbeldi, sem ekki hefur verið mikið af í fangelsum landsins svo vitað sé, þó grunur um slíkt ofbeldi hafi vaknað á síðustu árum. Hér er um mikla afturför að ræða. Eineltisáætlun fangelsismálastofnunnar frá árinu 2004 er allgjörlega virt af vettugi, sem að auki skapar mun erfiðari starfsgrundvöll fyrir þá sem vinna í fangelsum landsins.


Nám fanga gegnir lykilhlutverki í endurhæfinu

Nefnd sem menntamálaráðherra skipaði til að vinna að stefnumótun í menntunarmálum fanga lítur svo á að nám í fangelsi, ásamt öðrum meðferðarúrræðum sem í boði eru, gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og bendir á að margar rannsóknir sýni fram á að menntun í fangelsi hafi fyrirbyggjandi áhrif.

Hún leggur því til að fangar verði hvattir til að nýta tímann í fangelsi til náms og þeim standi til boða kynning á námsmöguleikum, mat á fyrra námi, mat á raunfærni, áhugasviðsrannsókn, aðstoð við gerð námsáætlunar og við að skipuleggja frekara nám.


Börn og refsingar

Hvernig viljum við haga málum ungmenna sem hafa leiðst út í afbrot?

 
Morgunverðarfundur á Grand Hótel Reykjavík
 
 föstudaginn 25. janúar 2008 kl. 08:00-10:00.
 
Fundurinn er haldinn fyrir tilstilli samráðsnefndar um málefni fanga. Í nefndinni sitja fulltrúar frá: Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, Fangelsismálastofnun ríkisins, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Landlæknisembættinu, Rauða krossi Íslands, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Fangavarðafélaginu, fangapresti, Samhjálp og Vernd.
 
Fundarstjórn: Ellý A. Þorsteinsdóttir,
skrifstofustjóri, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
 
8:00-8:15 Skráning og morgunverður
8:15-8:20 Fundarstjóri kynnir efni fundar
8:20-8:35 Skilorðsbundin frestun ákæru
Ólafur Emilsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á
höfuðborgarsvæðinu.
8:35-8:50 Ungmenni í fangelsiskerfinu
Jódís Bjarnadóttir félagsráðgjafi hjá Fangelsismálastofnun.
8:50-9:05 Fangelsisvist eða meðferð?
Sveinn Allan Mortens uppeldisfræðingur, meðferðarheimilinu að Háholti.
9:05-9:20 “Vil bara fá minn dóm”
Halldóra Gunnarsdóttir og Guðrún Marinósdóttir hjá Barnavernd Reykjavíkur.
9:30-10:00 Umræður og fyrirspurnir
 
 Þátttökugjald og skráning
 • Vinsamlegast skráið ykkur á fundinn með því að senda tölvupóst á
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
 • Fyrirspurnum um morgunverðarfundinn skal beina til Halldórs V. Pálssonar á
sama netfang.
 • Þátttökugjald greiðist við inngang kr. 2.000, innifalið er morgunverður, kaffi/te og dagskrárgögn.


Gleymdist í fangelsi í 50 ár

Áttræður maður á Sri Lanka hefur verið látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið þar í fimmtíu ár án þess að réttað væri í máli hans. Þegar hann veiktist í síðasta mánuði og var fluttur á spítala kom í ljós hvers kyns var.
 
Maðurinn heitir D.P. James. Hann var handtekinn í ágúst 1958 fyrir að ráðast á föður sinn með hnífi og veita honum áverka. Hann var hnepptur í varðhald, síðan fluttur á geðsjúkrahús og síðan aftur í fangelsið - þar sem hann gleymdist.
 
Lögmaður James segir skjólstæðing sinn hafa orðið fórnarlamb skrifræðis. Hann hafi aldrei kvartað við yfirvöld vegna þess að hann hafi ekki þekkt rétt sinn, og ekkert vitað um lög. Nú yrði skaðabóta krafist.
 
frétt mbl.is


Fangahjálp í 45 ár

Um þessar mundir minnist fangahjálpin Vernd fjörutíu og fimm ára afmælis síns en hún var stofnuð 1. febrúar 1960. Það voru konur sem áttu stærstan þátt í því að fangahjálpinni var ýtt úr vör og munaði þar mestu um styrka forystu frú Þóru Einarsdóttur. Mikilvægt er að gæta ætíð að upphafinu og hafa göfug markmið frumherjanna að leiðarljósi í starfi Verndar.

