Börn sem ættu að vera á sjúkrahúsi

„Við þurf­um að vita hvað við erum að gera vel til að vita hvað við þurf­um að gera bet­ur,“ sagði Hall­dór Hauks­son, sviðsstjóri meðferðar- og fóst­ur­sviðs Barna­vernd­ar­stofu, á opn­um fundi SÁÁ-klúbbs­ins um vímu­efna­vanda unga fólks­ins sem fram fór í gær­kvöldi.

Fjöldi manns sótti fund­inn, en auk Hall­dórs fór þar með fram­sögu Val­gerður Rún­ars­dótt­ir, for­stjóri sjúkra­húss­ins Vogs, áður en þau tóku svo bæði þátt í pall­borðsum­ræðum.

Í fram­sögu sinni sagði Hall­dór mik­il­vægt að horfa á styrk­leika þeirr­ar þjón­ustu og úrræða sem Barna­vernd­ar­stofa hef­ur yfir að ráða, og byggja ofan á, í stað þess að segja að allt sé ónýtt og að byggja þurfi þjón­ust­una upp að nýju. Einn af helstu styrk­leik­um þjón­ust­unn­ar sagði hann vera fjöl­kerfameðferðina, eða MST, sem fram fer á heim­ili þess sem á þarf að halda til þess að yf­ir­færsla fari fram sam­hliða. 600 fjöl­skyld­ur hafa nýtt sér meðferðina á síðastliðnum tíu árum og af henni hlýst góður ár­ang­ur, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í dag.

 

 

 


Sigríður Á. Andersen, Dómsmálaráðherra, heimsótti Vernd

Sigríður Á. Andersen, Dómsmálaráðherra, heimsótti í dag Vernd fangahjálp að Laugateig 19 ásamt starfsfólki ráðuneytis Dómsmála. Í upphafi heimsóknarinnar var farið yfir hlutverk og sögu Verndar en á þessum tímamótum eru 60 ár frá því að Þóra Einarsdótti viðraði fyrst þá hugmynd að stofnun íslenskrar fangahjálpar. Þóra hafði þá fengið að kynnast sambærilegum samtökum þegar hún hafði stundað nám í Kofoed-skólanum í Kaupmannahöfn en hann var líknarstofnun sem lagði sig fram um að hjálpa útigangsfólki og þeim er minna máttu sín. Þóra hafði líka kynnst dönskum samtökum sem aðstoðu fanga og fjölskyldur þeirra. Þessi danska fangahjálp bar nafnið Det danske forsorgsselskab. Fanghjálpin danska vann í nánum tengslum við yfirvöld og einstaklinga en voru frjáls félagasamtök. Allar götur síðan hefur hugmyndafræði Verndar verið sú að samtökin skyldu aðstoða hvern þann, sem tekið hefði út refsingu eftir dómi. Honum skyldi hjálpað yfir byrjunarörðugleikana svo hann gæti aftur unnið traust samfélagsins. Þá skyldi reynt að útvega honum húsnæði og vinnu og hvetja til sjálfshjálpar. Farið var yfir mikilvægi starfseminnar, forvarnagildi og mikilvægi þess að einstaklingar sem hljóta óskilorðsbundna dóma njóti samfellu í úttekt dóma. Það hljóti alltaf að vera vilji samfélagsins að árangur sé sýnilegur af starfsemi sem þessari og einstaklingurinn komi betri út í samfélagið eftir slíka vistun.

Að þessu tilefni var nýr samningur undirritaður á milli Verndar og Fangelsismálastofnunar en samningurinn hefur verið í vinnslu í nokkurn tíma og mættu starfsfólk Fangelsismálastofnunnar, stjórnarmenn Verndar og starfsfólk. Þess bera að geta að Sigríður Á. Andersen Dómsmálaráðherra lét það verða eitt af sýnum fyrstu embættisverkum að koma á samkomulagi á milli Verndar og Fangelsismálastofnunnar varðandi þann samning sem nú hefur verið undirritaður. Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunnar ræddi um mikilvægi Verndar og benti á að Vernd skipti sköpum í öllu ferli afplánunnar og að samstarf Verndar og Fangelsimalastofnunnar hefði alltaf verið mjög gott. Ráðherran benti á mikilvægi samtaka á borð við Vernd þau væru afar mikilvæg í öllum stoðum samfélagsins og það bæri að hlúa að slíkum samtökum því án þeirra væri ekki hægt ná sama árangri.

