Ég er mjög ánægð með að orðið hafi verið við þeirri ósk minni að halda fund,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en allsherjarnefnd kemur saman kl. 09 til þess að ræða stöðu fangelsismála.

 
Að sögn Vigdísar Hauksdóttur á nefndin von á tæpum tug gesta, en um sé að ræða þungavigtarfólk í fangelsismálabransanum. Þeirra á meðal eru Páll Winkel fangelsismálastjóri, Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður fangelsisins Litla-Hrauns, tveir fulltrúar fangavarðafélagsins og tveir til þrír fulltrúar dómsmálaráðuneytisins.
Í samtali við mbl.is segist Vigdís hafa miklar áhyggjur af stöðunni í fangelsismálum þar sem biðlistar séu orðnir óheyrilega langir sem verði að taka á. Bendir hún á að biðtími eftir afplánun sé allt að fjögur til fimm ár. „Ég tel að það sé mannréttindabrot að fólk fái ekki að afplána sem fyrst eftir að dómur fellur."


 
Aðspurð segist Vigdís fagna því að ríkisstjórnin hafi þegar brugðist við framkominni gagnrýni og auglýst eftir húsnæði til leigu undir fangelsi tímabundið. „Þetta sýnir að það þarf ekki alltaf að karpa um hlutina til að koma málum á hreyfingu. Málið er þess eðlis að stjórn og stjórnarandstaða þurfa að taka höndum saman og leysa úr hlutunum. Og mér sýnist það vera að takast," segir Vigdís.
 
Að sögn Vigdísar mun kostnaðurinn við fjölgun fangelsisrýma vera á bilinu 120-130 milljónir króna á ári. Spurð hvort ríkið hafi efni á því segir Vigdís svo verða að vera. „Annað hvort verðum við að taka ákvörðun um að leggja hér niður réttarríkið eða halda því lifandi. Einn liður í því að viðhalda réttarríki er að hér gildi lög og reglur sem löggjafinn hefur sett og þá verður refsihliðin á brotum líka að vera virk, þ.e.a.s. ef fólk tekur upp á því að brjóta lögin. Það er grundvallaratriði í réttaríki að þeir sem eru dæmdir fái að afplána auk þess sem við verðum að vernda borgarana fyrir aðilum sem eru samfélaginu hættulegir. Annars getum við bara gleymt því að rífa hér allt upp eftir hrunið," segir Vigdís.
 
www.mbl.is