Um helmingur fanga á Íslandi lýkur nú afplánun sinni á áfangaheimili Verndar í Reykjavík. Þar eru um tuttugu pláss sem oftast eru fullnýtt. Fangar geta verið þar í allt að tólf mánuði. Dæmi eru um að þeir biðji um að vera lengur. Engin önnur sambærileg úrræði eru nú í boði hér á landi.
Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar, segir að úrræðið nægi þessum fjölda í dag, en bendir á að boðunarlistar séu langir, m.a. í kjölfar þess að tveimur fangelsum var lokað. Þegar nýja fangelsið á Hólmsheiði verði komið að fullu í notkun sé ljóst að ásóknin muni aukast. Við því þurfi að bregðast með einhverjum hætti.
Í meistararitgerð Nínu Jacqueline Becker sem sagt var frá á mbl.is í vikunni og byggð var á viðtölum við fyrrverandi fanga, kom fram að skortur væri á eftirfylgni og félagslegum stuðningi fyrir fanga sem lokið hafa afplánun. Þeir sem sem hún ræddi við nefndu sumir hverjir að fátt hefði beðið þeirra utan veggja fangelsisins.
Frétt mbl.is: „Hellingur af ofbeldi“ á Litla-Hrauni
„Þær eru nokkrar kraftaverkasögurnar,“ segir Þráinn Farestveit um fanga sem lokið hafa afplánun á Vernd. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Á Vernd er föngunum veittur margvíslegur stuðningur og sú staðreynd að helmingur fanga lýkur nú afplánun sinni þar vekur upp spurningar um örlög jafnmargra sem gera það ekki?
Þráinn segir að einhver hluti fanga velji að ljúka frekar afplánun inni í lokuðum fangelsum. Reglur á Vernd eru strangar, þeir sem þar dvelja þurfa að vera í starfsendurhæfingu, vinnu eða námi, fara að reglum um útivistartíma og vera edrú. „Þetta hentar ekki öllum,“ segir hann.
Um 8% send aftur í fangelsi
Þeir fangar sem eru í neyslu inni í lokuðum fangelsum eiga þess því ekki kost að ljúka afplánun á Vernd. Þeir sem eru í neyslu og vilja fara í meðferð geta farið í meðferð á vegum SÁÁ eða í Hlaðgerðarkoti, svo lengi sem þeir eiga ekki önnur ólokin mál í dómskerfinu. Í kjölfarið geta þeir svo lokið afplánun á Vernd. Verði fangar uppvísir að því að vera í neyslu á meðan þeir eru þar eru þeir sendir aftur í fangelsi. Slíkt gerist í um 8% tilvika. „Það verður að teljast eðlilegt, sérstaklega miðað við það að í kringum 90% þeirra sem eru í fangelsum eru fíklar,“ segir Þráinn.
Dæmi eru um að fangar hafi í engin hús að venda þegar þeir koma úr fangelsi og séu auk þess stórskuldugir, m.a. vegna fíkniefnaneyslu. Þar með eru þeir fastir í vítahring sem erfitt getur reynst að rjúfa.
„Þetta er nokkuð algengt,“ segir Þráinn. „Það er hópur manna í fangelsum sem er fastur í viðjum fíknar. Þessum mönnum tekst ekki að ljúka meðferðum við fíkn sinni eða hefja hana yfirhöfuð.“
Leitað lausna í undirheimunum
En Þráinn ítrekar að vilji fangar leita sér hjálpar sé sá möguleiki alltaf fyrir hendi. „Ef menn eru tilbúnir að taka U-beygju í lífi sínu, taka ábyrgð á eigin lífi og hætta að kenna öðrum um, þá hefur undantekningarlaust verið hægt að koma þeim til aðstoðar, þó að þeir hafi átt umtalsverðar skuldir í undirheimunum.“
Fangar koma sumir hverjir úr fangelsi og eiga ekkert húsaskjól og eru jafnvel stórskuldugir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Þráinn segist sjálfur hafa tekið það að sér að leita lausna og ræða við „mann og annan“ í slíkum skuldamálum. Hann segir mörg dæmi þess að menn í erfiðri skuldastöðu sem hafa viljað koma lífi sínu á rétta braut hafi fengið til þess aðstoð. „Ef menn eru tilbúnir að snúa af leið þá eru allir tilbúnir að hjálpa.“
Hins vegar er afstaða sumra þannig að þeir vilja ekki eða finnst þeir ekki geta snúið við blaðinu.
Dæmi eru um það að fangar kvíði því að fara af Vernd eftir að hafa dvalið þar um tíma í þeirri reglu og því skjóli sem þar fæst. „Menn eru oft í óvissu. Fjármál eru í ójafnvægi og sömuleiðis fjölskyldumálin,“ segir Þráinn.
Hann bendir á að þegar fangar hafi lokið afplánun bjóðist þeim sömu úrræði og öllum öðrum, hvort sem það snýr að húsnæðisleit, meðferð eða fjárhagsaðstoð.
Biðja um að fá að vera lengur
Flestir þeir sem ljúka afplánun á Vernd eru komnir með húsnæði þegar þeir fara þaðan. Fangar geta nú afplánað hluta dóma sinna undir rafrænu eftirliti. Ekki er hægt að komast í það úrræði nema að hafa fasta búsetu. „Það hefur komið fyrir einstaka sinnum að menn hafa beðið um að fá að vera lengur hjá okkur á meðan er verið að finna húsnæði,“ segir Þráinn.
Þráinn hefur verið lengi viðloðandi Vernd eða í þrjátíu ár. Hann segir margt hafa breyst, m.a. það að vistun fanga innan lokaðra fangelsa hafi styst. Því beri að fagna.
Erfið staða hjá hópi fanga
Á þessum áratugum hefur skjólstæðingahópurinn breyst töluvert. Áður hafi fangar oft verið í verri málum en nú. „Áður voru fíknisjúkdómar þeirra lengra gengnir og erfiðara að eiga við það og margir þeirra voru hreinlega á götunni.“
Sá hópur er ekki stór í dag.
En núna glíma fleiri fangar en áður við blandaðan vanda sem tengist fíkn, hegðun og geðsjúkdómum. Aðstæður þeirra eru erfiðastar, að mati Þráins. Þeir geta ekki dvalið á Vernd og sérstök úrræði fyrir þá er ekki í boði í dag. Út af fíkn næst stundum ekki að vinna á undirliggjandi vanda og öfugt. Þá er afeitrun hjá þessum mönnum oft mjög erfið.
Fangarnir fyrrverandi sem rætt var við í fyrrnefndri meistaraprófsritgerð, var tíðrætt um veika fanga inni á Litla-Hrauni. Þeim fannst þessir einstaklingar geta verið óútreiknanlegir og töldu að eftirlit með þeim hafi ekki verið nægjanlegt og þeir komist upp með að taka ekki lyfin sín heldur safna þeim saman og selja þau öðrum föngum.
Nokkrar kraftaverkasögur
Þráinn þekkir mörg dæmi þess að menn sem hafa verið á Vernd hafi algjörlega snúið við blaðinu og byggt upp gott líf. „Þær eru nokkrar kraftaverkasögurnar,“ segir hann. „Það eru alveg ótrúlegustu menn sem hafa náð að klára sig á þessu, náð tökum á hlutunum, komist í vinnu og tekið svo þátt í samfélaginu, en það er auðvitað meginmarkmið Verndar.“
MBL Sunna