Nú eru áttatíu ár liðin frá því að vinnuhælið, síðar fangelsi, að Litla-Hrauni tók til starfa. Þann 8. mars 1929 komu fyrstu fangarnir til að taka út refsingu sína. Frá þeim tíma og allt til þessa hafa þúsundir manna farið um hlaðið á Litla-Hrauni og sumir oftar en einu sinni. Á þriðja áratug síðustu aldar var mikið ófremdarástand í fangelsismálum landsins. Hegningarhúsið, sem var eina afplánunarfangelsið, var ekki í góðu ástandi og dugði ekki lengur sem slíkt.

Margir biðu þess að taka út refsingu sína en komust ekki að því fangelsið var oftast yfirfullt. Þá sem nú vissu menn að það var íþyngjandi refsing að bíða eftir því að komast til afplánunar. Nú árið 2009 munu á annað hundrað manns bíða þess að taka út refsingu sína. Augljóst er að á þeim vanda þarf að vinna bug. Það stóð reyndar til en í kjölfar efnahagshrunsins var uppbyggingu fangelsa slegið á frest.
Ríkisstjórnin, sem tók við völdum 1927 með Jónas Jónsson frá Hriflu sem dómsmálaráðherra, sá að eitthvað varð að gera í fangelsismálunum þjóðarinnar. Margir málsmetandi menn voru á sama máli og gagnrýndu harðlega aðbúnaðinn í Hegningarhúsinu í Reykjavík. Menn stungu upp á ýmsum stöðum sem vænlegir væru fyrir vinnuhæli eins og Fossvoginum, Bústöðum og Mosfellssveit. En austur á Eyrarbakka stóð fallegt hús sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisisins, hafði teiknað. Það átti að verða sjúkrahús. Framkvæmdin reyndist hins vegar of dýr og stöðvaðist. Húsið stóð fokhelt í nokkur ár og enginn vissi hvað beið þess.Í umræðum á Alþingi 1928 um frumvarp um betrunarhús og letigarð (síðar vinnuhæli) kom fram að stjórnvöld hefðu augastað á sjúkrahúsbyggingunni fyrir austan. Ekki voru allir sammála því að sú bygging og staðsetning væri heppileg. Töldu sumir m.a. að hún væri of langt frá Reykjavík. Engu að síður fór það svo að hún var keypt undir fyrirhugað vinnuhæli.
Strax var hafist handa um endurbætur á húsinu svo það gæti hýst fanga. Níu fangaklefar voru tilbúnir þegar húsið var tekið í notkun og síðan bættust fleiri klefar við. – Nú getur fangelsið hýst 77 fanga og þar er jafnframt gæsluvarðhald fyrir níu menn.Litla-Hraun var í upphafi skilgreint sem vinnuhæli en ekki innilokunarfangelsi. Formlega varð það afplánunarfangelsi 1988. Markmiðið með vinnuhælinu var að skapa dæmdum mönnum tækifæri til að vinna ýmis nytsamleg störf í heilnæmu umhverfi og þá aðallega bústörf. Á Litla-Hrauni var rekið bú sem fangar unnu við undir stjórn verkstjóra. Um skeið var þar eitt stærsta kúabú landsins. En fangar unnu líka utan vinnuhælisins. Þeir óku þara í garða Eyrbekkinga og grófu skurði. Lögðu vegi og göngustíga, unnu að brúargerð og ýmsu öðru. Um helgar komu þeir „heim" á vinnuhælið og héldu svo aftur til vinnu á mánudegi. Síðar dró úr þessari frálegsvinnu sem svo var nefnd og var henni hætt. Þá var þar um skeið öflug hellusteypa og voru gangstéttarhellur og milliveggjaplötur steyptar. Nú er fangelsið á Litla-Hrauni fullsetið.
Margir fanganna stunda skólanám og aðrir vinnu eins og bílnúmera- og skiltagerð, bílaþrif, öskjugerð, vörubrettasmíði og dálitla járnsmíði. Síðastliðið sumar var hafist handa um margs konar gróðurvinnu og verður gróðurhús sett upp með vorinu. Smíði á leiktækjum fyrir leikvelli stendur fyrir dyrum og þar er mjór mikils vísir. Vinnutækifærum hefur því miður fækkað í fangelsinu í kjölfar efnhagshrunsins og hefur t.d. hellusteypan dregist stórlega saman. Bregðast verður við því af krafti og vonandi verður næg vinna handa öllum með hækkandi sól.  Markmiðið með fangelsisvistinni er ekki að brjóta menn niður heldur að byggja þá upp svo þeir verði hæfari þegnar í samfélaginu.
Allir þeir sem afplána á Litla-Hrauni ganga fyrr eða síðar út í samfélagið á ný. Þá er mikilvægt að tímanum í fangelsinu hafi verið varið til nytsamlegra hluta. Góður aðbúnaður í fangelsinu er mikilvægur því hann sýnir að samfélagið lætur sér annt um þennan hóp en vill að hann breyti lifnaðarháttum sínum til hins betra. Til þess þurfa margir fanganna hjálp og eitt heillaskref í þá átt var stigið með stofnun meðferðardeildar á Litla-Hrauni. Hún hefur þegar sýnt og sannað mikilvægi sitt.
Fangelsi á Íslandi hafa oft verið olnbogabörn samfélagsins. Það sést vel þegar saga fangelsanna er skoðuð. Oft hafa fögur fyrirheit verið gefin um uppbyggingu fangelsa sem ekki hefur verið fylgt eftir. Þá hefur jafnvel verið búið að eyða þó nokkrum fjármunum í margvíslegan undirbúning. En þó má ekki gleyma því sem vel hefur verið gert. Það var t.d. stórt skref þegar ný fangelsisbygging var tekin í notkun á Litla-Hrauni árið 1995. Eins má nefna nýlegar endurbætur í fangelsinu á Akureyri og á Kvíabryggju. Samfélagið má aldrei gleyma því að brotamenn verða til úti í samfélaginu sjálfu og liggja margar ástæður þar að baki. Enginn fæðist sem afbrotamaður.
Aðbúnaður í fangelsum hverju sinni endurspeglar viðhorf samfélagsins til brotamanna.  Fangelsi er staður þar sem menn vilja síst dvelja. Allir þeir sem í fangelsi eru bíða þess dags sem þeir losna. Fjölskyldur þeirra bíða líka, foreldrar, börn og makar. Það er ósk allra að þeir gangi út í samfélagið með jákvæðu hugarfari og að þar bíði þeirra mannsæmandi aðstæður og nytsamleg hlutverk sem þeir geta sinnt betur en áður. Með því eru meiri líkur til þess að þeir verði gæfumenn en ekki brotamenn. Það er allra hagur.
 
Hreinn S. Hákonarson
 fangaprestur þjóðkirkjunnar og formaður Verndar
(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2009)