Tifandi tímasprengja í fangelsunum

Rekstur fangelsa er liður í grunnþjónustu samfélagsins sem nauðsynlegt er að sé til staðar en óhætt er að segja að fangelsin hafi lítinn skerf fengið af góðærinu, áætlanir um byggingu nýs fangelsis hafa frestast ár frá ári og bráðabirgðaúrræði tafist.
 
Hegningarhúsið hefur verið rekið á undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum frá árinu 1998
 
Öll fangelsi á Íslandi eru nú yfirfull og ástandið viðkvæmt. Á LitlaHrauni sitja nú rúmlega 90 fangar, þrátt fyrir að þar sé aðeins gert ráð fyrir 77 föngum og í fyrsta skipti í sögu fangelsisins er því tvímennt í suma klefana.
 
Á sama tíma þurfa aðrir dæmdir menn að bíða mánuðum saman eftir að afplána refsivistina, á einu ári hefur boðunarlistinn lengst úr 140 manns í tæplega 250.
Allsherjarnefnd Alþingis skoðaði aðbúnað á Litla-Hrauni og Hegningarhúsinu í gær.
 
Ástandið er nú í raun þannig að ekkert má út af bregða til að veruleg vandræði verði. Ef lögreglan handtæki á morgun hóp manna fyrir gróft ofbeldisbrot væri bókstaflega hvergi pláss til að halda þeim.


Allsherjarnefnd ræðir fangelsismál

Ég er mjög ánægð með að orðið hafi verið við þeirri ósk minni að halda fund,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en allsherjarnefnd kemur saman kl. 09 til þess að ræða stöðu fangelsismála.

 
Að sögn Vigdísar Hauksdóttur á nefndin von á tæpum tug gesta, en um sé að ræða þungavigtarfólk í fangelsismálabransanum. Þeirra á meðal eru Páll Winkel fangelsismálastjóri, Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður fangelsisins Litla-Hrauns, tveir fulltrúar fangavarðafélagsins og tveir til þrír fulltrúar dómsmálaráðuneytisins.
Í samtali við mbl.is segist Vigdís hafa miklar áhyggjur af stöðunni í fangelsismálum þar sem biðlistar séu orðnir óheyrilega langir sem verði að taka á. Bendir hún á að biðtími eftir afplánun sé allt að fjögur til fimm ár. „Ég tel að það sé mannréttindabrot að fólk fái ekki að afplána sem fyrst eftir að dómur fellur."


Litla-Hraun í 80 ár

Nú eru áttatíu ár liðin frá því að vinnuhælið, síðar fangelsi, að Litla-Hrauni tók til starfa. Þann 8. mars 1929 komu fyrstu fangarnir til að taka út refsingu sína. Frá þeim tíma og allt til þessa hafa þúsundir manna farið um hlaðið á Litla-Hrauni og sumir oftar en einu sinni. Á þriðja áratug síðustu aldar var mikið ófremdarástand í fangelsismálum landsins. Hegningarhúsið, sem var eina afplánunarfangelsið, var ekki í góðu ástandi og dugði ekki lengur sem slíkt.

Margir biðu þess að taka út refsingu sína en komust ekki að því fangelsið var oftast yfirfullt. Þá sem nú vissu menn að það var íþyngjandi refsing að bíða eftir því að komast til afplánunar. Nú árið 2009 munu á annað hundrað manns bíða þess að taka út refsingu sína. Augljóst er að á þeim vanda þarf að vinna bug. Það stóð reyndar til en í kjölfar efnahagshrunsins var uppbyggingu fangelsa slegið á frest.
Ríkisstjórnin, sem tók við völdum 1927 með Jónas Jónsson frá Hriflu sem dómsmálaráðherra, sá að eitthvað varð að gera í fangelsismálunum þjóðarinnar. Margir málsmetandi menn voru á sama máli og gagnrýndu harðlega aðbúnaðinn í Hegningarhúsinu í Reykjavík. Menn stungu upp á ýmsum stöðum sem vænlegir væru fyrir vinnuhæli eins og Fossvoginum, Bústöðum og Mosfellssveit. En austur á Eyrarbakka stóð fallegt hús sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisisins, hafði teiknað. Það átti að verða sjúkrahús. Framkvæmdin reyndist hins vegar of dýr og stöðvaðist. Húsið stóð fokhelt í nokkur ár og enginn vissi hvað beið þess.Í umræðum á Alþingi 1928 um frumvarp um betrunarhús og letigarð (síðar vinnuhæli) kom fram að stjórnvöld hefðu augastað á sjúkrahúsbyggingunni fyrir austan. Ekki voru allir sammála því að sú bygging og staðsetning væri heppileg. Töldu sumir m.a. að hún væri of langt frá Reykjavík. Engu að síður fór það svo að hún var keypt undir fyrirhugað vinnuhæli.