Fyrir hönd okkar á Vernd þökkum við ráðherra og öðrum gestum kærlega fyrir heimsóknina og gagnlegt samtal um fangelsismál og mikilvægi afplánunar utan fangelsa. Það er mikilvægt fyrir samtökin að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi okkur með heimsókn sinni á Vernd og aðkomu að nýjum samningi. Samtökin óska Sigríður Á. Andersen velfarnaðar í embætti og hlökkum til nánara samstarfs á komandi árum.

Á mynd: Ragna Bjarnadóttir, Haukur Guðmundsson, Páll Winkel, Sigríður Á. Andersen, Elsa Dóra Grétarsdóttir, Þráinn Farestveit.

 


Trésmiðja litla-Hrauns

Fang­els­is­mála­stofn­un hef­ur opnað Face­book-síðu og í fyrstu færslu henn­ar er greint frá þeim marg­vís­legu störf­um sem fang­arn­ir á Litla-Hrauni sinna.

Þar eru seldir bekkir og garðborð sem prýða rjóður viða um land. Einnig er hægt að panta númerplötu sérmerkta.

Sjá hér : http://www.fangelsi.is/fangelsi-rikisins/fangelsid-litla-hrauni/

Á meðal þeirra starfa eru að skera út og mála jóla­sveina, jóla­tré og jóla­sokka.

Hægt er að skoða verk­efni fang­anna sem starfa í tré­smiðju Litla-Hrauns í mynda­al­búmi Fang­els­is­mála­stofn­un­ar á Face­book.

Sjá hér : https://www.facebook.com/fangelsismalastofnun/?fref=ts

Í færsl­unni er einnig greint frá því að ný heimasíða stofn­un­ar­inn­ar verður opnuð á næst­unni. Þar verður m.a. boðið upp á vef­versl­un með vör­ur fanga.

Fangar á Litla-Hrauni starfa við hin ýmsu verkefni meðan á afplánun stendur. Síðustu verkefni fanga í trésmiðju fólust í að skera út og mála jólasveina, jólatré, jólasokka og margt fleira. Fleiri skemmtileg verkefni úr trésmiðju Litla-Hrauns er hægt að sjá í myndaalbúmi okkar hér á Facebook „Handverk fanga á Litla-Hrauni“. Á næstunni verður ný heimasíða Fangelsismálastofnunar sett af stað þar sem m.a. verður boðið upp á vefverslun með vörur fanga. Fram til þess geta áhugasamir fengið upplýsingar um vörur og verð í gegnum netfangið

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Þráinn Farestveit


Guðþjónustu á páskadag

 

Sr. Hreinn Hákonarson prestur fanga var með guðþjónustu að vanda á páskadag í fangelsum sem liggja næst höfuðborgarsvæðinu. Dagurinn var tekinn snemma og var fyrsta guðþjónustan í fangelsinu á Hólmsheiði en eftir það var haldið í opna fangelsið að Sogni í Ölfusi.

Þá var haldið að Litla-Hrauni þar sem flestir fangar voru og var þátttakan þar sérstaklega góð en um þrjátíu fangar komu til guðþjónustunnar þar.

 

 

 

Í för með Sr. Hreini var Hjalti Jón Sverrisson tónlistarmaður og guðfræðingur.

 

 

 

 

Þráinn Farestveit

 

 


Félags- og húsnæðismálaráðherra

 


Framkvæmdastjóri og forstöðumaður Verndar fóru á fund félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur í dag 18. nóvember.
Á fundinum var farið yfir málefni Verndar og ráðherra kynnt stefna félagasamtakanna, saga og framtíðarsýn. Einnig var farið yfir rekstrarfyrirkomulag Verndar og framtíðarhorfur. Ráðherra fór yfir möguleika vistmanna Verndar að sækja um bætur vegna búsetu en ný lög taka gildi um áramót sem gera ráð fyrir því að einstaklingar sem búa á áfangaheimilum geti sótt um húsnæðisbætur eða húsaleigubætur. Eygló Harðardótt­ir vel­ferðarráðherra segir lögin hafi það meg­in­ mark­mið að lækka hús­næðis­kostnað efnam­inni leigj­enda með greiðslu hús­næðis­bóta einnig að því sé ætlað að verða liður í því að jafna hús­næðisstuðning hins op­in­bera við ólík bú­setu­form og stuðla þannig að því að lands­menn hafi raun­veru­legt val um bú­setu­form. 


