Athugasemdir Fangelsismálastofnunar

Athugasemdir Fangelsismálastofnunar við framkomna tillögu starfsmanna Fangelsisins Litla-Hrauni um breytingar á áður samþykktum tillögum stofnunarinnar um uppbyggingu fangelsa

Við opnun Kvíabryggju þann 3. október síðastliðinn gat dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, þess að þar með lyki fyrsta áfanga dómsmálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar um endurnýjun og nýbyggingar fangelsa í landinu. Annar áfangi væri að endurbyggja fangelsið á Akureyri en framkvæmdum þar lýkur um áramótin. Þriðji áfangi fælist í verulegum endurbótum á Litla-Hrauni svo sem með því að reisa aðkomu- og heimsóknarhús, deild fyrir konur, sérdeild fyrir fanga sem geta búið við opnari aðstæður auk annarra endurbóta. Í fjórða lagi ætti að reisa nýtt fangelsi með 64 klefum á höfuðborgarsvæðinu.

 

Í ræðu ráðherra kom fram að ríkisstjórnin hefði deginum áður staðfest að áfram yrði unnið að uppbyggingu fangelsa í landinu í samræmi við áætlun.

Um síðustu áramót kannaði Fangelsismálastofnun möguleika á að byggja gæsluvarðhaldsfangelsi í tengslum við nýja lögreglustöð og flytja aðra starfsemi fyrirhugaðs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu í Fangelsið Litla-Hrauni sem yrði endurbyggt með það í huga. Skilaði stofnunin skýrslu, dagsettri 11. janúar 2007 (netútgáfa). Í niðurstöðu skýrslunnar er talið að slík ráðstöfun væri í fyrsta lagi faglega óraunhæf nema að byggja Fangelsið Litla-Hrauni upp frá grunni. Þá voru rakin önnur fagleg sjónarmið sem mæltu gegn þessu.

Samkvæmt ítarlegri þarfagreiningu fyrir fangelsið Hólmsheiði frá ágúst 2007 er þar gert ráð fyrir 64 fangaplássum. Skiptingin er þannig:

   
Móttökudeild                          

 12 klefar

Almenn deild

 14 klefar

Almenn deild - kvenfangar

 4 klefar

Meðferðardeild

14 klefar

Sjúkradeild

6 klefar

Gæsluvarðhaldsdeild

14 klefar


Starfsmenn á Litla-Hrauni hafa nú sent frá sér áskorun “um að uppbygging í fangelsismálum á Íslandi verði enn meiri á Litla-Hrauni en áætlanir gera ráð fyrir”. Í  áskoruninni er ekki vikið að neinum þeim sjónarmiðum er fram koma í skýrslu stofnunarinnar frá 11. janúar 2007. Það er miður því óæskilegt er að ræða slík mál aðeins út frá  byggðasjónarmiðum en ekki út frá faglegum sjónarmiðum um afplánun fanga og með hagsmuni fanga og aðstandenda þeirra í huga.

En lítum nánar á hugmyndir starfsfólks á Litla-Hrauni út frá áformum um nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu.

Afar sterk rök mæla með því að gæsluvarðhaldsdeild verði á höfuðborgarsvæðinu enda er beinlínis gerð krafa um það frá eftirlitsnefnd Evrópuráðsins, CPT-nefndinni. Þá er erfitt að ganga gegn rökum stofnunarinnar um að mótttökudeild þurfi að vera í fangelsi á höfuðborgarsvæðinu enda eru nánast allir fangar sem hefja afplánun búsettir á svæðinu.  Þessu virðist talsmaður starfsmanna Litla-Hrauns, Ari Thorarensen, í raun vera sammála þar sem hann hefur, í fjölmiðlum, sagt að aðeins sé talin þörf á gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi á höfuðborgarsvæðinu en að önnur starfsemi fyrirhugaðs fangelsis gæti flust austur.  

Þar með verður að reisa fangelsi með a.m.k. 26 klefum. Í þarfagreiningu fyrir Fangelsið Hólmsheiði er gerð grein fyrir breytingum á fyrri hugmyndum þar sem nú er gert ráð fyrir kvennadeild með 4 klefum. Vandséð er hvernig hægt væri að ganga gegn þeim rökum sem þar koma fram um að þörf sé á slíkri deild á höfuðborgarsvæðinu. Með þeirri viðbót yrði fangelsið að vera a.m.k. 30 klefar.  Fangelsismálastofnun vísar til raka sem fram koma í áðurnefndri skýrslu um þörf á almennri deild á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur m.a. fram að 45% fanga síðastliðin 6 ár afplánuðu að meðaltali 15-45 daga og að óheppilegt sé að flytja þá skammtímafanga austur. Ef þessi deild yrði tekin með yrði heildarfjöldi fangaklefa á höfuðborgarsvæðinu kominn upp í 44. Rök fyrir þörf á meðferðar- og sjúkradeild er einnig tíunduð í áðurnefndri skýrslu.

Niðurstaða Fangelsismálastofnunar er því óbreytt eða sú sama og fram kemur í skýrslunni frá 11. janúar 2007 um að fagleg sjónarmið mæla gegn framkominni tillögu starfsmanna Litla-Hrauns. Sú fullyrðing talsmanns starfsmanna Litla-Hrauns um að þeirra tillaga leiddi til allt að eins milljarðs króna sparnaðar er órökstudd og að mati Fangelsismálastofnunar út í hött.