Nýtt fangelsi og stórtækar umbætur í fangelsismálum

Dómsmálaráðherra og forstjóri Fangelsismálastofnunar héldu nýverið blaðamannafund á Litla Hrauni þar sem kynntar voru stórtækar umbætur í fangelsismálum, með uppbyggingu nýs fangelsis, fjölgun rýma á Sogni og endurskoðun fullnustulaga.

Eftirfarandi kom fram á blaðamannafundinum í máli Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Páls Winkel forstjóra fangelsismálastofnunar.

Nýtt fangelsi verður byggt á Litla-Hrauni

Ítarleg skoðun og greining á aðstöðu á Litla-Hrauni er að baki og er niðurstaðan sú að nauðsynlegt er að ráðast í byggingu nýs fangelsis, sem koma á í staðinn fyrir þá aðstöðu sem nú er á Litla-Hrauni. Hafinn verður undirbúningur að þeirri framkvæmd strax.  Við uppbyggingu nýs fangelsis verður byggt á nútímaþekkingu á sviði betrunar og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga. Mikil áhersla verður lögð á bætt öryggi, ekki síst fanga og starfsfólks fangelsa en jafnframt á bættan aðbúnað heimsóknargesta, þar sem gætt verður sérstaklega að þörfum barna.

Opnum rýmum verður fjölgað á Sogni

Fjölgað verður opnum rýmum í fangelsinu á Sogni, þar sem 14 ný rými verða tekin í notkun á næstu mánuðum en fyrir eru 21 rými. Nemur kostnaður við þá uppbyggingu um 350 m.kr.

Með þessu er meðal annars verið að bregðast við ábendingum frá Umboðsmanni Alþingis en nýlegri skýrslu kom fram að staða kvenna í íslenskum fangelsum væri lakari en staða karla. Með breytingum á Sogni er verið að bæta stöðu kvenna í fangelsum og auka möguleika þeirra á að taka út vistun sína í viðeigandi aðstæðum.

Endurskoðun fullnustulaga og stefnumótun með áherslu á betrun og nútímalega nálgun í refsistefnu

Samhliða umbótum á innviðum fangelsiskerfisins verður farið í endurskoðun  fullnustulaga með áherslu á betrun og nútímalega nálgun. Þá er umrædd endurskoðun tímabær í ljósi reynslu síðustu ára og aðfinnslna eftirlitsstofnana þingsins og alþjóðlegra eftirlitsstofnana.

Í máli Páls kom auk þess fram að þessar umbætur væru þær stærstu í sögu íslenskrar fullnustu. Fangelsið á Litla Hraun hefði upphaflega átt að vera sjúkrahús og uppbygging þar hefði einkennst af bútasaumi sem svaraði ekki kalli um nútímalega fullnustu og betrun fanga.

 

Heimsóknir ráðherra í fangelsin

Í aðdraganda þessa blaðamannnafundar heimsótti Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra fangelsin á Hólmsheiði, Sogni og Litla Hrauni. Ráðherra og fylgdarlið hennar fékk kynningu á umfangi og eðli starfseminnar á hverjum stað og farið var í kynnisferð um svæðið. 


Pabbi hans er í fangelsi og við bara tölum um það

 

„Við tölum mjög opið um þetta enda ætla ég ekki að láta barnið mitt upplifa þetta sem skömm á nokkurn hátt. Pabbi er bara í fangelsi og svona er það og það er bara allt í lagi, ekkert leyndarmál eða feluleikur,“ segir María Dís Knudsen.

María er móðir tíu ára drengs en barnsfaðir hennar hlaut á síðasta ári afar þungan fangelsisdóm fyrir stórfellt fíkniefnabrot. María tók meðvitaða ákvörðun strax í byrjun um að tala opinskátt og hreinskilið um fangelsisvistina við son sinn.

Skoðuðu saman myndir af Litla-Hrauni

„Það er ekkert sem grípur þig í þessum aðstæðum. Það eru milljón spurningar sem hvíla á manni sem maður þarf að fá svör við, en það er enginn sem segir þér hvað þú átt að gera, hvernig þú átt að tækla þetta gagnvart barninu. Það eru engar leiðbeiningar til um hvernig maður fer í gegnum þetta ferli,“ segir María í samtali við Vísi.

Eftir að dómur féll á seinasta ári, og ljóst var barnsfaðir hennar myndi vera í fangelsi næstu árin lagðist María í heilmikla rannsóknarvinnu og aflaði gagna héðan og þaðan, til að undirbúa son sinn fyrir það sem í vændum var.

„Ég þurfti að lesa mér heilmikið til. En ég þurfti virkilega að teygja mig eftir hjálpinni og ég endaði á því að samband við barnavernd í Kópavogi vegna þess að ég þurfti virkilega á aðstoð að halda, ég varð að fá hjálp fyrir barnið mitt.“

Maríu var í kjölfarið vísað á Bjargráð, úrræði á vegum Fangelsismálastofnunar þar sem fjölskyldufræðingar aðstoða fjölskyldur þeirra sem bíða eftir að afplána refsingu, eru í afplánun eða hafa lokið afplánun. Hún fékk einnig góða aðstoð hjá sálfræðingi á vegum Sól sálfræði - og læknisþjónustu sem ráðlagði henni að fara vel yfir aðstæðurnar í fangelsinu með syninum.

Frá Litla-Hrauni.VÍSIR/ANTON

„Við fórum vel yfir þetta allt og skoðuðum til dæmis saman myndir af Litla- Hrauni. Við ræddum lengi saman og ég reyndi að útskýra fyrir honum hvað hann myndi sjá þegar hann kæmi á staðinn, til dæmis að það væri stórt hlið þarna fyrir utan og fangaverðir sem myndu taka á móti honum.“

Gleymdir þolendur

Börn sem eiga foreldra í fangelsi hafa verið kölluð hin leyndu fórnarlömb fangelsunar, líkt og kemur fram í skýrslu umboðsmanns barna sem kom út á seinasta ári. Þar segir meðal annars:

 Um er að ræða afar jaðarsettan og falinn hóp. Þegar kringumstæður þessa barna eru skoðaðar út frá sjónarhorni barnaréttinda blasir ákveðið óréttlæti við manni, þ.e. að foreldri er refsað þegar það er svipt frelsi sínu og þar af leiðandi er barni þess refsað þar sem barnið er svipt foreldri sínu. 

María segist hafa tekið þá ákvörðun að fangelsisvist barnsföður hennar ætti ekki að vera neitt launungamál, heldur yrði það partur af lífinu sem talað væri um á opinskáan og eðlilegan hátt.

