Við viljum gera betur

Við viljum gera betur

 

 

Kynferðisbrot gegn börnum er sá málaflokkur sem hefur hvað mesta fordæmingu í flokki afbrota. Það er ekki bara samfélagið sem beitir þessari miklu dómhörku heldur er fordæmingin enn fremur mikil innan veggja fangelsanna í hópi fanga. Ekki er að finna viðlíka fordæmingu gagnvart einstaklingum sem dæmdir eru fyrir alvarleg brot eins og manndráp eða annað ofbeldi. Hér er samfélaginu mikill vandi á höndum þar sem fordæmingin lokar nánast fyrir alla möguleika á eftirliti, stuðningi, aðlögun, endurhæfingu og/eða meðferð í afplánunarferlinu fyrir þessa tilteknu einstaklinga. Hér verðum við að gera betur og í raun er það skylda okkar að mæta þessum hópi og draga þannig úr líkum á endurteknum brotum sem og endurkomum í fangelsi.

 

Öllum sem sækja um á Vernd og standast kröfur um meðferð og endurhæfingu hefur staðið til boða að ljúka hluta fullnustu afplánunar á Vernd. Þeir sem hafa ekki uppfyllt skilyrði vistunar vegna brotaflokka hefur verið synjað. Frá árinu 2006 hefur þeim sem sótt hafa um á Vernd og hafa verið dæmdir fyrir brot gegn börnum verið synjað um vistun á Vernd án undantekninga.

 

Vernd þykir það miður og eru samtökin nú á þeim stað að taka afstöðu í þá veru að heimila þeim sem dæmdir eru fyrir framangreind brot að vistast aftur á Vernd.

 

Undanfarin 15 ár hefur Vernd fangahjálp leitað leiða til þess að koma til móts við þennan hóp án árangurs. Stjórn Verndar telur forsendur breyttar með tilkomu nýrra tæknilausna og eru tilbúin að endurskoða skilyrði til vistunar á Vernd. Leitað hefur verið allra leiða til að tryggja sem best öryggi nærumhverfis við Vernd, skjólstæðinga Verndar og samfélagsins í heild. Rafrænt eftirlit og ökklaband verður notað til að tryggja sem best öryggi allra. Stjórn samtakanna fagnar breyttum forsendum, nýjum leiðum og tækni sem bæta ásýnd, réttarvitund og öryggi þeirra sem búa í nágrenni samtakanna að Laugateigi. Samhliða bendir stjórn samtakanna á nauðsyn þess að allir fái jafnan aðgang að meðferð og endurhæfingu og að þessi hópur dómþola fái til jafns við aðra að vistast utan fangelsa undir sérstöku rafrænu eftirliti á Vernd. Það er hagur allra að sem best takist til og samfélagslegur ávinningur fólgin í því að sem flestir fái að njóta endurhæfingar og aðlögunar á Vernd áður en snúið er aftur að fullu út í samfélagið. Það eru þau gildi sem Vernd stendur fyrir.

 

Ekkert verður slegið af kröfum um áhættumat á einstaklingum sem sækja um á Vernd. Við ákvörðun um vistun á Vernd verður nærumhverfið alltaf látið njóta vafans og ef minnsti vafi leikur á hæfni þeirra sem sækja um dvöl á Vernd ber að synja umsókn fremur en að samþykkja. Þá þarf enn fremur að taka tillit til heildaráhrifa sem vistun tiltekinna brotamanna kann að hafa á úrræðið í heild sinni. Mikilvægt er að sérskilyrðum varðandi viðtöl hjá sérfræðingum Fangelsismálastofnunar  (þ.e. sálfræðingum, félagsráðgjöfum) verði bætt inni í samninga sem gerðir eru við umsækjendur sem dæmdir eru á grundvelli þessara brotaflokka. Gæta þarf ítrustu fagmennsku þegar umsóknir um dvöl á Vernd er afgreiddar. Greinarmunur verður gerður á mati einstaklinga sem haldnir eru barnagirnd og/eða alvarlegrar siðblindu við afgreiðslu umsókna en þar þarf sérstaklega að horfa til hagsmuna og öryggis nærumhverfis.

 

 

 

                                                            Stjórn Verndar

                                                              09.03.2022