MEÐ AUGUM FANGANS

Íslensk fangelsi hafa ekki verið rannsök- uð mikið miðað við fangelsi í útlöndum. Hin síðari ári hefur vaknað töluverður

áhugi á fangelsum og starfsemi þeirra hér á landi. Það eru einkum háskólanem- ar sem hafa tekið sér fyrir hendur að rannsaka þennan afkima samfélagsins sem fáum er kunnur og hafa þeir notið vandaðrar leiðsagnar leiðbeinenda sinna. Þar hafa verið fremst í flokki að öðrum ólöstuðum þau dr. Helgi Gunnlaugsson, prófessor, við Háskóla Íslands, og Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík.

VERNDARBLAÐIÐ hefur um margra ára skeið leitast við að kynna rannsóknir háskólanema og vekja athygli á niður- stöðum þeirra. Ýmist hafa þeir sjálfir ritað greinar í blaðið eða birt hluta úr rannsóknum sínum. Þá hefur í sumum tilvikum VERNDARBLAÐIÐ sjálft gert grein fyrir einstökum rannsóknum í sam- ráði við rannsakendur.

Fangelsi eru höfuðverkur

Það er öllum ljóst að fangelsi eru mjög sérstök fyrirbæri í nútímanum og á vissan hátt höfuðverkur þeirra samfélaga sem kenna sig við menningu og velferð. Vandinn er ætíð sá hinn sami og tekur litlum breytingum og hann er sá hvernig taka skuli á þeim einstaklingum sem virða ekki grundvallarsáttmála samfélagsins, og taka sér sjálf í hendur lög og reglur, brjóta á öðrum og oft með herfilegum hætti.

Fangelsi eru reist og rekin til að hýsa þann mannskap sem brýtur alvarlega af sér. Þessar stofnanir draga auðvitað dám af þeim sem þar dveljast innan húss, föng- um, starfsfólki og yfirstjórn allri. Fang- elsin verða hluti af kerfi sem ríkið á og ber ábyrgð á. Helsta einkenni fangelsis er að þangað er búið að stefna fólki í mislangangan tíma og það bíður þess eins að komast af þessum skákreit tilverunnar. Það ber fremur kala til staðarins heldur en hlýju, fangelsið er tákn þess að frels- inu var glatað um stund. Það er líka tákn ákveðinna óþæginda og andstyggðar.

Innsýn í lokaðan heim

Fangelsin eru sér heimur út af fyrir sig. Og hver gerð þeirra ber með sér sitt svip- mót. Öryggisfangelsið að Litla-Hrauni er viðfangsefni þessarar rannsóknar sem hér verður stuttlega kynnt. Margt er í fyrsta lagi sagt með orðinu öryggisfangelsi einu. Þar er ekki aðeins verið að girða fyrir að menn strjúki heldur og að fangar, starfs- fólk og samfélag búi við öryggi. Þeir sem ógna örygginu eru fangarnir og í ljósi af- brota sinna teljast þeir sumir vera hættu- legir menn. Margir þeirra koma úr um- hverfi sem er mótað af ofbeldi og jafnvel ofbeldisdýrkun. Þá er átt við hið líkam- lega ofbeldi, ekki andlegt. Hversdagsleg menning innan öryggisfangelsisins ber vott um samfélag sem er á jaðrinum en hefur viss einkenni menningarsamfélaga – og osmósar á milli á köflum. Öll menn- ing er nefnilega einhvers konar farvegur fyrir samskipti, fyrir sameiginleg gildi

(líka and-gildi, eða andfélagsleg gildi), lög og reglur, skráðar sem óskráðar, sem stangast á við hið siðaða samfélag. Í raun réttri er um ákveðnar mannfræðilegar og félagsfræðilegar staðreyndir að ræða sem horfast verður í augu við.

