Fagleg sjónarmið um byggingu fangelsis

Á liðnum misserum hefur mikið verið fjallað um byggingu nýs fangelsis á opinberum vettvangi. Ekki er hægt að segja annað en að byggingasaga fangelsa sé sorgleg. Oft hefur staðið til að byggja fangelsi en einhverra hluta vegna hefur aldrei lánast að klára verkefnið.

Margt kemur til. Þensla í opinberum framkvæmdum, niðurskurður í opinberum framkvæmdum, „byggðapólitík" og almennt áhugaleysi um málaflokkinn. Nú er svo komið að tekin hefur verið ákvörðun um byggingu nýs fangelsis. Því ber að fagna. Því miður hefur nú komið upp „hefðbundin" byggðapólitík, deilur um staðsetningu og útúrsnúningar á alla bóga.

Umræðan hefur farið í marga hringi, rangar fullyrðingar settar fram, stjórnmálamenn sem áður hafa lítið eða ekki tjáð sig um málaflokkinn tekið að skrifa greinar og dregið ályktanir sem eru í engu samhengi við raunveruleikann. Þeir sem koma að ákvarðanatöku um staðsetningu fangelsis hafa jafnvel verið sakaðir um annarleg sjónarmið. Nauðsynlegt er að gera grein fyrir raunverulegri stöðu og hvað til stendur.
Ekki stendur til að framtíðaruppbygging öruggasta fangelsis landsins fari frá Fangelsinu Litla-Hrauni að Hólmsheiði. Fullyrðingar um slíkt eru rangar. Langtímaáætlanir gera þvert á móti ráð fyrir mikilli uppbyggingu á Litla-Hrauni og að fangarýmum þar verði fjölgað verulega. Það er mat þeirra sem að öryggismálum koma hjá Fangelsismálastofnun og öðrum að fyrst sé nauðsynlegt að byggja á Litla-Hrauni fullnægjandi aðstöðu fyrir starfsmenn, miðlæga varðstofu auk heimsóknar- og móttökuaðstöðu áður en rýmum verði fjölgað í fangelsinu um rúmlega 40 eins og ráð er fyrir gert. Þá er starfs- og námsaðstaða í Fangelsinu Litla-Hrauni ekki í stakk búin að bæta við 40 föngum án breytinga. Slíkt væri óábyrgt og óforsvaranlegt út frá mannréttinda- og öryggissjónarmiðum.

 

 

Þegar fjármagn fæst til byggingar móttöku- og heimsóknarhúss verður farið í þær framkvæmdir. Sem stendur fæst ekki fjármagn til þess, aðeins til fjölgunar fangarýma.
Staða okkar nú er erfið. Bæði fangelsin á höfuðborgarsvæðinu eru ónýt og rekin á síendurteknum undanþágum heilbrigðisyfirvalda. Þeim þarf að loka og opna nýtt fangelsi sem tekur við hlutverki þeirra. Hlutverk hins nýja fangelsis verður því að vista gæsluvarðhaldsfanga og vera móttökufangelsi auk þess að gera verður ráð fyrir vistun kvenfanga sem ekki teljast hæfir til vistunar í opnum úrræðum.

Ekki er svigrúm til að auka verulega rekstrarkostnað Fangelsismálastofnunar og því er sú krafa gerð að mögulegt verði að reka hið nýja fangelsi fyrir nánast sama rekstrarfé og nú fer í Hegningarhúsið og Fangelsið Kópavogsbraut.

Krafan um fleiri rými og almenna hagræðingu er hávær og ljóst að verulegt rekstrarhagræði felst í því að reka fangelsi fyrir 56 fanga fyrir nánast sama fjármagn og 26 fanga sem nú vistast í Hegningarhúsinu og Fangelsinu Kópavogsbraut, samtals.
Fangelsismálastofnun fékk þau fyrirmæli að koma með tillögur að hagkvæmari rekstri og fjölgun rýma. Fyrsta skrefið er að byggja gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi í Reykjavík sem jafnframt væri aðstaða fyrir kvenfanga og möguleikar á afplánun skemmri dóma, þ.m.t. vararefsing. Fangelsið verði þannig hannað að rekstrarkostnaður verði í lágmarki og starfsmönnum sem og föngum liði sem best.

Með lokun fangelsanna á höfuðborgarsvæðinu og byggingu gæsluvarðhalds- og móttökufangelsis á sama svæði er stórt skref stigið í framþróun fangelsismála á Íslandi.
Verði ekkert fangelsi á höfuðborgarsvæðinu glatast mikill mannauður og þekking, en sterkasti hlekkur fangelsiskerfisins felst í góðu og öflugu starfsfólki í öllum fangelsum landsins.

 

Páll E. Winkel skrifar