Henríetta Ósk Gunnars­dóttir, sál­fræðingur hjá Fangelsis­mála­stofnun, segir sár­lega vanta fleiri úr­ræði fyrir fanga sem hafa setið inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum. „Þetta er eini hópurinn sem fær ekki að fara inn á á­fanga­heimili,“ segir Henríetta í hlað­­varpinu Frelsið er yndis­­legt með Guð­­mundi Inga Þór­odds­­syni, for­­maður Af­­stöðu.

Á­fanga­heimilið Vernd tekur ekki á móti föngum sem hafa brotið gegn börnum og hingað til hafa með­ferðar­stofnanir heldur ekki viljað taka á móti föngum í þessum brota­flokki. Henríetta bendir einnig á að engin eftir­fylgni sé eftir að ein­staklingarnir hafi lokið fangelsis­vist.

Frelsið er yndislegt - Henríetta Ósk Gunnarsdóttir - YouTube

„Við fylgjum þeim eftir á reynslu­lausnar tíma og svo líkur þeirra tíma hjá okkur og þá eru þeir úr okkar höndum. Það vantar eitt­hvað sem tekur við þegar fólk hefur lokið af­plánun.“ Þá sé erfiðara fyrir þennan hóp að fóta sig í sam­fé­laginu og finna vinnu og heimili að lokinni af­plánun.

Sér­gangur fyrir barna­níðinga

„Fangar sem sitja inni fyrir brot gegn börnum eru mjög jaðar­settur hópur,“ segir Henríetta. Þeir eru til að mynda vistaðir á sér­gangi á Litla Hrauni og um­gangast aðra fanga lítið.

„Þessi hópur virðist vera neðst í virðingar­stiganum þannig hann ein­angrast svo­lítið,“ út­skýrir Henríetta. Þá sé hópurinn oft út­settur fyrir á­reiti og á­rásum af hálfu annarra fanga sé þess vegna haldið að hluta til frá öðrum vist­mönnum Litla Hrauns.

Verri með­ferð

Guð­mundur telur að fangar í þessum brota­flokk fái verri með­ferð en aðrir fangar með því að vera að­skildir. Hann telur þennan hóp ekki hafa lent í fleiri á­rásum en aðra innan fangelsis­veggjanna. Henríetta segir það geta staðist en bendir á að að­skilnaðurinn hafi verið settur á með öryggi brota­mannanna í huga.

„Þeirra vegna er það já­kvætt upp á það að gera. Við sjáum það er­lendis að þar eru sér­úr­ræði fyrir þennan hóp.“ Á­hyggjur hafi einnig komið upp um að það gæti verið skað­legt að hafa menn með sömu kenndir í sama hóp. Henríetta segir þó ekkert benda til þess.

Guð­mundur veltir fyrir sér hvort það sé ekki hætta á að þessir menn myndi tengsl og hittist með slæman á­setning þegar komið er úr fangelsinu. „Það á við um alla sem eru í fangelsi. Kannski eignast þú fé­laga sem að þú heldur sam­skiptum við á­fram þar sem það eru skert tæki­færi til sam­skipta,“ mót­mælir Henríetta.

Mann­eskjur eins og aðrir

Henríetta hefur sinnt þeim föngum sem þjást af barnagirnd um ára­bil. Um það bil þrjú til fimm prósent mann­kynnisins glímir við barnagirnd að sögn Henríettu. Það er að hennar mati ekki hægt að skil­greina sem sjúk­dóm þar sem hægt er að vinna með fólki sem glímir við þessi ein­kenni.

Í með­ferðum sé mikil­vægt að mæta ein­stak­lingunum af virðingu að mati Henríettu. „Það getur verið erfitt að heyra en þetta eru mann­eskjur eins og aðrir.“ Þessu fylgi gríðar­leg skömm og því geti verið erfitt að opna sig um slíkar kenndir.

„Við viljum meina að fangelsis­vist hafi ein­hvern fælingar­mátt og við viljum ætla að þetta sé betrun og tæki­færi til að vinna með ein­stak­lingnum og grípa hann.“ Barnagirnd sé mikið tabú og því leiti fólk sér ekki að­stoðar fyrr en það er orðið of seint. „Með því að vinna með þeim í fangelsinu er hægt að reyna að koma í veg fyrir að það verði fleiri brota­þolar.“

 

Barnagirnd faldari hjá konum

Horft er til þriggja við­miða þegar ein­stak­lingur er greindur með barnagirnd. Hvort ein­stak­lingurinn upp­lifi kyn­ferðis­lega hugar­óra eða hvatir til barna, hvort hann hafi fram­fylgt þeim órum og hvort hann hafi átt við mikla streitu eða á­reiti í tengslum við þessa hugar­óra sem hafi aftrað eðli­legu fé­lags­lífi. „Svo er enginn yngri en 16 ára sem myndi fá þessa greiningu og brota­þolinn þyrfti að vera minnst fimm árum yngri.“

Mun al­gengara er að karlar sitji inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum en konur. Henríetta bendir á að telja mætti þær konur sem hafa setið inni á Ís­landi fyrir slík brot á annarri hendi.

Hún telur að á­stæða þess sé að hluta til fólgin í því að barnagirnd sé meira falin hjá konum. Það geti þó breyst á komandi árum þá gæti kven­kyns föngum í þessum mála­flokk því fjölgað.