„Vinir hans hafa til dæmis spurt mig, og hann, hvort pabbi hans sé í fangelsi og hvort hann sé í röndóttum eða appelsínugulum fötum í fangelsinu. Og við höfum þurft að svara því. En það er bara alls ekki gott að vera í feluleik með þetta. Þá er miklu líklegra að börn fari að skammast sín."

Svona er bara lífið hans í dag, pabbi hans er í fangelsi og við bara tölum um það. Hann fékk fullt leyfi til að segja vinum sínum frá þessu- ef hann vildi. Það er hans val. Honum finnst gott að það sé talað um þetta. Þetta er bara partur af hans lífi í dag.

María segir að heilt yfir hafi þetta allt saman gengið mjög vel, en það sé þó margt sem sonur hennar eigi erfitt með að skilja. Til dæmis hvers vegna pabbi hans megi ekki koma í afmælið hans eða sjá hann keppa í fótbolta.

Hún bendir á að aðstandendur fanga eru að vissu leyti gleymdir þolendur.AÐSEND

„Það getur verið mjög erfitt að svara svona spurningum og stundum veit ég ekki alveg hvernig ég á að svara en reyni bara að gera mitt besta.“

Mikilvægt að sýna nærgætni

María ræddi einnig við kennara og starfsfólk í skóla sonar síns á sínum tíma og upplýsti þau um aðstæðurnar.

„Ég vildi nefnilega alls ekki að hann myndi þurfa að heyra þetta frá krökkunum í skólanum. Ég vissi að hann þyrfti að vera viðbúinn ef að einhverjir myndu fara að spyrja hann um þetta .Ég reyndi því að undirbúa hann vel og segja honum hvernig hann ætti að bregðast við.“

Hún bendir einnig á að það sé nauðsynlegt að foreldrar passi sig á því hvað þeir ræði um fyrir framan börnin sín, enda eigi börn auðvelt með að fá hugmyndir út frá umræðum fullorðinna á heimilinu.

„Strákurinn minn er til dæmis búinn að fá að heyra það frá bekkjarfélögum sínum að hann eigi eftir að enda í fangelsi af því að pabbi hans er í fangelsi. Það er erfitt að ímynda sér að barn geti fengið þessa hugmynd nema út frá einhverju sem það hefur heyrt heima hjá sér.“

Þegar náinn fjölskyldumeðlimur fer í fangelsi verður eðlilega mikil röskun á heimilislífinu, líkt og tilfelli sonar Maríu.

„Hann á tvo bræður, einn hjá pabba sínum og einn sem býr annars staðar, og áður en pabbi hans fór í fangelsi þá hittust þeir þrír bræður alltaf þegar það voru pabbahelgar, og hann hitti stjúpsystkini sín líka. Það var eitt af því sem var hvað erfiðast fyrir hann í þessu öllu, að fá ekki lengur þessar helgar og geta ekki hitt systkini sín eins oft."

María bendir á að þegar kemur að aðstandendum fanga þá séu það ekki einungis börnin sem upplifa miklar tilfinningasveiflur; aðrir fjölskyldumeðlimir þurfa líka að takast á við breyttan veruleika.

„Þegar þetta gerðist allt saman þá hugsaði ég auðvitað fyrst og fremst um barnið mitt og hvernig það væri hægt að gera þetta sem auðveldast fyrir hann. Allur fókusinn fór á það. Ég var ekki beinlínis að hlúa að sjálfri mér, ég var að hlúa að öllum öðrum. En þetta var líka svakalegt áfall fyrir mig, þó að við séum ekki lengur saman þá er þetta samt pabbi stráksins míns. En ég upplifði mig oft mjög eina. Ég þurfti svolítið að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég ætti rétt á því að líða svona, mér mátti líða illa.“

Hún bendir á að aðstandendur fanga eru að vissu leyti gleymdir þolendur. Þess vegna hafi það verið erfið ákvörðun að ræða opinskátt um fangelsisvistina. 

„Því miður er það oft þannig að aðstandendur eru dæmdir af samfélaginu, þrátt fyrir að þeir hafi ekkert gert neitt.“

 

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar 

 

 

 


AA og Af­staða í fangelsum

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar
 

Allt frá stofnun Afstöðu árið 2005 hefur eitt af höfuðmarkmiðum félagsins verið að hvetja fanga til þess að taka þátt í starfi AA-samtakanna. Upp úr aldamótum voru ekki margir sem nýttu sér úrræðið og horfðum við forsvarsmenn Afstöðu upp á hvern AA-fund á fætur öðrum þar sem enginn fangi mætti. Okkur þótti mikið til þess koma að sjálfboðaliðar gerðu sér ferð í fangelsin til þess eins að aðstoða fanga við að halda sér edrú og það þrátt fyrir að dræmar undirtektir. Þegar við spurðum sjálfboðaliðana hvers vegna þeir gæfust ekki hreinlega upp svöruðu þeir því til að ef þeim tækist að halda einum fanga edrú væri það kraftaverki líkast.

Við komum á samstarfi á milli Afstöðu og AA-samtakanna sem fólst í því að efla starfið í fangelsunum. Forsvarsmenn Afstöðu mættu sjálfir á fundina og fengu til liðs við sig eins konar áhrifavalda innan fangelsanna til þess að mæta einnig. Árangurinn lét ekki á sér standa og afskaplega ánægjulegt var að sjá mætinguna aukast jafnt og þétt þar til herbergið sem AA-samtökin höfðu til umráða var troðfullt.

Á þessum tíma voru reglur í fangelsinu Litla-Hrauni á þann veg að blátt bann var lagt við því að fangar færu á milli bygginga til þess að sækja fundi og því þurftu sjálfboðaliðar AA-samtakanna að halda tvo fundi í röð. Þessu fékk Afstaða breytt til þess auka áhrifamátt fundanna enn frekar og gafst það afskaplega vel.

Undanfarin ár hafa fundir AA-samtakanna verið í sömu mynd og starfsemin með ágætum. Árið 2018 leituðust samtökin svo eftir því að fjölga fundum sínum á Litla-Hrauni úr einum í tvo og tók Afstaða þá að sjálfsögðu að sér að hafa milligöngu um að reyna ná því í gegn. Sem gekk eftir. Starfsemi AA-samtakanna varð öflugri fyrir vikið og urðu til hópar innan AA sem mönnuðu fundi í öllum fangelsum landsins. Fljótlega komu til rafrænir fundir og um tíma var svonefndur edrú-gangur í fangelsinu á Hólmsheiði þangað sem Afstaða fékk sjálfboðaliða frá AA til þess að taka þátt í daglegu starfi á borð við morgunleikfimi og eldamennsku. Það starf var rétt að slíta barnsskónum þegar heimsfaraldur reið yfir og á enn eftir að endurreisa það að fullu.

