Er það óeining ráðherra sem kemur í veg fyrir byggingu fangelsis

Skynsamlegt væri að leita til einkaaðila um fjármögnun og byggingu nýs húsnæðis fyrir fangelsi á Hólmsheiði, ef farið yrði af stað með þá framkvæmd bráðlega, eins og staðan er í ríkisfjármálum í dag, að sögn Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Þetta sagði hann í morgunútvarpi Rásar 2 á föstudaginn.
Í fréttaskýringu um fangelsismálin í Morgunblaðinu í dag segir, að þetta stangist á við það sem Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og flokksbróðir Steingríms, hefur sagt um fangelsið, en í aprílbyrjun vísaði hann fréttum þess efnis á bug og sagði ekki stefnt að öðru en opinberri framkvæmd.
Strax þá hermdu heimildir Morgunblaðsins að ágreiningur væri um málið milli ráðuneyta þeirra Steingríms og Ögmundar. Útboðsgögn hafa nú verið tilbúin í marga mánuði og beðið hefur verið eftir útboðinu.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir aðspurður að mikið hagræði yrði að nýju og stóru fangelsi en segir það ekki sitt hlutverk að hafa skoðun á fjármögnun þess.
 
Frétt mbl.is


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 9. júní kl.18:00
( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )  

Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.
 
 
Stjórnin

 

Þráinn Farestveit


Fréttatilkynning

26. júní - aþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum
Verum vakandi - vakningaátak meðal foreldra um skaðsemi kannabis hefst á degi Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum – 26. júní 2010 en Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í desember 1987 að tileinka 26. júní ár hvert alþjóðlegri baráttu gegn fíkniefnum (International Day against Drug Abuse and Illicit Trafficking) til þess að vekja athygli á fíkniefnavandanum og hvetja til samstarfs í fíkniefnamálum.  Í tilefni þessa dags í ár mun Samstarfsráð um forvarnir (SAMFO) í samstarfi við nítján félagasamtök hefja sameiginlegt vakningarátak á meðal foreldra um skaðsemi kannabisefna undir heitinu „Verum vakandi“.  Með átakinu vilja aðstandendur þess fræða foreldra og aðra uppalendur um kannabis, skaðsemi þeirra, einkenni kannabisneyslu og forvarnir. Með þessu vilja aðstandendur átaksins vekja athygli á og bregðast við ýmsum rangfærslum um kannabisefni sem m.a. er að finna á netinu og ungmenni eiga greiðan aðgang að
 
Kannabis og ungt fólk
Nú á sér stað umræða sem gerir lítið úr áhættunni sem fylgir neyslu kannabisefna og grefur undan varnaðarorðum gegn henni. Jafnvel er lagt til að heimila, notkun, sölu og dreifingu þessara efna (lögleyfa þau). Þetta er áhyggjuefni, m.a. í ljósi þess að neytendum kannabisefna sem leita sér meðferðar hefur fjölgað mikið síðustu ár á Íslandi. Þar á ungt fólk einkum í hlut. Skaðleg líffræðileg áhrif kannabisneyslu eru þekkt, svo og tengsl við neyslu annarra fíkniefna, s.s. amfetamíns. Á grundvelli þessarar vitneskju er mikilvægt að börn og unglingar láti ekki blekkjast af rangfærslum um kannabisefni, heldur afli sér hlutlægra upplýsinga. Til þess þurfa þau stuðning, upplýsingar og hvatningu af hálfu foreldra, kennara og annarra sem eiga að standa vörð um hag og velferð þeirra.


Bygging nýs fangelsins í útboð á vegum ríkisins

Bygging nýs fangelsis, sem ráðgert er að bjóða út síðar í mánuðinum, verður í útboði á vegum ríkisins og mun ríkið eiga fangelsið. Ekki er gert ráð fyrir því að bjóðendur eigi bygginguna og leigi hana ríkinu eins og skilja hefur mátt af fréttum í morgun.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að leið einkaframkvæmdar hafi reynst skattborgurum dýrari en útboð ríkisins og því verði farin sú leið varðandi fangelsið. Unnið er nú að gerð útboðsgagna og stefnt að því að unnt verði að bjóða verkið út síðar í mánuðinum.


Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 3. júní kl.18:00
( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 
Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

Þráinn Farestveit


Andlát: Sigríður Heiðberg

Sigríður Svanlaug Heiðberg.
 
