Fangar og frelsissviptir

 

Meðferð frelsissviptra manna

Meiginlöggjöf á þessu sviði eru lög um fullnustu refsinga nr. 49 17. maí 2005. Er þar fjallað um stjórn og skipulag fangelsismála, atriði sem varða fangavistina og um réttindi fanga og samfélagsþjónustu.

Á Íslandi eru fimm fangelsi sem vistað geta alls 136 fanga og er þar með talið fangar í afplánun sem og í gæsluvarðhaldi.

Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn fangelsismála, en Fangelsismálastofnun sér um fullnustu refsinga ásamt því að hafa umsjón með rekstri fangelsa. Fangelsismálastofnun hefur einnig eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, þeim sem dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun, frestun afplánunar eða gegna samfélagsþjónustu.

Við upphaf afplánunar skal afhenda fanga og kynna, á því tungumáli sem hann skilur, samantekt um þær reglur sem um afplánun gilda, um réttindi og skyldur fanga, vinnu og nám sem að föngum stendur til boða, reglur viðkomandi fangelsis, hvaða háttsemi varðar agaviðurlögum, um meðferð slíkra mála, upplýsingar um hvert fangi getur skotið ákvörðunum er varða fullnustu refsingarinnar og upplýsingar um heimild til að beina kvörtunum til umboðsmanns Alþingis, sem og rétt fanga til að hafa samband við lögmann.

Vinna í fangelsi

Fanga er rétt og skylt, eftir því sem að aðstæður leyfa, að stunda vinnu eða aðra viðurkennda starfsemi í fangelsi. Er það í höndum forstöðumanns fangelsis að ákveða hvaða vinnu fanga er falið að inna af hendi. Þegar ákvörðun er tekin um vinnu fanga skal tekið tillit til aðstæðna hans og óska eftir því sem að unnt er. Fanga er heimilt að útvega sér aðra vinnu að fengnu samþykki forstöðumanns fangelsis. Forstöðumaður fangelsis getur heimilað fanga að uppfylla vinnuskyldu sína í klefa sínum ef aðstæður leyfa og aðrar ástæður mæla ekki gegn því. Fangi skal vinna alla virka daga nema laugardaga. Vinna skal að jafnaði innt af hendi frá kl. 8 til kl. 17, þó þannig að daglegur vinnutími verði að jafnaði ekki lengri en átta klukkustundir. Vinnu sem tengist rekstri fangelsis má inna af hendi utan dagvinnutíma.

Nám og starfsþjálfun

Fangi skal eiga kost á því að stunda nám, starfsþjálfun eða taka þátt í annarri starfsemi sem fram fer í fangelsi eftir því sem unnt er og hann telst hæfur til. Reglubundið nám kemur í stað vinnuskyldu. Hver kennslustund jafngildir einni klukkustund í vinnu. Stundi fangi ekki nám með eðlilegum hætti getur skólameistari, að höfðu samráði við forstöðumann, ákveðið að víkja fanga úr námi. Fangelsi útvegar og greiðir fyrir kennslubækur vegna náms í fangelsi og eru þær eignir fangelsisins.

Heilbrigðisþjónusta

Í fangelsum skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um. Að höfðu samráði við fangelsismálastofnun sér heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.

Samfélagsþjónusta

Þegar einstaklingur hefur verið dæmdur í allt að sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi er heimilt, ef að almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 240 klukkustundir.

Samfélagsþjónusta felur í sér tímabundið ólaunað starf í þágu samfélagsins sem kemur í stað afplánunar í fangelsi. Samfélagsþjónusta leggur þá skyldu á brotamann að inna af hendi launalausa vinnu í ákveðinn tímafjölda í þágu samfélagsins á tilgreindu tímabili. Samfélagsþjónustan hefur þann kost að brotamaður getur haldið sambandi við fjölskyldu, stundað vinnu sína eða nám á meðan hann afplánar refsinguna. Fellst vinnan í líknar- eða hjálparstörfum og hefur uppeldislegt gildi fyrir brotamann og nýtist samfélaginu.

Heimsóknir

Fangi getur fengið heimsóknir í fangelsi, eigi sjaldnar en vikulega eftir aðstæðum í fangelsi. Forstöðumaður fangelsis getur leyft frekari heimsóknir og hvort fleiri en einn mega heimsækja fanga hverju sinni. Forstöðumanni fangelsis ber að skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni. Þurfi heimsókn að fara fram utan fangelsis vegna hagsmuna barns skal það gert á grundvelli álits barnaverndaryfirvalda eða annarra sérhæfðra aðila. Heimsóknir til fanga skulu almennt fara fram án eftirlits.