Heimilismenn Verndar hafa hingað til þurft að reiða sig á styrki eða stuðning frá því sveitafélagi sem þeir eru skráðir hjá. Úrræði Verndar hefur verið meira og minna fullt síðustu ár og úrræðið fyllilega staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru um búsetúrræði. 

Vernd hefur nú starfað í rúmlega 50 ár þar sem vegalausum og húsnæðislausum hefur verið veittur stuðningur. Ríkar kröfur eru gerðar til endurhæfingar og aðlögunar þeirra sem þar búa. Einnig hefur Vernd gert ríkari kröfur um starfsendurhæfingu þeirra sem ekki geta sinnt hefðbundnum störfum.

 

Þráinn Farestveit


Vilja sálfræðinga í öll fangelsi landsins

Þingflokkur Samfylkingar hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að það verði að minnsta kosti einn sálfræðingur með starfsstöð í hverju fangelsi. Þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Páll Winkel fangelsismálastjóri fagnar þessu framtaki og vonar að málið nái fram að ganga.

„Þetta eru auðvitað frábærar fréttir, ef af þessu verður. Hvað getur maður annað sagt?“ spyr Páll og bætir við að það hljóti hver maður að sjá að það sé ekki nóg að fjölga fangarýmum líkt og hefur verið gert, meðal annars með tilkomu nýs fangelsis á Hólmsheiði, heldur verði um leið að fjölga þeim sem sinna föngunum. „Það hefur ekki verið gert síðustu áratugi og raunar þvert á móti,“ útskýrir Páll.


 

Hjá Fangelsismálastofnun starfa nú fjórir sálfræðingar í þremur stöðugildum. Einn er með starfsstöð á Litla-Hrauni en hinir þrír eru með starfsstöð í Reykjavík. Sálfræðingarnir sinna öllum fangelsum. Engin föst viðvera sálfræðings er á Kvíabryggju og á Akureyri en sálfræðingur fer vikulega á Hólmsheiði og Sogn. „Stjórnvöldum ber skylda til að veita þeim sem er frelsissviptur sálræna aðstoð til að hann hafi möguleika á að koma bættari úr afplánun. Einnig er ljóst að þeir sem dvelja á bak við lás og slá glíma oftar en ekki við fyrri áföll sem mikilvægt er að vinna úr, hvort sem þau áföll tengjast uppvexti, neyslu eða öðru,“ segir í greinargerð með tillögunni.

 

Páll tekur undir þessi orð. „Það blasir við okkur sem í fangelsunum störfum að flestir, ef ekki allir, glíma við einhvers konar fíknivanda – að sama skapi blasir það við okkur að það þarf að hjálpa öllu því fólki sem glímir við slíkan vanda. Menn eru að fremja langflesta glæpi undir áhrifum fíkniefna og ef fólki er hjálpað að takast á við slíkt, þá getum við fækkað afbrotum og þar af leiðandi endurkomum inn í fangelsin. Í mínum huga er þetta svo einfalt, að minnsta kosti hjá stórum hluta minna skjólstæðinga. Að fá sálfræðinga með fasta starfsstöð í hvert fangelsi væri mikið gæfuspor. Samfélagið á að gera allt sem mögulegt er til að hjálpa fólki af glapstigum, og það er svo sem algjörlega óháð stjórnmálaflokkum eða nokkurri pólitík.“

VÍSIR/VILHELM

 


Dómareiknir

Afstaða, fé­lag fanga, hef­ur opnað vef­inn dom­a­reikn­ir.is sem sagður er „senni­lega mesta fram­fara­skref sem litið hef­ur dags­ins ljós varðandi upp­lýs­inga­gjöf um fram­gang í fanga­vist“. Til­gang­ur vefs­ins er að gera niður­stöðu dóma aðgengi­lega og skilj­an­lega, að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Af­stöðu.