Sigríður Svanlaug Heiðberg, formaður Kattavinafélags Íslands og framkvæmdastjóri Kattholts, er látin, 72 ára að aldri. Hún lézt á líknardeild Landspítala Ísland, Landakoti, þriðjudaginn 22. febrúar sl. Hún lætur eftir sig eiginmann, Einar Jónsson verktaka og fósturson, Daníel Orra Einarsson nema, bróður Eyþór Heiðberg, móðursysturdóttur sína Sigríði Einarsdóttur, systkinabörn og börn þeirra.
 
Sigríður Svanlaug var fædd í Reykjavík 30. mars 1938. Foreldrar hennar voru Jón Heiðberg heildsali og frú Þórey Heiðberg Eyþórsdóttir. Sigríður gekk í Húsmæðraskólann í Reykjavík 1958 til 1959 þar sem hún bazt skólasystrum sínum í óslítandi böndum svo þær héldu saumaklúbb reglulega og ferðuðust víða um Ísland og til útlanda ásamt mökum.Hún sótti námskeið og lauk námi hjá Apótekarafélaginu 1968 sem aðstoðarmaður lyfjafræðings og starfaði hjá Stefáni Thorarensen hf. í tvo áratugi.
 
Sigríður hefur setið í stjórn Verndar síðan 1986 og verið varaformaður síðan 2001. Hún tók við formennsku Kattavinafélags Íslands 1989 með opnun Kattholts að leiðarljósi. Líknarstöðin Kattholt var opnuð júlílok 1991, er hún móttaka fyrir heimilislausa ketti og kattahótel. Kattholt hefur verið starfrækt allan tímann undir handleiðslu hennar með það meginmarkmið að stuðla að bættu og upplýstu dýrahaldi Íslendinga.

Hún var kjörin heiðursfélagi Félagasamtakanna Verndar árið 2010.

Vernd vottar aðstandendum dýpstu samúð.

 

Þráinn Farestveit


Opið fangelsi í Bitru

Fyrirmyndarfangar munu afplána dóma sína í nýjasta fangelsi landsins á Bitru, sem var opnað í dag. Þrettán fangar eru nú komnir í fangelsið í Bitru en það verður hægt að vista 26 fanga ef kojur verða settar inn í herbergin. Fangelsið er opið fangelsi, sem þýðir að fangarnir geta strokið kjósi þeir það. Nú eru um 400 manns á biðlista eftir að komast í fangelsi.

Nýja fangelsið er í Flóahreppi, en í Bitru var áður rekið kvennafangelsi.  Síðustu ár hefur húsnæðið þó verið notað í ferðaþjónustu. Öll aðstaða í Bitru er til fyrirmyndar og fátt þar inni sem minnir á fangelsi.


Liggur einhver refsing við því að bera ljúgvitni í sakamáli?

Stutta svarið við þessari spurningu er já. Í fyrsta málslið 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940segir:
 
Hver, sem skýrir rangt frá einhverju fyrir rétti eða stjórnvaldi, sem hefur heimild til heitfestingar, skal sæta fangelsi allt að fjórum árum.
Hafi skýrsla verið heitfest skal það virt til þyngingar refsingar, samanber annan málslið, en sé skýrsla röng í atriðum sem ekki varða málefnið sem verið er að kanna, má beita sektum eða fangelsi allt að einu ári.


Það telst enn alvarlegra brot að bera ljúgvitni í máli sé það gert með það fyrir augum að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, en samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna varðar það allt að 10 ára fangelsi, og fangelsi allt að 16 árum hafi brotið haft, eða því verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann.

Þessar reglur gilda þó ekki um alla sem bera vitni í máli, því þar er sakborningurinn sjálfur sérstaklega undanskilinn. Samkvæmt 143. gr. almennu hegningarlaganna varðar það sökunaut sjálfan ekki refsingu þó að hann skýri rangt frá málavöxtum. Þeim manni skal ekki heldur refsað, sem rangt hefur skýrt frá atvikum vegna þess að réttar upplýsingar um þau hefðu getað bakað honum refsiábyrgð í slíku máli, eða hann hafði ástæðu til að halda, að svo væri.
 
Visindavefurinn


Fangahjálp í 50 ár

Félagasamtökin Vernd – fangahjálp -  voru  stofnuð 19. október 1959 en starfsemi þeirra hófst hinn 1. febrúar 1960.
Forgöngu um stofnun félagastamtakanna Verndar hafði Kvenréttindafélag Íslands. Þóra Einarsdóttir, síðar formaður Verndar um tveggja áratuga skeið flutti erindi um aðstoð við afbrotafólk á fundi Kvenréttindafélagsins þann 28. maí árið 1958. Þær Þóra Einarsdóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður, lögðu fram eftirfarandi tillögu á fundinum sem samþykkt var eftir nokkra umræðu: „Fundurinn ályktar, að tímabært sé, að hefja undirbúning að samtökum er vinna að umsjá og eftirliti með afbrotafólki. Samtökin vinni að því m.a. að komið verði upp dvalar- og vinnuheimilum og stuðli á annan hátt að því að gera fólk, sem lent hefur á glapstigum að nýtum þjóðfélagsþegnum.“ Kosin var undirbúningsnefnd og hlaut félag þetta síðar nafnið Vernd. Kvenfélög vítt og breitt um landið lögðu Vernd lið strax frá upphafi. Sömuleiðis flest öll sveitarfélög og hið opinbera.