Nýverið leituðu samtökin enn á ný til Afstöðu en þau höfðu um nokkurn tíma falast eftir því að bæta enn við starfsemi sína í fangelsunum, bæta við þriðja fundinum í viku og fá að auki lengri tíma í hvert skipti í fangelsunum til þess að auka þjónustu við fangana, spjalla óformlega saman fyrir og eftir fundi og drekka saman kaffi. Fyrir tilstuðlan Afstöðu hafa AA-samtökin fengið leyfið.

Afstaða er þess fullviss að AA-starf og áfengis- og vímuefnameðferðir innan fangelsanna séu einn af lyklum endurhæfingar og stuðli að betri líðan bæði í fangelsi og þegar út í frelsið er komið. Við munum því halda áfram að tryggja að AA-starf verði alltaf hluti af fangavist á Íslandi og gera það sem við getum til að auka vægi starfseminnar og fá í gegn að þátttaka í AA-starfi verði metið að verðleikum þegar teknar eru ákvarðanir um framgang fólks í afplánun, til dæmis þegar kemur að vistun í opnu úrræði, reynslulausn og fleira í þeim dúr. Á sama tíma hvetjum við ættingja og vini fólks sem afplánar í fangelsi að gefa starfi AA-samtakanna tækifæri. Það eitt getur orðið til þess að breyta lífi þeirra til betri framtíðar.

Höfundur er formaður Afstöðu. 

 


Staða kvenna í fangelsum

 

 

Færri vistunarúrræði fyrir kvenkyns fanga er ein helsta ástæða þess að staða kvenna í fangelsum á Íslandi er almennt lakari en staða karla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá umboðsmanni Alþingis þar sem aðstæður kvenna í fangelsum voru bornar saman við aðstæður karla í sömu sporum.

Skýrslan sem ber titilinn Konur í fangelsi: Athugun á aðbúnaði og aðstæðum kvenna í afplánun er fyrsta þemaskýrsla umboðsmanns Alþingis á grundvelli svokallaðs OPCAT-eftirlits með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja.

Tekið er fram í skýrslunni að í eldri skýrslum Fangelsismálastofnunnar hafi verið settar fram tillögur um hvernig bæta megi aðstöðu kvenna til vistunar í fangelsi.

Staðan sýni að heildarsýn í málafokknum skorti

Tillögurnar sneru meðal annars að því að fjölga vistunarmöguleikum til að koma þannig betur til móts við þarfir kvenkyns fanga, auk þess sem vikið var að mikilvægi þess að móta heildstæða stefnu um vistun kvenna í fangelsum. „Tillögurnar, eins og þær voru kynntar í skýrslunum tveimur, komu ekki til framkvæmda. Ekki varð heldur úr að móta heildræna stefnu um vistun kvenna í fangelsum og ber núverandi staða með sér skort á heildarsýn í málaflokknum,“ segir í skýrslunni.

Kvenkynsfangar eru í miklum minnihluta af heildarfjölda fanga, hlutfallið hefur verið í kringum sex prósent á undanförnum árum. Þessi minnihlutastaða er „almennt til þess fallin að koma niður á möguleikum þeirra til að afplána í ólíkum úrræðum,“ segir í skýrslunni en kvenfangar eru einungis vistaðir í tveimur af fjórum fangelsum sem Fangelsismálastofnun rekur, á Hólmsheiði og Sogni.

„Aðalvistunarstaður kvenfanga er Fangelsið Hólmsheiði sem er að öðru leyti fyrst og fremst hugsað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Þar af leiðandi vistast kvenfangar að meginstefnu til í lokuðu fangelsi þar sem öryggisstig er hátt,“ segir í tilkynningu frá umboðsmanni Alþingis sem send var út samhliða útgáfu skýrslunnar. Þrátt fyrir að ýmislegt sé gert til að koma til móts við þær konur sem þar dvelja, þá „ber skortur á virknistarfi og þjónustu í fangelsinu vitni um að það hentar illa sem langtímaúrræði.“

Atvinnutækifæri bundin við þrif og handverk

Skortur á virknistarfi og þjónustu birtist meðal annars í því að minna framboð er af vinnu fyrir kvenfanga og þeirra tækifæri eru að mestu bundin við hefðbundin kvennastörf, svo sem þrif og handverk. Því hefur umboðsmaður Alþingis komið því á framfæri að leita skuli leiða til að auka framboð af atvinnu fyrir kvenfanga. Umboðsmaður hefur einnig sent ábendingu til mennta- og barnamálaráðherra þess efnis að skoða þurfi, í samráði við fangelsismálayfirvöld, hvort hægt sé að bæta menntamál kvenkyns fanga.

Hitt fangelsið sem hýsir konur er á Sogni en þar vistast bæði karlar og konur. Konurnar eru þar í miklum minnihluta, mest þrjár miðað við átján karlfanga á hverjum tíma. Það geti skýrt hvers vegna konur vilji heldur taka út sína afplánun á Hólmsheiði. Líkt og fram kemur í skýrslunni þá stendur konum ekki lengur til boða að afplána á Kvíabryggju, „sem af ýmsum ástæðum þykir eftirsóknarvert.“

Gera þurfi kvenföngum kleift að afplána í opnum fangelsum

„Möguleikar kvenna til að afplána í opnu fangelsi eru þannig lakari en karla í sömu stöðu án þess að sá munur verði útskýrður með öðru en skorti á viðeigandi úrræðum,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Hann bendir á að staðan sé ósamrýmanleg almennum jafnræðisreglum og beinir því þar af leiðandi til bæði ráðuneytis og Fangelsismálastofnunar „að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að kvenfangar hafi í raun sömu möguleika á að afplána í opnu fangelsi og karlar í sömu stöðu.“  

 

Fjórir starfsmenn embættisins komu að gerð skýrslunnar ásamt Skúla Magnússyni.

Ábendingar umboðsmanns snúa líka að heilbrigðisþjónustu. Taka þurfi til skoðunar hvort hægt sé að koma til móts við fanga sem óska eftir að vera sinnt af heilbrigðisstarfsfólki af sama kyni, auk þess sem bent er á mikilvægi þess að kvenkyns fangar hafi greiðan aðgang að krabbameinsskimunum. 

