Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að ekki sé ástæða til að grípa til aðgerða á grundvelli samkeppnislaga vegna vinnu fanga á Litla-Hrauni við að þrífa og bóna bíla.

Fyrirtækið Valborg, sem rekur bílaþvottastöð á Selfossi, leitaði til samkeppnisyfirvalda og taldi að þótt sú starfsemi að þrífa og bóna bíla kunni að teljast til lögbundinnar starfsemi á Litla-Hrauni veiti það fangelsinu ekki sjálfkrafa heimild til að undirbjóða þá starfsemi sína í ljósi þess að það sé rekið fyrir opinbert fé.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins var m.a. vísað til þess, að umrædd starfsemi hafi verið starfrækt á Litla-Hrauni í yfir 10 ár án þess að aðilar á hinum almenna markaði hafi lagt fram kvörtun til samkeppnisyfirvalda. Líklega sé það vegna þess að starfsemi fangelsisins hafi ekki vegið þungt á umræddum samkeppnismarkaði. Þá hafi fengist þær upplýsingar hjá fangelsinu að aðeins séu þvegnir 3-4 bílar á dag.

Áfrýjunarnefndin segir m.a. að bílaþvottastarfsemin á Litla-Hrauni sé ekki umfangsmikil og hafi því tæpast mikil áhrif á hinum almenna markaði. Þá sé nokkrum erfiðleikum bundið, að hagnýta sér þjónustu fangelsisins, panta þurfi tíma fyrirfram vegna bílaþvottar og leitað sé að fíkniefnum í þeim bifreiðum sem þrifnar eru. Samkvæmt upplýsingum frá Litla-Hrauni séu flestir viðskiptavinirnir því starfsmenn fangelsisins og tengdir aðilar. Því teljist starfsemin á Litla-Hrauni tæplega vera í „frjálsri samkeppni" við aðrar stöðvar sem sjá um þrif og bón á bílum.

frétt. mbl.is