Í nýrri meistaraprófsritgerð Nínu Jacqueline Becker í félagsfræði er veitt dálítil innsýn inn í þennan fangelsisheim eins og hann birtist á Litla-Hrauni. Höf- undur leggur þunga áherslu á að hér sé um innsýn að ræða vegna þess að við- mælendur hennar sem voru ellefu að tölu tjá upplifun sína í frásögn sem er skráð og lögð fram óbreytt fyrir hvern og einn lesanda. Við getum sagt að gengið sé um sviðið um stund í fylgd fanganna og horft á það sem fram fer með augum þeirra. Heiti sjálfrar ritgerðarinnar segir heilmargt og er í sjálfu sér umhugsunarefni: Upplifun fanga á félagslegum veruleika sínum og öryggi í fangelsi „...mér fannst bara talað niður til mín og hugsa kannski bara um okkur eins og nautgripi í búri...“ Enda þótt viðtölin hafi verið ellefu að tölu þá gafst tækifæri til að tala við fleiri fanga. Frásögnum viðmælenda var farið að svipa saman og komið að því sem kallað er inn- an rannsókna „mettun,“ þ.e.a.s að kjarni málsins er kominn fram.

Rannsóknir geta veitt stuðning í starfi

Það er öllum nauðsynlegt sem starfa inn- an fangelsisgeirans að fylgjast með rann- sóknum á starfsemi fangelsa. Slíkt getur veitt stuðning í starfi, gefið viðkomandi starfsmanni sjálfum innsýn inn í starf sitt og vettvang með öðrum hætti en hon- um er tamt. Margt getur komið honum á óvart, vakið upp spurningar um hvað sé hægt að gera betur o.s.frv. Margar þessara rannsóknarritgerða eru aðgengilegar á skemman.is og hægt að lesa af skjá eða prenta út. Í þessu tilviki bendir rannsak- andinn sjálfur á að fangelsisyfirvöld geti haft not af rannsókninni t.d. hvað snertir aðbúnað fanga í fangelsum (sjá bls. 11).

Rannsóknin

Rannsóknin fjallar um ofbeldi í fangels- um og viðmælendur rannsakanda höfðu allir átt það sameiginlegt að hafa verið í afplánun á Litla-Hrauni og fyrir vikið er það meira í sviðljósinu en önnur fangelsi. Þetta er eigindleg rannsókn sem merkir m.a. að það er rannsakandinn sjálfur sem er aðal rannsóknartækið, hann tekur við töl, vegur og metur þau, dregur ályktanir og setur fram eftir atvikum líkön o.s.frv. Sem fyrr segir voru viðmælendur hennar ellefu að tölu. Þeir höfðu ýmist sjálfir beitt ofbeldi, verið vitni að slíku eða orðið fyrir því. Ofbeldið birtist í ýmsum myndum.

Niðurstöður höfundar eru í samræmi við það sem erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós: fangelsi eru staðir ofbeldis.

Eins og venja er hjá fræðafólki þá setur það rannsókn sína í samhengi við fyrri rannsóknir á fræðasviðinu og rekur þær í stuttu máli ásamt kenningum. Slíkt er mjög upplýsandi og sýnir eins og í þessu tilviki að fangelsislíf á Íslandi fer eftir svipuðum brautum og í útlöndum þó smæðin sé hér mikil í öllum saman- burðinum. Segja má kannski að nær- tækasta skýringin á því sé einfaldlega sú að „hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu,“ eins og skáldið sagði hér um árið.

Þrjú líkön rannsakandans

Nína Jacqueline skýrir á glöggan hátt frá þremur líkönum sem er ætlað að draga fram ólík viðbrögð einstaklinga þegar þeir hefja afplánun. Það fyrsta kallast lík- an skerðingar aðbúnaðar og frelsisins (e.

deprivivation model). Það á að varpa ljósi á þau áhrif sem frelsisskerðingin hefur á einstaklinginn, og þegar samskipti hans eru rofin, og loks streituáhrif í kjölfar þessa. Annað líkanið er nefnt ofbeldis­ menning afbrota (e. importation model), en það er gagnrýnið sjónarhorn á það sem hinu fyrra líkani er ætlað að varpa ljósi á og dregur fram aðra áhrifaþætti á einstaklinginn heldur en fangelsið sjálft í þessu tilviki. Þriðja líkanið er svo sam- þætt (e. combined model) og er fléttað úr hinum tveimur fyrri svo skilja megi betur ástæður fyrir því að fangar beiti ofbeldi (sjá bls. 18 og 19).