Stór hluti kvenkyns fanga glímir við fíknivanda en nauðsynleg aðstoð virðist ekki vera í boði. Meðferðarfulltrúi hefur ekki fasta viðveru og föngum býðst ekki að dvelja á vímuefnalausum gangi. „Í ljósi aðstæðna verður vart annað séð en að konur séu sá hópur innan refsivörslukerfisins sem fær hvað minnsta aðstoð við að ná tökum á vímuefnavanda sínum.“ 

Erlendir fangar reiða sig á upplýsingagjöf frá samföngum

Sérstaklega er vikið að kvenkyns föngum af erlendum uppruna en í viðtölum á Hólmsheiði kom í ljós að konur í þeim hópi höfðu þurft að reiða sig að miklu leyti á samfanga fyrir upplýsingar.

„Í skýrslunni er bent á að það fyrirkomulag geti reynst óheppilegt og því beint að fangelsinu og Fangelsismálastofnun bæta upplýsingagjöf til erlendra fanga, s.s. með því að þýða mikilvægar upplýsingar og notast við túlkaþjónustu þegar komið er á framfæri upplýsingum sem ljóst er að hafi mikla þýðingu fyrir þá,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Þar að auki þurfi að gæta að því að fangar túlki ekki hver fyrir annan þegar um er að ræða viðkvæm einkamálefni.

Óskar eftir viðbrögðum 

Í síðasta kafla skýrslunnar segir að umboðsmaður muni halda áfram að fylgjast með þróun mála sem og viðbrögðum viðeigandi yfirvalda sem geta orðið til þess að tiltekin atriði verði tekin til frekari skoðunar.

Óskað er eftir því að Fangelsið á Hólmsheiði, Fangelsið Sogni, Fangelsismálastofnun og geðheilsuteymi fangelsanna upplýsi umboðsmann um viðbrögð við tilmælum og ábendingum sem settar eru fram í skýrslunni eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi. Þá er einnig óskað eftir því að fyrir þann tíma verði bæði dómsmálaráðuneyti og barna- og menntamálaráðuneyti búin að gera grein fyrir viðbrögðum sínum við þeim tilmælum og ábendingum sem beint er til þeirra í skýrslunni.

 


Ástand sem er ekki boðlegt

Alvarlegt ástand ríkir innan fangelsa hér á landi vegna fjölda alvarlega geðsjúkra einstaklinga sem vistaðir eru þar.

Þetta segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri. Hann segir Fangelsismálastofnun hafa rætt vandann árum saman fyrir daufum eyrum ráðamanna.

Sigurður Örn Hektorsson, yfirlæknir nýs geðheilbrigðisteymis fangelsa á Íslandi, benti á vandann í nýjasta tölublaði Læknablaðsins en hann segir fjölda alvarlega geðsjúkra einstaklinga í fangelsunum hafa komið að óvart. Hann telur vanta úrræði fyrir þennan hóp, fangelsi séu ekki góður staður fyrir veikt fólk.

 

Óboðlegt fyrir aðra fanga

 

Páll tekur heilshugar undir með Sigurði og segir stofnun geðheilbrigðisteymisins vera rétt skref.

„Þetta er alvarlegt ástand og óboðlegt fyrir aðra vistmenn, aðra fanga. Þetta er óboðlegt fyrir fangaverði sem eru ekki menntaðir heilbrigðisstarfsmenn en fyrst og síðast er þetta óboðlegt fyrir þá sjúklinga sem dvelja á okkar vegum en ættu með réttu að vera á viðeigandi stofnun vegna þeirra sjúkdóms,“ segir Páll sem vonast eftir að niðurstöður nýja geðheilbrigðisteymið hreyfi við málunum.

Þeir sjúklingar sem þurfi á aðstoð allan sólarhringinn fái hana. „Fangelsin eru ekki rekin þannig að boðið sé upp á heilbrigðisþjónustu allan sólarhringinn. Fangelsi eru ekki sjúkrastofnun.“

 

Tveir til átta hverju sinni

 

Aðspurður hversu margir alvarlega geðsjúkir einstaklingar séu innan veggja fangelsanna segir Páll það mismunandi eftir tímum. Þeir séu þó á bilinu tveir til átta að hverju sinni og að það hafi skapað töluverð vandamál í fangelsiskerfinu.

„Það þarf að veita mjög sérhæfa þjónustu fyrir einstaklinga sem eru í geðrofi eða sem hafa bæði verið í neyslu vímuefna og glíma þar að auki við alvarlega geðræna sjúkdóma. Við getum ekki boðið upp á þannig þjónustu í fangelsunum,“ segir Páll.

 

Ógnar öryggi starfsfólks

 

Fjögur fangelsi eru rekin á Íslandi og þar séu allskonar fangar vistaðir. „Það er erfitt að bjóða öðrum föngum upp á að vistast með einstaklingum sem eru alvarlega andlega veikir,“ segir Páll og bendir sérstaklega á veika einstaklinga sem hafa verið dæmdir fyrir alvarleg ofbeldisbrot.

„Þetta hefur ógnað öryggi starfsfólks hjá mér og fangaverðir eru hvorki menntaðir né launaðir til að takast á við þess lags áskoranir,“ segir Páll en hann er bjartsýnn á að fundin verði lausn á vandamálinu. Það liggi á því þar sem vandinn er aðkallandi.


RAUNFÆRNIMATI BEITT Í NÁMI FANGA

Kennsla í fangelsunum gengur vel og alltaf mikill áhugi í verklegum greinum. Á Litla-Hrauni hefur verið kennd trésmíði í tvö ár og alltaf fullskipað í greinina. Aðstæður eru prýðilegar þar sem kennslan fer fram á trésmíðaverkstæðinu undir stjórn Jóns Inga Jónssonar verkstjóra. Jón Sigursteinn Gunnarsson trésmíðakennari í FSu kemur einu sinni í viku og kennir nemendum.

 

 

Á Litla-Hrauni eru einstaklingar á öllum aldri og jafnvel með margra ára reynslu í starfsgrein en ekki formlega menntun. Undir handleiðslu Klöru Guðbrandsdóttur náms- og starfsráðgjafa FSu í fangelsum geta einstaklingar farið í raunfærnimat uppfylli þeir skilyrði. Með raunfærnimati er metin sú þekking og færni sem einstaklingur hefur öðlast á vinnumarkaði sem mögulega getur stytt nám og verið jákvæð hvatning til að ljúka námi. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru 23 ára aldur og þriggja ára staðfest starfsreynsla í grein. Því getur raunfærnimat verið vænlegur kostur fyrir fanga með starfsreynslu sem langar að ljúka námi.

