Fangahjálp í 50 ár

Félagasamtökin Vernd – fangahjálp -  voru  stofnuð 19. október 1959 en starfsemi þeirra hófst hinn 1. febrúar 1960.
Forgöngu um stofnun félagastamtakanna Verndar hafði Kvenréttindafélag Íslands. Þóra Einarsdóttir, síðar formaður Verndar um tveggja áratuga skeið flutti erindi um aðstoð við afbrotafólk á fundi Kvenréttindafélagsins þann 28. maí árið 1958. Þær Þóra Einarsdóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður, lögðu fram eftirfarandi tillögu á fundinum sem samþykkt var eftir nokkra umræðu: „Fundurinn ályktar, að tímabært sé, að hefja undirbúning að samtökum er vinna að umsjá og eftirliti með afbrotafólki. Samtökin vinni að því m.a. að komið verði upp dvalar- og vinnuheimilum og stuðli á annan hátt að því að gera fólk, sem lent hefur á glapstigum að nýtum þjóðfélagsþegnum.“ Kosin var undirbúningsnefnd og hlaut félag þetta síðar nafnið Vernd. Kvenfélög vítt og breitt um landið lögðu Vernd lið strax frá upphafi. Sömuleiðis flest öll sveitarfélög og hið opinbera.

Vernd sett sér strax það markmið að leitast við, í samráði við opinber stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga, að hjálpa fólki, sem gerst hefði brotlegt við refsilöggjöf landsins. Tilgangur félagasamtakanna Verndar var að taka að sér eftirlit með fólki sem hlotið hefur dóm, skilorðsbundinn dóm og með þeim, sem frestað hefur verið ákæru á.


Dómar hafa fyrnst vegna húsnæðisvanda í fangelsum

Skortur er á rými fyrir fanga í fangelsum landsins og telur Ríkisendurskoðun brýnt að úr þessu verði bætt og að stjórnvöld móti heildarstefnu um fullnustu refsinga. Þá þurfi að breyta skipulagi fangelsismála.

 
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að einstaklingar sem biðu eftir því að hefja afplánun refsidóma voru þrefalt fleiri á síðasta ári en árið 2005 og meðalbiðtími eftir fangelsisvist tvöfaldaðist á tímabilinu. Dæmi séu um að skortur á rými í fangelsum landsins hafi valdið því að óskilorðsbundnir dómar hafi fyrnst. Segir Ríkisendurskoðun, að þetta geti dregið úr varnaðaráhrifum refsinga og grafið undan trausti almennings á réttarvörslukerfinu.


Meiga bóna bíla á Litla-Hrauni

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að ekki sé ástæða til að grípa til aðgerða á grundvelli samkeppnislaga vegna vinnu fanga á Litla-Hrauni við að þrífa og bóna bíla.

Fyrirtækið Valborg, sem rekur bílaþvottastöð á Selfossi, leitaði til samkeppnisyfirvalda og taldi að þótt sú starfsemi að þrífa og bóna bíla kunni að teljast til lögbundinnar starfsemi á Litla-Hrauni veiti það fangelsinu ekki sjálfkrafa heimild til að undirbjóða þá starfsemi sína í ljósi þess að það sé rekið fyrir opinbert fé.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins var m.a. vísað til þess, að umrædd starfsemi hafi verið starfrækt á Litla-Hrauni í yfir 10 ár án þess að aðilar á hinum almenna markaði hafi lagt fram kvörtun til samkeppnisyfirvalda. Líklega sé það vegna þess að starfsemi fangelsisins hafi ekki vegið þungt á umræddum samkeppnismarkaði. Þá hafi fengist þær upplýsingar hjá fangelsinu að aðeins séu þvegnir 3-4 bílar á dag.

