Sigríður Svanlaug Heiðberg.
 
Sigríður Svanlaug Heiðberg, formaður Kattavinafélags Íslands og framkvæmdastjóri Kattholts, er látin, 72 ára að aldri. Hún lézt á líknardeild Landspítala Ísland, Landakoti, þriðjudaginn 22. febrúar sl. Hún lætur eftir sig eiginmann, Einar Jónsson verktaka og fósturson, Daníel Orra Einarsson nema, bróður Eyþór Heiðberg, móðursysturdóttur sína Sigríði Einarsdóttur, systkinabörn og börn þeirra.
 
Sigríður Svanlaug var fædd í Reykjavík 30. mars 1938. Foreldrar hennar voru Jón Heiðberg heildsali og frú Þórey Heiðberg Eyþórsdóttir. Sigríður gekk í Húsmæðraskólann í Reykjavík 1958 til 1959 þar sem hún bazt skólasystrum sínum í óslítandi böndum svo þær héldu saumaklúbb reglulega og ferðuðust víða um Ísland og til útlanda ásamt mökum.Hún sótti námskeið og lauk námi hjá Apótekarafélaginu 1968 sem aðstoðarmaður lyfjafræðings og starfaði hjá Stefáni Thorarensen hf. í tvo áratugi.
 
Sigríður hefur setið í stjórn Verndar síðan 1986 og verið varaformaður síðan 2001. Hún tók við formennsku Kattavinafélags Íslands 1989 með opnun Kattholts að leiðarljósi. Líknarstöðin Kattholt var opnuð júlílok 1991, er hún móttaka fyrir heimilislausa ketti og kattahótel. Kattholt hefur verið starfrækt allan tímann undir handleiðslu hennar með það meginmarkmið að stuðla að bættu og upplýstu dýrahaldi Íslendinga.

Hún var kjörin heiðursfélagi Félagasamtakanna Verndar árið 2010.

Vernd vottar aðstandendum dýpstu samúð.

 

Þráinn Farestveit