Fangelsið að Sogni


Fangelsið er skilgreint sem opið fangelsi en það felur í sér að engar girðingar eða múrar afmarka fangelsið og því þurfa fangar sem vistast þar að hegða sér á ábyrgan hátt og bera virðingu fyrir þeim reglum sem þar gilda. Aðbúnaður í fangelsinu er góður. Á Sogni er unnið eftir sérstaki umhverfisstefnu sem fangar taka virkan þátt í. Gert er ráð fyrir að vista 20 fanga á Sogni. Auk 18 herbergja eru þar viðtalsherbergi, setustofa, eldhús og borðstofa. 

Föngum er ætlað að stunda vinnu eða nám og við komu í fangelsið er hverjum og einum gert að skrifa undir samkomulag um vistunina. Fangar sjá sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju.  

Starfsmenn: Við Fangelsið að Sogni starfa samtals 8 fangaverðir undir stjórn Einars Vals Oddssonar, varðstjóra. Forstöðumaður er Margrét Frímannsdóttir.
 

Höfðingleg gjöf

 

Alþjóða Sam-Frímúrarahreyfingin á Íslandi gaf fangahjálpinni Vernd á dögunum hálfa milljón króna. Stjórn Verndar þakkar þessa gjöf og mun ákveða hvernig henni verður varið til að efla starfsemi fangahjálparinnar. Alþjóða Sam-Frímúrarahreyfingin barst til Íslands árið 1921 og er mannræktarfélag sem byggir á ýmsum siðum og táknfræði. Hreyfingin heimilar bæði konum og körlum þátttöku og leggur ríka áherslu á jafnrétti. Öllum er heimilt að gerast félagar án tillits til litarháttar, kynþátta eða trúarskoðana. Nánar er hægt að lesa um Alþjóða Sam-Frímúrarahreyfinguna á Íslandi á heimasíðu reglunnar: http://www.samfrim.is

 


Hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis

ARKÍS arkitektar hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Dómnefnd kynnti þær tillögur sem bárust í samkeppnina við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Dómnefnd skipuðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður og sérfræðingur í innanríkis-ráðuneytinu, Páll E. Winkel, fangelsismálastjóri, skipaður af ráðherra, Pétur Örn Björnsson, arkitekt, skipaður af ráðherra og tilnefndur af hálfu Arkitektafélags Íslands, Gylfi Guðjónsson og Hildur Gunnarsdóttir arkitektar.  Alls bárust átján tillögur, þar af tíu erlendis frá. Fyrstu verðlaun í samkeppninni fékk tillaga frá arkitektastofunni Arkís, höfundar hennar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar. Önnur verðlaun hlaut tillaga frá Arkitektur.is og þriðju verðlaun hlaut tillaga frá Teiknistofunni Tröð ehf. Sjá nánari upplýsingar á vef innanríkisráðuneytisins.

 


Fangelsið Sogni formlega tekið í notkun

Athöfnin fór fram í blíðskaparveðri og byrjaði á því að forstöðumaður fangelsisins, Margrét Frímannsdóttir, bauð gesti velkomna og lýsti þeim endurbótum sem fram fóru á húsnæðinu. Til máls tóku Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, Ólafur Örn Ólafsson, sveitarstjóri Ölfushrepps, Sigurður Guðmundsson, formaður fangavarðafélgsins og sr. Hreinn Hákonarson, fangelsisprestur sem blessaði starfsemi fangelsisins. Í ræðu innanríkisráðherra kom fram að margar jákvæðar breytingar ættu sér nú stað í fangelsismálum á Íslandi og nefndi hann í því sambandi m.a. opnun fangelsisins, rýmkun samfélagsþjónustu, rafrænt eftirlit og ákvörðun um byggingu fangelsis á Hólmsheiði.Töluverðar breytingar voru gerðar á húsnæðinu sem áður hýsti réttargeðdeild sem nú hefur verið flutt á Klepp og var vistarverum fjölgað en áður voru vistaðir þar sjö einstaklingar. Vandlega var staðið að öllum undirbúniningi og er aðbúnaður í fangelsinu góður. Öllum þeim sem að verkinu komu er þakkað fyrir vel unnin störf. Gert er ráð fyrir að í fangelsinu verði allt að 20 fangar sem treyst er til þess að vistast í opnu fangelsi. Föngum á Sogni er ætlað að stunda vinnu eða nám og sjá fangar sjálfir um eldamennsku, þrif, þvotta og annað er viðkemur almennu húshaldi og er markmiðið m.a. að þjálfa þá í lífsleikni. Þannig er lagður grunnur að því að undirbúa fanga til að koma út í samfélagið að nýju.


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 7. júní kl.18:00
(Gamla rúgbrauðsgerðin) Í húsnæði (Vímulaus æska / Foreldrahús)

Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.
 
