ARKÍS arkitektar hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Dómnefnd kynnti þær tillögur sem bárust í samkeppnina við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Dómnefnd skipuðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður og sérfræðingur í innanríkis-ráðuneytinu, Páll E. Winkel, fangelsismálastjóri, skipaður af ráðherra, Pétur Örn Björnsson, arkitekt, skipaður af ráðherra og tilnefndur af hálfu Arkitektafélags Íslands, Gylfi Guðjónsson og Hildur Gunnarsdóttir arkitektar.  Alls bárust átján tillögur, þar af tíu erlendis frá. Fyrstu verðlaun í samkeppninni fékk tillaga frá arkitektastofunni Arkís, höfundar hennar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar. Önnur verðlaun hlaut tillaga frá Arkitektur.is og þriðju verðlaun hlaut tillaga frá Teiknistofunni Tröð ehf. Sjá nánari upplýsingar á vef innanríkisráðuneytisins.