Fangelsisminjasafn

Mjög víða í útlöndum er að finna söfn sem geyma sögu fangelsa. Stundum eru þessi söfn í gömlum fangelsum og geta þá safngestir farið um og skoðað hvernig aðbúnaði fanga var háttað. Að sjálfsögðu er að finna í þessum fangelsisminjasöfnum flest sem tilheyrði hversdagslegu lífi í fangelsum, tæki og tól, amboð og áhöld. Líka hvers kyns pyntingatól sem notuð voru fyrr á tímum enda þótt tilhneiging hafi verið til að farga þeim svo sagan yrði fegurri. Þessi söfn hafa þó nokkurt aðdráttarafl eins og Clink-fangelsissafnið í London. Í Danmörku var hluta af hinu kunna Horsensfangelsi breytt í fangelsisminjasafn sem er mjög nútímalegt. Af öðrum toga en þó mjög skyldum er í borginni Lviv í Úkraínu fangelsisminjasafn sem segir sögu fólks sem ógnarstjórnir nasista og kommúnista fangelsuðu og snertu greinarhöfund djúpt er hann skoðaði það fyrir fáeinum árum. 

Markmiðið með söfnum af þessu tagi er að varðveita og segja sögu fangelsa; vekja athygli á sögu fólksins sem var frelsissvipt og mannréttindum þess. 


Sú saga getur verið skelfileg í vissum tilvikum og átakafull enda þótt hún hafi oftast gengið árekstralítið fyrir sig. Saga sem geymir oft hvort tveggja í senn réttlæti og óréttlæti. Stundum hefur verið sagt að menn eigi að spyrja um aðbúnað fanga í löndum sem þeir heimsækja því hann segi töluvert um afstöðu viðkomandi þjóðar til manngildis og mannréttinda.

Nú er tækifæri til að sporna gegn því að saga fangelsa á Íslandi glatist, saga þess lífs sem lifað hefur verið innan þeirra. 

Fyrir dyrum standa ýmsar breytingar í fangelsismálum hér á landi. Nýbúið er að loka Kópavogsfangelsinu – Kvennafangelsinu –  þar sem konur voru m.a. hýstar. Þá stendur  til að loka Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þegar Hólmsheiðarfangelsið verður tekið í notkun.

Í báðum þessum fangahúsum er margt sem heima ætti á fangelsisminjasafni ef til væri. Það er mjög mikilvægt að ýmsir munir úr þessum húsum lendi ekki í glatkistunni eða verði hugsanlega seldir. Augljóst er að Hegningarhúsið frá árinu 1873 hlýtur að geyma fjölda muna sem ættu heima á fangelsisminjasafni en safnasérfræðingar verða að vega það og meta.

Ýmsir munir úr sögu fangelsa hafa farið forgörðum vegna þess að menn hafa verið sofandi á verðinum gagnvart sumum menningarverðmætum og talið þau vera eins og hvert annað rusl sem fleygja ætti - enda úr fangelsi. Það er til dæmis merkilegt að engir rimlar af Litla-Hrauni skuli hafa varðveist. Fyrr á árum var það hús girt þungum rimlum svo ekki fór fram hjá neinum að þar var fangelsi. Þær voru ekki ófáar hellurnar sem steyptar voru á Litla-Hrauni á sínum tíma. Hvað er til af þeim tækjum sem notuð voru við steypuvinnuna? Um Síðumúlafangelsið í Reykjavík verður sennilega því miður að segja að flest sem þar var innanstokks og átti heima á safni er týnt og brotið. Og hvað með sögu fangavarða – hver ætli sé til dæmis elsta fangavarðahúfa sem til er? Nú og saga fanganna – hverjir voru þeir? Hvernig tók samfélagið á brotum þeirra?

Víst er að aðbúnaður fanga á Íslandi hefur verið með ýmsu móti og um það má lesa víða. Gagnmerk og stórfróðleg bók um þau mál þó gömul sé er doktorsritgerð Björns Þórðarsonar: Refsivist á Íslandi 1761-1925, sem út kom 1926. Þar má m.a. lesa um aðbúnað fanga í Múrnum og Hegningarhúsinu á sínum tíma. Á umliðnum áratugum hafa fjölmiðlar fjallað um aðbúnað fanga, bæði það sem vel er gert og sömuleiðis það sem betur mætti fara. Allt eru þetta á vissan hátt heimildir um líf innan fangelsa og með mörgum þessara greina fylgdu myndir sem hafa mikið heimildagildi. Í því sambandi mætti spyrja hver sé elsta ljósmyndin sem tekin var innan dyra á Litla-Hrauni af föngum? Var það árið 1941 í tengslum við dreifibréfamálið svokallaða? Eða fyrr? Hefur einhver slíkar gamlar myndir í fórum sínum? Þær eru örugglega til en eru fáar því bannað hefur verið að taka myndir af föngum. Engu að síður eru þær heimild þegar þær sýna fanga t.d. við vinnu eða í fótbolta. 

Nú ætti að hefjast handa sem fyrst við að undirbúa stofnun fangelsisminjasafns sem varðveitti þennan menningarþátt í sögu þjóðarinnar. Kannski væri heppilegasti staðurinn Eyrarbakki en árið 1929 var vinnuhælið að Litla-Hrauni tekið þar í notkun, og varð síðar fangelsi. Eyrarbakki er staður sem geymir mikla sögu og þar má finna margvísleg söfn. Fyrir nokkru var kynnt að til stæði að koma upp á Bakkanum Prentsögusetri. Á Eyrarbakka eru þessi söfn fyrir: Byggðasafn Árnesinga, Sjónminjasafnið og Konubókasafn. Á Selfossi og Stokkeyri er svo að finna merk söfn eins Fischersetrið og Rjómabúið á Baugsstöðum.

Rekstarform á slíku safni getur verið með margvíslegum hætti. Það gæti verið sjálfseignastofnun, samvinnurekstur sveitarstjórnar og ríkis, eða rekið af einkaaðilum.

Innanríkisráðuneytið ætti að hafa frumkvæði að þessu í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og kalla til skrafs og ráðagerða fólk með rekstrar- og safnamenntun, fulltrúa fangelsismálayfirvalda, áhugafólk um málið og sveitastjórnarfólk í Árborg. Því fyrr því betra.

Sr. Hreinn Hákonarsson