„Með nýja vefn­um geta fang­ar, aðstand­end­ur, fanga­verðir, lög­menn, frétta­menn og al­menn­ing­ur kynnt sér hvernig fram­gang­ur fanga­vist­ar er, að gefn­um for­send­um, og fengið þannig fram upp­lýs­ing­ar um dag­setn­ing­ar og þau úrræði sem í boði eru skv. nú­gild­andi lög­um og regl­um,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þar seg­ir einnig að oft virðist uppi mis­skiln­ing­ur um hvernig niðurstaða dóma er í fram­kvæmd, enda ekki á hendi dómsvalds­ins að út­færa dóma held­ur fram­kvæmda­valds­ins.

„Þó það sé hlut­verk dóm­stóla að kveða upp dóma flæk­ir það oft niður­stöðurn­ar að Fang­els­is­mála­stofn­un skuli síðan falið að út­færa dóm­ana og taka ákv­arðanir um hvernig skuli fulln­usta dóma. Dóm­a­reikn­in­um er ætlað að varpa ljósi á hvernig rétt­ar­kerfið virk­ar í raun, því út­koma dóma hef­ur að mörgu leyti verið hul­in þeim sem ekki hafa djúpt inn­sæi í ís­lenskt rétt­ar­kerfi - sem er þó svo mik­il­vægt fyr­ir rétt­ar­ríkið; að öll­um sé kunn­ugt um hvaða regl­ur þar ríkja og þær séu öll­um skilj­an­leg­ar, þar með talið dóma­fram­kvæmd.
 
Afstaða hef­ur jafn­framt, í sam­vinnu við lög­menn með sérþekk­ingu á saka­mála­rétti, sett sam­an upp­lýs­ing­ar um rétt­ar­kerfið og þau tak­mörkuðu dómsúr­ræði sem dóm­stól­ar hér á landi hafa úr að velja þegar dæmt er í mál­um. Dóm­stól­ar í Skandi­nav­íu hafa úr mun fleiri úrræðum að velja en ís­lensk­ir dóm­stól­ar og geta þannig t.d. ákveðið að afplán­un skuli fara fram und­ir ra­f­rænu eft­ir­liti (með s.k. ökkla­bönd­um), að dómþoli skuli gang­ast und­ir meðferðarú­ræði vegna ölv­unar­akst­urs og ann­ars kon­ar úrræði sem tryggja að afplán­un dóms hefst strax við upp­kvaðningu dóms. Þannig er or­sök og af­leiðing brots sett í sam­hengi, afplán­un hefst án tafa og fer fram í nærum­hverfi dómþol­ans.“


Samstarfssamningur

 

Rauði krossinn og Fangelsismálastofnun undirrituðu samstarfssamning á dögunum vegna nýs tilraunaverkefnis til þriggja ára fyrir fólk eftir afplánun refsivistar í fangelsum. Undirbúningur hefst strax í janúar 2018 og standa vonir til að verkefnið geti farið af stað seinni hluta árs. Rauði krossinn í Kópavogi mun sjá um undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Verkefnið er að norskri fyrirmynd, en norski Rauði krossinn hefur starfrækt álíka verkefni í áratug. Um félagsvinaverkefni er að ræða, þar sem sjálfboðaliðar aðstoða þátttakendur í allt að 12 mánuði eftir að afplánun lýkur. Aðstoðin felst í ýmsu er snýr að daglegu lífi enda margt sem þarf að huga að eftir fjarveru úr samfélaginu. Hagsmunaaðilar, ekki síst fangar, munu koma að verkefninu á fyrstu stigum með það að leiðarljósi að úrræðið nýtist sem best og beri árangur.

Á myndinni má sjá Pál E. Winkel, forstjóra fangelsismálastofnunar og Kristínu S. Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi við undirritun samningins.

 

 

 

 


Verndarblaðið 44. Árg .2016

Menningarstefna í fangelsum

Menning er af ýmsum toga og alls ekki einsleit. Þar kennir margra grasa og það sem einn sér sem illgresi og kallar jafnvel ómenningu getur annar séð sem fagra jurt og sett á stall hámenningar. Menning er nefnilega afstætt fyrirbæri í mannlífinu. Og manneskjur hafa ríka tilhneigingu til að flokka eitt og annað til þess meðal annars að marka sjálfum sér sess í tilverunni.

