Samkvæmt 27. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því að fullnusta allt að sex mánaða óskilorðsbundna fangelsisefsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundur og mest 240 klukkustundir.
Þegar um fangelsisrefsingu samkvæmt fleiri en einum dómi er að ræða má samanlögð refsing eigi vera lengri en sex mánuðir. Ef hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn má heildarrefsing samkvæmt dóminum eigi vera lengri en sex mánuðir.
Þegar dómþola er sent bréf þar sem hann er boðaður til afplánunar fylgja með upplýsingar um samfélagsþjónustu ásamt umsóknareyðublaði. Umsókn skal skila til Fangelsismálastofnunar eigi síðar en viku áður en hann á upphaflega að hefja afplánun samkvæmt bréfinu.
Skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita eru:
1. Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við Fangelsismálastofnun eigi síðar en viku áður en hann átti upphaflega að hefja afplánun fangelsisrefsingar samkvæmt boðunarbréfi.
2. Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað.
3. Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu. Áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu og þar með talið hvort líklegt er að hann geti innt hana af hendi skal fara fram athugun á persónulegum högum hans. Mæti dómþoli ekki til viðtals í þessu skyni skal almennt synja beiðni um samfélagsþjónustu.
4. Að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi.
Þegar fangelsisrefsing er fullnustuð með samfélagsþjónustu jafngildir 40 klukkustunda samfélagsþjónusta eins mánaðar fangelsisrefsingu. Hafi gæsluvarðhald komið til frádráttar fangelsisrefsingu skal taka tillit til þess við útreikning á fjölda klukkustunda.
Fangelsismálastofnun ákveður hvort fangelsisrefsing verði fullnustuð með samfélagsþjónustu eða ekki.
Ef umsókn um samfélagsþjónustu er synjað getur dómþoli kært þá niðurstöðu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Ef samfélagsþjónusta er samþykkt ákveður Fangelsismálastofnun hvaða samfélagsþjónustu dómþoli sinni í hverju tilviki. Sama gildir um á hve löngum tíma hún er innt af hendi, en sá tími skal þó aldrei vera skemmri en 2 mánuðir.
Samfélagsþjónusta skal bundin eftirfarandi skilyrðum:
1. Að dómþoli gerist ekki sekur um refsiverðan verknað á þeim tíma sem samfélagsþjónusta er innt af hendi.
2. Að dómþoli sæti umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákveður þegar samfélagsþjónusta er innt af hendi.
Enn fremur má binda samfélagsþjónustu eftirfarandi skilyrðum:
1. Að dómþoli hlíti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
2. Að dómþoli neyti ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna
Heimilt er, samkvæmt 30. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 að krefjast þess að dómþoli undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða þykir til. Synjun dómþola á slíkri rannsókn gildir sem rof á skilyrðum samfélagsþjónustu.
- - -
Áður en samfélagsþjónusta hefst er dómþola kynntar ítarlega þær reglur sem gilda um samfélagsþjónustu og staðfesting hans fengin á því að hann vilji hlíta þeim. Sama gildir um viðbrögð við brotum á þessum reglum.
Upphaf og eftirlit:
Þegar samfélagsþjónusta hefur verið veitt er dómþola kynnt og birt skírteini þar sem fram koma skilyrði fyrir veitingu samfélagsþjónustu. Dómþoli samþykkir skilyrðin með undirritun sinni. Í upphafi er gerð vinnuáætlun sem dómþola ber að fylgja. Fulltrúi fylgist reglulega með viðkomandi aðila og fer í heimsóknir á vinnustaði til að fylgjast með að staðið sé við vinnuáætlunina.
Rof á skilyrðum samfélagsþjónustu
Rjúfi dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu eða sinnir henni ekki með fullnægjandi hætti ákveður Fangelsismálastofnun hvort skilyrðum hennar skuli breytt, tími sem samfélagsþjónusta er innt af hendi skuli lengdur eða hvort fangelsisrefsing skuli afplánuð.
Nú er dómþoli kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað eða telst ekki lengur hæfur til að gegna samfélagsþjónustu eftir að ákveðið er að fullnusta fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu getur Fangelsismálastofnun þá ákveðið að ákvörðun um fullnustu með samfélagsþjónustu verði afturkölluð og að dómþoli afpláni refsinguna.
Þegar rof á skilyrðum samfélagsþjónustu eða meint afbrot er ekki alvarlegt eða ítrekað skal veita áminningu áður en ákveðið er að fangelsisrefsing skuli afplánuð. Ef ákveðið er að fangelsisrefsing skuli afplánuð skal reikna tímalengd eftirstöðva út með hliðsjón af þeirri samfélagsþjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi.
Þegar eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem að hluta hefur verið fullnustuð með samfélagsþjónustu, eru afplánaðar er heimilt að veita reynslulausn af eftirstöðvunum þannig að helmingur og tveir þriðju hlutar reiknist af óafplánuðum eftirstöðvum refsitímans.
Spurningar og svör varðandi samfélagsþjónustu í stað fangelsisrefsingar.