 
Fangahjálpin Vernd hefur eins og nafnið ber með sér það m.a. að markmiði að liðsinna föngum svo þeir geti fótað sig betur úti í lífinu í lok afplánunar. Þess vegna hefur Vernd rekið eigið áfangaheimili nánast allt frá fyrstu tíð og til þessa dags í dag.


Áramótakveðja

Stjórn og starfsfólk Verndar sendir landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár með þökk fyrir samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

 


Páll Winkel nýr fangelsismálastjóri

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði í dag Pál E. Winkel aðstoðarríkislögreglustjóra í embætti forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Páll tekur við embættinu af Valtý Sigurðssyni sem skipaður var í embætti ríkissaksóknara á dögunum. Þrír sóttu um embætti fangelsismálastjóra, Páll, Erla Kristín Árnadóttir, lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, og Halldór Frímannsson, lögmaður á fjármálasviði Reykjavíkurborgar.


kvíabryggja í fréttum

Grunur vaknaði á dögunum um að kynferðisbrotamaður sem situr inni á Kvíabryggju hefði hringt í fórnarlamb sitt úr fangelsinu og ógnað því. Þolandi gerði lögreglu viðvart og Fangelsismálastofnun rannsakaði málið í kjölfarið. Ekki þótti sannað að símtalið hefði komið úr síma geranda og því var málið látið niður falla.

Föngum á Kvíabryggju er heimilt að hafa farsíma frá kl. 8 til 23, en þeir eru skráðir. Notkun þeirra er þó ekki háð eftirliti en misnotkun þeirra getur varðað brottflutningi yfir í annað fangelsi. Samkvæmt heimildum 24 stunda er afar auðvelt að smygla óskráðum farsímum, sem og öðrum hlutum, inn í fangelsið.

Kvíabryggja er skilgreind sem opið fangelsi. Þar er öryggisgæsla í lágmarki og fangar njóta ákveðins frelsis umfram þá sem vistast í lokuðu fangelsi. „Þeir sem fá að afplána á Kvíabryggju eru þeir sem við teljum best treystandi til að fara eftir þeim reglum sem þar eru í gildi," segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun. „Það er til lítils að vista þar menn sem við teljum að muni flýja við fyrsta tækifæri, enda er auðvelt að flýja þaðan." mbl frétt


Menntun leið til betrunar

Rúmur helmingur íslenskra fanga er með grunnskólapróf eða minni menntun. Þetta kemur fram í samnorrænni rannsókn um menntun, menntunaraðstæður og námsáhuga á meðal fanga á Norðurlöndum sem Helgi Gunnlaugsson og Bogi Ragnarsson kynntu á Þjóðarspeglinum, félagsvísindaráðstefnu Háskóla Íslands, í gær.
Þeir fangar sem leggja stund á nám eru ólíklegri en aðrir fangar til að lenda aftur í fangelsi, samkvæmt erlendum rannsóknum. Þar með er menntun þeirra mikilvægur liður í því að draga úr ítrekunartíðni afbrota.
Magnús Einarsson, fangi og nemi á Litla-Hrauni, telur að of mikil áhersla sé lögð á bóknám í kerfinu. Hann segir marga samfanga sína vera mikla verkmenn og því aðstöðuleysi til fulls verknáms í fangelsum slæmt. „Ef fangelsisvistin á að vera til betrunar þá þarf að vinna með mönnum. Það er margt sem hér þarf að bæta bæði varðandi menntun og sálfræðiþjónustu til að svo geti orðið," segir Magnús.
Þegar rannsóknin var gerð lagði þriðjungur fanga stund á nám, þar af flestir á framhaldsskólastigi. Þó yfirleitt sé þar um fjarnám að ræða eru dæmi þess að vistmenn á Litla-Hrauni hafi fengið að stunda staðbundið nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands, að sögn Inga S. Ingasonar, kennslustjóra á Litla-Hrauni.
24Stundir