 

Klara Guðbrandsdóttir nefnir í þessu sambandi dæmi af nemanda sem hún er afar stolt af og  lauk nýlega raunfærnimati í trésmíði hjá Iðunni fræðslusetri. „Við undirbúning fékk nemandinn góða handleiðslu hjá Jóni verkstjóra en mikil og góð samvinna er á milli skólans og starfsfólks fangelsisins. Nemandinn fékk metnar 80 af 124 einingum faggreina húsasmíðinnar og öllum nema tveimur verkþáttum af 90 eininga verknámi. Ekki er hægt að segja annað en að þetta sé afburðarárangur og nú á nemandinn lítið eftir til að geta farið í sveinspróf í húsasmíði og getur vonandi klárað það að mestu hjá okkur í FSu.”

 

kg / jöz


Fangelsisvist: Refsing eða endurhæfing?

 

Fangi nokkur gerði stórt módel af Hallgrímskirkju úr grillpinnum í afplánun sinni á Hólmsheiði. Módelið hefur hann gefið Hallgrímskirkju og mun Auður Vilhjálmsdóttir, verkefnisstjóri í Fangelsinu á Hólmsheiði afhenda módelið í lok messu sunnudaginn 8. maí. Messan hefst kl. 11.

Af þessu tilefni hefur Hallgrímskirkja, í samstarfi við fangaprest Þjóðkirkjunnar, efnt til málþings að messu lokinni þar sem fjallað verður um ferðalag fanga frá afplánun til frelsis frá ýmsum sjónarhornum. Hvernig er þetta ferli í dag? Erum við á réttri leið í málefnum fanga?

Málþingið hefst kl. 12.30 í Suðursal Hallgrímskirkju og lýkur kl. 14:00.

Verið velkomin

Dagskrá málþingsins

Í fangelsi var ég. Sigrún Margrétar Óskarsdóttir, fangaprestur

Um vinnu fanga. Halldór Valur Pálsson, fangelsisstjóri.

Áskoranir í geðheilbrigðisþjónustu innan veggja fangelsa. Arndís Vilhjálmsdóttir, geðheilbrigðisteymi fangelsa.

Hvað segja fræðin? Helgi Gunnlaugsson, prófessor

Að koma aftur í samfélagið. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Stuðningur eftir afplánun. Sigríður Birna Sigvaldadóttir, verkefnastjóri félagsverkefna hjá Rauða krossinum

Umræður

Ávarp og stjórn: Sigurður Árni Þórðarson og Sigríður Hjálmarsdóttir.


Köllunin er mjög sterk

Fanga­prest­ur Þjóðkirkj­unn­ar, fór í guðfræði vegna þess að hún taldi það vera gott al­hliða nám en fann sterka köll­un og lít­ur á starf sitt sem al­gjör for­rétt­indi. Hún hef­ur kynnst starfi Sam­hjálp­ar frá nokkr­um hliðum og tók meðal ann­ars þátt í kvenn­a­starf­inu Dorkas, sem hafði mik­il áhrif á hana. Stein­gerður Stein­ars­dótt­ir ræddi við hana í Sam­hjálp­ar­blaðinu. 

Hvernig stóð á því að ung­ur guðfræðinemi fór á sam­kom­ur hjá Fíla­delfíu­kirkj­unni og hóf að vinna með kvenna­hópi inn­an Hvíta­sunnusafnaðar­ins?

„Sam­hjálp á alltaf stórt pláss í hjarta mínu,“ seg­ir hún. „Ég kem sveita­stelpa ofan af Lauga­vatni árið 1985 til að hefja nám í guðfræði í Há­skól­an­um. Ég vissi ekki hvað ég vildi og fannst námið fjöl­breytt og spenn­andi. Þá var ekki al­veg eins mikið í boði að fara í heims­reisu meðan maður hugsaði sig um, svo að mín heims­reisa varð guðfræðin. Þar kynnt­ist ég Gunn­björgu Óla­dótt­ur, en hún og fjöl­skylda henn­ar störfuðu hjá Sam­hjálp. Þegar við höfðum kynnst bet­ur bauð hún mér á sam­kom­ur og mér fannst þetta ótrú­lega spenn­andi, fram­andi og ger­ólíkt því sem ég hafði al­ist upp við. Stund­um hef ég sagt að ég hafi farið í guðfræði því það vantaði svo mikið í þenn­an þátt. Á Laug­ar­vatni var eng­in kirkja í minni æsku, mess­ur voru haldn­ar í barna­skól­an­um á stór­hátíðum og svo fermd­ist ég í Skál­holti. En allt trú­ar­líf var mjög hefðbundið og gam­aldags. Í sveit­inni var kirkju­kór og bóndi úr sveit­inni, hann Andrés á Hjálms­stöðum, var org­an­isti. Þetta hafði vissu­lega sinn sjarma og var held ég nokkuð hefðbund­in ís­lensk trú­ar­upp­lif­un. Á sam­kom­un­um var hins veg­ar mikið fjör, tromm­ur, bassi og gít­ar og fólk söng af hjart­ans lyst.

Í fram­haldi af því að ég fór á sam­kom­ur buðu Gunn­björg og Ásta Jóns­dótt­ir mamma henn­ar mér að koma á Dorkas-fund. Þeir voru haldn­ir einu sinni í mánuði og það sem ég upp­lifði þar hafði djúp áhrif á mig. Þetta var svo hlýtt, nota­legt og fal­legt sam­fé­lag. Í hópn­um voru alls kon­ar kon­ur. Kon­ur sem störfuðu hjá Sam­hjálp, kon­ur sem sóttu sam­komurn­ar, kon­ur úr Hvíta­sunnu­söfnuðinum og kon­ur sem höfðu farið í gegn­um ótalmargt og glímt við fíkn. Ásta var líka eins og mamma okk­ar allra sem tók­um þátt í þessu starfi, ráðagóð og hlý. Þarna voru kon­ur sem höfðu verið í fang­elsi, verið heim­il­is­laus­ar og lent í mikl­um hremm­ing­um. Þær gáfu svo mikið af sér. Það eru þess­ar sig­ur­sög­ur sem hvetja mig áfram í starfi. Það er svo mik­il­vægt að missa aldrei sjón­ar á því að við meg­um aldrei gef­ast upp á nokk­urri mann­eskju.

Við lás­um sam­an upp úr Biblí­unni og svo voru vitn­is­b­urðir og fyr­ir­bæn­ir. Ég segi al­veg full­um fet­um að þarna lærði ég fyrst að biðja upp­hátt með öðrum. Margt gott og gagn­legt lærði ég í guðfræðinni sem mér þykir ákaf­lega vænt um en að biðja upp­hátt fyr­ir öðrum lærði ég í Sam­hjálp. Það hef­ur reynst mér ákaf­lega vel í öllu mínu starfi. Ég fann að þetta var ekki neitt yf­ir­nátt­úru­legt eða skrýtið held­ur bara opið sam­tal við Guð, að biðja fyr­ir öðrum og fá fyr­ir­bæn­ir. Það hef­ur borið mig í gegn­um starfið alla tíð.“

 

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði.“ Ljós­mynd/​Heiða Helga­dótt­ir

Köll­un­in er mjög sterk

En svo varðst þú sókn­ar­prest­ur og hvað tók þá við?