Kannski er menning ekki það fyrsta sem mönnum dettur í hug þegar þeir leiða hugann að fangelsi. Í það minnsta ekki sú menning sem alla jafna telst vera göfgandi og uppbyggileg og er eftirsóknarverð í sjálfu sér. Eitthvað sem enginn vill láta fram hjá sér fara jafnvel þótt það kosti eitthvert fé og telur sálarbætandi að njóta. Ýmist einn með sjálfum sér eða með öðrum. Menning hversdagslegs fólks.Allt atferli mannskepnunnar elur af sér menningu og mótar hana. Hvort heldur það nú er verklegt starf eða andleg iðja. Ekki skiptir máli hvort það er stöðumælavörðurinn, menntamaðurinn, fanginn eða bóndakonan sem á í hlut. Öll skilja þau eftir sig fótspor og hafa einhverja sögu að segja sem er hluti menningar. Þau spor geta verið djúp og farsæl, fyllt kærleika og elsku; grunn og hikandi, sár og meiðandi. Sum hver tekin óafvitandi. Allt fótspor fólks í undarlegum heimi.Menning felst í samskiptum við annað fólk og tengslum við umhverfi og náttúru.

Frásögn er með elstu menningarlegu fyrirbærum mannkynsins. Að segja frá því sem á dagana hefur drifið – og það sem hæst hefur borið í lífi hvers og eins. Það er frásögn einstaklingsins, upplifun hans; sumt af því eru hreinar og beinar staðreyndir, annað staðreyndir í listrænum búningi, ofnar inn í skynjun og tilfinningar. Enn annað er uppspuni og hitt ímyndun. Allt fléttast saman í frásögn sem er hluti af sjálfi einstaklingsins. Hver manneskja ber í sér ákveðna menningu eða spor menningar af ýmsu tagi. Margir fangar segja til dæmis sögu með húðflúri sínu – örfáir hlutar hennar og oft þeir dýrmætustu eru skráðir á líkamann því fanginn vill geyma hana. Hann veit að engin yfirvöld taka líkamann af honum þó að þau geti svipt hann ýmsu öðru af gefnum tilefnum.

Stundum þarf að styðja við bakið á menningunni og sérstaklega á þeim stöðum þar sem fólk dvelst tímabundið af ýmsum ástæðum hvort heldur í fangelsi eða sjúkrahúsi. Margir listamenn hafa til dæmis gengið þar fram fyrir skjöldu og leikið og sungið fyrir fanga við ýmis tímamót. Það er ávallt þakkarefni og fangar taka slíkum menningarheimsóknum vel. Hins vegar þyrfti slík menningarstarfsemi að vera markvissari og bundin í dagskrá fangelsa. Hvað um að standa fyrir einum menningarviðburði í mánuði? Tónlist, myndlist eða ritlist. Það er til dæmis undravert að listaverk skuli ekki hanga uppi í öllum fangelsisdeildum og höggmyndir prýða fangelsisgarða. Í mörgum stofnunum ríkisins eru málverk á veggjum sem ríkið á og lánar eða leigir stofnunum til að prýða þær og vekja upp menningarlegar tilfinn­ingar og umræður. Og ríkið á urmul af listaverkum sem geymd eru hér og þar. Það er sérstaklega ánægjulegt að listaverk skuli vera að finna í Hólmsheiðarfangelsinu en þar hafa nokkur flugmynstur fugla verið fræst í veggi. Stundum eru ágætir listmálarar í hópi fanga og þeir hafa oft lánað verk sín til að lífga upp á fangahúsin.


Áfangaheimili Verndar

Um helm­ing­ur fanga á Íslandi lýk­ur nú afplán­un sinni á áfanga­heim­ili Vernd­ar í Reykja­vík. Þar eru um tutt­ugu pláss sem oft­ast eru full­nýtt. Fang­ar geta verið þar í allt að tólf mánuði. Dæmi eru um að þeir biðji um að vera leng­ur. Eng­in önn­ur sam­bæri­leg úrræði eru nú í boði hér á landi.

Þrá­inn Farest­veit, fram­kvæmda­stjóri Vernd­ar, seg­ir að úrræðið nægi þess­um fjölda í dag, en bend­ir á að boðun­arlist­ar séu lang­ir, m.a. í kjöl­far þess að tveim­ur fang­els­um var lokað. Þegar nýja fang­elsið á Hólms­heiði verði komið að fullu í notk­un sé ljóst að ásókn­in muni aukast. Við því þurfi að bregðast með ein­hverj­um hætti.