Síðan fjallar rannsakandi nánar um þessi þrjú líkön sem eiga að auka skiln- ing á því hvernig fyrirbærið fangelsi gengur fyrir sig. Það eru svo sem ekki stórtíðindi að menning, í þessu tilviki fangelsismenning, verður til vegna þess að í fangelsi eru tilteknir einstaklingar. Einhvers konar menning er alltaf á kreiki þar sem mannskepnan sýnir sig. Þar er margvísleg gerjun í gangi, hvort held- ur er í hellinum eða fangaklefanum. Og þar þróast ofbeldismenning og ekki að ástæðulausu: gremja, streita, reiði, fylgir innilokuninni. Vistin í fangelsi kallar á úrræði fanganna til að lifa af, lifa án þess sem þeir eru vanir. (Spyrja má í fram- hjáhlaupi hvað ungir fangar gera í dag sem aldir eru upp við tölvuskjá? – Það er rannsóknarefni út af fyrir sig). Inn í fangelsið koma menn með sjálfa sig, svo að segja. Venjur sínar og hefðir. Sinn stíl úr kompum, kjöllurum, götuhorn- um, húsum o.s.frv. Það sem hann hefur alist upp með kemur hann með - eins og skáldið Jón úr Vör sagði: „Þú færð aldrei sigrað þinn fæðingarhrepp ....ok hans hvílir á herðum þér.“ Þarna ertu kannski sviptur maka þínum, vini eða barni, sviptur öryggi. Þú bítur í skjaldar- rendur, verst. Grípur til ofbeldis ef svo ber við. Ofbeldismenning afbrota, henni er ætlað að skýra út ofbeldishegðun fanga. Af sjálfu leiðir að margir þeirra sem koma inn í fangelsi eru dæmdir fyrir ofbeldi og því styttri vegur fyrir þá að grípa til þess innan fangelsis þar sem m.a. er dregið úr öllum lífsgæðum og alls konar hindranir settar í götu fangans með það markmið í huga að tryggja öryggi innan fangelsis. Gefum Nínu Jacqueline orðið í framhaldi af þessu: „Ungir einstaklingar sem lenda í fangelsi eru oft og tíðum að koma úr slæmum félagslegum aðstæðum. Lífið í undirheimum eða á götum úti kveð- ur á um ákveðna árásargjarna hegðun. Árásarhegðun getur því verið eða er leið til þess að auka eigið öryggi og fá viður- kenningu og virðingu frá hópnum sem einstaklingurinn tilheyrir. Þegar inn er komið heldur þessi eiginleiki persónunn- ar áfram því hann veit að nú er hann í samfélagi með þeim allra hörðustu og hann mun þurfa að hafa fyrir hlutunum.“ (Bls. 21). Þá getur Nína Jacqueline um það að yngri fangar séu almennt árásagjarnari en hinir eldri vegna þess að tengsl t.d. við fjölskyldu séu ekki eins sterk og hjá hinum eldri. Hér gildir sem fyrr að gott bakland getur gert gæfumuninn og oft ótrúlegt hve lengi fólk hefur haldið úti tengslum við einstaklinga sem brjóta af sér aftur og aftur, svíkja sí og æ, lofa bót og betrun, en kannski er það umhyggjan sem er í fyrirrúmi. En líka eru sögur um

uppgjöf aðstandenda – og þá er ekkert bakland – og við engan má sakast því svo auðvelt er málið ekki. Nóg um það. Sem fyrr segir þá eru líkönin þrjú: það sem tekur á skerðingu aðbúnaðar og frelsis; það sem tekur á ofbeldismenningu afbrota, og þessi tvö eru svo samtvinnuð í hinu samþætta líkani.

