Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdarstjóri fangahjálparinnar Verndar, hefur starfað lengi með föngum og að málefnum þeirra. Þráinn telur einsýnt að heildarstefnu og heildarsýn skorti í málefnum fanga og þar með sjúkra fíkla.
„Opinberar tölur um hlutfall þeirra fanga sem haldnir er vímuefnafíkn eru í rauninni miklu lægri. En ég myndi telja að 80 til 90 prósent fanga séu haldnir vímuefnafíkn," segir Þráinn Bj. Farestveit „Stærsti hluti þeirra brota sem einstaklingar eru dæmdir fyrir til óskilorðsbundinna dóma tengjast með einum eða öðrum hætti notkun vímugjafa."
„Það þarf að stoppa þennan fíkniferil ef á að vera möguleiki á að hafa áhrif á brotaferil stórs hluta þessa fólks. Ef það er ekki gert eru líkurnar á áframhaldandi brotastarfsemi þess miklu meiri."
Þráinn nefnir einnig þann möguleika sem lengi hefur verið til staðar sem er sá að menn fari, í lok afplánunar, í meðferð á Vog og jafnvel í framhaldsmeðferð á Staðarfell.
Þráinn segir að samhliða því sem fangar eigi við áfengis- og vímuefnasýki að stríða séu önnur vandamál sem þjaka skjólstæðinga þeirra hjá Vernd og þá býsna fjölbreytt. Má þar helst nefna geðræn vandamál af ýmsum toga; hegðunarvanda, ADHD, athyglisbrest, lesblindu og/eða ofvirkni.
Hópur fanga á við eitthvað af ofangreindu að stríða, er greindur sem slíkur en stór hluti þeirra hefur aldrei fengið greiningu á þessum vanda.
Þráinn segir úrræði fyrir fanga í raun af skornum skammti, þeir njóta ekki sömu almennu þjónustu og aðrir borgarar, þeir hafa ekki eins greiðan aðgang að félagsþjónustu og geðheilbrigðsþjónustu, svo dæmi séu nefnd á meðan á afplánun stendur.
Áframhaldandi vímuefnanotkun standi í vegi fyrir bata og breytingu á lífi þessara einstaklinga. En þar geti ýmislegt annað spilað inn í svo sem aðrir sjúkdómar. Erfitt sé að meta þetta.
„Það er vitað mál að vímuefnanotkun er mjög víðtæk meðal fanga. Stór hluti fanga hefur verið í farvegi neyslu um áratuga langt skeið og margir fanganna enda neyslumynstur sitt í geðsjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum – sem er mjög hátt á meðal þeirra sem hlotið hafa óskilorðsbundna dóma."
„Fangar eiga sér fáa málsvara og þegar fordómar í garð minnihlutahópa eru ræddir standa fáir upp föngum til varnar – fordómar eru ríkir í þeirra garð. Þessu verður að breyta og samfélagið verður að sjá hag í lægri endurkomutíðni og að þyngri krafa eigi að vera á gæði afplánunar. Ég kalla eftir heildstæðri stefnu í þessum málaflokki, bæði aðgerðum er snúa að föngunum sjálfum sem og fjölskyldum þeirra."
Félagasamtökin Vernd, fangahjálp voru stofnuð 1. febrúar 1960 og hafa alla tíð rekið áfangaheimili í Reykjavík. Dvalartími fer eftir lengd dóma og er lengstur 12 mánuðir. Skilyrði vistarinnar eru ströng, að sögn Þráins, og þarf viðkomandi að hafa atvinnu, vera við nám eða í meðferð. Brottfall úr úrræðum Verndar er lágt eða um 10 prósent en helsta ástæða þess að menn lenda í klandri er einmitt vímuefnanotkun sem er brot á reglum Verndar.
Um starfsemi Verndar fara um 50 til 60 einstaklingar árlega. Ráðgjafi frá SÁÁ starfar á áfangaheimilinu. Frá árinu 1994 hafa farið rétt tæplega þúsund manns fengið þann möguleika að ljúka afplánun hjá Vernd: „Miklu minni líkur eru á því að þeir sem fara hér um hjá okkur komi til baka í fangelsin, endurkomutíðnin lækkar sé þessu úrræði beitt ," segir Þráinn.