Símtöl

Fangi á rétt á símtölum við fólk utan fangelsis á þeim tímum dags sem reglur fangelsis segja til um. Heilmilt er að hlusta á símtöl fanga ef að það telst nauðsynlegt vegna almenns eftirlits, til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsi, til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað eða til að vernda þann sem að afleiðingar af broti fanga hafi bitnað á og þann sem vitnað hefur gegn fanga. Ákvörðun um að hlusta á símtal skal tilkynnt fanga fyrir fram og ástæður hennar tilgreindar og bókaðar. Ekki er heimilt að hlusta á símtöl fanga við lögmann, opinberar stofnanir eða umboðsmann Alþingis. Fangi greiðir sjálfur kostnað við símtöl önnur en til lögmanns, dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis.

Bréfaskriftir

Fanga er heimilt að senda og taka við bréfum. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að opna og lesa bréf til og frá fanga í viðurvist hans til að viðhalda góðri reglu og öryggi, til að fyrirbyggja refsiverðan verknað eða til að vernda þann sem afleiðingar af broti fanga hafa bitnað á og þann sem vitnað hefur gegn fanga. Ekki er heimilt að skoða bréfaskipti á milli fanga og lögmanns, opinberra stofnanna eða umboðsmanns Alþingis. Ákvörðun um að lesa bréf, eða leggja hald á það, skal tilkynnt fanga og ástæður tilgreindar og bókaðar. Fangi á sjálfur að bera kostnað af bréfum sem hann sendir nema til lögmanns, fangelsismálastofnunar, opinberra stofnanna eða umboðsmanns Alþingis.

Aðgangur að fjölmiðlum

Fangi skal að jafnaði eiga kost á því að fylgjast með gangi þjóðmála með lestri dagblaða og í gegnum sjónvarp og útvarp.

Útivera og tómstundir

Fangi á rétt á útiveru og að iðka tómstundarstörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem að aðstæður í fangelsi leyfa, í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi.

Erlendir fangar

Erlendur fangi á rétt á að hafa samband við sendiráð lands síns eða ræðismann þess. Ef að fangi er ríkisfangslaus eða flóttamaður skal fangelsi þá aðstoða hann við að hafa samband við fulltrúa innlendra eða alþjóðlegra stofnanna sem gæta hagsmuna slíkra einstaklinga. Erlendur fangi á rétt á túlki þegar honum er gerð grein fyrir réttindum sínum og skyldum í afplánun sé þess þörf. Hann á einnig rétt á að hafa samband við lögmann sinn með aðstoð túlks þegar þurfa þykir.

Trúariðkun

Fangi skal eiga kost á að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags.

Talsmenn fanga

Fangar geta kosið sér talsmenn til að vinna að málefnum fanga og til að koma fram fyrir þeirra hönd.

Sálfræðiþjónusta

Tveir sálfræðingar eru í fullu starfi hjá Fangelsismálastofnun. Verksvið þeirra er fjölbreytt. Þeir sinna sálfræðilegri meðferð skjólstæðinga stofnunarinnar. Sálfræðingar veita ráðgjöf varðandi vistun og meðferð fanga. Þeir eru ráðgefandi varðandi áfengis og vímuefnameðferð fanga. Önnur verkefni þeirra er t.d kennsla í Fangavarðaskólanum, fræðsla til starfsmanna, starfsmannamálefni og rannsóknir.

AA fundir

Vikulegir AA fundir eru haldnir í öllum fangelsum.

Fangaprestur

Fangelsismálastofnun á að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta eins og prestþjónusta. Á vegum þjóðkirkjunnar er starfandi fangaprestur sem heimsækir fangelsin reglulega. Fangaprestur er starfsmaður þjóðkirkju Íslands og var starf hans fyrst sett á laggirnar með lögum frá árinu 1970. Þjónustu fangaprests má skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi er það þjónusta kirkjunnar við fanga, í öðru lagi við fjölskyldu fanganna og í þriðja lagi sér fangaprestur um hefðbundið helgihald. Fangaprestur heimsækir reglulega öll fangelsi landsins og þar að auki réttargeðdeildina að Sogni.

Heimsókn frá fulltrúa Fangelsismálastofnunar

Fulltrúi frá Fangelsismálastofnun heimsækir fangelsin reglulega og talar við þá fanga sem að óska þess.

Heimsóknir frá Rauða Krossinum

Fangar geta óskað eftir heimsóknum ,,fangavina”. Þeir eru sjálfboðaliðar Rauða Kross Íslands. Slíkar heimsóknir eru ætlaðar föngum sem litlar eða engar heimsóknir fá frá öðrum aðilum.  Fangar geta einnig leitað til Rauða krossins um notaðan fatnað. Bæði á meðan fangelsisdvöl stendur og þegar henni er lokið.

Fangelsi á Íslandi

Fangelsismálastofnun ákveður í hvaða fangelsi afplánun skuli fara fram. Við ákvörðunina skal taka tillit til aldurs, kynferðis og brotaferils fangans og þyngdar refsingar, ásamt þeim sjónarmiðum sem gilda um vistun í hverju fangelsi fyrir sig.

Fimm fangelsi eru á Íslandi; Hegningarhúsið á Skólavörðustíg, fangelsið Kópavogsbraut 17, fangelsið Litla-Hrauni, fangelsið Kvíabryggju og fangelsið á Akureyri.