Fangelsisvist er áfall og fangelsisum- hverfið getur haft ákveðin áhrif og vanlíð- an getur svo fylgt ofbeldi af hálfu fanga eða starfsmanna innan fangelsisins.

Ógnir í fangelsi

Innan veggja fangelsa birtist lífið með svipuðum hætti og víðast hvar því grund- vallarþarfir fólks eru þær sömu hvar sem það er nú statt á vegi lífsins en þó eru hornin í fangelsi hvassari en annars staðar og lundin á köflum óbeisluð. Mönnum stendur semsé ógn af ýmsu í fangelsi öðru en lásum og slagbröndum, reglugerðar- skógi möppudýranna, frelsisskerðingu, það er og nefnilega samfanginn sem getur gengur fram sem fulltrúi ógnarinnar og öryggisleysisins. Þessi ógn verður einka- mál fanganna – almenningur fyrir utan skiptir sér ekki af þessu. Rannsakandinn bendir á fjórar gerðir árása sem fangar geta sjálfir orðið fyrir í fangelsi, eða orðið vitni að. Þær eru: þjófnaður, slagsmál, tilfinningalegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi.

Viðmælendur rannsakandans sögðu allir að ofbeldi viðgengist innan fang- elsisins en það væri í mismiklum mæli. Og rannsakandi dregur enda eftirfarandi ályktun: „Fyrir viðmælendur rannsóknar- innar var ekkert sældarlíf að þurfa að sitja af sér dóm á Litla-Hrauni“ (bls. 92). Fangaklefinn væri ekki sá öruggi staður sem menn héldu oft og fangi þar í raun og veru berskjaldaðri en annars staðar fyrir áreiti og árásum (sjá bls. 74). En of- beldið er auðvitað persónubundið, sumir eru ofbeldisfyllri en aðrir og „eru alveg samviskulausir og halda þessari iðju sinni áfram þegar inn í fangelsi er komið að sögn viðmælenda“ (sjá bls. 78). Víða í ritgerðinni er fjallað um ofbeldisheim- inn – sumir fangar eru ef svo má segja fangar ofbeldisins. Ofbeldið er snar þáttur af lífsmynstri þeirra og hversdagslegri framkomu, samofið persónuleikanum. Notað almennt til að ógna, ná fram vilja sínum, til dæmis kreista út pening, til

að svala kynferðislegum fýsnum, hóta, kvelja og hrella.

Rannsóknin var unnin samkvæmt eigindlegri aðferðarfræði. Frásagnir við- mælenda í slíkum rannsóknum standa eins og þær eru og þeir njóta trausts; rannsakandinn leggur ekki dóm á sann- leiksgildi frásagnnanna því þær endur- spegla upplifun viðmælenda.

Ofbeldið er að sögn viðmælenda rann- sakandans ekki aðeins af hálfu fanga held- ur og starfsmanna fangelsisins (sjá bls. 86). En fráleitt eru allir starfsmenn hér undir því flestir fangar bera þeim góða sögu, virðist því vera um þröngan hóp að ræða sem viðmælendur eiga við. En gagn- rýnin á starfsmennina birtist í orðum eins og: „illkvittni,“ „hunsaður,“ „talað niður til manns,“ „litinn hornauga“ (bls. 88). Í sambandi við þetta má geta stofn- anaofbeldis, sem Nína Jacqueline drepur á (bls. 26). Eins og orðið sjálft ber með sér þá geta fulltrúar tiltekinna stofnana beitt ofbeldi af margvíslegum tegundum, líkamlegu, andlegu, kynferðislegu o.s.frv. Nefnir hún í þessu sambandi hið fræga Breiðuvíkurmál en þar var rekin stofnun á vegum hins opinbera sem reyndist síðar meira en vafasöm svo ekki sé meira sagt.