„Ja, ég varð eig­in­lega alls kon­ar prest­ur,“ seg­ir Sigrún og bros­ir. „Ég vígðist tutt­ugu og sex ára til Laug­ar­nes­kirkju sem aðstoðarprest­ur, eins og það hét þá. Í dag heit­ir það bara prest­ur. Mjög fljótt fann ég köll­un til að starfa utan safnaðar­ins í sérþjón­ustu og fékk tæki­færi til að leysa af á Land­spít­al­an­um um tíma. Það sann­færði mig um að þetta vildi ég gera, svo ég fór út til Nor­egs og lærði sál­gæslu.

Við vor­um mun leng­ur en við ætluðum okk­ur í Nor­egi, sex ár. Þegar við kom­um heim varð ég prest­ur í Árbæj­ar­kirkju og var þar í fimmtán ár. Eft­ir það ætlaði ég að hætta að vera prest­ur og sagði starfi mínu lausu. Fór að reka versl­un og vann á út­far­ar­stofu en svo er það þessi köll­un, hún er mjög sterk og ég fann að mig langaði aft­ur til baka í prests­starfið. Mig langaði hins veg­ar ekki í hefðbundið safnaðarstarf, þannig að þegar starf fanga­prests var aug­lýst fann ég að þetta var það sem ég vildi.“

Þú byrjaðir hálfó­viss í guðfræðinni en fannst svo þessa sterku köll­un. Var ein­hver tíma­punkt­ur þar sem þú sann­færðist eða viss­ir að þetta væri það sem þú vild­ir?

„Ég var mikið á báðum átt­um,“ seg­ir hún. „Ég fann strax að mig langaði að halda áfram í nám­inu, bæði vegna þess að þetta var áhuga­vert og út af fé­lags­skapn­um, það var svo skemmti­legt fólk þarna. Það var eig­in­lega ekki fyrr en á síðasta ár­inu að ég fann sterkt að þetta væri það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið sann­færð um að lífið hef­ur upp á ótal mögu­leika að bjóða og ég vissi strax að þetta nám er það fjöl­breytt að það nýt­ist í margt. Ég sá fyr­ir mér að ég gæti farið að kenna, farið í ráðgjöf eða eitt­hvað slíkt. Tíðarand­inn var raun­ar ann­ar þá og ekki marg­ar kon­ur sem voru fyr­ir­mynd­ir í prests­starf­inu. Það er svo­lítið sú deigl­an líka og gerði starfið spenn­andi fyr­ir mér.“

Er þetta enn mikið karlastarf eða hef­ur það breyst?

„Þær ræt­ur eru mjög sterk­ar. Til að mynda áttaði ég mig ekki á því sjálf að gagn­vart mínu starfi sem fanga­prest­ur var til staðar ákveðið glerþak og marg­ir urðu mjög hissa og sum­ir jafn­vel reiðir þegar ég var ráðin. Ef eitt­hvert starf í kirkj­unni er frá­tekið fyr­ir karla er það þetta, var sagt, og það kom mér mjög á óvart þegar ég heyrði það. Hélt að það væri ekki leng­ur svo árið 2020. En það var ekki eins og ég væri fyrsta kon­an til að starfa í fang­elsi.“

Hrein og tær ein­lægni

„Sér­stak­ur fanga­prest­ur hef­ur verið starf­andi frá ár­inu 1970. Starfs­vett­vang­ur fanga­prests eru fang­els­in og þjón­usta við fanga, aðstand­end­ur þeirra og aðra er láta sig eitt­hvað varða um hag þeirra,“ seg­ir í starfs­lýs­ingu á vefn­um kirkj­an.is. Hvað finnst þér helst fel­ast í starf­inu?

„Lang­stærsti hlut­inn er sál­gæsla og sam­töl. Að fá að vera prest­ur með þetta er­indi í þessu starfi er al­gjör for­rétt­indi og líka að fá að koma þarna inn og fá að vera sam­ferða fólk­inu ein­hvern smá­spöl. Sum­ir vinna við að dæma og aðrir að greina en ég kem þarna og er bara sam­ferða stutt­an veg­spotta. Trú­in er auðvitað mitt leiðarljós en það er ekki þar með sagt að við séum alltaf að tala um trúna. Við töl­um al­veg eins um veðrið og lífið í allri sinni mynd.“

Hef­ur þú ein­hvern tíma haldið at­hafn­ir í fang­els­inu?

„Helgi­haldið er auðvitað stór hluti af starf­inu og rétt eins og ann­ars staðar er messa á jól­um og pásk­um og svo að meðaltali einu sinni í mánuði. Þær eru mjög vel sótt­ar og fólk er ekk­ert að velta fyr­ir sér trú­ar­deild­um eða öðru, það bara mæt­ir til að eiga sam­an góða stund. Er­indið er alltaf það sama en þetta er að sumu leyti ólíkt. Oft er þar meiri hreyf­ing á fólki út og inn en líka þessi djúpa ein­lægni sem ég tengi við Dorkas-hóp­inn, þessi hreina tæra ein­lægni í trúnni sem er svo fal­leg. En varðandi gift­ing­ar eða aðrar at­hafn­ir mæli ég með að fólk bíði nema um al­var­leg veik­indi eða eitt­hvað slíkt sé að ræða. Að eiga þann dag og þá stund í frels­inu skipt­ir svo miklu máli.“

Þakka Sam­hjálp lífs­björg­ina

Sérðu fyr­ir þér að halda áfram lengi í þessu starfi?

„Nei, ekki endi­lega. Það eru heil­mikl­ar fram­kvæmd­ir að fara í gang á Litla-Hrauni. Meðal ann­ars er verið að koma upp betri aðstöðu til að tala við fólk í ein­rúmi og mig lang­ar að vera með í þeim breyt­ing­um. Hvað sjálfa mig varðar held ég að ekki sé heppi­legt að vera allt of lengi í þessu starfi, en það eru ákveðnir þætt­ir sem mig lang­ar að sjá verða að raun­veru­leika áður en ég hætti.“

Sam­hjálp gef­ur öll­um föng­um á land­inu jóla­gjaf­ir. Hef­ur þú í starfi þínu orðið vör við viðbrögð við því?