Vernd sett sér strax það markmið að leitast við, í samráði við opinber stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga, að hjálpa fólki, sem gerst hefði brotlegt við refsilöggjöf landsins. Tilgangur félagasamtakanna Verndar var að taka að sér eftirlit með fólki sem hlotið hefur dóm, skilorðsbundinn dóm og með þeim, sem frestað hefur verið ákæru á.


Samfélagsþjónusta í stað fangelsisrefsingar

Samkvæmt 27. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því að fullnusta allt að sex mánaða óskilorðsbundna fangelsisefsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundur og mest 240 klukkustundir.

Þegar um fangelsisrefsingu samkvæmt fleiri en einum dómi er að ræða má samanlögð refsing eigi vera lengri en sex mánuðir. Ef hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn má heildarrefsing samkvæmt dóminum eigi vera lengri en sex mánuðir.

Þegar dómþola er sent bréf þar sem hann er boðaður til afplánunar fylgja með upplýsingar um samfélagsþjónustu ásamt umsóknareyðublaði. Umsókn skal skila til Fangelsismálastofnunar eigi síðar en viku áður en hann á upphaflega að hefja afplánun samkvæmt bréfinu.

Skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita eru:

    1. Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við Fangelsismálastofnun eigi síðar en viku áður en hann átti upphaflega að hefja afplánun fangelsisrefsingar samkvæmt boðunarbréfi.

    2. Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað.

    3. Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu. Áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu og þar með talið hvort líklegt er að hann geti innt hana af hendi skal fara fram athugun á persónulegum högum hans. Mæti dómþoli ekki til viðtals í þessu skyni skal almennt synja beiðni um samfélagsþjónustu.

    4. Að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi.


Dómar hafa fyrnst vegna húsnæðisvanda í fangelsum

Skortur er á rými fyrir fanga í fangelsum landsins og telur Ríkisendurskoðun brýnt að úr þessu verði bætt og að stjórnvöld móti heildarstefnu um fullnustu refsinga. Þá þurfi að breyta skipulagi fangelsismála.

 
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að einstaklingar sem biðu eftir því að hefja afplánun refsidóma voru þrefalt fleiri á síðasta ári en árið 2005 og meðalbiðtími eftir fangelsisvist tvöfaldaðist á tímabilinu. Dæmi séu um að skortur á rými í fangelsum landsins hafi valdið því að óskilorðsbundnir dómar hafi fyrnst. Segir Ríkisendurskoðun, að þetta geti dregið úr varnaðaráhrifum refsinga og grafið undan trausti almennings á réttarvörslukerfinu.


Ályktun Verndar og KRFí um aðstæður kvenfanga

Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, vilja í sameiningu vekja athygli á því að aðstæður kvenfanga eru mun lakari en karlfanga. Fyrir það fyrsta er einungis eitt fangelsi í boði fyrir kvenfanga, Kvennafangelsið í Kópavogi, þar sem þrengsli eru mikil. Kvenfangar eiga ekki kost á vistun í opnu fangelsi líkt og karlfangar og möguleikar kvenna til framhalds- og starfsnáms á meðan betrunarvist þeirra stendur, eru mun lakari en karlanna. Auk þess gefast kvenföngum ekki sömu tækifæri til að stunda vinnu samhliða afplánun og karlföngum.
 
Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, mótmæla þessari kynbundnu mismunun á aðstæðum og fangelsisvistun karl- og kvenfanga. Það er óviðunandi að föngum sé mismunað á grundvelli kyns síns enda varðar það við lög. Fangelsun er skv. stefnu stjórnvalda ætlað að fela í sér betrunarvist í þágu viðkomandi einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Kvenréttindafélag Ísland og Vernd – fangahjálp, hvetja yfirvöld til þess að lagfæra aðstæður kvenfanga hið fyrsta og tryggja það að nú þegar bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði stendur fyrir dyrum, verði aðstæður kvenfanga sem þar munu dvelja til jafns við það sem karlföngum býðst.

Þráinn Farestveit