Félagasamtökin Vernd – fangahjálp -  voru  stofnuð 19. október 1959 en starfsemi þeirra hófst hinn 1. febrúar 1960.
Forgöngu um stofnun félagastamtakanna Verndar hafði Kvenréttindafélag Íslands. Þóra Einarsdóttir, síðar formaður Verndar um tveggja áratuga skeið flutti erindi um aðstoð við afbrotafólk á fundi Kvenréttindafélagsins þann 28. maí árið 1958. Þær Þóra Einarsdóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður, lögðu fram eftirfarandi tillögu á fundinum sem samþykkt var eftir nokkra umræðu: „Fundurinn ályktar, að tímabært sé, að hefja undirbúning að samtökum er vinna að umsjá og eftirliti með afbrotafólki. Samtökin vinni að því m.a. að komið verði upp dvalar- og vinnuheimilum og stuðli á annan hátt að því að gera fólk, sem lent hefur á glapstigum að nýtum þjóðfélagsþegnum.“ Kosin var undirbúningsnefnd og hlaut félag þetta síðar nafnið Vernd. Kvenfélög vítt og breitt um landið lögðu Vernd lið strax frá upphafi. Sömuleiðis flest öll sveitarfélög og hið opinbera.

Vernd sett sér strax það markmið að leitast við, í samráði við opinber stjórnvöld, stofnanir og einstaklinga, að hjálpa fólki, sem gerst hefði brotlegt við refsilöggjöf landsins. Tilgangur félagasamtakanna Verndar var að taka að sér eftirlit með fólki sem hlotið hefur dóm, skilorðsbundinn dóm og með þeim, sem frestað hefur verið ákæru á.

 

Strax á fyrsta ári hélt Vernd jólafagnað á aðfangadagskvöld fyrir heimilislaust fólk. Það starf hefur verið óslitið frá upphafi og verið hin síðari ári í samvinnu við Hjálpræðisherinn.

Félagasamtökin hafa rekið vistheimili fyrir skjólstæðinga sína allt frá því að þau tóku til starfa. Fyrsta heimilið var á Stýrimannastíg 9 í Reykjavík. Nú reka samtökin áfangaheimili í húsi sínu að Laugateig 19 og hefur rekstur þess gengið vel. Traust samvinna er milli Verndar og Fangelsismálastofnunar ríkisins um alla tilhögun á rekstri heimilisins. Fangar geta sótt um að ljúka afplánun á áfangaheimili Verndar samkvæmt samkomulagi við Fangelsismálastofnun frá 1994. Skilyrði eru þau meðal annars að þeir stundi vinnu eða nám og  séu algjörlega reglusamir. Síðastliðin 15 ára hafa á níunda hundrað fanga lokið vist á áfangaheimilinu og hafa 86% þeirra staðist sett skilyrði. Í nýlegri skýrslu ríkisendurskoðunar um skipulag og úrræði í fangelsismálum er bent á að tæplega helmingur allra fanga ljúki afplánun á heimili Verndar og hafi það „reynst þeim vel við að aðlagast samfélaginu aftur að lokinni fangelsisvist.“ (bls. 7) <?xml:namespace prefix = o ns = "urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

Núverandi formaður Verndar er sr. Hreinn S. Hákonarson, fangaprestur þjóðkirkjunnar. Aðrir í stjórn eru:  Sigríður Heiðberg, forstöðumaður, varaformaður, Elsa Dóra Grétarsdóttir, deildarstjóri, ritari, Jón Páll Hallgrímsson, ráðgjafi, Ásgeir Guðmundsson, löndunarstjóri, Danfríður K. Skarphéðinsdóttir, deildarstjóri, og Ólafur Þröstur Sveinbjörnsson, kerfisfræðingur

Framkvæmdastjóri Verndar er Þráinn Bj. Farestveit.