Fangelsið Kvíabryggja

Fangelsið Kvíabryggja, 350 Grundarfirði

Sími: 438-6827 / Fax: 438-6992

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 
Frá árinu 1954 voru vistaðir á Kvíabryggju menn, sem ekki greiddu meðlagsskuldir eða barnalífeyri. Árið 1963 voru fyrstu refsifangarnir sendir þangað til afplánunar. Fyrst í stað voru þeir vistaðir með meðlagsföngunum en þeim síðarnefndu fækkaði í áranna rás. Aðalfangelsisbyggingin var tekin í notkun 1963, síðan hefur verið byggt við hana. Auk 14 fangaklefa eru þar viðtalsherbergi, góð setustofa, eldhús og borðstofa, bókasafn, góður æfingasalur og billiardaðstaða í kjallara. Fangelsið er staðsett á jörðinni Kvíabryggju, sem er um 35 hektarar að stærð. Segja má að fangelsið sé opið að því leyti að þar eru hvorki rimlar fyrir gluggum né heldur er svæðið öðru vísi afgirt en venjuleg sveitabýli. Einkum er því reynt að vista þar menn, sem hafa lítinn sakaferil eða þá að ætla má að þeim sé treystandi til þess að afplána við slikar aðstæður. Skilyrði er að fangar sem vistast á Kvíabryggju séu vel vinnufærir og duglegir til verka.

Starfsmenn: Við Fangelsið Kvíabryggju starfa samtals 8 starfsmenn. Það eru auk forstöðumanns, Geirmundar Vilhjálmssonar, 4 fangaverðir, sem ganga vaktir, 1 fangavörður við verkstjórn og 2 matráðar í eldhúsi.

Vinna fanga: Vinnuskálar eru á staðnum og vinna fangar þar ýmis störf sem flest tengjast sjó svo sem að beita línu, fella net og gera við fiskikör. Ógæftir, aflaleysi og kvótaskortur hafa því veruleg áhrif á hversu mikil vinna er í boði á hverjum tíma. Nokkur vinna er við brettasmíði svo og þrif og viðhald húsa og jarðar.

Samkvæmt reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005 skal Fangelsismálastofnun setja gjaldskrá um þóknun fyrir vinnu og nám, upphæð dagpeninga fanga og greiðslufyrirkomulag. Þóknun fyrir hverja klukkustund fer eftir eðli starfs. Fangi í námi skal fá þóknun fyrir hverja kennslustund, en þó ekki fyrir fleiri kennslustundir en fimm á dag. Þóknun og dagpeningar skulu greiddir eftir á og að lágmarki á tveggja vikna fresti. Gjaldskráin skal endurskoðuð árlega.

Símatímar: Kortasími er fyrir fanga í fangelsinu og hafa þeir nokkuð frjálsan aðgang til úthringinga.  Innhringingum til fanga er svarað á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum frá 19:00-21:00. Þá getur fangi notað síma til að ná í opinbera aðila í samræmi við 36. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 sbr. reglugerð um fullnustu refsinga nr. 961/2005.

Heimsóknir:  Heimsóknir nánustu vandamanna eru leyfðar einu sinni í viku.  Fangi getur sótt um heimsóknarleyfi fyrir aðra aðila en nánustu vandamenn á þar til gerðu eyðublaði í fangelsinu.  Eru leyfin háð samþykki yfirmanna fangelsisins. 

Útivera og tómstundir: Samkvæmt 39. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 á fangi rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi. Föngum er leyfilegt að nýta frítíma sinn til útivistar meðan bjart er sumar sem vetur og fara um svæði jarðarinnar.  Þeir hafa m.a. komið sér þar upp litlum golfvelli.