Meiga bóna bíla á Litla-Hrauni

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að ekki sé ástæða til að grípa til aðgerða á grundvelli samkeppnislaga vegna vinnu fanga á Litla-Hrauni við að þrífa og bóna bíla.

Fyrirtækið Valborg, sem rekur bílaþvottastöð á Selfossi, leitaði til samkeppnisyfirvalda og taldi að þótt sú starfsemi að þrífa og bóna bíla kunni að teljast til lögbundinnar starfsemi á Litla-Hrauni veiti það fangelsinu ekki sjálfkrafa heimild til að undirbjóða þá starfsemi sína í ljósi þess að það sé rekið fyrir opinbert fé.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins var m.a. vísað til þess, að umrædd starfsemi hafi verið starfrækt á Litla-Hrauni í yfir 10 ár án þess að aðilar á hinum almenna markaði hafi lagt fram kvörtun til samkeppnisyfirvalda. Líklega sé það vegna þess að starfsemi fangelsisins hafi ekki vegið þungt á umræddum samkeppnismarkaði. Þá hafi fengist þær upplýsingar hjá fangelsinu að aðeins séu þvegnir 3-4 bílar á dag.

Áfrýjunarnefndin segir m.a. að bílaþvottastarfsemin á Litla-Hrauni sé ekki umfangsmikil og hafi því tæpast mikil áhrif á hinum almenna markaði. Þá sé nokkrum erfiðleikum bundið, að hagnýta sér þjónustu fangelsisins, panta þurfi tíma fyrirfram vegna bílaþvottar og leitað sé að fíkniefnum í þeim bifreiðum sem þrifnar eru. Samkvæmt upplýsingum frá Litla-Hrauni séu flestir viðskiptavinirnir því starfsmenn fangelsisins og tengdir aðilar. Því teljist starfsemin á Litla-Hrauni tæplega vera í „frjálsri samkeppni" við aðrar stöðvar sem sjá um þrif og bón á bílum.

frétt. mbl.is


Fangar ósáttir við matinn

Nokkrir fangar á Litla-Hrauni skiluðu í dag inn undirskriftarlista til Margrétar Frímannsdóttur forstöðumanns fangelsisins þar sem þeir lýstu yfir óánægju með fæðið. „Við erum mjög ósáttir við matinn hérna, þetta litla sem við fáum fyrir 12 manns. Við búum við önnur kjör en aðrir hér á Litla-Hrauni," segir Guðmundur Freyr Magnússon, talsmaður fanganna.
 
„Við viljum fá matarpening eins og fangarnir í nýja húsinu til að kaupa okkur í matinn. Við erum hérna 12 fullorðnir menn sem erum alveg fullfærir um að sjá um okkur sjálfir og elda."." Guðmundur segir fanganna í álmunni fá of lítinn mat miðað við fjölda og hann sé næringarlítill. „Þetta er svo gegnumsoðið að það eru engin vítamín eftir í þessu fæði. Hér eru menn sem eru í fullri vinnu, úti frá kl. 9 á morgnanna til kl.17 á daginn og þurfa almennilega næringu." Fangarnir hótuðu hungurverkfalli yrði ekki farið að óskum þeirra.