Áfrýjunarnefndin segir m.a. að bílaþvottastarfsemin á Litla-Hrauni sé ekki umfangsmikil og hafi því tæpast mikil áhrif á hinum almenna markaði. Þá sé nokkrum erfiðleikum bundið, að hagnýta sér þjónustu fangelsisins, panta þurfi tíma fyrirfram vegna bílaþvottar og leitað sé að fíkniefnum í þeim bifreiðum sem þrifnar eru. Samkvæmt upplýsingum frá Litla-Hrauni séu flestir viðskiptavinirnir því starfsmenn fangelsisins og tengdir aðilar. Því teljist starfsemin á Litla-Hrauni tæplega vera í „frjálsri samkeppni" við aðrar stöðvar sem sjá um þrif og bón á bílum.

frétt. mbl.is


Fangavarðaskólinn hóf starfsemi sína um miðjan janúar

Fangavarðaskólinn hóf starfsemi sína 12. janúar 2010. Vegna efnahagsástandsins var ákveðið að skólahald á þessu starfsári yrði með þeim hætti, að um eina samfellda önn yrði að ræða í stað grunnnáms og framhaldsnáms.

Kennt verður samfellt í 13 vikur og einnig var kennslustundum í hverri viku fjölgað nokkuð. Samtals eru níu nemendur í skólanum að þessu sinni, fimm frá Fangelsinu Litla-Hrauni og fjórir frá fangelsum á höfuðborgarsvæðinu.   Fangavarðaskólinn hefur, eins og áður, aðstöðu í húsnæði Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi í Reykjavík.  Alls koma 14 kennarar að kennslu og þjálfun fangavarða við skólann.  Náminu lýkur með skriflegum og verklegum prófum, auk þess sem nemendur skila þremur rannsóknarverkefnum í hópvinnu, sem þeir gera grein fyrir í málstofu við lok námstímans.


Fangar ekki inn til bráðabirgða

Öll fangelsi landsins eru yfirfull og verði ekki byggt við Litla-Hraun eða nýtt fangelsi reist á allra næstu árum stefnir í verulegt óefni. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að hugmyndir um að koma föngum fyrir í húsnæði sem ekki var reist sem fangelsi, s.s. í Arnarholti á Kjalarnesi, séu óraunhæfar enda séu slíkar bráðabirgðalausnir óhagkvæmari og dýrari en nýbyggingar.

Páll Winkel segir að jafnvel þó Fangelsismálastofnun eigi kost á húsnæði, s.s. í Arnarholti sem áður var spítali eða í Bitru, sem á sínum tíma var byggt sem kvennafangelsi, ráði stofnunin ekki yfir fjármunum til að bæta við fangaklefum, en um 100 milljónir kosti að reka 20 manna fangelsi í eitt ár.

Páll segir að stofnunin sækist ekki eftir því að taka í notkun bráðabirgðahúsnæði. Sýnt hafi verið fram á að það sé dýrara að breyta húsi í fangelsi heldur en að byggja fangelsi. Þar að auki sé óhagkvæmt að reka mörg lítil fangelsi
 
www.mbl.is


Til hvers eru fangelsi

Fangelsi er tiltölulega nýtt úrræði til lausnar á vanda vegna afbrota í samfélaginu. Franski þjóðfélagshugsuðurinn Michel Foucault hélt því fram að refsingar hafi áður fyrr beinst að líkamanum en síðan hafi sálin tekið við sem viðfang refsingarinnar. Þetta birtist okkur í margvíslegum líkamlegum refsingum fyrri tíma eins og húðstrýkingum, brennimerkingum og aflimunum en varðhald eða vistun til lengri tíma var fátíðara úrræði. Skógganga eða útlegð brotamanna tíðkaðist þó sums staðar, meðal annars hér á landi á þjóðveldisöld. Í dag er hins vegar algengara að dómþolar þurfi að verja fyrirfram skilgreindum tíma í vist eða gæslu bak við lás og slá og dýrmætur tími tapast því frá hringiðu samfélagsins á meðan.
 
Skipta má markmiðum fangelsa í fernt. Afplánun í fangelsi tekur brotamanninn úr umferð og hann getur þar af leiðandi ekki valdið öðrum borgurum tjóni á meðan. Fangelsisvist felur að auki í sér tilhlýðilega refsingu um leið og vistin er víti til varnaðar fyrir aðra í samfélaginu. Að síðustu felur fangavist í sér möguleika á endurhæfingu eða meðferð brotamannsins sem síðan getur snúið að nýju út í samfélagið sem breyttur og bættur þegn að aflokinni afplánun.

Á Íslandi eru að jafnaði um 100 einstaklingar í fangelsi á hverjum tíma og er fangafjöldi hér einn sá lægsti í V-Evrópu miðað við mannfjölda.

