26. júní - aþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum
Verum vakandi - vakningaátak meðal foreldra um skaðsemi kannabis hefst á degi Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum – 26. júní 2010 en Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í desember 1987 að tileinka 26. júní ár hvert alþjóðlegri baráttu gegn fíkniefnum (International Day against Drug Abuse and Illicit Trafficking) til þess að vekja athygli á fíkniefnavandanum og hvetja til samstarfs í fíkniefnamálum. Í tilefni þessa dags í ár mun Samstarfsráð um forvarnir (SAMFO) í samstarfi við nítján félagasamtök hefja sameiginlegt vakningarátak á meðal foreldra um skaðsemi kannabisefna undir heitinu „Verum vakandi“. Með átakinu vilja aðstandendur þess fræða foreldra og aðra uppalendur um kannabis, skaðsemi þeirra, einkenni kannabisneyslu og forvarnir. Með þessu vilja aðstandendur átaksins vekja athygli á og bregðast við ýmsum rangfærslum um kannabisefni sem m.a. er að finna á netinu og ungmenni eiga greiðan aðgang að
Kannabis og ungt fólk
Nú á sér stað umræða sem gerir lítið úr áhættunni sem fylgir neyslu kannabisefna og grefur undan varnaðarorðum gegn henni. Jafnvel er lagt til að heimila, notkun, sölu og dreifingu þessara efna (lögleyfa þau). Þetta er áhyggjuefni, m.a. í ljósi þess að neytendum kannabisefna sem leita sér meðferðar hefur fjölgað mikið síðustu ár á Íslandi. Þar á ungt fólk einkum í hlut. Skaðleg líffræðileg áhrif kannabisneyslu eru þekkt, svo og tengsl við neyslu annarra fíkniefna, s.s. amfetamíns. Á grundvelli þessarar vitneskju er mikilvægt að börn og unglingar láti ekki blekkjast af rangfærslum um kannabisefni, heldur afli sér hlutlægra upplýsinga. Til þess þurfa þau stuðning, upplýsingar og hvatningu af hálfu foreldra, kennara og annarra sem eiga að standa vörð um hag og velferð þeirra.
26. júní 2010 - 26. júní 2011
Vakingarátakið felst í því að virkja, hvetja og styrkja foreldra í forvörnum. Liður í því er að minna á verkefnið laugardaginn 26. júní og vekja athygli á mikilvægi samstarfs og þátttöku sem flestra sveitarfélaga, heimila og félagasamtaka í landinu. Á næstu vikum og mánuðum verða starfandi félög og klúbbar í stærstu sveitarfélögunum virkjuð til þátttöku og útfærslu á fræðslu- og kynningarmálum um skaðsemi kannabisneyslu. Öllum sveitarfélögum, stórum sem smáum býðst að taka þátt í hvatningarátakinu sem stendur í eitt ár, frá 26. júní 2010 til og með 26. júní 2011.
Lögð verður áhersla á að virkja ungt fólk til þátttöku í verkefninu á hverjum stað. Hver þátttökustaður hefur sinn hátt á útfærslu þótt yfirskriftin sé sú sama um land allt. Sérstaklega verður leitað til vinnuskóla sveitarfélaga, íþróttasamtaka, Jafningafræðslunnar og staðbundinna æskulýðs-og íþróttafélaga um þátttöku.