Fangar ekki inn til bráðabirgða

Öll fangelsi landsins eru yfirfull og verði ekki byggt við Litla-Hraun eða nýtt fangelsi reist á allra næstu árum stefnir í verulegt óefni. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að hugmyndir um að koma föngum fyrir í húsnæði sem ekki var reist sem fangelsi, s.s. í Arnarholti á Kjalarnesi, séu óraunhæfar enda séu slíkar bráðabirgðalausnir óhagkvæmari og dýrari en nýbyggingar.

Páll Winkel segir að jafnvel þó Fangelsismálastofnun eigi kost á húsnæði, s.s. í Arnarholti sem áður var spítali eða í Bitru, sem á sínum tíma var byggt sem kvennafangelsi, ráði stofnunin ekki yfir fjármunum til að bæta við fangaklefum, en um 100 milljónir kosti að reka 20 manna fangelsi í eitt ár.

Páll segir að stofnunin sækist ekki eftir því að taka í notkun bráðabirgðahúsnæði. Sýnt hafi verið fram á að það sé dýrara að breyta húsi í fangelsi heldur en að byggja fangelsi. Þar að auki sé óhagkvæmt að reka mörg lítil fangelsi
 
www.mbl.is


Auglýsti andlát samfanga síns

Refsifangi á Litla Hrauni er grunaður um að hafa sent tilkynningu um andlát samfanga síns en tilkynningin birtist í Morgunblaðinu í  morgun. Birt er reikningsnúmer með tilkynningunni í þeim tilgangi að fé verði lagt inn á
reikninginn.

Í Morgunblaðinu í dag birtist tilkynning um andlát Hákons Rúnars Jónssonar en hann afplánar nú nokkurra mánaða fangelsisdóm á Litla Hrauni. Í auglýsingunni segir að maðurinn hafi látist eftir langvarandi veikindi og er þeim sem vilja minnast hans bent á reikningsnúmer. Reikningurinn og kennitala sem upp er gefin er í eigu Sigurbjörns Adams Baldvinssonar, fanga á Litla Hrauni en hann afplánar dóm fyrir margháttuð afbrot.

Auglýsingin er uppspuni frá rótum og virðist hafa verið send frá Litla Hrauni í þeim tilgangi einum að svíkja út fé af fólki.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri segist ekki muna eftir öðrum eins ósóma. „Þetta er með því ósmekklegra sem ég hef séð. Málið verður rannasakað til hlítar. Strax í morgun voru tölvur fanga sem grunaðir eru um verknaðinn, haldlagðar og verða þær skoðaðar. Þá verða teknar skýrslur af föngunum en málið verður síðan afhent lögreglu,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Páll segir að fangar hafi tölvur á herbergjum sínum og takmarkaðan aðgang að netinu vegna fjarnáms en þá undir eftirliti. Hins vegar færist í vöxt að svokölluðum netpungum sé smyglað inn í fangelsið, en þeir tengja tölvur við netið með svokölluðu 3G sambandi. Páll segir að töluvert sé um að slíkir netpungar séu haldlagðir. Sama á við um farsímanotkun fanga, farsímar eru bannaðir innan veggja fangelsanna. Nokkrir símar eru haldlagðir í hverjum mánuði.

Páll Winkel segir að agaviðurlög verði ákveðin gagnvart föngunum þegar málið hafi verið rannasakað til hlítar. Þá segir hann ekki ólíklegt að brot fanganna leiði til endurskoðunar á tölvunotkun refsifanga í fangelsum landsins.

Morgunblaðinu þykir miður að hafa verið blekkt með þessum hætti. Reikningnum sem nefndur er í auglýsingunni, hefur verið lokað.


Skólastarf á Litla-Hrauni veturinn 2008 - 2009 gekk vel

Kennsla var efld til muna á haustönn í kjölfar yfirlýsingar menntamálaráðherra snemma á árinu um að ríkisstjórnin væri búin að tryggja aukið fjármagn til menntamála í fangelsum landsins. Má þar nefna ráðningu náms- og starfsráðgjafa í 100% starf og aukna viðveru kennslustjórans á Litla-Hrauni á staðnum auk þess sem farið var af stað með grunndeild rafiðna á Litla-Hrauni.