Niðurstaða

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að töluvert ofbeldi eigi sér stað á Litla- -Hrauni. Þetta ofbeldi er bæði kynferð- islegt, andlegt og líkamlegt – eða í „öllum sínum birtingarmyndum“ (bls. 96). Mest ber þó á ofbeldi af tilfinningalegum toga. Það getur birst að mati viðmælenda Nínu Jacqueline í hótunum, ógnunum, og/eða stríðni.

Niðurstöður Nínu Jacqueline koma heim og saman við erlenda rannsóknar- niðurstöður þar sem segir að rúmlega tuttugu prósent karlfanga hafi orðið fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi á sex mánaða tímabili sem sú rannsókn stóð yfir (sjá bls. 97).

Hvaða lærdóma má draga af þessu?

Rannsókn þessi er mjög athyglisverð og vel unnin. Enda fékk hún nokkra athygli skömmu eftir að hún kom út. VERNDARBLAÐINU fannst því nauð- synlegt að koma henni á framfæri við lesendur sína og aðra.

Sjálf starfaði Nína Jacqueline sem fangavörður í tvö sumur og hefur því vissa innsýn inn í starfið. Hún skrifar um fangelsin af þekkingu og raunsærri hlýju. En ekkert er dregið undan, allt er lagt fram með vísindalegum hætti í anda félagsfræðinnar; lipurlega skrifað og á góðri íslensku. Eins og áður sagði er á nokkrum stöðum vikið að starfsmönn- um fangelsa og þá eru fangaverðir þar með taldir. Á bls. 99 segir þetta: „Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að menntun og viðmót fangavarða skiptir sköpum fyr- ir líðan fanga í afplánun.“ Þetta leiðir hug- ann að þeirri nauðsyn að efla menntun fangavarða svo um munar. Benda má að í Danmörku er menntun fangavarða 31⁄2 ár. Öll menntun er af hinu góða – sem og umræða eins og um þessa rannsókn. Það væri til að mynda gaman og náttúr- lega gagnlegt, að starfsmenn fangelsa og

fangar, tækju sig saman og læsu þessa rannsókn, og skiptust á skoðunum um hana. Margt fróðlegt kæmi út úr því – og örugglega eitthvað sem mætti nýta.

Þá ætti rannsóknin ekki síður að vera umhugsunarefni fyrir þau sem fara með stjórn fangelsismála og sömuleiðis hvatning til þeirra um að skoða áherslur í málaflokknum og samtímis að móta menningar- og umönnunarstefnu fyrir hvert fangelsi svo eitthvað sé nefnt.

En ekki síst skyldi það vera brýnt að velta fyrir sér ályktun rannsakanda á bls. 102 og 103: „Niðurstöður þessarar rann- sóknar benda til þess að betrunarstefna á Íslandi sé hverfandi en í því felst að refsistefnu sé fylgt í fangelsum landsins fremur en betrunarstefnu. Þó má benda á að föngum stendur til boða að fara í nám og hefur hluti fanga nýtt sér það úrræði, með ágætis árangri. Með aukinni

upplýsingagjöf til fanga um það sem í boði er og hvernig menn geti leitað sér aðstoðar væri hægt að koma betur á móts við fanga, gera þeim kleift að stunda það nám eins og vilji þeirra stendur til og gera þannig einstaklingnum tækifæri til þess að bæta ráð sitt og koma undir sig fót- unum að nýju. Þessum atriðum ásamt betri eftirfylgni eftir að einstaklingar ljúka afplánun væri hægt að koma í verk með skilvirkum leiðum og lækka þannig endurkomutíðni.“

Rannsókn Nínu Jacqueline Becker má finna hér: http://skemman.is/stream/ get/1946/26555/60401/1/N%C3%A- Dna_Jacqueline_Becker_lokautgafa.pdf

HSH tók saman

 

Þráinn Farestveit