Í meist­ara­rit­gerð Nínu Jacqu­el­ine Becker sem sagt var frá á mbl.is í vik­unni og byggð var á viðtöl­um við fyrr­ver­andi fanga, kom fram að skort­ur væri á eft­ir­fylgni og fé­lags­leg­um stuðningi fyr­ir fanga sem lokið hafa afplán­un. Þeir sem sem hún ræddi við nefndu sum­ir hverj­ir að fátt hefði beðið þeirra utan veggja fang­els­is­ins.

Frétt mbl.is: „Hell­ing­ur af of­beldi“ á Litla-Hrauni

 „Þær eru nokkr­ar krafta­verka­sög­urn­ar,“ seg­ir Þrá­inn Farest­veit um fanga sem lokið hafa afplán­un á Vernd. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Á Vernd er föng­un­um veitt­ur marg­vís­leg­ur stuðning­ur og sú staðreynd að helm­ing­ur fanga lýk­ur nú afplán­un sinni þar vek­ur upp spurn­ing­ar um ör­lög jafn­margra sem gera það ekki?

Þrá­inn seg­ir að ein­hver hluti fanga velji að ljúka frek­ar afplán­un inni í lokuðum fang­els­um. Regl­ur á Vernd eru strang­ar, þeir sem þar dvelja þurfa að vera í starf­send­ur­hæf­ingu, vinnu eða námi, fara að regl­um um úti­vist­ar­tíma og vera edrú. „Þetta hent­ar ekki öll­um,“ seg­ir hann.

 

Um 8% send aft­ur í fang­elsi

Þeir fang­ar sem eru í neyslu inni í lokuðum fang­els­um eiga þess því ekki kost að ljúka afplán­un á Vernd. Þeir sem eru í neyslu og vilja fara í meðferð geta farið í meðferð á veg­um SÁÁ eða í Hlaðgerðarkoti, svo lengi sem þeir eiga ekki önn­ur ólok­in mál í dóms­kerf­inu. Í kjöl­farið geta þeir svo lokið afplán­un á Vernd. Verði fang­ar upp­vís­ir að því að vera í neyslu á meðan þeir eru þar eru þeir send­ir aft­ur í fang­elsi. Slíkt ger­ist í um 8% til­vika. „Það verður að telj­ast eðli­legt, sér­stak­lega miðað við það að í kring­um 90% þeirra sem eru í fang­els­um eru fíkl­ar,“ seg­ir Þrá­inn.

Dæmi eru um að fang­ar hafi í eng­in hús að venda þegar þeir koma úr fang­elsi og séu auk þess stór­skuldug­ir, m.a. vegna fíkni­efna­neyslu. Þar með eru þeir fast­ir í víta­hring sem erfitt get­ur reynst að rjúfa.

 „Þetta er nokkuð al­gengt,“ seg­ir Þrá­inn. „Það er hóp­ur manna í fang­els­um sem er fast­ur í viðjum fíkn­ar. Þess­um mönn­um tekst ekki að ljúka meðferðum við fíkn sinni eða hefja hana yf­ir­höfuð.“

Leitað lausna í und­ir­heim­un­um

En Þrá­inn ít­rek­ar að vilji fang­ar leita sér hjálp­ar sé sá mögu­leiki alltaf fyr­ir hendi. „Ef menn eru til­bún­ir að taka U-beygju í lífi sínu, taka ábyrgð á eig­in lífi og hætta að kenna öðrum um, þá hef­ur und­an­tekn­ing­ar­laust verið hægt að koma þeim til aðstoðar, þó að þeir hafi átt um­tals­verðar skuld­ir í und­ir­heim­un­um.“


Þýðingarmikið framfaraskerf

Eftirfarandi grein, sem fer hér á eftir í íslenskri þýðingu, er eftir Nora Volkow, forstjóra bandarísku alríkisstofnunarinnar NIDA, National Institute on Drug Abuse, og birtist áheimasíðu hennar þann 31. mars sl og samdægurs á vef Huffington Post.