Á seinni önninni varð því miður verulegur niðurskurður á námsframboði á Litla-Hrauni. Nýstofnuð grunndeild rafiðna var lögð af svo og log- og rafsuðuáfangar og hvorki var boðið upp á kennslu í dönsku né lífsleikni, eins og fyrirhugað hafði verið og staða nýráðins náms- og starfsráðgjafa var skorin niður í 50% og var eingöngu ætlað að þjóna Fangelsinu Litla-Hrauni.

Ákveðið hefur verið að starfrækja sumarskóla í fjarnámi í samvinnu við Verzlunarskóla Íslands og hefur Anna Fríða Bjarnadóttir, náms- og starfsráðgjafi, komið að undirbúningi þess. Sumarskóli þessi er ekki á vegum FSu og mun starfsfólk á Litla-Hrauni sjá um að nemendur sem innritaðir hafa verið í einhverja áfanga, komist á netið tvisvar í viku til að hlaða niður efni og skila.
 
 
Frétt, http://www.fangelsi.is/


Ráðstefna á Litla Hrauni

Það er ekki algengt að fjölmennar ráðstefnur séu haldnar í fangelsum. Ein slík verður þó haldin núna laugardaginn 22. nóvember á Litla-Hrauni og stendur hún frá kl. 10.00-14.00. Það er AA deild fanga, Brúin, sem stendur fyrir ráðstefnunni. Um 40 manns hefur verið boðið til ráðstefnunnar og ætla má að álíka margir fangar mæti. Það er mál manna að mjög vel hafi til tekist síðast þegar slík ráðstefna var haldin og slíkir atburðir eru alltaf lyftistöng í því öfluga AA starfi sem rekið er innan fangelsanna. Margir utanaðkomandi AA menn mæta reglulega á AA fundi á Litla-Hraun og deila reynslu sinni með föngum og hvetja þá til dáða.


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 4. júní kl.18:00

( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 

Dagskrá:


1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

 

Þráinn farestveit


Stjórn Verndar í heimsókn á Litla-Hraun

Laugardaginn 25. október fór stjórn fangahjálparinnar Verndar ásamt framkvæmdastjóra í heimsókn á Litla-Hraun. Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður, tók á móti stjórninni og sagði frá fangelsinu.  Þá fór hún með stjórninni um fangelsið, vinnustaði og skólann. Einnig var farið inn á tvær deildir. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri ræddu við nokkra fanga og áttu síðan formlegan fund með stjórn Afstöðu, félagi fanga.

Heimsóknin var mjög fróðleg og var þetta í annað sinn sem stjórn fangahjálparinnar sótti fangelsið heim.


Kveðja frá stjórn Verndar

Frú Hanna Johannessen lést 25. apríl síðastliðinn. Þar er gengin sómaprúð kona og mikill mannvinur. Hanna var þátttakandi í starfi Verndar allt frá því að fangahjálpin var stofnuð árið 1960. Hún sat í jólanefnd Verndar og varð formaður hennar 1967 og var það allt til dauðadags. Hlutverk nefndarinnar er að afla jólagjafa handa föngum og matar fyrir jólafagnað Verndar en hann sækja skjólstæðingar samtakanna og þau sem minna mega sín. Jólafagnaðinn skipulagði hún af natni og útsjónarsemi. Síðar hófst samstarf um jólafagnaðinn við Hjálpræðisherinn að frumkvæði Hönnu. Á það samstarf brá aldrei skugga.
Hanna gekk að starfi jólanefndarinnar með miklum skörungsskap og eljusemi. Hún fór á fund einstaklinga og fyrirtækja til að útvega það sem þurfti. Gefendur fundu hlýju hennar og umhyggju fyrir hinum bágstöddu. Þessari konu var ekki hægt að neita um aðstoð til slíkra mannúðarstarfa. Það var því mikill happafengur að hafa Hönnu í forsvari fyrir jólanefndina.
Þegar samtökin héldu upp á 45 ára afmæli sitt var Hanna gerð að heiðursfélaga Verndar í þakklætis- og virðingarskyni fyrir frábærlega vel unnin störf.