Menningarstefna í fangelsum

Menning er af ýmsum toga og alls ekki einsleit. Þar kennir margra grasa og það sem einn sér sem illgresi og kallar jafnvel ómenningu getur annar séð sem fagra jurt og sett á stall hámenningar. Menning er nefnilega afstætt fyrirbæri í mannlífinu. Og manneskjur hafa ríka tilhneigingu til að flokka eitt og annað til þess meðal annars að marka sjálfum sér sess í tilverunni.

Kannski er menning ekki það fyrsta sem mönnum dettur í hug þegar þeir leiða hugann að fangelsi. Í það minnsta ekki sú menning sem alla jafna telst vera göfgandi og uppbyggileg og er eftirsóknarverð í sjálfu sér. Eitthvað sem enginn vill láta fram hjá sér fara jafnvel þótt það kosti eitthvert fé og telur sálarbætandi að njóta. Ýmist einn með sjálfum sér eða með öðrum. Menning hversdagslegs fólks.Allt atferli mannskepnunnar elur af sér menningu og mótar hana. Hvort heldur það nú er verklegt starf eða andleg iðja. Ekki skiptir máli hvort það er stöðumælavörðurinn, menntamaðurinn, fanginn eða bóndakonan sem á í hlut. Öll skilja þau eftir sig fótspor og hafa einhverja sögu að segja sem er hluti menningar. Þau spor geta verið djúp og farsæl, fyllt kærleika og elsku; grunn og hikandi, sár og meiðandi. Sum hver tekin óafvitandi. Allt fótspor fólks í undarlegum heimi.Menning felst í samskiptum við annað fólk og tengslum við umhverfi og náttúru.

Frásögn er með elstu menningarlegu fyrirbærum mannkynsins. Að segja frá því sem á dagana hefur drifið – og það sem hæst hefur borið í lífi hvers og eins. Það er frásögn einstaklingsins, upplifun hans; sumt af því eru hreinar og beinar staðreyndir, annað staðreyndir í listrænum búningi, ofnar inn í skynjun og tilfinningar. Enn annað er uppspuni og hitt ímyndun. Allt fléttast saman í frásögn sem er hluti af sjálfi einstaklingsins. Hver manneskja ber í sér ákveðna menningu eða spor menningar af ýmsu tagi. Margir fangar segja til dæmis sögu með húðflúri sínu – örfáir hlutar hennar og oft þeir dýrmætustu eru skráðir á líkamann því fanginn vill geyma hana. Hann veit að engin yfirvöld taka líkamann af honum þó að þau geti svipt hann ýmsu öðru af gefnum tilefnum.

Stundum þarf að styðja við bakið á menningunni og sérstaklega á þeim stöðum þar sem fólk dvelst tímabundið af ýmsum ástæðum hvort heldur í fangelsi eða sjúkrahúsi. Margir listamenn hafa til dæmis gengið þar fram fyrir skjöldu og leikið og sungið fyrir fanga við ýmis tímamót. Það er ávallt þakkarefni og fangar taka slíkum menningarheimsóknum vel. Hins vegar þyrfti slík menningarstarfsemi að vera markvissari og bundin í dagskrá fangelsa. Hvað um að standa fyrir einum menningarviðburði í mánuði? Tónlist, myndlist eða ritlist. Það er til dæmis undravert að listaverk skuli ekki hanga uppi í öllum fangelsisdeildum og höggmyndir prýða fangelsisgarða. Í mörgum stofnunum ríkisins eru málverk á veggjum sem ríkið á og lánar eða leigir stofnunum til að prýða þær og vekja upp menningarlegar tilfinn­ingar og umræður. Og ríkið á urmul af listaverkum sem geymd eru hér og þar. Það er sérstaklega ánægjulegt að listaverk skuli vera að finna í Hólmsheiðarfangelsinu en þar hafa nokkur flugmynstur fugla verið fræst í veggi. Stundum eru ágætir listmálarar í hópi fanga og þeir hafa oft lánað verk sín til að lífga upp á fangahúsin.

Menning bætir nefnilega manneskjuna, vekur með henni vellíðan og getur kallað fram allt það besta sem hver og einn geymir í sálarhirslum sínum.

Oft er talað um að afkimamenning (e. subculture) fylgi fangelsunum og rauði þráðurinn í henni sé á köflum býsna andfélagslegur. Sá jarðvegur sem margir fangar koma upp úr er oft með öðrum hætti en hinna sem fyrir utan standa. Sameiginleg lífsreynsla þjappar í mörgum tilvikum mönnum saman eins og brokkgeng skólaganga og kynni af sérfræðingum kerfisins frá því þeir gengu inn í leikskólann og gáfu kannski síðan grunnskólanum langt nef – og margir þeirra koma úr sama borgarhverfi. Þeir kannast hver við annan áður en þeir sjást bak við lás og slá! Margvísleg menningarleg starfsemi hefur ekki staðið þeim til boða í svipuðum mæli og margra jafnaldra þeirra vegna misjafns uppeldis eða fátæktar. Öflug menningar­kynning og menningarþátttaka þessa hóps innan fangelsis getur verið einn af hornsteinum menntunar þeirra og breytt ýmsu í lífi þeirra. Þess vegna þurfa fangelsi að móta sér menn­ingarstefnu.

Hreinn S. Hákonarson,

fangaprestur þjóðkirkjunnar og ritstjóri Verndarblaðsins