Stjórnin

 

 

 

Þráinn Farestveit


Fangelsi að Sogni

Fangelsismálayfirvöld í samvinnu við ríkisvaldið hafa nú ákveðið að loka opna fangelsinu á Bitru í Flóahreppi og flytja starfsemina yfir á Sogn í Ölfusi. Réttargeðdeildin sem þar hefur verið starfrækt flyst 1. Mars til Reykjavíkur. Reikna má með flutningum fanga frá Bitru þegar endurbótum og breytingum verður lokið, en þær standa nú yfir. Ekki er um að ræða nýja starfsemi heldur flutning á starfsemi sem fyrir er á Bitru, starfsmannafjöldi verður sá sami enda reiknað með sama eða svipuðum fjölda vistmanna. Fangelsi á Sogni ætti að vera ágætis viðbót við þau fangelsi sem fyrir eru þar til nýtt fangelsi rís. Það er ljóst að það mun taka nokkur ár að byggja nýtt fangelsi.


Fagleg sjónarmið um byggingu fangelsis

Á liðnum misserum hefur mikið verið fjallað um byggingu nýs fangelsis á opinberum vettvangi. Ekki er hægt að segja annað en að byggingasaga fangelsa sé sorgleg. Oft hefur staðið til að byggja fangelsi en einhverra hluta vegna hefur aldrei lánast að klára verkefnið.

Margt kemur til. Þensla í opinberum framkvæmdum, niðurskurður í opinberum framkvæmdum, „byggðapólitík" og almennt áhugaleysi um málaflokkinn. Nú er svo komið að tekin hefur verið ákvörðun um byggingu nýs fangelsis. Því ber að fagna. Því miður hefur nú komið upp „hefðbundin" byggðapólitík, deilur um staðsetningu og útúrsnúningar á alla bóga.

Umræðan hefur farið í marga hringi, rangar fullyrðingar settar fram, stjórnmálamenn sem áður hafa lítið eða ekki tjáð sig um málaflokkinn tekið að skrifa greinar og dregið ályktanir sem eru í engu samhengi við raunveruleikann. Þeir sem koma að ákvarðanatöku um staðsetningu fangelsis hafa jafnvel verið sakaðir um annarleg sjónarmið. Nauðsynlegt er að gera grein fyrir raunverulegri stöðu og hvað til stendur.
Ekki stendur til að framtíðaruppbygging öruggasta fangelsis landsins fari frá Fangelsinu Litla-Hrauni að Hólmsheiði. Fullyrðingar um slíkt eru rangar. Langtímaáætlanir gera þvert á móti ráð fyrir mikilli uppbyggingu á Litla-Hrauni og að fangarýmum þar verði fjölgað verulega. Það er mat þeirra sem að öryggismálum koma hjá Fangelsismálastofnun og öðrum að fyrst sé nauðsynlegt að byggja á Litla-Hrauni fullnægjandi aðstöðu fyrir starfsmenn, miðlæga varðstofu auk heimsóknar- og móttökuaðstöðu áður en rýmum verði fjölgað í fangelsinu um rúmlega 40 eins og ráð er fyrir gert. Þá er starfs- og námsaðstaða í Fangelsinu Litla-Hrauni ekki í stakk búin að bæta við 40 föngum án breytinga. Slíkt væri óábyrgt og óforsvaranlegt út frá mannréttinda- og öryggissjónarmiðum.

 


Guðmundur Gíslason skrifar um fangelsismál

Guðmundur Gíslason skrifar:
 
Að gefnu tilefni langar mig til að leggja orð í belg vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um byggingu nýs fangelsis en sú staða virðist komin upp að útboð getur ekki hafist vegna ágreinings í ríkisstjórn um fjármögnun verksins.

Miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu, lögregla hefur verið efld, tollgæsla styrkst, refsingar hafa þyngst og dómstólar orðið skilvirkari. Fangelsismálastofnun á orðið erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu, fullnustu refsingar brotamanna sem dæmdir hafa verið til refsivistar. Í landinu eru sex fangelsi, þar af tvö á höfuðborgarsvæðinu, sem bæði hafa verið rekin á undanþágu heilbrigðisyfirvalda til margra ára enda svo komið að þar er erfitt að uppfylla nútímaskilyrði um mannúðlega refsivist fanga. Hegningarhúsið var byggt 1874 og getur hýst 16 fanga. Kópavogsfangelsið var tekið í notkun 1989 og getur hýst 12 fanga. Það er eina fangelsið fyrir konur. Af ýmsum ástæðum eru bæði þessi fangelsi óhæf undir þá starfsemi sem þar fer fram. Hegningarhúsið var reist á 19. öld þegar helstu samgöngutæki voru hestar og þjóðin var bændasamfélag. Allt frá miðri síðustu öld hefur verið rætt opinberlega um að Hegningarhúsið sé ekki heppilegur vistunarstaður fyrir fanga. Árið 1961 lét Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, vinna skýrslu um drög að nýju fangelsi í Reykjavík vegna þess að Hegningarhúsið uppfyllti ekki kröfur um aðbúnað. Þetta var fyrir 50 árum! Kópavogsfangelsið var ekki byggt sem fangelsi og hefur í raun hentað illa sem slíkt, sérstaklega til lengri tíma fangavistar. Húsnæðið er þröngt og lítið rými til athafna og útivistar fanga. Það er að mínu áliti óásættanlegt að konur þurfi að afplána langa refsingu þar. Bæði fangelsin standa auk þess of nærri byggð, Hegningarhúsið í miðju verslunar- og skemmtanahverfi og Kópavogsfangelsi í íbúðahverfi, 50 metra frá stórum leikskóla.