Á síðustu árum hafa komið fram margvísleg ný refsiúrræði sem komið hafa í stað hefðbundinnar fangelsisvistar. Nefna má vistun á sambýlum eins og áfangaheimili Verndar hér á landi, þar sem vistin er bundin tilteknum skilyrðum svo sem að viðkomandi stundi vinnu eða nám, greiði húsaleigu og sé bundinn heimilinu tilteknar stundir á sólarhringnum.
 
Samfélagsþjónusta er annað úrræði sem fest hefur í sessi hér á landi á síðustu árum. Dómþolar geta sótt um að afplána dóm sem kveður á um allt að sex mánaða refsivist í fangelsi með því að inna af hendi sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins í stað fangavistar. Úrræði af þessu tagi fela í sér minni tilkostnað fyrir ríkisvaldið og gefa dómþolum um leið aukna möguleika á að viðhalda eðlilegum tengslum við aðra í samfélaginu.
 
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á afturhvarfi brotamanna til afbrotahegðunar eftir að þeir hafa afplánað refsingu. Niðurstöður benda til að ítrekunartíðni þeirra sem ljúka fangavist á Íslandi sé mjög svipuð því sem tíðkast meðal annarra þjóða, jafnvel þó að sumar þessara þjóða beiti talsvert þyngri refsingum en við Íslendingar. Engin merki sjást um að þyngri refsingar dragi úr ítrekunartíðni en vísbendingar eru um hið gagnstæða. Nýrri úrræði í réttarkerfinu, eins og samfélagsþjónusta og beiting skilorðsbundinna dóma, hafa því ekki leitt til aukinnar ítrekunartíðni íslenskra afbrotamanna og eiga því hiklaust heima innan viðurlagakerfisins ásamt öðrum úrræðum.


Skólastarf á Litla-Hrauni veturinn 2008 - 2009 gekk vel

Kennsla var efld til muna á haustönn í kjölfar yfirlýsingar menntamálaráðherra snemma á árinu um að ríkisstjórnin væri búin að tryggja aukið fjármagn til menntamála í fangelsum landsins. Má þar nefna ráðningu náms- og starfsráðgjafa í 100% starf og aukna viðveru kennslustjórans á Litla-Hrauni á staðnum auk þess sem farið var af stað með grunndeild rafiðna á Litla-Hrauni.

Á seinni önninni varð því miður verulegur niðurskurður á námsframboði á Litla-Hrauni. Nýstofnuð grunndeild rafiðna var lögð af svo og log- og rafsuðuáfangar og hvorki var boðið upp á kennslu í dönsku né lífsleikni, eins og fyrirhugað hafði verið og staða nýráðins náms- og starfsráðgjafa var skorin niður í 50% og var eingöngu ætlað að þjóna Fangelsinu Litla-Hrauni.

Ákveðið hefur verið að starfrækja sumarskóla í fjarnámi í samvinnu við Verzlunarskóla Íslands og hefur Anna Fríða Bjarnadóttir, náms- og starfsráðgjafi, komið að undirbúningi þess. Sumarskóli þessi er ekki á vegum FSu og mun starfsfólk á Litla-Hrauni sjá um að nemendur sem innritaðir hafa verið í einhverja áfanga, komist á netið tvisvar í viku til að hlaða niður efni og skila.
 
 
Frétt, http://www.fangelsi.is/


Fangelsi í góðæri og kreppu

Kannski  finnst mönnum alltaf jafn slæmt að þurfa að reisa fangelsi. Finnst fjármunum hins opinbera betur varið í annað á góðæristímum þegar rífandi gangur er í öllu. Þegar hjól atvinnulífsins ganga mjúklega og hratt og hver verkfús hönd  hefur meira en eitt verk að vinna. Hverjum skyldi þá detta í hug að fara byggja hús til að loka menn inni í? Og í kreppu þegar þung krumla atvinnuleysis og samdráttar leggst yfir menn og byggð, hverjum dettur í hug að reisa fangelsi?

Það hefur verið sagt að aðbúnaður fanga og fangelsa endurspegli menningarstig hverrar þjóðar.
Byggingasaga fangelsa á Íslandi hefur verið hálfgerð raunasaga. Hún geymir þó góðan vilja sem dugði reyndar skammt þegar á hólminn var komið vegna þess að höndin var hikandi og ákvörðunum iðulega skotið á frest. Það var alltaf eitthvað annað sem hafði forgang eða þá að óviðráðanlegar aðstæður skutu upp kolli og settu öll áform á hliðina.


