Málefni fanga undir 18 ára aldri

Á Íslandi er ekkert unglingafangelsi. Um vistun ungmenna undir 18 ára aldri er almennt farið eftir þeim ákvæðum sem gilda um vistun barna á meðferðarheimilum undir yfirumsjón Barnaverndarstofu.
Þegar fangelsismálastofnun berst dómur til fullnustu þar sem dómþoli er yngri en 18 ára og er dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi skal Barnaverndarstofu þegar í stað tilkynnt um það. Ber Barnaverndarstofu að kanna hvort að mögulegt er að dómþoli afpláni refsingu sína á meðferðaheimili á vegum stofunnar, enda liggi að jafnaði fyrir vilji hans til slíkrar afplánunar. Ef slík ráðstöfun kemur til greina skal Barnaverndarstofa afla afstöðu viðkomandi barnaverndarnefndar til málsins. Sama málsmeðferð skal viðhöfð þegar um er að ræða ungling sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald. Skal slík vistun framkvæmd í samráði við rannsóknaraðila málsins. Barnaverndarstofa velur tiltekið meðferðarheimili í hvert skipti og metur meðal annars hvort að ástæða sé til að viðkomandi einstaklingur fari í greiningar- og/eða meðferðarvistun á meðferðastöð ríkisins, Stuðla. Áður en að ákvörðun um slíka vistun fer fram skal liggja fyrir skriflegur samningur við fangann og forsjáraðila hans um vistun í meðferð í að minnsta kosti 6 mánuði óháð lengd refsitímans eða úrskurðs barnaverndarnefndar.

Fangelsið að Sogni


Fangelsið er skilgreint sem opið fangelsi en það felur í sér að engar girðingar eða múrar afmarka fangelsið og því þurfa fangar sem vistast þar að hegða sér á ábyrgan hátt og bera virðingu fyrir þeim reglum sem þar gilda. Aðbúnaður í fangelsinu er góður. Á Sogni er unnið eftir sérstaki umhverfisstefnu sem fangar taka virkan þátt í. Gert er ráð fyrir að vista 20 fanga á Sogni. Auk 18 herbergja eru þar viðtalsherbergi, setustofa, eldhús og borðstofa. 

Föngum er ætlað að stunda vinnu eða nám og við komu í fangelsið er hverjum og einum gert að skrifa undir samkomulag um vistunina. Fangar sjá sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju.  

Starfsmenn: Við Fangelsið að Sogni starfa samtals 8 fangaverðir undir stjórn Einars Vals Oddssonar, varðstjóra. Forstöðumaður er Margrét Frímannsdóttir.
 

Höfðingleg gjöf

 

Alþjóða Sam-Frímúrarahreyfingin á Íslandi gaf fangahjálpinni Vernd á dögunum hálfa milljón króna. Stjórn Verndar þakkar þessa gjöf og mun ákveða hvernig henni verður varið til að efla starfsemi fangahjálparinnar. Alþjóða Sam-Frímúrarahreyfingin barst til Íslands árið 1921 og er mannræktarfélag sem byggir á ýmsum siðum og táknfræði. Hreyfingin heimilar bæði konum og körlum þátttöku og leggur ríka áherslu á jafnrétti. Öllum er heimilt að gerast félagar án tillits til litarháttar, kynþátta eða trúarskoðana. Nánar er hægt að lesa um Alþjóða Sam-Frímúrarahreyfinguna á Íslandi á heimasíðu reglunnar: http://www.samfrim.is

 

Fangaverðir og lögregla æfa

FANGELSISMÁL Sérsveit fangavarða á Litla-Hrauni og lögreglumenn frá embætti lögreglustjórans á Selfossi héldu sameiginlega verklega æfingu fyrir helgi. FANGELSISMÁL Sérsveit fangavarða á Litla-Hrauni og lögreglumenn frá embætti lögreglustjórans á Selfossi héldu sameiginlega verklega æfingu fyrir helgi. "Æfingin gekk mjög vel en sett voru á svið tilvik sem komið geta upp í fangelsum þar sem nauðsynlegt er að grípa inn í atburðarás og tryggja öryggi starfsmanna fangelsa og fanga," segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Hann bætir við að sérsveitin hafi þessa vikuna verið við sérstakar æfingar en ákveðið hafi verið fyrir nokkru að efla hana og gera æfingar markvissari. "Við erum mjög ánægðir með samstarfið við lögreglustjórann á Selfossi en samstarf fangelsisyfirvalda og þess embættis hefur verið aukið að undanförnu, meðal annars í fíkniefnamálefnum," útskýrir forstjóri Fangelsismálastofnunar. "Samstarf Fangelsismálastofnunar við lögreglu er mjög mikilvægt og leggjum við áherslu á að auka það á öllum sviðum."

"Þetta hefur fyrst og fremst þá þýðingu að menn geta haft meiri kraft til að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis til dæmis í fangelsinu," segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi.- jss

frétt. fréttablaðið