Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur skipað sr. Sigrúnu Óskarsdóttur sem fangaprest þjóðkirkjunnar. Hún er fyrsta konan sem gegnir því starfi en áður hafa þrír karlmenn sinnt því að því er segir á vef kirkjunnar. Sérstakt fangaprestsembætti var sett á laggirnar um áramótin 1970. Átta hafi sótt um starfið en skipað er í það til fimm ára.
sr. Sigrúnu Óskarsdóttur
Sigrún er fædd í Reykjavík árið 1965. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1985, guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1991 og síðar sálgæslunámi frá Loviseninstituttet í Ósló. Sigrún var vígð árið 1991 til Laugarnessprestakalls sem aðstoðarprestur og leysti af sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum um hríð.
Þá var Sigrún framkvæmdastjóri Æskulýðssambands kirkjunnar i Reykjavíkurprófastsdæmum frá 1994-1995, prestur í norsku kirkjunni 1996-1997 og ráðin síðan sem prestur íslenska safnaðarins í Ósló frá 1997 til 2001. Hún var skipuð prestur í Árbæjarsókn í Reykjavík árið 2001 og lét af þeim störfum árið 2015. Undanfarin ár hefur hún verið starfsmaður Útfararstofu kirkjugarðanna.
Vernd fangahjálp óskar Sigrúnu innilega til hamingju með stafið og að samstarf fangahjálparinnar og fangaprests verði innilegt og farsælt eins og verið hefur.