„Aðeins um 10% þeirra 21 milljóna Bandaríkjamanna, sem talið er að þurfi aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnafíknar, eiga kost á einhverri meðferð og stór hluti þeirrar meðferðar sem býðst stenst ekki kröfur um að veitt þjónusta sé byggð á rannsóknum og gagnreyndri þekkingu. Það eru margar ástæður fyrir þessari meðferðargjá sem tengdar eru eru kerfislægum þáttum og viðhorfum, þar á meðal fordómum, og það eru þröskuldar innan stofnana sem koma í veg fyrir að meðferð sé boðin fram og að fjármagn til að kosta meðferð vegna fíknsjúkdómum sé fyrir hendi. Önnur hindrun er sú staðreynd að þar til nú hafa fíknlækningar ekki verið viðurkennd grein sem læknar geta sérhæft sig í ¬– sú staðreynd hefur haft mikil áhrif á það hversu mikla og hversu góða menntun læknanemar hafa fengið og þau tækifæri sem unglæknum í starfsþjálfun býðst til að aðstoða sjúklinga sem fást við fíknsjúkdóma.


Fangar

Málefni fanga hafa verið mörgum hugleikin undanfarið. Án efa hefur sjónvarpsþáttaröðin Fangar haft þar áhrif á og fengið menn til velta vöngum yfir lífinu innan veggja fangelsismúranna. Einkum stöðu kvenfanga. Fyrr í vikunni var sérstök umræða á alþingi um stöðu fanga. Sjónarmiðin sem þar voru sett fram báru öll með sér mikinn velvilja í garð fanga og samhug. Að sama skapi örlaði á tortryggni í garð fangelsa sem slíkra þótt einungis einn þingmaður hafi viðrað þá skoðun að fangelsisvist væri beinlínis gamaldags og úrelt fyrirbæri. Þeir þingmenn sem til máls tóku lögðu hins vegar áherslu á að markmiðið með fangelsisvist ætti að vera betrun fremur en eitthvað annað. Frá mínum bæjardyrum séð var það ánægjulegt. Ekki síst vegna þess að undanfarin ár hefur gjarnan gætt undarlegrar refsigleði í almennri umræðu um einstök dómsmál. Jafnvel úr ræðustól al- þingis. Á það ber þó að líta að tilgangur refsinga er margþættur. Refsingu er ætlað að vera hegning fyrir brot um leið og henni er ætlað að vera öðrum víti til varnaðar og vera þannig forvörn gegn brotum almennt. Refsingu er líka ætlað að sporna gegn áframhaldandi brotum hins dæmda. Fangar eru auðvitað ekki einsleitur hópur og forsögur fangelsisvistar eru margvíslegar. Þó er það mál manna sem helst þekkja til að meirihluti fanga glími við slíkan vanda, heilsufars- og/eða félagslega, að markmið refsingar um að ná hinum dæmda af refilstigum náist illa nema með því að ráðast að rótum hans. Þar gegnir betrunarþáttur refsingar lykilhlutverki. Ný lög um fullnustu refsinga voru samþykkt á síðasta ári. Í þeim er í fyrsta sinn kveðið með skýrum hætti á um að markmiðið með fullnustu refsing sé öðru fremur að undirbúa dómþola fyrir virka þátttöku í samfélaginu. „Farsæl betrun“ er þannig lögum samkvæmt eitt meginmarkmið fullnustu refsinga. Með það að leiðarljósi voru því jafnframt rýmkaðar reglur um fullnustu refsinga utan fangelsis, svo sem með samfélagsþjónustu eða með rafrænu eftirliti. Því skal þó haldið til haga að frjáls félagasamtök hafa í nokkra áratugi gegnt lykilhlutverki við fullnustu refsinga. Þannig hafa fangelsismálayfirvöld átt gott samstarf við áfangaheimilið Vernd um vistun fanga sem eru að ljúka afplánun. Vægi Verndar mun ekki minnka nú þegar sjónum er í ríkara mæli beint að fullnustu dóma utan fangelsis. Það er þó ekki raunhæft að vænta þess að allir fangar eigi þess kost að afplána meirihluta dóms utan fangelsis. Þeir sem eftir sitja inni eru hins vegar jafnvel í brýnni þörf fyrir „farsæla betrun“ en hinir. Það er rétt að stefna að því að búa enn betur að þeim.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra

 

MBl