„Við þurf­um að vita hvað við erum að gera vel til að vita hvað við þurf­um að gera bet­ur,“ sagði Hall­dór Hauks­son, sviðsstjóri meðferðar- og fóst­ur­sviðs Barna­vernd­ar­stofu, á opn­um fundi SÁÁ-klúbbs­ins um vímu­efna­vanda unga fólks­ins sem fram fór í gær­kvöldi.

Fjöldi manns sótti fund­inn, en auk Hall­dórs fór þar með fram­sögu Val­gerður Rún­ars­dótt­ir, for­stjóri sjúkra­húss­ins Vogs, áður en þau tóku svo bæði þátt í pall­borðsum­ræðum.

Í fram­sögu sinni sagði Hall­dór mik­il­vægt að horfa á styrk­leika þeirr­ar þjón­ustu og úrræða sem Barna­vernd­ar­stofa hef­ur yfir að ráða, og byggja ofan á, í stað þess að segja að allt sé ónýtt og að byggja þurfi þjón­ust­una upp að nýju. Einn af helstu styrk­leik­um þjón­ust­unn­ar sagði hann vera fjöl­kerfameðferðina, eða MST, sem fram fer á heim­ili þess sem á þarf að halda til þess að yf­ir­færsla fari fram sam­hliða. 600 fjöl­skyld­ur hafa nýtt sér meðferðina á síðastliðnum tíu árum og af henni hlýst góður ár­ang­ur, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í dag.