Rauði krossinn og Fangelsismálastofnun undirrituðu samstarfssamning á dögunum vegna nýs tilraunaverkefnis til þriggja ára fyrir fólk eftir afplánun refsivistar í fangelsum. Undirbúningur hefst strax í janúar 2018 og standa vonir til að verkefnið geti farið af stað seinni hluta árs. Rauði krossinn í Kópavogi mun sjá um undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Verkefnið er að norskri fyrirmynd, en norski Rauði krossinn hefur starfrækt álíka verkefni í áratug. Um félagsvinaverkefni er að ræða, þar sem sjálfboðaliðar aðstoða þátttakendur í allt að 12 mánuði eftir að afplánun lýkur. Aðstoðin felst í ýmsu er snýr að daglegu lífi enda margt sem þarf að huga að eftir fjarveru úr samfélaginu. Hagsmunaaðilar, ekki síst fangar, munu koma að verkefninu á fyrstu stigum með það að leiðarljósi að úrræðið nýtist sem best og beri árangur.

Á myndinni má sjá Pál E. Winkel, forstjóra fangelsismálastofnunar og Kristínu S. Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi við undirritun samningins.