Tifandi tímasprengja í fangelsunum

Rekstur fangelsa er liður í grunnþjónustu samfélagsins sem nauðsynlegt er að sé til staðar en óhætt er að segja að fangelsin hafi lítinn skerf fengið af góðærinu, áætlanir um byggingu nýs fangelsis hafa frestast ár frá ári og bráðabirgðaúrræði tafist.
 
Hegningarhúsið hefur verið rekið á undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum frá árinu 1998
 
Öll fangelsi á Íslandi eru nú yfirfull og ástandið viðkvæmt. Á LitlaHrauni sitja nú rúmlega 90 fangar, þrátt fyrir að þar sé aðeins gert ráð fyrir 77 föngum og í fyrsta skipti í sögu fangelsisins er því tvímennt í suma klefana.
 
Á sama tíma þurfa aðrir dæmdir menn að bíða mánuðum saman eftir að afplána refsivistina, á einu ári hefur boðunarlistinn lengst úr 140 manns í tæplega 250.
Allsherjarnefnd Alþingis skoðaði aðbúnað á Litla-Hrauni og Hegningarhúsinu í gær.
 
Ástandið er nú í raun þannig að ekkert má út af bregða til að veruleg vandræði verði. Ef lögreglan handtæki á morgun hóp manna fyrir gróft ofbeldisbrot væri bókstaflega hvergi pláss til að halda þeim.


 
„Í eðlilegu árferði á auðvitað ekki að vera 100% nýting á fangelsum en þannig er það í dag,“ sagði Páll Winkel fangelsismálastjóri þegar ástand fangelsisins á Litla-Hrauni var kynnt fyrir allsherjarnefnd Alþingis í gær.
 
„Það fer að bresta á að refsingar fyrnist þar sem menn hafa beðið of lengi, og sektarrefsingar eru þegar byrjaðar að fyrnast.“
 
Einangrunarklefar tvímenntir
 
Litla-Hraun er eina fangelsi landsins þar sem sá möguleiki er til staðar að aðskilja fanga eftir ástandi þeirra og eðli glæps. Þar vistast m.a. allir þeir sem eru sakhæfir geðveikir, þar sem sjúkrahúsin taka ekki við þeim.
 
„Við sitjum því uppi með ofsalega veika menn, en það er hvergi pláss til að fara með fanga ef eitthvað kemur upp á þar sem menn eru hættulegir sjálfum sér eða öðrum. Og þetta vita fangarnir, “ segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns.
 
Vegna þrengsla hefur verið gripið til þess að setja í almenna notkun einangrunarklefa á sérstökum öryggisgangi og eru þeir jafnvel tvímenntir. Ástandið er því afar viðkvæmt fyrir uppþotum eða árekstrum og þakkar Margrét það góðu samstarfi starfsfólks og fanga að til þess hafi ekki komið.
 
Tungumálaörðugleikar
 
Að meðaltali er fimmti hver fangi á Íslandi erlendur. Þetta hlutfall er þó jafnan hærra á Litla-Hrauni, þar hafa dvalist menn frá allt að 12 þjóðum í einu og flestir tala aðeins sitt eigið tungumál.
 
Samskipti geta því verið erfið en túlkaþjónusta er afar dýr kostnaðarliður og reiðir fangelsið sig því á heftið „Mál í myndum“ sem gefið var út af Landspítala.
 
Með því að benda á myndir geta fangarnir að einhverju leyti gert sig skiljanlega án túlks.
 
Í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg er ástandið enn verra.
 
Þar er fyrsta viðkoma erlendra afbrotamanna, sem margir hverjir koma hingað á fölsuðum skilríkjum gagngert til þess að brjóta af sér og hefur þeim fjölgað mjög að sögn Páls, eru nú 44 að meðaltali á ári en voru 3 fyrir 10 árum. „Nú erum við með þar á einum gangi sex útlendinga af ólíku þjóðerni við vitum bókstaflega ekkert um þá, ekki neitt.“ Samsetning fangahópsins á Íslandi hefur því tekið miklum breytingum á síðustu árum, hingað eru nú m.a. komnir hættulegir menn sem þurfa nánari gæslu en aðrir fangar.
 
Páll bendir hinsvegar á að á boðunarlista eru líka menn sem eru á áttræðis- og níræðisaldri en aðeins á Litla-Hrauni er hægt að skilja á milli þessara fanga.
 
„Í hinum fangelsunum ægir öllu saman. Hættulegir hópar og hættulausir, ungir sem aldnir, í neyslu og ekki, þetta eru hópar sem ekki er forsvaranlegt að hafa alla á sama stað. Þetta er bara tifandi tímasprengja og ég skil að það sé erfitt að bregðast við í kreppu, en þarna er raunveruleg þörf, núna.“
 
Nýtt öryggisfangelsi nauðsyn
 
Til að bregðast við plássleysinu stendur til að leigja húsnæði í grennd við Litla-Hraun sem hýst gæti 15-20 fanga til bráðabirgða.
 
Auglýst var eftir aðstöðu í haust og koma þrír staðir til greina en málið er enn til vinnslu. Þegar fjármagn er komið væri hægt að gera rýmin tilbúin á nokkrum vikum að sögn Páls. „Þetta er nauðsynlegt og leysir hluta vandans til bráðabirgða, en ekki þann hluta sem er erfiðastur og snýr að hættulegustu brotamönnunum, við getum ekki sett þá þarna. Til framtíðar þurfum við lokað öryggisfangelsi, það verður að gerast,“ segir Páll.
 
Bygging nýs öryggisfangelsis í Reykjavík hefur verið til umræðu í áratugi og samkvæmt langtímaáætlun stendur líka til að byggja við Litla-Hraun þar sem rúmlega 40 fangarými bættust við. Dregist hefur að þetta komist til framkvæmda en Páll segir það tæpast geta beðið lengur.
 
„Þegar þetta tvennt er frágengið eru fangelsismál á Íslandi orðin þannig að við getum borið okkar saman við hinn siðmenntaða heim, en núna getum við illa rekið þetta með sómasamlegum hætti.“
 
www.mbl.is