Umboðsmaður

Um­boðs­maður Al­þingis hefur beint því til Fangelsis­mála­stofnunar að taka til skoðunar hvort nægi­legt til­lit sé tekið til að­stæðna og öryggis kvenna í fangelsinu á Sogni í Ölfusi með því að vista þar bæði konur og karla. Fangelsið er eina opna fangelsið á landinu sem vistar kvenkyns fanga en flestir fangarnir eru þó karlkyns.

Þetta kemur fram í skýrslu um­boðs­manns Al­þingis eftir heim­sókn hans í fangelsið en honum hefur verið falið að annast eftir­lit með stöðum þar sem frelsis­sviptir dvelja á Ís­landi. Hann hefur nú heim­sótt fangelsi landsins og birti í dag skýrsluna um Sogn en skýrslur um önnur fangelsi eru væntan­legar á næstunni.

Konur í viðkvæmri stöðu í blönduðum fangelsum

Í skýrslunni segir að í opnum fangelsum þar sem fangar af báðum kynjum eru vistaðir og að­stæður bjóða ekki upp á full­kominn að­skilnað milli kynjanna er talið lík­legra en ella að kyn­ferðis­leg á­reitni og kyn­ferðis­legt of­beldi eigi sér stað. Þar séu konur í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu, einkum ef hlut­fall þeirra er mun lægra en hlut­fall karl­kyns fanga en sú er raunin al­mennt á Sogni.

Þegar um­boðs­maður fór í heim­sóknina voru tvær konur vistaðar í fangelsinu og voru þær báðar vistaðar á öðrum ganginum í aðal­byggingunni. Þar var þá einnig einn karlmaður. Umboðsmanni var þá tjáð að sú hug­mynd hefði komið upp að vista einungis konur á ganginum, því þá hefðu þær að­gengi að sér­stöku bað­her­bergi og al­mennt yrði ekki um­gangur inn á ganginn af karl­kyns föngum.

Fangelsið Sogni er eina opna fangelsið á landinu þar sem kvenkyns fangar eru vistaðir. Að fangelsi sé opið þýðir að þar eru engar girðingar eða múrar sem afmarka það.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá fangelsinu 29. septem­ber síðast­liðinn, eftir heim­sóknina, hafði þessari hug­mynd síðan verið hrint í fram­kvæmd. Gangurinn er nú einungis ætlaður konum og þó sú staða komi upp í fangelsinu að engin kona af­pláni þar verða her­bergi gangsins ekki nýtt fyrir karl­kyns fanga.

Um­boðs­maður Al­þingis segir í sam­tali við Frétta­blaðið að á­stæða hafi þótt til að beina því til Fangelsis­mála­stofnunar að taka þessi mál til frekari skoðunar. „Þessar að­stæður geta jafn­vel valdið því að konur sem upp­fylla skil­yrði til af­plánunar í opnu fangelsi sæki síður um flutning þangað,“ segir Kjartan Bjarni Björg­vins­son.

Í skýrslunni er bent á að í fjöl­þjóð­legum reglum sé lögð rík á­hersla á fullan að­skilnað kynjanna í fangelsum. Ríkjum sé einnig skylt að veita frelsis­sviptum ein­stak­lingum vernd gagn­vart öðrum ein­stak­lingum sem kunna að skaða þá.

Líkamsrannsóknir verði að rökstyðja

Þá telur um­boðs­maður að endur­skoða þurfi verk­lag í tengslum við svo­kallaðar líkams­rann­sóknir á föngum. Líkams­rann­sókn er það kallað þegar leitað er að munum eða efnum sem ein­hver kann að hafa falið í líkama sínum. Fangelsi hafa heimild til að fremja líkams­rann­sókn og taka öndunar-, blóð- eða þvag­sýni og annars konar líf­sýni úr föngum við komu þeirra í fangelsi og við al­mennt eftir­lit ef grunur leikur á að við­komandi hafi falið efni í líkama sínum eða neytt á­fengis- eða fíkni­efna. Líkams­rann­sóknir eru til dæmis oft fram­kvæmdar þegar fangar koma til baka í fangelsið úr leyfi.

Í skýrslunni segir að Fangelsið Sogni verði að endur­skoða verk­lag sitt í tengslum við á­kvarðanir um líkams­rann­sókn á fögnum og gera við­eig­andi breytingar til að gæta þess að ein­stak­lings­bundið og heild­stætt mat fari fram hverju sinni um hvort nauð­syn­legt sé að beita henni.

„Við erum að benda á það að þegar þetta er gert verður að meta það sér­stak­lega í hvert skipti,“ segir Kjartan Bjarni. „Við erum auð­vitað í þessu for­varnar­starfi og þess vegna brýnum við fyrir fangelsis­yfir­völdum þessar kröfur, sem við teljum leiða af lögunum.“