Umboðsmaður Alþingis hefur beint því til Fangelsismálastofnunar að taka til skoðunar hvort nægilegt tillit sé tekið til aðstæðna og öryggis kvenna í fangelsinu á Sogni í Ölfusi með því að vista þar bæði konur og karla. Fangelsið er eina opna fangelsið á landinu sem vistar kvenkyns fanga en flestir fangarnir eru þó karlkyns.
Þetta kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis eftir heimsókn hans í fangelsið en honum hefur verið falið að annast eftirlit með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja á Íslandi. Hann hefur nú heimsótt fangelsi landsins og birti í dag skýrsluna um Sogn en skýrslur um önnur fangelsi eru væntanlegar á næstunni.
Konur í viðkvæmri stöðu í blönduðum fangelsum
Í skýrslunni segir að í opnum fangelsum þar sem fangar af báðum kynjum eru vistaðir og aðstæður bjóða ekki upp á fullkominn aðskilnað milli kynjanna er talið líklegra en ella að kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi eigi sér stað. Þar séu konur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, einkum ef hlutfall þeirra er mun lægra en hlutfall karlkyns fanga en sú er raunin almennt á Sogni.
Þegar umboðsmaður fór í heimsóknina voru tvær konur vistaðar í fangelsinu og voru þær báðar vistaðar á öðrum ganginum í aðalbyggingunni. Þar var þá einnig einn karlmaður. Umboðsmanni var þá tjáð að sú hugmynd hefði komið upp að vista einungis konur á ganginum, því þá hefðu þær aðgengi að sérstöku baðherbergi og almennt yrði ekki umgangur inn á ganginn af karlkyns föngum.
Fangelsið Sogni er eina opna fangelsið á landinu þar sem kvenkyns fangar eru vistaðir. Að fangelsi sé opið þýðir að þar eru engar girðingar eða múrar sem afmarka það.
Samkvæmt upplýsingum frá fangelsinu 29. september síðastliðinn, eftir heimsóknina, hafði þessari hugmynd síðan verið hrint í framkvæmd. Gangurinn er nú einungis ætlaður konum og þó sú staða komi upp í fangelsinu að engin kona afpláni þar verða herbergi gangsins ekki nýtt fyrir karlkyns fanga.
Umboðsmaður Alþingis segir í samtali við Fréttablaðið að ástæða hafi þótt til að beina því til Fangelsismálastofnunar að taka þessi mál til frekari skoðunar. „Þessar aðstæður geta jafnvel valdið því að konur sem uppfylla skilyrði til afplánunar í opnu fangelsi sæki síður um flutning þangað,“ segir Kjartan Bjarni Björgvinsson.
Í skýrslunni er bent á að í fjölþjóðlegum reglum sé lögð rík áhersla á fullan aðskilnað kynjanna í fangelsum. Ríkjum sé einnig skylt að veita frelsissviptum einstaklingum vernd gagnvart öðrum einstaklingum sem kunna að skaða þá.
Líkamsrannsóknir verði að rökstyðja
Þá telur umboðsmaður að endurskoða þurfi verklag í tengslum við svokallaðar líkamsrannsóknir á föngum. Líkamsrannsókn er það kallað þegar leitað er að munum eða efnum sem einhver kann að hafa falið í líkama sínum. Fangelsi hafa heimild til að fremja líkamsrannsókn og taka öndunar-, blóð- eða þvagsýni og annars konar lífsýni úr föngum við komu þeirra í fangelsi og við almennt eftirlit ef grunur leikur á að viðkomandi hafi falið efni í líkama sínum eða neytt áfengis- eða fíkniefna. Líkamsrannsóknir eru til dæmis oft framkvæmdar þegar fangar koma til baka í fangelsið úr leyfi.
Í skýrslunni segir að Fangelsið Sogni verði að endurskoða verklag sitt í tengslum við ákvarðanir um líkamsrannsókn á fögnum og gera viðeigandi breytingar til að gæta þess að einstaklingsbundið og heildstætt mat fari fram hverju sinni um hvort nauðsynlegt sé að beita henni.
„Við erum að benda á það að þegar þetta er gert verður að meta það sérstaklega í hvert skipti,“ segir Kjartan Bjarni. „Við erum auðvitað í þessu forvarnarstarfi og þess vegna brýnum við fyrir fangelsisyfirvöldum þessar kröfur, sem við teljum leiða af lögunum.“