„Sam­hjálp vinn­ur ein­fald­lega svo merki­legt starf. Í því sem að mér snýr er teng­ing­in við Kaffi­stof­una sterk. Starfið þar er lífs­björg fyr­ir svo marga. Við höf­um öll þess­ar grunnþarf­ir og ég heyri talað af svo mik­illi hlýju og virðingu um mót­tök­urn­ar þar. Svo eru auðvitað þau sem fá að ljúka afplán­un í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Fólk sem fer í meðferð þar fær að upp­lifa eitt­hvað al­veg sér­stakt. Það eru ýmis tengsl við fang­els­in og sum­ir fang­ar tala um Sam­hjálp sem al­gjöra lífs­björg. Ég finn líka að fólk sem vill fá fyr­ir­bæn kem­ur oft úr þessu um­hverfi og það er svo fal­legt,“ seg­ir Sigrún að lok­um.


Hver er munurinn á því að neyta fíkni­efna í jakka­fötum eða í neyðar­skýli

Bryndís Rós Morrison og Björk Davíðsdóttir skrifa

Umræðunni um einstaklinga sem glíma við fíknisjúkdóma hættir til að verða afar neikvæð gagnvart þeim sem um ræðir. Fyrst og fremst eru þetta einstaklingar sem eiga jafnan tilverurétt í samfélaginu líkt og aðrir. Það er samfélagslegt álitamál að einstaklingur megi ekki neyta vímuefna nema innan ákveðins ramma sem samþykktur er af samfélaginu. Einstaklingurinn sem samfélagið vill ekki hafa í garðinum hjá sér, er jafnan kallaður „þetta“. Sá aðili á ástvini, fjölskyldu, jafnvel börn og hefur jafnvel stundað nám og átt áhugamál.

Ýmissa hluta vegna þróar sá aðili með sér mjög alvarlegan fíknsjúkdóm og fjölskyldan situr eftir í heljargreipum því það er litla hjálpa að fá, bæði eru langir biðlistar og lítið af úrræðum til ásamt útbreiddri fáfræði og fordómum. Til að koma með dæmi til samanburðar, væri hægt að líkja þessum þunga vanda sem að fíknisjúkdómurinn er, við einstakling sem greinst hefur með krabbamein á lokastigi. Krabbameinið er sjáanlegt á mynd, þar af leiðandi er hægt að fá meðferð við því eins fljótt og það greinist. Einstaklingur með krabbamein fær lyfjameðferð á spítala og stuðning frá fjölskyldu og vinum, jafnvel söfnunum á Facebook. Það er samfélagslega samþykktur sjúkdómur. Hvað ef það væri hægt að taka mynd af fíknisjúkdómi? Myndu sömu mannréttindi gilda fyrir þann einstakling?

Hér í Hafnarfirði er haldið á lofti umræðu um sterkari fjárhagsstöðu í bæjarfélaginu og meiri uppbyggingu, inni í þessari uppbyggingu ætti þá að vera gert ráð fyrir hópum sem tilheyra öllum stéttum samfélagsins. Í sömu umræðu er talað um að Hafnarfjörður sé bær fólksins. Hins vegar er staðreyndin sú að biðin eftir félagslegum úrræðum lengist, ásamt því að samstarf við Laufey, nærþjónusta fíknimeðferðar sem þjónustar fólk sem glímir við bæði alvarlegan fíkni- og geðvanda er ábótavant. Reykjavíkurborg er bæði með VoR Teymi og Housing First, ásamt því að vera með öruggt skjól fyrir konur og karla sem eiga engin hús að vernda - Konukot og Gistiskýlin. Hvar er gert ráð fyrir þessum úrræðum hjá Hafnarfjarðarbæ?

Í lokaverkefni sem skrifað var af tveim nemendum við Háskóla Íslands um Neyslurými, af hverju og hvernig? kemur fram að mannréttindi eru ekki forréttindi og einstaklingar sem nota vímuefni hafa hvorki fyrirgert mannréttindum sínum né þeim rétti að lifa við bestu mögulegu heilsu miðað við aðstæður. Það eru ekki forréttindi að vera til, fá húsnæði og mat, það eru mannréttindi. Fólk með fíknisjúkdóm virðist þurfa að berjast fyrir því að vera til dag frá degi. Einstaklingar með fíknisjúkdóma eru oft með andlegt mein sem þeir deyfa með vímugjöfum. Ætlum við sem samfélag að neita þeim um lágmarks sjúkraþjónustu, húsaskjól og hlýju? Myndir þú sem einstaklingur neita krabbameinssjúklingi um sömu þjónustu og útskúfa hann algjörlega úr venjulegu samfélagi líkt og ef um einstakling með fíknisjúkdóm væri að ræða?

Þegar litið er yfir kosningaloforð flokka í Hafnarfjarðarbæ, þá er sorglegt að sjá að málefni jaðarsetts fólks eru ekki ofarlega á baugi. Einstaklingurinn skiptir okkur Vinstri Græn máli. Við viljum ganga lengra í félags- og velferðarmálum og sýna fram á það að þó svo andleg veikindi hrjái einstakling að þá getum við sem samfélag hjálpað honum að standa aftur upp.

Bryndís Rós Morrison er í stjórn SÁÁ og skipar 5.sæti á lista VG Hafnarfirði og Björk Davíðsdóttir er fangavörður og skipar 12.sæti á lista VG í Hafnarfirði.


Fundur félags- og vinnumarkaðsráðherra

Þráinn Farestveit framkvæmdastjóri Verndar fór á fund félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Á fundinum var farið yfir ýmis málefni Verndar og ráðherra kynnt stefna félagasamtakanna, saga og framtíðarsýn. Einnig var rædd sú breyting sem gerð var árið 2013 þar sem félagasamtökum var gert að leita eftir stuðningi til ráðuneyta í stað fjárlaganefndar eins og hafði verið í langan tíma. Einnig var farið yfir rekstrarfyrirkomulag Verndar og framtíðarhorfur.  Þá voru réttindi dómþola rædd og þar á meðal réttindi þeirra til atvinnuleysisbóta og greiðslur þeirra í atvinnutryggingarsjóð. Vernd hefur nú starfað í rúmlega 60 ár þar sem vegalausum og húsnæðislausum hefur verið veittur stuðningur. Allar götur frá stofnun samtakanna hefur hugmyndafræði Verndar verið sú að samtökin skyldu aðstoða hvern þann, sem tæki út refsingu eftir dómi. Honum skyldi hjálpað yfir fyrstu hindranir svo hann gæti aftur áunnið traust samfélagsins. Þá skyldi reynt að útvega honum húsnæði og vinnu og hvetja til sjálfshjálpar. Farið var yfir mikilvægi starfseminnar, forvarnagildi og mikilvægi þess að einstaklingar sem hljóta óskilorðsbundna dóma njóti samfellu í úttekt dóma. Það hljóti alltaf að vera vilji samfélagsins að árangur sé sýnilegur af starfsemi sem þessari og einstaklingurinn komi endurhæfður út í samfélagið eftir slíka vistun. Þá hafa samtökin verið fljót til að tileinka sér ný viðmið og stuðlað að nýjum hugtökum sem koma skjólstæðingum samtakanna vel. Við þökkum ráðherra fyrir að gefa sér tíma til að fara yfir málin með samtökunum og gagnlegt samtal um starfsemi Verndar og mikilvægi fullnustunnar utan fangelsa. Það er mikilvægt fyrir samtökin að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi á meðan heimsókninni stóð.