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 4. júní kl.18:00

( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 

Dagskrá:


1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

 

Þráinn farestveit


Tifandi tímasprengja í fangelsunum

Rekstur fangelsa er liður í grunnþjónustu samfélagsins sem nauðsynlegt er að sé til staðar en óhætt er að segja að fangelsin hafi lítinn skerf fengið af góðærinu, áætlanir um byggingu nýs fangelsis hafa frestast ár frá ári og bráðabirgðaúrræði tafist.
 
Hegningarhúsið hefur verið rekið á undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum frá árinu 1998
 
Öll fangelsi á Íslandi eru nú yfirfull og ástandið viðkvæmt. Á LitlaHrauni sitja nú rúmlega 90 fangar, þrátt fyrir að þar sé aðeins gert ráð fyrir 77 föngum og í fyrsta skipti í sögu fangelsisins er því tvímennt í suma klefana.
 
Á sama tíma þurfa aðrir dæmdir menn að bíða mánuðum saman eftir að afplána refsivistina, á einu ári hefur boðunarlistinn lengst úr 140 manns í tæplega 250.
Allsherjarnefnd Alþingis skoðaði aðbúnað á Litla-Hrauni og Hegningarhúsinu í gær.
 
Ástandið er nú í raun þannig að ekkert má út af bregða til að veruleg vandræði verði. Ef lögreglan handtæki á morgun hóp manna fyrir gróft ofbeldisbrot væri bókstaflega hvergi pláss til að halda þeim.


Kveðja frá stjórn Verndar

Frú Hanna Johannessen lést 25. apríl síðastliðinn. Þar er gengin sómaprúð kona og mikill mannvinur. Hanna var þátttakandi í starfi Verndar allt frá því að fangahjálpin var stofnuð árið 1960. Hún sat í jólanefnd Verndar og varð formaður hennar 1967 og var það allt til dauðadags. Hlutverk nefndarinnar er að afla jólagjafa handa föngum og matar fyrir jólafagnað Verndar en hann sækja skjólstæðingar samtakanna og þau sem minna mega sín. Jólafagnaðinn skipulagði hún af natni og útsjónarsemi. Síðar hófst samstarf um jólafagnaðinn við Hjálpræðisherinn að frumkvæði Hönnu. Á það samstarf brá aldrei skugga.
Hanna gekk að starfi jólanefndarinnar með miklum skörungsskap og eljusemi. Hún fór á fund einstaklinga og fyrirtækja til að útvega það sem þurfti. Gefendur fundu hlýju hennar og umhyggju fyrir hinum bágstöddu. Þessari konu var ekki hægt að neita um aðstoð til slíkra mannúðarstarfa. Það var því mikill happafengur að hafa Hönnu í forsvari fyrir jólanefndina.
Þegar samtökin héldu upp á 45 ára afmæli sitt var Hanna gerð að heiðursfélaga Verndar í þakklætis- og virðingarskyni fyrir frábærlega vel unnin störf.


Allsherjarnefnd ræðir fangelsismál

Ég er mjög ánægð með að orðið hafi verið við þeirri ósk minni að halda fund,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en allsherjarnefnd kemur saman kl. 09 til þess að ræða stöðu fangelsismála.

 
Að sögn Vigdísar Hauksdóttur á nefndin von á tæpum tug gesta, en um sé að ræða þungavigtarfólk í fangelsismálabransanum. Þeirra á meðal eru Páll Winkel fangelsismálastjóri, Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður fangelsisins Litla-Hrauns, tveir fulltrúar fangavarðafélagsins og tveir til þrír fulltrúar dómsmálaráðuneytisins.
Í samtali við mbl.is segist Vigdís hafa miklar áhyggjur af stöðunni í fangelsismálum þar sem biðlistar séu orðnir óheyrilega langir sem verði að taka á. Bendir hún á að biðtími eftir afplánun sé allt að fjögur til fimm ár. „Ég tel að það sé mannréttindabrot að fólk fái ekki að afplána sem fyrst eftir að dómur fellur."