Er það óeining ráðherra sem kemur í veg fyrir byggingu fangelsis

Skynsamlegt væri að leita til einkaaðila um fjármögnun og byggingu nýs húsnæðis fyrir fangelsi á Hólmsheiði, ef farið yrði af stað með þá framkvæmd bráðlega, eins og staðan er í ríkisfjármálum í dag, að sögn Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Þetta sagði hann í morgunútvarpi Rásar 2 á föstudaginn.
Í fréttaskýringu um fangelsismálin í Morgunblaðinu í dag segir, að þetta stangist á við það sem Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og flokksbróðir Steingríms, hefur sagt um fangelsið, en í aprílbyrjun vísaði hann fréttum þess efnis á bug og sagði ekki stefnt að öðru en opinberri framkvæmd.
Strax þá hermdu heimildir Morgunblaðsins að ágreiningur væri um málið milli ráðuneyta þeirra Steingríms og Ögmundar. Útboðsgögn hafa nú verið tilbúin í marga mánuði og beðið hefur verið eftir útboðinu.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir aðspurður að mikið hagræði yrði að nýju og stóru fangelsi en segir það ekki sitt hlutverk að hafa skoðun á fjármögnun þess.
 
Frétt mbl.is


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 9. júní kl.18:00
( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )  

Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.
 
 
Stjórnin

 

Þráinn Farestveit


Bygging nýs fangelsins í útboð á vegum ríkisins

Bygging nýs fangelsis, sem ráðgert er að bjóða út síðar í mánuðinum, verður í útboði á vegum ríkisins og mun ríkið eiga fangelsið. Ekki er gert ráð fyrir því að bjóðendur eigi bygginguna og leigi hana ríkinu eins og skilja hefur mátt af fréttum í morgun.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að leið einkaframkvæmdar hafi reynst skattborgurum dýrari en útboð ríkisins og því verði farin sú leið varðandi fangelsið. Unnið er nú að gerð útboðsgagna og stefnt að því að unnt verði að bjóða verkið út síðar í mánuðinum.


Andlát: Sigríður Heiðberg

Sigríður Svanlaug Heiðberg.
 
Sigríður Svanlaug Heiðberg, formaður Kattavinafélags Íslands og framkvæmdastjóri Kattholts, er látin, 72 ára að aldri. Hún lézt á líknardeild Landspítala Ísland, Landakoti, þriðjudaginn 22. febrúar sl. Hún lætur eftir sig eiginmann, Einar Jónsson verktaka og fósturson, Daníel Orra Einarsson nema, bróður Eyþór Heiðberg, móðursysturdóttur sína Sigríði Einarsdóttur, systkinabörn og börn þeirra.
 
Sigríður Svanlaug var fædd í Reykjavík 30. mars 1938. Foreldrar hennar voru Jón Heiðberg heildsali og frú Þórey Heiðberg Eyþórsdóttir. Sigríður gekk í Húsmæðraskólann í Reykjavík 1958 til 1959 þar sem hún bazt skólasystrum sínum í óslítandi böndum svo þær héldu saumaklúbb reglulega og ferðuðust víða um Ísland og til útlanda ásamt mökum.Hún sótti námskeið og lauk námi hjá Apótekarafélaginu 1968 sem aðstoðarmaður lyfjafræðings og starfaði hjá Stefáni Thorarensen hf. í tvo áratugi.
 
Sigríður hefur setið í stjórn Verndar síðan 1986 og verið varaformaður síðan 2001. Hún tók við formennsku Kattavinafélags Íslands 1989 með opnun Kattholts að leiðarljósi. Líknarstöðin Kattholt var opnuð júlílok 1991, er hún móttaka fyrir heimilislausa ketti og kattahótel. Kattholt hefur verið starfrækt allan tímann undir handleiðslu hennar með það meginmarkmið að stuðla að bættu og upplýstu dýrahaldi Íslendinga.

Hún var kjörin heiðursfélagi Félagasamtakanna Verndar árið 2010.

Vernd vottar aðstandendum dýpstu samúð.

 

Þráinn Farestveit