Heimsókn í Batahús

Framkvæmdastjóri Verndar Þráinn Farestveit ásamt einum stjórnarmanni samtakanna Guðrúnu Þorgerði Ágústsdóttir höfðu mælt sér mót við forstöðumann Batahúss Agnar Bragason og Jón Ólafsson. Áfangaheimilið stendur við Ránargötu 11 en forstöðumaður heimilisins segir að markmiðið sé að hjálpa fyrrverandi dómþolum að aðlagast samfélaginu á ný og koma í veg fyrir endurtekin afbrot. Búsetu í Batahúsi er ætlað að hjálpa þeim þar búa að afla sér fræðslu/menntunar til að auðvelda þeim aftur innkomu á vinnumarkað. Átta herbergi og stúdíóíbúð í og við Batahús eru mjög snyrtileg og mikill áhugi fyrir velferð og stöðu þeirra sem þar búa. Agnar forstöðumaður Batahússins segir að tilgangurinn sé að bjóða fyrrverandi dómþolum upp á húsaskjól og stuðning. Þar verður þeim einnig boðið upp á aðstoð til að vinna gegn fíknivanda og endurteknum afbrotum. Einnig er þar í boði hugleiðsla, bataganga, núvitund og „svett“ sem eru nokkur af þeim lykil atriðum sem nefnd voru í þessu létta spjalli sem við áttum við þá félaga. Batahús er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða eftir atvikum til skemmri tíma segir Agnar. Unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun. Eitt af megin markmiðum Batahúss er að skapa aðstæður þannig að einstaklingur geti beint sjónum sínum frá neyslu og afbrotum að sjálfsstyrkingu, vinnu, námi og samfélagslegri virkni. Aðstæður eru skapaðar með virðingu og kærleika að leiðarljósi. Félagið Bati sem stendur að baki Batahúss eru frjáls félagasamtök. Stofnun Batahússins byggir á skýrslu sem starfshópur á vegum félagsmálaráðherra skilaði árið 2019. Þar var talin þörf á frekari úrræðum fyrir dómþola eftir að afplánun lýkur. Agnar segir að með Batahúsinu sé fyrst og fremst verið að skapa jarðveg sem notendur verða sjálfir að rækta. Vernd fangahjálp og Batahús ræddu um mikilvægi þess að samþætting ólíkra kerfa væri komið á í ljósi reynslunnar og nauðsynlegt væri að fá alla að sama borði til þess að skapa grunn að frekari endurhæfingu dómþola. Þess ber að geta að eitt af áfangaheimilum Verndar var um árabil rekið að Ránargötu 10 sem er húsið sem stendur beint á móti Batahúsi.


Vopnaburður stóraukist meðal fanga

 

Of­beldi og vopna­b­urður meðal fanga hef­ur auk­ist mjög inn­an veggja fang­elsa lands­ins síðastliðin ár. Hafa bæði fang­ar og fanga­verðir orðið fyr­ir al­var­legu heilsutjóni. Uppi er há­vær krafa um auk­inn varn­ar­búnað meðal fanga­varða, högg- og hnífa­vesti, auk þess sem rætt hef­ur verið um aðgengi að raf­byss­um, svo­kölluðum Ta

Páll Win­kel fang­els­is­mála­stjóri seg­ir nýj­an veru­leika tek­inn við, vopn finn­ist nú reglu­lega í klef­um og sam­eig­in­leg­um rým­um fang­elsa.

„Fyr­ir nokkr­um árum var þetta nán­ast óþekkt. Mér ber fyrst og fremst skylda til að gæta ör­ygg­is míns starfs­fólks. Við höf­um mjög tak­markaðan áhuga á að vopn­ast í fang­els­un­um en þurf­um aug­ljós­lega að end­ur­skoða verklag okk­ar. Og hugs­an­lega þurf­um við að breyta regl­um hvað viðkem­ur um­gengni við til­tekna hópa, það er að segja þá sem eru að búa til heima­gerð vopn og bera á sér,“ seg­ir hann og bend­ir á að vopn­in séu oft búin til úr plexí­glers­brot­um, sag­ar­blöðum, skrúf­járn­um, skrúf­um og nögl­um. Í raun megi segja að allt sé notað, kom­ist fang­ar í íhluti.

 

„Þetta eru oft­ar en ekki vopn sem hægt er að bana mönn­um með, hið minnsta valda al­var­legu lík­ams­tjóni,“ seg­ir Páll og bend­ir á að sein­ast hafi verið ráðist á fanga­vörð fyr­ir um mánuði og átti sú árás sér stað á Litla-Hrauni. Vopn­um hef­ur þó til þessa enn ekki verið beitt gegn fanga­vörðum.

Páll seg­ir nú til skoðunar að fanga­verðir klæðist högg- og hnífa­vesti við al­menn störf. Er um að ræða varn­ar­búnað áþekk­an þeim sem lög­reglu­menn klæðast. „En þetta kall­ar á fjár­magn eins og allt annað,“ bæt­ir hann við.

Ung­ir of­beld­is­menn

Morg­un­blaðið sótti fang­elsið á Hólms­heiði heim sl. þriðju­dag í þeim til­gangi að kynna sér starfs­um­hverfi fanga­varða.

Hall­dór Val­ur Páls­son for­stöðumaður fang­els­is­ins seg­ir kyn­slóðaskipti nú eiga sér stað meðal af­brota­manna. Ung­ir ís­lensk­ir karl­menn, fædd­ir um og eft­ir árið 2000, hiki ekki við að beita grófu lík­am­legu of­beldi og grípi þá ósjald­an til vopna. „Það er meira norm í dag að bera vopn en áður. Þess­ir menn telja einnig mik­il­vægt að láta aðra vita að þeir séu alla jafna með vopn á sér.“

Þá var hóp­ur fanga staðinn að því að und­ir­búa árás á fanga­vörð með því að ætla að skvetta á hann heitri olíu í sam­eig­in­legu rými.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/11/24/vopnaburdur_storaukist_medal_fanga/