Rimlar hugans

Skáldsagan “Rimlar hugans” er lýsandi fyrir þær spurningar sem stór hópur manna reynir að svara um upphaf og endi á ógæfu og þrengingum í lífi sínu. Hér er á ferðinni þrungin frásögn úr kolsvörtu djúpi mannlegs breyskleika, þar sem ást og veikleikar spila á strengi. Þar sem fíknisjúkdómur sverfur til stáls, en gerir ekki upp á milli manna, stöðu þeirra né menntunar. Þegar mennirnir hittast fyrir tilviljun ( eða var það tilviljun ) þá hafa tveir ólíkir menn farið sömu leið til að finna frelsið og það eftir þrúgandi uppgjör við sjálfan sig. Einar Már Guðmundsson tjáir með snilldarlegum hætti gagnrýni á sjálfan sig,  á samtíðarmenn sína og blindu þeirra á eigin ágæti. Hér fer saman skáldskapur sem er í raun sannleikur,  þar sem persónur bókarinnar reyna að byggja framtíð sína á reynslu úr fortíð sinni, í von um frelsi. Bókin er  í senn kómísk og grafalvarleg, fléttar atburðarásir sem í fyrstu virðast ekkert eiga sameiginlegt.
 
Þráinn Bj. Farestveit

http://www.forlagid.is/Forsida/Article.aspx?id=3541


Veistu hvað er í húfi ?

Vernd fangahjálp hefur verið hluti af samstarfsráði sem vinnur að forvarnastarfi gegn áfengis- og vímuefnaneyslu sem er liður í að skapa börnum þroskavænleg skilyrði. Með því að styðja börn og ungmenni í að hafna neyslu áfengis og annarra vímuefna stuðla foreldrar að velferð þeirra og lífshamingju.

Í forvarnastarfi er lögð höfuðáhersla á að ná til barna og unglinga í ljósi þess að í æsku er lagður grunnur að framtíð hvers einstaklings. Þá mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á ævinni. Ungt fólk er veikara fyrir gagnvart neyslu vímuefna en fullorðnir og rannsóknir sýna að því seinna sem ungt fólk byrjar neyslu áfengis og tóbaks því minni líkur eru á að það leiðist í neyslu vímuefna, hætti í skóla eða lendi í öðrum erfiðleikum. Þá verður að hafa í huga að börn og ungmenni eru berskjölduð fyrir áróðri og hvatningu til neyslu áfengis og annarra vímuefna.
Með fræðslu, upplýsingastarfi og hvatningu til foreldra um mikilvægi og markmið forvarnastarfs er leitast við að sporna gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.


Ofneysla áfengis

Lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Ísland segir ofneyslu áfengis  meðal íslenskra unglinga í framhaldsskólum vera mikið vandamál sem samfélagið verði að sporna við. Hún bendir á að tæplega 60% framhaldsskólanema á aldrinum 16-20 ára hafi verið hafa drukkin einu sinni eða oftar sl. 30 daga.
 
Helga Sif Friðjónsdóttir flutti erindi um þetta ráðstefnu um rannsóknir á hjúkrun, sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag og á morgun. Hún sagði í samtali við mbl.is að nauðsynlegt sé að taka á áfengis- og vímuefnaneyslu og ýmsum öðrum vandamálum sem unglingar glíma við, s.s. vandamál er varða geð- og
kynheilbrig ði.
 
Rannsókn Helgu byggir á gagnagrunni sem safnað var í íslenskum framhaldsskólum haustið 2004 og er í eigu Rannsókna og greiningar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að tíðni ofneyslu áfengis var 59,4% meðal þátttakenda. Þá var hægt að greina á milli þriggja ólíkra hópa í úrtakinu með tilliti til drykkjumynsturs.

Fyrsti hópurinn, eða um 50% af rúmlega 11.000 þátttakendum, varð tiltölulega sjaldan drukkinn, en drakk þá álíka oft bjór og léttvín.

Annar hópur samanstóð af 43% þátttakenda og var sá hópur í nokkuð mikilli áfengisneyslu. Ungmenni í þessum hóp drukku mun oftar bjór en fyrri hópurinn en tíðni léttvínsnotkunar hópanna var svipuð. Áfengisneysla seinni hópsins fór að mestu fram í partýum í heimahúsum og á vínveitingastöðum.

Þriðji hópurinn samanstóð af 7% þátttakenda þar sem tíðni ofneyslu áfengis var hæst í samanburði við hina hópana. Tíðni á neyslu bjór, léttvíni og landa var miklu hærri í þessum hópi samanborið við hina tvo hópana og fór áfengisneyslan fram í heimahúsum og á vínveitingastöðum sem og á skólaböllum.

Rannsóknin sýndi einnig að þriðji hópurinn, samanborinn við hina hópana tvo, hafði fleiri einkenni andfélagslegrar hegðunar sem bendir til þess að ungmenni í þessum hópi séu komin í alvarlegan sálfélagslegan vanda samhliða mikilli ofneyslu áfengis.