Langveiku börnin í fangelsum landsins (2)

 

Ef þú lendir í fangelsi einu sinni eru talsverðar líkur á að þú lendir þar aftur. Ef þú lendir þar aftur þá eru ansi góðar líkur á að þú lendir þar í þriðja sinn. Ef þú lendir þar í þriðja sinn eru sáralitlar líkur á að þú sleppir við að koma í fjórða, fimmta, sjötta, sjöunda og svo framvegis. Strákarnir á Hrauninu, hverjir eru þetta? Hafa þeir valið þetta líf? Vöknuðu þeir einn daginn og hugsuðu:

Djöfull væri frábært að sitja inni svona eins og hálft lífið. Best að finna einhvern eiturlyfjabarón og biðja um vinnu.

Nei, það er ekki þannig. Mest eru þetta ADHD-strákarnir sem fóru í gegnum grunnskólann á rítalíni. Þeir voru lesblindir og lélegir í reikningi. Þeir eyddu löngum stundum á skólastjóraskrifstofunni, fengu refsingu fyrir allt sem úrskeiðis fór í skólanum, hvort sem sökin var þeirra eða ekki.

Þetta eru strákarnir sem komu alltaf of seint vegna þess að þeir þurftu að sjá sjálfir um að vakna og koma sér í skólann. Þetta eru strákarnir sem komu svangir og nestislausir vegna þess að í eldhúsinu heima var kókópuffspakkinn tómur og mjólkin súr á eldhúsborðinu.

Þetta eru strákarnir sem læddust út með veggjum vegna þess að í stofunni var pabbi jafnvel með sprautukittið á stofuborðinu og skapstygga félaga í háværum samræðum um ekki neitt.

Þetta eru strákarnir sem mættu í rifnum og óhreinum fötum vegna þess að ef mamma var ekki líka frammi í sprautupartíinu þá lá hún kannski inni í rúmi með glóðarauga og þorði ekki fram. Kannski var þetta ekki sprautupartí, kannski bara hard core íslenskur drykkjugleðskapur.

Þetta eru strákarnir sem forðuðu sér út við fyrsta tækifæri, út af heimilinu, út úr skólakerfinu, út úr samfélaginu. Þeir þurftu að boxa sig áfram á skólalóðinni í gegnum einelti og stríðni og oftast var hnefinn þeirra eina lausn. Það lá þá auðvitað beint við að gerast handrukkari fyrir einhvern laxinn.
Það er búið að skrifa talsvert um þessi mál undanfarið. Talsmaður fanga, yfirlýsingar frá fangelsisyfirvöldum og alls konar fólk að lýsa skoðunum sínum á þessum málaflokki.

Því miður hefur ekki farið mikið fyrir tillögum til lausna eða tilraunum til að rýna í kjarnann. Hvað er þarna á ferðinni?

Skólastjórnir, barnaverndarnefndir, félagsmálafulltrúar, sálfræðingar, skólaliðar, prestar, geðlæknar, meðferðarfulltrúar og foreldrar. Allir búnir að reyna eitthvað. Strákarnir eru búnir að byggja sér upp flotta varnartækni þegar lögreglan kemur til sögunnar. Þá er kominn massívur veggur og engum hleypt inn.

Þetta byrjar oft ekki á merkilegum glæpum. En lífið er hvort sem er búið að boxa þessa drengi svo langt sem þeir muna og fyrir okkur heppna fólkið er auðvitað bara best að stinga hausnum dýpra ofan í sandinn meðan þar til gerð yfirvöld boxa þá aðeins meira.

Hinn ömurlegi sannleikur liggur þannig að langstærstur fjöldi þeirra sem sitja í fangelsum eru þar vegna fíknisjúkdóma. Þeir hafa ýmist verið að smygla og selja ólögleg efni eða þá að þeir hafa verið að brjótast inn og stela til að geta fjármagnað neysluna, nú eða þá að þeir hafa gert eitthvað svo hræðilegt í áfengis- eða lyfjavímu að þeirra eina leið til að takast á við það er að loka það svo djúpt inni í sálinni að enginn eigi séns á að skoða það.

Þetta gera þeir með því að herða brynjuna og rækta töffarann, pumpa upp vöðvana og sýna ekki svo mikið sem eitt lítið hræðslumerki undir nokkrum kringumstæðum.

Í þriðja sinn sem þú kemur austur á Hraun er eina leiðin að flagga bara flottu glotti og segja: „ Hæ strákar, farnir að sakna mín?“ Það er nefnilega ekkert annað líf í sjónmáli og best að reyna að gera bara gott úr þessu.

Fangelsin eru ekkert alslæm. Einn og einn nær að nota tímann til að hugsa sinn gang og einhverjir ákveða að nýta sér þau úrræði sem í boði eru. Meðferðargangur, AA-fundir, hugleiðsla, sálfræðihjálp og einhverjir ráðast í að mennta sig.

Flestir kjósa þó að „sitja bara inni“. Og kjósi þeir það þá bara mega þeir það. Ekkert spurt.

Einu sinni var fangelsi kallað betrunarhús. Það er löngu liðin tíð, þykir eflaust hallærislegt.

Það er svo líka þannig að þótt í fangelsismálaflokknum starfi fullt af góðu fólki þá er krafa þjóðfélagsins um hörkurefsingar og miskunnarleysi til handa þessum djöflum sem geta ekki hagað sér svo sterk að stjórnvöld þora ekki almennilega að ganga gegn því. Skera sífellt niður það litla sem gæti hjálpað á kostnað meiri hörku og minni mannúðar.

Ef við stígum niður úr dómarasætinu og tökum kalt stöðumat blasir það við að fangelsiskerfið okkar hýsir að mestu ekkert annað en langveik börn. Hvað ætlum við að gera í því?

Ef þú upplifir einu sinni að horfa í augun á uppljómuðum einstaklingi sem tekist hefur að brjótast út úr þessum kolsvarta vítahring neyslu afbrota og fangavistar þá kannski skilst þér að það er til önnur leið en reiði og refsing.

Slíkur einstaklingur er þjóðfélaginu í raun miklu dýrmætari en nokkur fræðingur í faginu. Við gætum svo auðveldlega breytt fangelsum aftur í betrunarhús.

Flestir þessara stráka þrá ekkert heitar en að komast í annað líf, komast á meðal manna og fá að vera með, fá einhverja viðurkenningu alveg eins og við öll hin. Það er bara ekki verið að greiða götu þeirra.

Ég hef verið það lánsamur að fá að sjá þetta með eigin augum og það er ólýsanleg tilfinning. Augnablikið þegar vonarneisti vaknar í brostnu auga er augnablik sem þarf að grípa og virkja. Fangelsi er skítaredding en við þurfum lausn. Þannig getum við fóstrað betra samfélag. Það verður þá um leið betra fyrir okkur hin.

Það sem við getum gert til að byrja með er að breyta eigin hugsanagangi. Hætta þessari dómhörku. Með því að breyta eigin afstöðu breytum við afstöðu þjóðfélagsins. Með því að taka afstöðu með erum við ekki lengur á móti. Viljum við ekki meðhöndla öll langveik börn á besta mögulega máta?

Byrjum til dæmis bara á því að hugleiða hvað orðið „MANNÚГ þýðir. Það gæti verið ágætis byrjun. Pétur Blöndal Gíslason skrifaði, upprifjun

 

Þráinn Bj Farestveit