Áfangaheimilið

Laugarteigur 19

Laugarteigur 19 er hjarta samtakana og fer mest öll starfsemin fram þar. Það kemur æ skýrar fram hve mikil hjálp það reynist einstaklingum og hve dvölin reynist oftar en ekki jákvæður áfangi úti í lífið.

Hátt á annað þúsund einstaklinga hafa lokið afplánun á áfangaheimili Verndar frá árinu 1995 og hátt í 90% þeirra hafa staðist þau skilyrði sem sett hafa verið.

Áfangaheimilið hefur verið afar vel nýtt allt og fyrir koma tímabil að bekkurinn er mjög þröngt setinn, en engum hefur verið vísað frá vegna húsnæðisskorts. Yfirleitt dvelja í húsinu um fimmtán menn og konur þeir sem eru í s.k. afplánunarvist eru mikill meirihluti vistmanna. Hinir koma úr ýmsum áttum: fangelsum að lokinni afplánun, meðferða. 

Hver sá sem sækir um vist í húsinu er vissulega í einhvers konar vanda staddur og er reynt hverju sinni að leysa mál viðkomandi. Dvöl í húsinu er áfangi út í lífið eftir að hafa lent í hretviðri lífsins og hrasað illilega. Við tölum að sönnu um heimilismenn en gætum þess þó jafnan að enginn verði þar heimilisfastur. Það er hins vegar heimili um stundarsakir, stuðningsheimili, þar sem hver styður annan og þar sem gott fólk í stjórn Verndar eða húsnefnd, félagar Verndar og hverjir aðrir, eru fúsir til að rétta hjálparhönd þeim sem standa höllum fæti um stundarsakir. Heimilið er  ekki endastöð heldur eins og skiptistöð því förinni er nefnilega heitið lengra – henni er heitið heim – eða að þeim áfanga að hver og einn búi sjálfum sér heimili, sé sjálfstæð manneskja í samfélagi velferðar og umhyggju.
 

Heimilismenn ganga undir viss skilyrði sem ykkur eru kunn – rita undir samning þar að lútandi áður en þeir koma á heimilið. Það kann kannski í fyrstu að sýnast framandi en þegar öllu er á botninn hvolft þá göngum við hvert og eitt undir viss skilyrði þegar við stofnum heimili og fjölskyldu þó ekki séu þau rituð á blað. Allt samlíf – öll sambúð af hvaða tagi sem hún er gerir kröfur á hendur okkur sjálfum fyrst og síðast – við getum ekki gert kröfur á hendur öðrum nema við setjum okkur sjálfum skýrar og strangar kröfur. Eins og á öllum heimilum þá styður hver annan í því að sýna ábyrgð og virka þátttöku í öllu heimilishaldi.

Sameiginlegt borðhald milli kl. 18 og 19 er ákveðinn ás sem skiptir miklu máli hér í húsinu. Samstaða meðal heimilismanna er góð og þeir ræða málin sín í milli eins og heimilismenn á hverju öðru heimili og ganga til húsverka sem sinna þarf hverju sinni.

Þá fundar forstöðumaður með vistmönnum hálfsmánaðarlega – og oftar ef með þarf - þar sem farið er yfir ýmis mál sem snerta hið daglega líf á heimilinu. Þar tjáir sig hver sem vill um það sem betur má fara og hrósar því sem vel er gert.

Rekstur heimilisins á Laugateig er liður í forvarnarstarfi Verndar. Það blandast engum hugur um að andi AA-samtakanna svífur yfir heimilinu. Margir heimilismanna sækja AA-fundi og vinna í sínum málum eftir þeirra leiðum eða njóta aðstoðar annarra sem vinna við áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Öllum er ljóst að meginvandi flestra þeirra sem búa í húsinu er tengdur misnotkun áfengis og vímuefna og að farsælu lífi verður ekki lifað nema án þeirra.

Ég held að ekki sé fullfast að orði kveðið þó sagt sé að nánast öll þau sem dvalið hafa á áfangaheimilinu séu þakklát fyrir að hafa fengið að njóta þessa jákvæða úrræðis í fangahjálp á Íslandi. Og fjöldi einstaklinga sem hefur afplánun hvort heldur hún er löng eða stutt lítur björtum augum til dvalar á Vernd þegar að því kemur – þeir skipuleggja úttekt sína með þetta í huga. Það er því lífsspursmál fyrir starf Verndar í þessum málaflokk að standa vörð um þetta úrræði og styrkja það enn frekar. Á þessu ári verða 25 ár liðin frá því að þessu úrrræði var ýtt úr vör og því tilefni til að meta það og vega – og ekki síst til að efla það – til þess eru tímamót: að líta aftur og horfa fram og gera enn betur.

 

Stjórn Verndar: 

 

 

Elsa Dóra Grétarsdóttir,sviðsstjóri, formaður

  

 

Bjarki Þór Bjarkason

 

Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir, félagsráðgjafi

 

Ragnheiður Elfa Arnardóttir,  félagsráðgjafi

 

Ægir Örn Sigurgeirsson Félagsráðgjafi

 

Jóna Björg Howard

 

Hildur Björk Hörpudóttir

 

 

 

 

Varastjórn:

 

Jónína Sólborg Þórisdóttir

 

Björg Lárusdóttir

 

Jón Páll Hallgrímsson